Ferrari hefur farið mest fram

Það er í mannlegu eðli að reyna fegra jafnan stöðu sína. Til þess hefur Ferrariliðið gripið nú. Í stað þess að vera í öðru sæti í stigakeppni bílsmiða hefur það reiknað út að liðið væri efst, ef beitt væri sömu stigagjöf í formúlu-1 og í fyrra.

Og ekki nóg með að það væri í efsta sæti í stigakeppni liðanna, því Ferrari segist einnig myndu vera í efsta sæti í keppni ökuþóra að loknum fimm fyrstu mótum ársins ef áfram hefði verið stuðst við sama kerfi og í fyrra, en þá var átta fremstu ökumönnum gefin stig og mun færri en nú.

Stigagjöfin hefur tvisvar tekið breytingum á öldinni en árið 2003 var byrjað að veita átta fremstu stig í stað sex áður. Eftir sem áður hlaut sigurvegarinn þó aðeins 10 stig. Í ár fær hann 25 stig og fimmti maður 10. Nýjasta stigagjöfin verðlaunar þó sigur sérstaklega því talsvert stigabil er í annað sætið.

Í stað þess að vera þremur stigum á eftir McLaren nú í keppni liða, eða 119:116, væri það með 47 samkvæmt gamla kerfinu og jafnmörg og McLaren. Og Fernando Alonso væri efstur í keppni ökumanna með 28 stig og Jenson Button hjá McLaren næstur með 27.   

Vertíðin í fyrra fór hörmulega af stað hjá Ferrari en með því að beita stigagjöfinni frá í fyrra segir það framfarirnar augljósar. „Við höfum tekið mestum framförum frá í fyrra, bætt við okkur 41 stigi. McLaren hefur bætt sig um 33 stig, Renault 11 og Red Bull um 4. Um afturför er að ræða hjá Brawnliðinu fyrrverandi, nú Mercedes, því með sömu stigaútreikningum og í fyrra hefði það 47 stigum minna eftir fimm mót en í fyrra.

Þessir útreikningar hafa náttúrulega ekkert gildi annað en að bera saman frammistöðu milli ára. Að öðru leyti eru þeir til gamans. Eftir sem áður er Button efstsur í keppni ökuþóra og McLaren í keppni liðanna.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það er að sjálfsögðu stigagjöfin í DAG sem gildir.  Ég man nú ekki betur en að aðalgagnrýnin á "gömlu" stigagjöfina hafi komið frá Ferrarí.  Að reyna að "réttlæta" frammistöðu sína á brautinni, finnst mér, lítilmótlegt og með svona framkomu er verið að gera lítið úr sér.

Jóhann Elíasson, 12.5.2010 kl. 16:50

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Auðvitað gildir ekkert annað en núverandi stigagjöf. En þetta er kannski ekki svo vitlaus aðferð til að sýna fram á framfarirnar milli ára. Það er rétt hjá þér, að stundum grípa menn til þeirra ráða sem þeir gagnrýndu þó mest sjálfir, eins og þú bendir á.

Við þetta rifjast upp, að það voru ökumenn sjálfir sem lögðust hvað harðast gegn því fyrir margt löngu, að þeir yrðu skyldaðir til að nota harða höfuðhjálma í keppni í stað næfurþunnra leðurhúfa!


Ágúst Ásgeirsson, 14.5.2010 kl. 09:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband