Færsluflokkur: Íþróttir

Button ekki lengur næstumþvímaður!

Einhverri lengstu eyðimerkurgöngu ökuþórs í formúlu-1 lauk í Búdapest í gær er Jenson Button hjá Honda vann þar frækinn sigur í ótrúlega sviptingasömum kappakstri þar sem gæfa ökuþóra sveiflaðist til og frá eins og pendúll.  Líklega þeim eftirminnilegasta á þessari vertíð. Nú þarf ekki lengur að efast um að hann hafi það til að bera að vinna kappakstur en þetta var 113. tilraunin hans.

Afar fátítt er að ökuþórar hjá liðum sem eru meira en miðlungs þurfi að bíða jafn lengi eftir sigri og Button. Aðeins Jarno Trulli og Rubens  Barrichello, liðsfélagi Buttons, hafa þurft að bíða lengur eftir sigri. Sigurstund Trulli kom í 117. móti og Barrichello í því 124.

Nú er spurningin hvort Button verður fyrsti Bretinn til að vinna heimsmeistaratitil ökuþóra frá því Damon Hill varð meistari 1996? Eins og Button vann Hill einmitt sinn fyrsta mótssigur í Búdapest, árið 1993. Og árið áður – 1992 – tryggði annar Breti, Nigel Mansell, sér ökuþóratitilinn þar.

Þremur árum eftir jómfrúarsigur sinn varð Hill meistari svo Button hefur fram til 2009 til að jafna afrek Hill! Eini munurinn á þessum snjöllu ökuþórum er að Hill vann sinn fyrsta mótssigur í 13. kappakstri en Button 113. [Þá tel ég ekki með mót þar sem Hill komst ekki gegnum tímatökur á  handónýtum Brabham/Judd-bíl sem hann ók á fyrsta ári sínu en þá komst hann aðeins tvisvar inn í keppnina í átta mótum].

Button vann hins vegar hundrað mótum lengur að vinna jómfrúarsigur sinn og það á sjöunda keppnisári. Alltjent er 13 þó happatala beggja, ef svo mætti segja. Og nú þarf hann ekki lengur að svara endalausum tölfræðilegum spurningum um hvort og hvenær og af hverju ekki ennþá o.s.frv.

Nú ber hann heldur ekki lengur þann kross sem blaðamenn hafa stöðugt minnt hann á; að hann væri ekki búinn að vinna sinn fyrsta sigur! Honum var hampað gífurlega er hann var árið 2000 yngsti ökuþór sögunnar til að keppa í formúlu-1. Miklar væntingar voru strax gerðar til hans en hann hefur ekki staðið undir þeim – fyrr en loks nú.

Með því fyrsta sem Button sagði einmitt eftir sigurinn í gær var að hið góða við hann væri það, að nú yrði sú leiðinlega spurning um að hann hefði ekki unnið svo og svo mörg mót ekki spurð lengur! „Oki er af mér létt því ég les þessi viðtöl við og við,“ sagði hann.

Á fyrsta ári Buttons í formúlunni, þúsaldarárið, átti ég þess kost að setjast að spjalli við  hann ásamt nokkrum breskum blaðamönnum í mótorheimili Williams við Monzabrautina á Ítalíu. (Sjá meðfylgjandi mynd). Ekki vantaði hann sjálfstraustið, enda nýbúinn að vinna sinn besta árangur í tímatökum í næsta móti á undan, Belgíu þar sem hann lagði af stað þriðji og lauk keppni í fimmta sæti. Og stuttu áður varð hann fjórði í þýska kappakstrinum. Hann var gallharður á því að sigur væri handan hornsins en þrjú mót voru eftir vertíðar. Við vitum jú að þær væntingar hans sjálfs gengu ekki upp þá og ekki fyrr en næstum sjö árum seinna.

Ég velti því fyrir mér hvort sjálfstraust manna sem þurfa bíða svo lengi eftir sigri þverri aldrei. Hvort stolt þeirra særist ekki því stanslaust þurfa þeir að þykjast vissir um eigið ágæti svona út á við. Þó ekki nema í þágu liða sinna og styrktaraðila. En meðan menn missa aldrei vonina þá er von. Eins og hjá Button.

Og ég er á því að sigur hans hafi verið með því besta sem gerst hefur fyrir formúluna í ár. Hún hefur átt í andstreymi fyrir að vera of upptekin af eigin nafla í stað þess að sinna áhorfendum og bjóða upp á meiri keppni. Kappakstur helgarinnar var spor í rétta átt þrátt fyrir allt og ekki vantaði dramatíkina í keppni þeirra Fernando Alonso og Michaels Schumacher um heimsmeistaratitil ökuþóra.


Schumacher bjargar keppninni!

Það verð ég eiginlega að viðurkenna, að ég hef aldrei verið Michael Schumacher jafn þakklátur og í dag. Hann geldur reyndar dýru verði ótrúleg mistök sín á æfingu í Búdapest í morgun. En fyrir  bragðið er hann líklega búinn að bjarga keppninni, ef svo mætti segja og svo undarlega sem það nú hljómar. 

Er dómarar fóru yfir upptökur við brautina og úr bílum kom í ljós að rauðu flaggi var veifað til  Schumacher þegar í þriðju beygju og þeim næstu. Tíu beygjum síðar tók hann engu að síður fram úr bæði Fernando Alonso og Robert Kubica. Virtist þó hika í fyrstu en lét þó til skarar skríða. Hann tók reyndar a.m.k. fram úr einum bíl til viðbótar en dómararnir einbeittu sér við gagnaskoðun að fyrrgreindum tveimur ökuþórum, enda þurfti ekki frekari gagna við.

Alonso mun þegar hafa látið lið sitt vita af atvikinu í talstöðina. Fjarskiptin heyrðu fulltrúar FIA sem hafa það að reglu að hlusta á talstöðvarsamband milli bíla og stjórnborða keppnisliðanna. Hófu fulltrúar FIA því þegar rannsókn, samkvæmt venju, og þurfti því ekki milligöngu Renault til.

Tímavítið sem Schumacher fékk fyrir að virða ekki alvarlegust aðvörun sem ökuþórum er gefin - rauð flögg - var eðlilegt sé mið tekið af þeirri refsingu sem Alonso fékk í gær fyrir að taka fram úr bíl meðan gulum flöggum var veifað. Fyrir það brot var bætt sekúndu við hvern hring Alonso í tímatökunum.   Tveimur sekúndum var hins vegar bætt við hvern hring Schumacher fyrir að hundsa rauða flaggið. Það er miklu alvarlegri aðvörun en gula flaggið og í raun fyrirmæli til ökuþóra að hægja strax ferðina og aka inn í bílskúr.

Hins vegar stóðu þeir jafnir þegar að tímatökunum kom þar sem annarri sekúndu var bætt við hvern hring vegna annars og óskylds brots, og það ef til vill alvarlegra. Því var bætt tveimur sekúndum við tíma beggja kappanna, Schumacher og Alonso, í tímatökunum.

Af þessum sökum varð tímatakan einkar spennandi og spurning númer eitt, tvö og þrjú hvort þeir kæmust áfram. Fyrst í gegnum fyrstu lotu, síðan gegnum aðra o.s.frv. Á endanum settu þeir tvo langbestu brautartímana - og undirstrikuðu ágæti sitt sem ökuþóra að því leyti.

Og með broti sínu jafnaði Schumacher nokkuð leikinn með tilliti til keppni þeirra Alonso um heimsmeistaratitil ökuþóra. Þeir stóðu jafnt að vígi fyrir tímatökurnar. Schumacher endaði í 12. sæti og Alonso í því 15. Hefur Schumacher þó keppni í 11. sæti vegna afturfærslu Jenson Button.

En sakir þessa ríkir mun meiri eftirvænting og spenna fyrir kappaksturinn á morgun og er það vel. Mótin í formúlunni hafa alveg efni á því að verða skemmtilegri og keppnin um sigur tvísýnni en verið hefur.  

p.s.

Nú er ég búinn að horfa á þetta atvik á myndbandi, aftur og aftur. Og eftir það finnst mér algjörlega út í hött af Ferrarimönnum að reyna að koma þessu yfir á Alonso. Schumacher tekur fyrst fram úr Kubica á bandinu og síðan fram úr Alonso. Reyndar er hann sagður hafa tekið fram úr fleiri bílum en dómararnir létu nægja að vinna úr atvikinu þar sem Alonso og Kubica koma við sögu.

Og hvort sem þetta hefur verið gildra Alonso þá eru Ferrarimenn með því að gefa það í skyn um leið að segja að Schumacher sé afar auðveiddur!!!

Málið er að hann kemur ekki upp að Alonso, heldur Kubica sem ekur í humátt á eftir Renaultinum. Svo kemur Schumacher allt í einu og tekur fram úr báðum í einu!   

Renaultinn og BMW-inn eru á hægri ferð vegna flagganna sem búið var að veifa á Schumacher í 10 beygjur áður en hann gerði þessi mistök að taka fram úr. Auðvitað var engin hætta á ferðum við framúraksturinn sjálfan sem slíkan eins og liðsmenn Ferrari eru að segja, en það skiptir bara engu máli. Og rautt flagg er margfalt alvarlegra aðvörunarstig en gult svo það er lógískt að sekúndu muni á brotum gegn þessum tveimur flöggum.


Þolir Alonso ekki mótlætið?

Ja, allt verður Michael Schumacher að vopni þessa dagana, hugsaði ég mér þegar Fernando Alonso hafði verið refsað fyrir framferði á æfingu í Búdapest í dag. Vegna þess er hann nú þegar úr leik í keppninni á sunnudag. Kemst örugglega ekki í gegnum aðra lotu tímatökunnar á morgun og þar með í hóp 10 bestu. Spurningin er hvort hann sé að kikna undan mótlætinu að undanförnu?

Alonso hefur átt erfitt uppdráttar í þremur síðustu mótum. Verið langt á eftir Schumacher sem saxað hefur jafnt og þétt á forskot hans í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökuþór. Forskot Alonso hefur minnkað úr 25 stigum í 11 í þremur síðustu mótum og óhjákvæmilegt er nú að það minnkar enn frekar á sunnudag. Nema kraftaverk komi til.

Mótbyrinn að undanförnu er sá mesti sem Alonso hefur þurft að glíma við allt frá árinu 2003. Það er eins og hann þoli ekki álagið. Honum rann í skap á æfingu í dag er Robert Doornbos tilraunaökuþór Red Bull hindraði för hans. Dómarar kappakstursins kölluðu hann tvisvar á sinn fund eftir æfinguna. Niðurstaða þeirra var að refsa honum fyrir "óþarfan, óásættanlegan og hættulegan" akstur.

Þeir ákváðu að bæta tveimur sekúndum við besta tíma hans í hverri lotu tímatökunnar á morgun. Það sér hver og einn að hann kemst aldrei í þriðju og síðustu lotu tímatökunnar með þann klafa á herðum sínum. Og nógu erfitt verður fyrir hann að komast í gegnum fyrstu lotuna er sex lökustu bílarnir falla úr leik.

Ekki dettur mér í hug að halda því fram að Alonso hafi verið hart dæmdur, er einfaldlega ekki í stakk búinn til þess. Geng bara út frá því að málagjöldin hafi verið makleg. Hins vegar er það deginum ljósara að ökuþórar veifa í reiði sinni hvorir framan í aðra líklega á hverri einustu æfingu og oft í mótum.

Þess vegna finnst mér skrítið að dæmt skuli á hann fyrir það. Hafi hann hins vegar bremsað fyrir framan keppinaut sinn eftir að fram úr var komið er sennilega rétt að dæma á slíkt. Og í hita leiksins hefur honum orðið á að taka fram úr undir gulum flöggum.

Fyrir slíkt hefur mönnum til þessa í ár - að því er ég best man í fljótheitum - verið refsað með því að færa þá í mesta lagi aftur um eitt sæti, samanber Scott Speed sem tók fram úr David Coulthard undir gulum flöggum í móti í ár. Bætt er hins vegar við tíma sem Alonso hefur enn ekki sett.

Misjafnt refsað

Athygli vekur náttúrulega hversu misjafnir dómara fyrir álíka brot eru. Undan því hafa meir að segja sumir ökuþórar kvartað árum saman. Ástæðan er sú að sjaldnast eru sömu þrír dómararnir tvö mót í röð. Heldur er um hóp manna að ræða sem dæma flestir eitt til tvö mót á ári. Þeir pæla líklega lítt í því hvað áður hefur verið dæmt og horfa misjafnlega strangt á bókstafinn. Gott dæmi um það er hinn umdeildi fjöðrunarbúnaður sem dómarar í Hockenheim dæmdu löglegan fyrir viku en stallbræður þeirra í Búdapest sögðu ólöglegan í gær!!!

Þá var ekki hróflað við Schumacher er hann svínaði fyrir Alonso í bílskúrareininni í tímatökunum í Hockenheim fyrir viku þótt strangt til tekið væri það gegn reglum. Þar eiga bílar á ferð forgang, ekki síst þegar þeir eru komnir svo nálægt sem raun bar vitni þá.

Svona er þetta bara og fæst víst ekkert við það ráðið. Ég vona bara að Renaultmönnum takist að róa kappann skapmikla svo við getum átt von á skemmtilegri keppni í mótunum framundan. Það hefur verið alltof lítil keppni um sigur í mótum ársins.

Meistarar eiga að vera þeim kostum búnir að geta hamið skap sitt í hita leiksins. Algjört grunnatriði er að þeir láti það ekki hlaupa með sig í gönur í einhverri stundarfirringu. Alonso þarf að einbeita sér að akstrinum en ekki láta mótherjana fara í taugarnar á sér.

 Fáránlegt framferði

p.s.

Er nú búinn að sjá atvikið í frönsku sjónvarpi og það er alveg ljóst að Alonso hagaði sér fáránlega. Í stað þess að láta nægja að veifa til Doornbos  sveigði hann harkalega að honum við framúraksturinn og  var síðan með alls konar stæla í næstu beygju, hægjandi ferðina og akandi óeðlilega línu. Það er líklega óhjákvæmilegt að taka á svona löguðu. 

 


Schumacher tekur fjölskylduna fram yfir formúluna

Fréttir að undanförnu um framtíð Michaels Schumacher þykja mér fremur undarlegar. Og ef eitthvað er fá þær mig til að halda að hann hafi ákveðið að hætta keppni í vertíðarlok. Hann hafi loks ákveðið að velja fjölskylduna fram yfir formúluna. Ég er eiginlega orðin sannfærður um það!

Umboðsmaðurinn Willy Weber segist nú hafa ráðlagt Schumacher að hætta í ár. Að því tilskyldu reyndar að hann vinni heimsmeistaratitil ökuþóra. Nú á því eru líkur að hann vinni titilinn. En hvers vegna í ósköpunum liggur Weber svo mjög á að tjá sig um þessa ráðgjöf. Hann hefur elt hverja fréttastofuna á fætur annarri og hvern fjölmiðilinn á fætur öðrum undanfarið og sagt frá því hvað hann hefur lagt til við sinn mann.

Til hvers?

Hvaða máli skiptir það hvað einhver 64 ára þýskur karl hefur ráðlagt Michael Schumacher? Og það þótt hann sé umboðsmaður hans og fái 20% í sinn vasa af allri þénustu Schumacher? Mig varðar ekkert um hvað Weber ráðleggur Schumacher. Bara hvað Schumacher ætlar að gera.

Auðvitað veit Weber nú hvað Schumacher ætlar að segja í Monza eftir tæpan mánuð. Þar ætlar hann að segja hvort hann keppi áfram fyrir Ferrari eða ekki. Ég fæ ekki séð annað en Weber sé að undirbúa jarðveginn. Schumacher sé ákveðinn í að hætta. Vegna þess hversu hann hefur saxað á Fernando Alonso í keppninni um ökuþóratitilinn eru einhverjar líkur á að Schumacher hreppi titilinn. Þess vegna heldur Weber að þetta sé sniðugt útspil hjá sér. Mér finnst það hins vegar engu skipta. Og ef eitthvað er má halda því fram að Weber sé að reyna að draga athyglina að sjálfum sér. Jafnvel á kostnað Schumacher.

Michael Schumacher hefur marglýst því yfir að hann muni hætta keppni þegar fram koma ökuþórar sem leggja hann að velli. Hann stóð reyndar ekki við það í fyrra. Þá hafði hann ósköp lítið í bæði Alonso og Kimi Räikkönen að gera. Hann sagði og í janúar á þessu ári að legði Ferrari honum ekki til sigurbíl í ár myndi hann hætta í vertíðarlok. Með öðrum orðum sagðist hann hætta ef hann tæki ekki titilinn.

Annars finnst mér Schumacher hafi átt að sleppa því að gefa út að hann muni tilkynna um ákvörðun sína á kappaksturshelginni í Monza 8.-10. september. Nema hann ætli að halda sér áfram. Ætli það dragi nefnilega ekki kjark úr Ferrari ef hann segist þar vera hættur? Enn verða þrjú mót eftir af vertíðinni %u2013 mót þar titilslagurinn gæti átt eftir að ráðast. Og sé hann á því að hætta myndi ég í hans sporum snúa mér út úr málinu og segjast ætla hugsa það áfram! Það er að segja ef enn eru möguleikar í titilslagnum.

En ég er víst ekki Schumacher og hann er vonandi maður til að taka eigin ákvarðanir! Og þarf ekki umboðsmanninn, "herra 20%", til þess að hjálpa sér. Ætli það sé honum ekki nóg að sjá ung börn sín við og við til þess að fyllast þeirri löngun að þurfa ekki að vera hálft árið fjarri þeim? Missa bókstaflega af uppvexti þeirra? Maður sem hefur ekkert að sanna lengur, ekkert að vinna og engu að tapa [nema ærinni við og við eins og nú síðast í Mónakó]??? Hann er jú altjent að komast á miðjan aldur hvað úr hverju.

Verði sigurganga hans stöðvuð um helgina í Búdapest aukast líkurnar á því að hann verði ekki meistari. Til þess verða Alonso og Renault að hysja upp um sig buxurnar. Eða öllu heldur dekkin!

Nú svo er Ross Brawn ákveðinn í að hætta sem tæknistjóri Ferrari í vertíðarlok en á síðustu 15 árum hefur hann verið samverkamaður og tæknistjóri Schumachers í 14. Það styrkir grun minn um að Schumacher sé á förum.

Og svo herma ítalskir fjölmiðlar sem eru í góðu sambandi við "innmúraða" menn í Maranello að Jean Todt ætli að vera eitt ár enn sem liðsstjóri. Skárra væri það, karlinn verður að stýra skútunni meðan nýr maður er að ná tökum á tæknideildinni og nýr ökuþór [lesist Kimi Räikkönen] að taka við hlutverki Schumacher.

Nú þetta verður bara koma í ljós, eins og viðkvæðið er gjarnan. Og þá um leið hvort ég hef rétt fyrir mér varðandi framtíðarpælingar sjálfs Michaels Schumacher. Margir eru mér örugglega ósammála.

Auðvitað skilur hann eftir sig visst tómarúm þegar hann kveður. Rétt eins og allir sem mikið kveður að og menn sem vindar blása um. Og alveg burtséð frá því hvað mönnum kann að finnast um hann.


FIA kærir ógildingu FIA á banni FIA til dómstóls FIA!

Vart er hægt að vera meira sammála Renaultstjóranum Flavio Briatore sem risið hefur hvað eftir annað upp gegn pólitíkinni í formúlunni og hvatt menn frekar til að reyna auka skemmtanagildi hennar fyrir áhorfendur og unnendur íþróttarinnar í stað þess að þrátta endalaust um einhver tæknileg atriði og búnað keppnisbíla. Hætta sjálfhverfunni og hugsa fremur um unnendur íþróttarinnar og áhorfendur en einhverja eiginhagsmuni sem enga varðar um.

Enn ein hringavitleysan á vettvangi Alþjóðaakstursíþróttasambandsins (FIA) fór af stað í dag er sambandið (FIA) ákvað að kæra úrskurð eigin dómara (FIA) til dómstóls FIA! Della á dellu ofan og er von að fólk missi áhuga á íþróttinni meðan FIA er jafn upptekið af sjálfu sér og raun ber vitni í stað þess að bæta keppnina.

Forsaga málsins er sú að FIA hafði leyft Renault að nota framúrstsefnulegan fjöðrunarbúnað sem verið hefur í bílum liðsins frá í september í fyrra. Og sex önnur lið hafa hermt eftir Renault, eins go gerist og gengur í formúlunni, og sett samskonar fjöðrun í sína bíla. Efetir franska kappaksturinn sneri FIA við blaði og bannaði búnaðinn.

Renault kættist ekki beint við þetta og prófaði að láta reyna á lögmæti búnaðarins með því að hafa hann í varabíl liðsins sem sendur var í hefðbundna skoðun í gær hjá eftirlitsmönnum FIA í þýska kappakstrinum í gær. Niðurstaða þeirra var að bíllinn mætti ekki keppa vegna búnaðarins, sem FIA hafði bannað, en samkvæmt venju kemur slík niðurstaða til kasta dómnefndar (FIA) kappakstursins. Niðurstaða hennar - rökstudd í afar löngu máli - var að bann FIA hefði tekið ranga ákvörðun og búnaðurinn stangaðist í engu á við tæknireglur formúlunnar.

Maður hefði nú haldið að FIA hefði látið staðar numið þegar hér var komið sögu. Nei, aldeilis ekki. Sambandið ákvað að ganga gegn eigin fulltrúum og halda þófinu áfram. Tæknifulltrúinn sem leyfði bæði búnaðinn og bannaði ákvað að árfýja niðurstöðu dómaranna til dómstóls FIA svo málið verður áfram í lausu lofti. Óvíst er að niðurstaða verði fengin fyrir ungverska kappaksturinn sem fram fer eftir rúma viku.

En nú tekur sem sagt við að ógildingu FIA á úrskurði FIA hefur FIA kært til dómstóls FIA. Mér fyrirgefst vonandi þótt ég segi að bjánalegra geti málið ekki verið. Hef ég langa reynslu af dómgæslu og öðrum störfum í íslenskri íþróttahreyfingu og alþjóðlegri. Svona lagað gæti ekki komið upp á þeim vettvangi, fullyrði ég. Málum er þar háttað þann veg að svona dellumakerí getur ekki átt sér stað.

Sennilega er við engan annan en FIA að sakast yfir þessari dæmalausu dellu. Sambandið þyrfti líklega bara að vanda betur texta og innihald tæknireglna formúlunnar sem breytt hefur verið árlega mörg undanfarin ár. Aðalhöfundur þeirra er maðurinn sem leyfir og bannar hluti á grundvelli þeirra, tæknifulltrúinn.

Í ljósi þessa þarf engan að undra þótt liðin sem mynda samtök bílaframleiðenda í formúlunni hafi um árabil reynt að knýja fram breytingar á ákvarðanaferlinu innan FIA og laga-og reglusetningu. Hafði þeim fundist FIA-sjórinn alltof gruggur og ítök Ferrari þar fullmikil. Vildu heldur sigla á tæru vatni þar sem allt væri gegnsætt og skýrt.

Útaf fyrir sig er mér nákvæmlega sama hver niðurstaðan af þessari nýjustu dellu verður. Hins vegar finnst mér löngu nóg komið og tel löngu tímabært að reyna að gera formúluna skemmilegri. Kannski ég labbi bara inn á FIA-kontórinn í París með mótmælaspjald á næstunni, þangað er stutt héðan sem ég bý í Frakklandi!!! Það er tími til kominn að einhver taki af skarið, berji í borðið og segi hingað og ekki lengra. Það þarf nýja stjóra á það rekald sem manni finnst FIA vera. Menn sem gera réttu hlutina en ekki hlutina rétt. <br><br>

Það finnst mér allavega, en kannski er enginn mér sammála? Þá verð ég í vondum málum! 



 


Söknuður að Montoya

Ég ætla að segja það alveg umbúðalaust - það er söknuður að Juan Pablo Montoya sem sagt hefur skilið við formúluna og ráðið sig til að keppa í þjóðarakstursíþrótt Bandaríkjanna, NASCAR-kappakstrinum. Montoya hefur kunnað vel við sig í Bandaríkjunum, enda nær menningarheimi sínum þar en í Evrópu. Þar hefur hann afrekað, sem og í formúlunni.   

Montoya sló í gegn þegar á fyrsta ári í formúlunni, árið 2001 með Williams. Jafn djarfan ökuþór höfðu unnendur íþróttarinnar ekki fengið að sjá lengi. Lét strax verulega til sín taka, varð annar í Evrópukappakstrinum og í Barcelona og kórónaði svo fyrsta tímabilið með sigri í Monza.

Þetta þótti gefa góð fyrirheit en Montoya hafði aldrei nógu almennilega bíla, hvorki hjá Williams né McLaren í ár og í fyrra, til að slást af alvöru um heimsmeistaratitil ökuþóra. Varð þó í þriðja sæti bæði 2002 og 2003.

Montoya hefur fyrst og fremst gengið til leiks sem íþróttamaður en ekki sem fulltrúi einhverra markaðsafla eða hagsmuna keppnisliða sinna. Keppt af krafti en samt drengskap. Notið sín í návígi en fremur gefið eftir eða tekið tapi í stað þess að beita bellibrögðum.

Þá hefur hann verið hreinskiptinn og talað tæpitungulaust, oft svarað flóknum eða leiðandi spurningum með jái eða nei. Ekki bunað út úr sér einhverri loðmollu eins og lesið væri upp úr handriti sem markaðsstjóri liðsins hefði skrifað fyrir hann. Sem er alltof algengt í formúlunni.

Hvort sem menn eru sammála mér eða ekki um að söknuður sé að Montoya þá fer ekki á milli mála að hann hefur verið með litríkari persónuleikum hennar. Fyrir hvern einn slíkan sem hverfur á braut tapar formúlan. Ég sé ekki að skarð hans verði fyllt alveg strax. Það verður bara að koma í ljós hvenær það gerist.

Ég hef um dagana fylgst nokkuð með NASCAR á Eurosport-stöðinni. Ótrúleg íþrótt þar sem tugir bílar keyra á 400 km/klst hraða og kannski ekki nema nokkrir sentimetrar á milli stuðaranna eða hliðanna. Oftast í sporöskjulaga brautum. Ef eitthvað bregður útaf í návíginu, sem oftast gerist í hverju móti, geta afleiðingarnar verið hrikalegur hópárekstur.

Það er ómögulegt að segja nokkuð um hvernig Montoya muni ganga í þessari íþrótt en hann verður þó hjá góðu liði. Hjá sama vinnuveitandanum og hann færði titil í systurkeppni formúlunnar í Bandaríkjunum 1999, CART-kappakstrinum (líka nefnt ChampCar). Árið eftir komst hann í þann úrvalshóp ökuþóra sem unnið hefur hinn fræga Indy 500-kappakstur.


Williams á botninn

Hvað er eiginlega að gerast hjá Williamsliðinu? Toppliðið formúlunnar fyrir ekki svo löngu? Er von að spurt sé eftir árangur, eða öllu heldur skorts á honum, í undanförnum mótum. Botni náði liðið líklega í Indianapolis. Að vísu féll Mark Webber úr leik fyrir tilverknað annarra í hópárekstri í fyrstu beygju. En á betri dekkjunum (Bridgestone) og eins stopps áætlun (sem færði Trulli á Toyotu fjórða sætið í marki úr því síðasta í starti), tapaði Nico Rosberg fyrir Toro Rosso-bíl sem er með eins árs gömlum og getuminni mótor. Varð aðeins níundi á mark.

Er nokkuð skrítið að tæknistjórinn Sam Michael skuli hvetja til uppstokkunar í herbúðum Williams? Á ýmsu hefur gengið þar á bæ á undanförnum árum. Mest var blóðtakan er Adrian Newey hætti 1997 og fór til McLaren útaf ágreiningi við Frank Williams. Newey vildi að Damon Hill yrði áfram ráðinn ökuþór enda átt stóran þátt í að gera Williamsbílinn svo sigursælann á árunum 1992-1997.

Síðan missti liðið aðal loftaflsfræðing sinn, Geoff Willis, sem freistaðist í raðir BAR, nú Honda. Var svo Gavin Fisher, aðalhönnuður til nokkurra ára og arftaki Newey, látinn taka afleiðingum þess í fyrra að hin byltingarkennda rostungstrjóna sem liðið notaði á bílum sínum skilaði ekki tilætluðum árangri. Við starfi hans tók Jörg Zander sem entist ekki veturinn hjá liðinu og gekk í vor til liðs við BMW.

Michael segir getu liðsins í Indianapolis óásættanlega. Ekki sé hægt að komast neðar. Fyrir utan að tapa fyrir Toro Rosso-bíl komst Red Bull fram úr Williams í stigakeppni liða. Situr nú í áttunda sæti og aðeins Toro Rosso, Midland og Superi Agari á eftir þessu stórliði sem „malaði“ önnur lið fyrir aðeins áratug.

Ekki sá ég viðtal aðalstjórnanda liðsins, Sir Frank Williams, í sjónvarpinu af skiljanlegum ástæðum en fróðlegt væri ef bloggarar legðu mat á það með tilliti til botnárangurs liðsins undanfarið. Michael segir að breyta þurfi öllu gangverki liðsins. Og gefur til kynna að mannskapurinn verði að einbeita sér harðar og markvissara að því að bæta sig. Bæta þurfi alla þætti bílsins en mest sé áríðandi að bæta skilvirkni loftafls hans, straumfræði yfirbyggingar og vængja. Athyglisverð yfirlýsing þar sem þar er um að ræða sérsvið hans!  

Býsna opinská játning hjá Ástralanum en hvernig ætli yfirlýsingum hans verði tekið í Grove, höfuðstöðvum Williamsliðsins? Ætli Sir Frank og Patrick Head, yfirmenn hans, taki þeim þegjandi? Annars hefur mér fundist Michael jafnan yfirvegaður og jarðbundinn og drottinshollur. Tæpast segir hann þetta því án samþykkist yfirmanna sinna.

Eins og Sir Frank og Head neitar Michael að samþykkja að liðið sé nú að gjalda þess að hafa hætt samstarfi við BMW-bílafyrirtækið í fyrra. Stjórnendur þess (Mario Theissen þar fremstur í flokki) vildu fá að koma meir að hönnun bílsins, ekki bara að leggja liðinu til mótor. Það töldu Williamsmenn óþarfa og nánast yfirgang!

Það er hægt að vera vitur eftir á en sýnir ekki frammistaða BMW að Williams hefði bara haft gott af því að hlusta betur á Theissen og koma til móts við hann? Fá virkilega nýtt  blóð inn í gamla breska liðið? Það finnst mér engin spurning.

 

Við gamlir unnendur Williamsliðsins frá dögum Mansell, Prost, Senna og Hill verðum að vona að hagur strympu vænkist. Nokkrar straumfræðilegar  endurbætur verða gerðar á bíl liðsins fyrir næsta mót, franska kappaksturinn í Magny-Cours. Micheal hefur þann fyrirvara á þeim að brautin henti Williamsbílnum ekki sérlega vel.


Af hverju kemur enginn hlutlaus Schumacher til varnar?

Ég held ég sleppi því að fella dóma um Michael Schumacher og framferði hans í tímatökunum í Mónakó. Læt það duga að dómarar keppninnar hafa gert það. Þeir eru líklega þeir einu sem hafa öll gögn til að úrskurða í málinu. Meðal annars upplýsingar frá hátt í 200 skynjurum úr bíl Schumachers. Auk þeirra hefur og fjöldi sérfróðra manna, þar á meðal hver fyrrverandi heimsmeistarinn í formúlunni á fætur öðrum, lýst því yfir að Schumacher hafi vísvitandi klúðrað einni hægustu beygju ársins til þess að skemma tímatökuna fyrir keppinautum sínum.


Þetta eru þungar ásakanir málsmetandi manna sem vonandi eru lausir við fordóma. Ég er ekki í stakk búinn til að dæma um sekt Schumachers eða sýknu. Fylgist bara með og pæli í málinu eins og aðrir formúluunnendur. Ótal spurningar leita þó á hugann? Ef rétt er þá spyr maður sig - og það sem gamall íþróttamaður - hvernig í ósköpunum afreksmönnum á borð við Schumacher dettur í hug þvílíkt svindl? Maður sem unnið hefur allt sem hægt er að vinna og þarf ekkert að sanna. Getur sigurfíknin virkilega hlaupið jafn rækilega með menn í gönur?


Í einfeldni minni verð ég að segja að ég á erfitt með að trúa að hann sé svo illa innrættur. Og hafi verið um vísvitandi svindl að ræða þá spyr ég hverjir aðrir en Schumacher áttu hlut að máli? Var um frumkvæði upp á eigin spýtur að ræða? Er það virkilega mögulegt í svo sögufrægu og virtu liði sem Ferrari? Var ekki einhver eða einhverjir í vitorði með honum? Getur annað verið? Ef hann hefur vísvitandi ætlað að skemma tímatökurnar fengi hann þá að komast upp með það gagnvart liðinu, ef hann hefur verið algjörlega einn að verki?


Spurningar af þessu tagi leita á hugann. Svar við þeim fæst víst líklega aldrei. Nema í sjálfsævisögu Schumacher eða annarra lykilmanna hjá Ferrari þegar þær koma út eftir einhver ár. Er það kannski nauðsynleg aðferð til að ná árangri í formúlunni að beita brögðum? Er það forskriftin að því að verað bestur? Því trúi ég reyndar ekki.


Ég horfði á Jean Todt í beinu samtali í upphitun franska sjónvarpsins TF1 fyrir útsendinguna frá kappakstrinum í dag. Hann var spurður fram og aftur um málið. Virðingarvert var að hann skyldi vilja ræða það. Mér fannst hann þó ekki sannfærandi, tafsaði og virtist jafnvel pínulítið miður sín. Tilsvörin voru hikandi og látbragðið einkennilegt. Það var til dæmis fátt um svör þegar hann var spurður hvort áhorfendur ættu að trúa því að sjöfaldur heimsmeistari gæti gert akstursmistök af þessu tagi á 50 km hraða í einni hægustu beygju allrar formúluvertíðarinnar?


Todt sagði að virða yrði niðurstöður dómaranna og hann ætlaði ekki að velta sér upp úr henni þótt liðið væri henni ósammála.


Þá sýndi stöðin hvernig Schumacher ók með allt öðrum hætti inn að Rascasse-beygjunni í þetta eina skipti en öll önnur, þannig að ekki var um annað að ræða en klúðra henni. Annar lýsenda stöðvarinnar, fyrrverandi formúluþórinn Jacques Laffite, sagði augljóst mál um að viljaverk hafi verið að ræða, þetta gætu ekki hafa verið mistök.


Það vakti svo auðvitað athygli mína að í kappakstrinum ók Schumacher 78 sinnum vandræðalaust gegnum beygjuna.


Niki Lauda, fyrrverandi meistari, sagði slíkt hið sama á RTL-stöðinni og Laffite á þeirri frönsku. Og gaf lítið fyrir útskýringar Schumacher. Fleiri fyrrverandi heimsmeistarar hafa tjáð sig. Niðurstaða þeirra er á einn veg; Schumacher var brotlegur. Ekki treysti ég mér til að deila við þá. Og ég hef leitað að því í allan dag hvort einhver kæmi Schumacher ekki til varnar utan forystumanna Ferrari og umboðsmanns hans.


Enginn núverandi keppenda ber blak af Schumacher


Sú leit hefur því miður engan árangur borið. Enginn málsmetandi maður sem á ekki beinna hagsmuna að gæta hefur gengið í lið með honum. Enginn! Enginn núverandi keppnisþóra hefur heldur borið blak af honum. Margir þeirra hafa hins vegar gagnrýnt hann og segjast skammast sín vegna atviksins. Tala jafnvel um högg fyrir neðan beltisstað. Eða líkt því við það þegar Mike Tyson beit eyra af andstæðingi sínum í keppni í hnefaleik. Þar með eyðilagði þungaviktarmeistarinn feril sinn og orðstír endanlega.


Er Schumacher ef til vill í þeirri stöðu að vera einn um að segja sannleikann. Eins og Galileo Galilei forðum er hann hafði áttað sig fyrstur allra í heiminum að jörðin væri hnöttur en ekki eins og pönnukaka? „Hún snýst nú samt,“ sagði Galileo er hann var dæmdur fyrir villutrú. Nú vita allir að hann hafði rétt fyrir sér og engum dettur líklega í hug að jörðin sé flöt. Á Schumacher eftir að fá uppreisn sem hann?


Eða er Schumacher með framferði sínu að grafa undan sjálfum sér. Er hann sjálfum sér verstur? Hann segist eiga óvini út um allt, líka meðal ökuþóra, og þeir séu fordómafullir. En er einhver þeirra meiri óvinur hans en hann sjálfur? Upp virðast koma umdeild atvik aftur og aftur á ferli hans,  svona eiginlega nokkurn veginn um leið og farið er að fyrnast yfir þau fyrri. Og við það rifjast mörg hinna fyrri óhjákvæmilega upp.


Gömul atvik rifjuð upp


Upp í hugann koma mörg fyrri furðuleg atvik sem maður hefur m.a. séð í sjónvarpi. Þar sem hann á að hafa komið í veg fyrir að aðrir yrðu meistarar í hans stað (Damon Hill í Adeleide 1994) eða reynt að koma í veg fyrir að menn yrðu meistarar í hans stað (Jacques Villeneuve í Jerez 1997).


Allt þetta og meira rifjaði þýska sjónvarpsstöðin RTL upp í dag í tilefni uppákomunnar í Mónakó. Schumacher slapp með atvikið 1994 enda fékk hann að njóta vafans. Hann fékk hins vegar þunga refsingu 1997 er hann lagði inn í Villeneuve. En í ljósi þess sem síðar hefur gerst telja fáir nú að atvikið 1994 hafi verið slys.


Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála á næstunni. Ökuþórarnir koma saman til fundar í Silverstone eftir hálfan mánuð og ráða ráðum sínum. Sumir hafa sagt að Schumacher verði að hverfa þar úr leiðtogahlutverki. Eigi hann ekki frumkvæði að því sjálfur muni slíkt verða lagt til. Og gefi hann ekki eftir muni einhverjir jafnvel segja sig úr þessu hagsmunafélagi keppnisþóranna. Best er engu að spá en bíða bara og sjá.


Því er svo við þetta að bæta, að síðdegis í dag, rúmum sólarhring eftir atvikið umdeilda og allt fárið, baðst Schumacher afsökunar á því sem gerðist í tímatökunum. En sat við sinn keip og hélt fram sakleysi sínu. „Allir þeir sem halda að það hafi verið ásetningur minn að eyðileggja hring [Fernando] Alonso hafa á röngu að standa. Og við þá get ég aðeins sagt, „mér þykir leitt hvað gerðist“,“ sagði Schumacher.


Meira fjör í Mónakó en venjulega?

Ætli við getum ekki þakkað fyrir breytingarnar sem gerðar voru á tímatökunum í fyrra. Núna í aðdraganda Mónakókappakstursins er fyrirkomulagið með þeim hætti að allt getur gerst. Rásröðin gæti orðið mjög frábrugðin því sem við eigum að venjast í furstadæminu. Sem vonandi býður upp á skemmtilegan kappakstur, en mér hefur í mörg mörg ár fundist Mónakó jafnleiðinlegasta mót ársins!

Vonandi verður fjör svo áhorfendur fái eitthvað fyrir sinn snúð og telji ekki að það hafi verið tímasóun að fylgjast með. Hér í sólinni og blíðunni í Frakklandi er hætt við því að menn hugsi slíkt ef keppnin verður ekki skemmtileg. Vonandi gerast bara óvæntir hlutir í tímatökunum svo til einhvers verði að hlakka!  

Ökuþórarnir hafa komið fram hver á fætur öðrum og látið í ljós ugg vegna núverandi fyrirkomulags tímatökunnar. Óttast umferðarþunga í brautinni í fyrstu tveimur lotunum og að þar geti menn lent í vandræðum og misst af góðum brautartíma vegna annarra bíla sem tefji för þeirra.

Fremstur í flokki er Fernando Alonso. Hann hefur breytt algjörlega um taktík fyrir helgina og ók miklu meira á frjálsu æfingunum í Mónakó í gær en áður . Tilgangurinn að vera búinn að finna öruggar línur í gegnum beygjur, pottþétta uppsetningu og réttu dekkin fyrir tímatökurnar. Hann ætlar ekki að láta neitt koma sér þar á óvart til að lágmarka líkurnar á að hann falli úr leik í fyrstu eða annarri lotu.

Það yrði saga til næsta bæjar ef þeir Alonso og Michael Schumacher komast ekki í lokalotuna á laguardag. Mér kæmi ekkert á óvart þótt annar hvor þeirra lenti í því. Eða svo ég noti þeirra eigin orð; allt getur gerst. Og útlitið var ekki gott hjá Schumacher í gær er hann setti aðeins 15. besta tímann. Endurtaki slík frammistaða á morgun er hann í stórhættu. Auðvitað mun hann nota æfinguna í fyrramálið til að minnka líkurnar á því sem mest.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, vonandi verður meira fjör í Mónakó þessa helgi en undanfarin ár.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband