Færsluflokkur: Íþróttir

Evrópukappakstur við hlið Grænhelju

Evrópukappaksturinn fer fram í 12. sinn í Nürburgring í Eifel-fjöllum í suðvestanverðu Þýskalandi, og alls í 17. sinn. Liggur formúlubrautin við jaðar fornfrægrar brautar með sama nafni en sem gengur manna á meðal undir uppnefninu „Græna helvítið“. Þótt nafngiftin sé neikvæð er umhverfið hér um slóðir ægifagurt.  

 

Formúlu-1 kappakstri var hætt um skeið í Nürburgring eftir slysið hrikalega árið 1976 þar sem Niki Lauda slapp naumlega en illa meiddur úr eldhafi. Brautin var upphaflega 22,5 km og byggð í atvinnubótavinnu 1925 fyrir bílprófanir þýskra bílaframleiðenda. Fyrsti kappaksturinn fór þar fram tveimur árum seinna.

 

Skotinn Jackie Stewart sagði 1976, rétt eftir Lauda-slysið, að á löngum beinum köflum í brautinni væru ökuþórarnir eins og farþegar í bílunum því þeir hefðu ekkert að gera annað en stíga bensíngjöfina í botn.

 

Brautin var endurgerð og keppni í Formúlu-1 hafin þar á ný 1984, annar Evrópukappaksturinn, sem Alain Prost vann á McLaren-bíl. Þótti hún með endemum illa hönnuð og einhæf svo að eftir keppnina 1985 leið áratugur þar til keppt var aftur í Nürburgring. Brautinni var breytt og er nú mjög frábrugðin því sem var, en þó var beina upphafs- og lokakaflanum haldið.

 

Tímarnir breytast því árið 1995 töldu keppnisliðin brautina eina þá bestu í formúlu-1. Þar eru 12 beygjur og áhorfendur njóta víðast hvar frábærs útsýnis yfir brautina. Síðast var bætt við hana 2002 nýjum hlykk með þremur beygjum strax eftir beinan upphafskaflann og er hún 5,2 km á lengd. Þessi kafli verður nefndur í ár til heiðurs Michael Schumacher, sem hættur er keppni, og nefndur „Schumacher-S-ið“. Mun hann aka hring í brautinni af því tilefni.

 

Schumacher var sigursæll í Nürburgring, vann þar 1995 á Benettonbíl, en síðan á Ferrari 2000 og 2001, 2004 og 2006,  og hefur því hrósað þar sigri fimm sinnum.

 

Evrópukappaksturinn hefur verið háður á fjórum brautum í þremur löndum frá 1984. Fyrsta mótið fór fram í Brands Hatch í Englandi 1983 og vann Nelson Piquet á Brabham-bíl. 

 

Jacques Villeneuve vann jómfrúrsigur sinn í Nürburgring árið 1996 á Williams-bíl, í aðeins sínu fjórða móti. Hann var krýndur heimsmeistari í Evrópukappakstrinum árið eftir, sem fram fór í Jerez á Spáni, eftir að hafa lifað af tilraun Michaels Schumachers sem reyndi að keyra hann út af brautinni. Mika Häkkinen vann mótið í Jerez og þar með sinn fyrsta mótssigur í Formúlu-1.

 

Englendingurinn Johnny Herbert vann sinn þriðja sigur á ferlinum og fyrsta og eina sigur Stewart-liðsins í afar tíðindasömum kappakstri í Nürburgring árið 1999. Segir Stewart það stærstu stundina í lífi sínu; stærri en að sigra sjálfur í gömlu brautinni frægu en þar keppti hann síðast 1973, rétt áður en hann hætti keppni sem ökuþór.

Árið eftir fyrsta og eina sigurinn var Stewartliðið selt Ford sem nefndi það Jagúar. Það var síðan selt Red Bull. Einungis einn annar breskur ökuþór hefur unnið Evrópukappaksturinn, Nigel Mansell á Williams-bíl á heimavelli í Brands Hatch árið 1985.

 

Um helgina má búast við risaslag milli McLaren og Ferrari en fyrrnefnda liðið telur það sinn heimavöll þar sem Mercedes á í því 40% og leggur liðinu til mótora í keppnisbílana.

Fernando Alonso hjá McLaren vann sigur í brautinni 2005, þá sem liðsmaður Renault, og mun freista þess að minnka forskot liðsfélagans Lewis Hamilton í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra.

 

Kimi Räikkönen hjá Ferrari vann tvö síðustu mót, franska kappaksturinn og þann breska og er 18 stigum á eftir Hamilton í keppni ökuþóra þegar átta mót eru eftir vertíðar. Honum hefur gengið illa í Nürburgring og hyggst breyta því nú. Árið 2003 hóf hann keppni á ráspól en féll úr leik í forystu seint í keppninni vegna vélarbilunar. Mótorbilun felldi hann einnig úr leik árið eftir en brotnaði fjöðrun í upphafi síðasta hrings 2005 og varð hann þar með af annars öruggum sigri.  Í fyrra komst hann loks á mark en varð fjórði.

 

Tvö lið hafa ekki unnið stig það sem af er ári, Spyker og Toro Rosso. Spurningin er hvort breyting verði þar á um helgina. Sömuleiðis hvort fimm ökuþórar, sem hafa heldur ekki komist á blað í ár, afli sér stiga;  Adrian Sutil, Vitantonio Liuzzi, Scott Speed, Anthony Davidson og Rubens Barrichello. Nýr ökuþór verður um borð í öðrum bíla Spyker í Nürburgring en þegar þetta var skrifað var sætinu óráðstafað.


Aðsókn dvínar ekki þótt Schumacher sé hættur

Það þótti mikill missir fyrir Þjóðverja er Michael Schumacher hætti keppni í formúlu-1. Búist var við að áhugi á formúlunni myndi dvína hér í Þýskalandi. Raunin er önnur því aðsókn að kappakstrinum í Nürburgring um helgina, miðað við forsölu aðgöngumiða, virðist ætla að verða meiri en nokkru sinni fyrr.Sala aðgöngumiða í forsölu í byrjun vikunnar var orðin 12% meiri en nokkru sinni áður. Skýrist það að hluta til af því, að í ár og í framtíðinni fer aðeins einn kappakstur fram í Þýskalandi ár hvert í stað tveggja undanfarin ár. Munu Nürburgring og Hockenheim skiptast á að halda mót annað hvert ár. Meðal áhorfenda í ár verður tæplega 40 manna hópur Íslendinga sem sækir mótið á vegum ferðaskrifstofunnar Ísafold. Þrátt fyrir að vera hættur keppni mun Schumacher þó verða viðstaddur keppnina í Nürburgring. Honum til heiðurs hefur fyrsti beygjuhlekkur brautarinnar verið nefndur eftir honum, svonefnt „Schumacher-S“. Mun hann setjast undir stýri og „vígja“ beygjuna með sérstökum hring í brautinni.

Stemmning þótt fjörið byrji ekki fyrr en á morgun

Það kom mér næstum á óvart hversu mikil stemmning var við Nürburgring brautina er ég rölti um keppnissvæpðið í dag. Fjölmenni á vettvangi þótt formúlubílarni verði ekki gangsettir fyrr en á morgun, föstudag. Þúsundum saman gengu áhorfendur um athafnasvæði keppnisliðanna og þjónustusvæðið. Margir duttu í lukkupott og unnu ferð um brautina á öflugum sportbílum. Erill var í kynningarbásum liðanna og talsverð viðskipti áttu sér stað í sölubásum þar sem seldar voru húfur, bolir og margt fleira, m.a. mesta þarfaþing formúlumóta, eyrnartappar.

 

Búast má við rimmu milli ökuþóra McLaren og Ferrari í Nürburgring um helgina. Þá hefur Nick Heidfeld hjá BMW varað stórliðin tvö við því að reikna ekki með hans liði á heimavelli. Það er brautin reyndar einnig fyrir McLaren vegna nálægðar höfuðstöðva Mercedes Benz sem eiga 40% í liðinu.

 

Sé litið á einstaka ökuþóra toppliðanna hefur Fernando Alonso hjá McLaren ekki fagnað sigri frá í Mónakó í maí. Og gengi hans hefur verið upp og ofan. Í tveimur síðustu mótum, Magny-Cours og Silverstone, lét hann þó hraustlega til sín taka. Með grimmum framúrakstri í fyrrnefndu brautinni og baráttu við Ferrari í þeirri seinni.

 

Lewis Hamilton er undramaður ársins og verið á verðlaunapalli í öllum mótunum níu sem lokið er. Vonbrigði þó hið síðasta; þriðja sæti á heimavelli í Silverstone. Hvað sem því líður er nýliðinn með 12 stiga forystu í stigakeppni ökuþóra.

 

Felipe Massa nýtur þess að Ferrari hefur náð sér á strik á ný og náð undirtökum í keppninni við McLaren. Hann á þó við þann reip að etja að Kimi Räikkönen hefur fundið rétta taktinn á ný og gerir grimmt tilkall til þess að teljast aðalökumaður Ferrari.

 

Räikkönen vann tvö síðustu mót og er upp á sitt besta. Þótt hann hafi ekki náð forystu í þeim báðum fyrr en í seinna þjónustustoppi virðist fátt ætla að stöðva hann. Í Nürburgring hefur hann þó eiginlega þann djöful að draga að hafa ekki komist á mark á  undanförnum árum þegar öruggur sigur virtist blasa við.

 

Hér eru bara nokkrir nefndir en fleiri hyggjast reyna keppa um fremstu sæti. Þar á meðal Heidfeld hinn þýski. Hann mun njóta góðs stuðnings í stúkum brautarinnar á heimavelli sínum og víst er að það léttir mönnum keppnina og hvetur.


Njósnir og meint spellvirki

Hafa njósnamálin áhrif á gang Ferrari? Ekki treysti ég mér til að leggja neina dóma á njósna- og skemmdarverkamál þau sem komið hafa upp á yfirborðið síðustu daga og snúast um Nigel Stepney, einn helsta tæknimann Ferrari í rúman áratug, og Mike Coughlan aðalhönnuð McLaren.

Málin virðast annars vegar snúast um stuld á teikningum og verklagsgögnum hjá Ferrari sem komið hafi verið í hendur Coughlan. Hins vegar um meinta tilraun Stepney til skemmdarverks á keppnisbílum Ferrari nokkrum dögum fyrir Mónakókappaksturinn.

Hvort tveggja eru grafavarleg mál og mikilvægt að fá sem skjótasta niðurstöðu. Ganghraði mála af þessu tagi á Ítalíu er hins vegar nokkurn veginn í öfugu hlutfalli við hraða formúlubíla og því getur maður allt eins búist við að einhver misseri líði áður en niðurstaða fæst. Sem er líka grafalvarlegt því reynist Stepney saklaus, eins og hann heldur sjálfur fram, fær hann seint uppreisn þeirrar æru sem Ferrari hefur svipt hann með málshöfðuninni og ítrekuðum yfirlýsingum um sekt, sem þó hefur ekki verið sönnuð - enda málið á byrjunarstigi, og ekki farið frá lögreglu til dómara.

McLaren má ekki vamm sitt vita og því setti liðið Coughlan af meðan á rannsókn málanna stendur. Sömuleiðis er starfsheiður hans í veði. Liðsstjórinn Ron Dennis þykir strangheiðarlegur maður og gat hann ekki varist tárum er hann þurfti að tjá sig um málið í Silverstone í gær, svo hefur það tekið á hann. Segir hann sér afar kært um heiður sinn og ekki síður - jafnvel meira - um heiður liðsins. Því taki það sig einkar sárt að nafn þess skuli bendlað við njósnir hjá Ferrari.

Innanbúðarrannsókn hjá McLaren hefur leitt í ljós, að gögnin frá Ferrari hafi aldrei í bílsmiðju liðsins komið og ekki verið notuð við þróun keppnisbílanna. Þau mun Coughlan hafa fengið í hendur seint í apríl. Dennis hefur opnað bílsmiðjuna fyrir Alþjóða akstursíþróttasambandinu (FIA) til að sannleikurinn megi koma í ljós og hann segist ekkert óttast; býst við engu öðru en FIA staðfesti sakleysi McLaren og aðildarskort þess að málunum.

Ítalskir fjölmiðlar segja frá því í dag, að fleiri starfsmenn Ferrari en Stepney séu til rannsóknar. Og málið kann að tengjast Hondaliðinu, en óbeint þó. Stepney átti tvo fundi með forsvarsmönnum þess í apríl og bauðst til að koma til starfa hjá japanska liðinu með sveit mjög færra en ótilgreindra manna. Einn þeirra sem hann nefndi mun sagður vera Coughlan, en þeir Stepney eru gamlir samstarfsmenn, allavega hjá Ferrari.

Ef til vill er þar skýringin fengin á gögnunum í fórum Coughlan, ef til vill kunna þeir að hafa verið byrjaðir að brugga ráð um Hondaför, það er þó bara tilgáta mín út í loftið og ekkert hef ég frekar fyrir mér um það. Fundir Stepney með Hondamönnum leiddu hins vegar ekki til þeirrar niðurstöðu sem hann vænti í vor og ganga má út frá því sem gefnu að liðið hafi lítinn áhuga úr þessu á þjónustu hans vegna málaferla Ferrari á hendur honum.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu málsins og hvort eða hver áhrif og afleiðingar þess verða.

Að lokum finnst mér Ferrari hafa mátt halda betur á málum gagnvart fjölmiðlum. Liðið stendur í yfirlýsingaþrasi við Stepney í stað þess að leyfa lögreglurannsókn að hafa sinn framgang. Þá sagði það ensku lögregluna hafa framkvæmt húsleit hjá Coughlan en varð að éta það ofan í sig nokkrum dögum seinna og taka sérstaklega fram að enska lögreglan hafi ekki komið við sögu rannsóknarinnar. 

Það á annars ekki af Ferrari að ganga í svona málum því í apríl voru tveir fyrrverandi starfsmenn liðsins, Mauro Iacconi og Angelo Santini, fundnir sekir af því að hafa farið með leyndarmál Ferrari með sér er þeir réðust til starfa hjá formúluliði Toyota. Japanska liðið vék þeim úr störfum áður en málið varð opinbert. Þeir voru dæmdir af undirrétti í Modena á Ítalíu - þar sem réttarhöld bíða Stepney og Coughlan - en Iacconi og Santini hafa áfrýjað þeim dómi.


Renaultinn eða Alonso?

Fróðlegt verður að sjá hvernig Fernando Alonso vegnar í bandaríska kappakstrinum. Hann hefur ekki af miklu að státa Indianapolis. Í sex tilraunum hefur hann aðeins einu sinni komist alla leið í mark; í fyrra, í fimmta sæti. 

Svo virðist sem hann standi betur að vígi nú á McLarenbílnum. Renaultinn virtist aldrei passa brautinni í Indianapolis. Tekst honum að hrista af sér slyðruorðið? Verði hann slappur getur hann ekki skrifað lánleysi síðustu ára á Renaultinn. Allra síst ef Lewis Hamilton brillerar á sama tíma og hann klikkar.

Það verður spennandi að fylgjast með í kvöld.


Kaupir kappakstursbrautir fyrir stóru sneiðina sem hann tók sjálfum sér

Spáð í spilinBernie Ecclestone, sem ég hef löngum kosið að kalla alráð formúlunnar, er ekki á flæðiskeri staddur. Kaupir kappakstursbrautir eins og ekkert sé til að ávaxta pundið sitt. Allt í lagi með það og bara hægt að samgleðjast honum. Nema hvað til fjárfestingarinnar notar hann  líklega fjármuni sem hann hefur tekið út úr formúlunni í eigin vasa í stað þess að gefa liðunum meira í aðra hönd af gróðanum af sölu sjónvarpsréttinda og alls kyns sölustarfsemi tengdri íþróttinni. 

Nú mega menn ekki misskilja mig og halda að ég líti á karlinn sem arðræningja. Alls ekki og liðin geta þakkað honum fyrir að gera formúluna að því viðskiptaveldi sem hún hefur orðið undir hans stjórn; fyrir áhuga hans, hugmyndaauðgi og útsjónarsemi.

Auðvitað eiga menn að selja hlutina sem dýrast til að hámarka hagnaðinn, ekki standa í einhverjum 25 aura bissness. [Þetta er þó eitthvað sem mér hefur aldrei hugkvæmst að beita í mína eigin þágu!].

En á sama tíma og peningastaflarnir hafa hrúgast upp í fjárhvelfingum Ecclestone [maður sér fyrir sér teiknisögur af Jóakim frænda úr Andrésarblöðunum] hefur hvert keppnisliðið á fætur öðru hrökklast úr íþróttinni vegna fjárskorts. Maður sér á eftir frumkvöðlaliðum á borð við Arrows, Prost, Minardi, Jordan, Stewart og Sauber sem öll voru með í keppni í byrjun aldarinnar.

Fjögur af þessum sex liðum eru raunar áfram við lýði en undir merkjum stórra viðskiptasamsteypa sem eru ekki með í formúlunni á "ungmennafélagsandanum" einum, heldur eru þau fyrst og fremst markaðstæki núverandi eigenda sinna; notuð til að auglýsa m.a. orkudrykki! 

Mér finnst sem sagt, að kaup Ecclestone á kappakstursbrautinni í Istanbúl fyrir um 12 milljarða króna og Paul Ricard-brautinni nálægt suðurströnd Frakklands dæmi um að hann hafi haldið einum  of stórum skerf af formúlukökunni hjá sér. Fyrir utan þetta á hann miklar og dýrar fasteignir í miðborg London og víðar.     


Formúlan og jafnréttið

Samkvæmt nýjum samningi um starfsemi Ríkisútvarpsins ohf. ber RÚV að gæta jafnræðis kynjanna í umfjöllun um íþróttir og íþróttaviðburði. Ætli þar sé fundin skýringin á því hvers vegna RÚV verður af formúlunni?

Af hálfu fyrirtækisins hafa engar skýringar veri gefnar á því hvers vegna Sjónvarpið verður af formúlunni sem það hefur sýnt frá af myndarskap í brátt 11 keppnistíðir. Það hlýtur að hafa boðið í sýningarréttinn sem Sýn hefur hreppt næstu árin. Ef ekki hefði RÚV örugglega sagt frá því.

En bæði útvarpi, sjónvarpi og blöðum hefur verið legið á hálsi, og það með gildum rökum, að þessir fjölmiðlar hafi ekki gætt tilhlýðilegs jafnvægis milli kynja og/eða einstakra greina í umfjöllun um íþróttir.

Nú hefur kraftmikill menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem gerði garðinn frægan með ÍR snemma á níunda áratugnum, gert það sem í hennar valdi stendur til að ráða bót á þessu við kaup á þjónustu af Ríkisútvarpinu ohf.

Ef það er tilviljun að það beri upp á þessi tímamót að RÚV missir formúluna þá er það undarleg tilviljun. Þetta eru tímamót sem jafnréttissinnar munu eflaust fagna því til efs er, að nokkur önnur íþrótt sé jafnmikið karlasport. Karlar eru í öllum aðal- og aukahlutverkum. Á mótsstað rekst maður að tjaldabaki á stöku konu við bílskúra og á athafnasvæðum liðanna. Hlutverk þeirra er nær eingöngu bundið við að dreifa til blaðamanna fjölrituðum upplýsingum og kommentum frá ökuþórum og liðsstjórum um æfingar, tímatökur og keppni.

Þótt þær séu starfi sínu örugglega vel vaxnar og eldklárar þá hefur mér oftast fundið sem þessar konur væru meira upp á punt hjá liðunum. Þær falla yfirleitt að einhverri formúlu um lengd, breidd og hæð og eru helst af ljósara taginu. Þar sér maður t.a.m. aldrei feitar konur eða ljótar, enn síður svartar eða gular á hörund svo eitthvað sé nefnt.   

Þrátt fyrir að karlmennskan fái notið sín í æsar í formúlunni sýna allar rannsóknir og mælingar, að áhuginn á henni er ekki bundinn við karla. Hann er ekki síðri hjá konum, það er staðreynd. Og um margt er hún fjölskyldusport því börnin hafa ekki síður gaman af.


Vonandi þróast keppnin og verður fljótt meira spennandi

Kimi hafði yfirburði og stakk af strax eftir ræsingu í Melbourne.Jæja, þá er ballið byrjað á ný. Auðvitað hafði maður beðið spenntur mánuðum saman og búinn að telja sér trú um, eins og venjulega, að keppnin yrði fjörleg. Ökuþórarnir myndu bjóða upp á rokk og tjútt, svo fór þó ekki og lítið fannst mér fjörið á dansgólfinu. Það sem eftir situr í huganum þremur dögum seinna eru minningar um yfirburði Kimi Räikkönen og ljómandi góð byrjun Lewis Hamilton.

Hélt satt að segja að bílarnir yrðu miklu jafnari og keppnin því tvísýnni. Niðurstaðan sú að aðeins hlutverkaskipti hafa átt sér stað frá í fyrra og bilið áfram stórt milli einstakra liða. Framfarir hjá McLaren, BMW og Super Aguri og nokkrar hjá Williams. Toyota, Spyker, Red Bull og Toro Rosso á sínum stað um og aftan við miðju, en gríðarleg afturför hjá Honda og þó nokkur hjá Renault.

Á toppnum er ljóst, að Ferrari hefur tekist að halda þræðinum áfram þar sem frá var horfið í fyrra en Renault dalað. Þessi tvö lið voru einráð í fyrra. Mesta breytingin milli þeirra er að Ferrari er áfram með tvo góða ökuþóra, toppmaður er farinn frá Renault sem í staðinn er með nýliða sem klikkaði eins mikið og hægt var. Mér hefur aldrei þótt Fisichella nema miðlungs góður en hann fær prik fyrir að halda Massa fyrir aftan sig á síðustu hringjunum. Þar sýndi hann styrkleika á lakari bíl.

Renault munar um að hafa misst Alonso en að sama skapi hefur McLaren stórgrætt. Hann er enn banhungraður og hvötin mikil að gera góða hluti með nýju liði. Räikkönen var búinn að missa áhugann eftir þrjú til fjögur mót í fyrra en nú ætti hann að verða bardagaglaður í ár á góðum bíl og sigur í fyrsta móti gefur honum mikinn byr í seglin.

Stuðningsmenn Ferrari eru ugglaust með hýrri há og unnendur McLaren bjartsýnni en í fyrra. Þar sem ég held hvorki með liði og tæpast með ökuþór þá varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum með mótið vegna þeirrar litlu keppni sem þar átti sér stað í betri helming bílahópsins. Jákvæðu hlutirnir eru framfarir McLaren og Super Aguri og frábær akstur Hamiltons.

Mér hefur fundist mikið spunnið í Kovalainen frá í GP2-mótunum og miklar vonir hafa verið bundnar við hann. Kannski óraunhæfilega miklar því honum hefur verið ætlað að veifa þeim gunnfána sem Alonso flaggaði svo glæsilega. En þessi geðugi piltur, sem ég hef hitt og kynnst lítillega, brást algjörlega að þessu sinni. Mikilvægt er fyrir hann að gera mun betur strax í næsta móti - og það vona ég - svo hann missi ekki kjarkinn sem til þarf í toppslaginn. 

Nú er bara að vona, að fyrsta mótið segi ekki alla söguna um stöðu formúlunnar; að keppnin eigi eftir að jafnast mun meira. Maður verður að hafa biðlund og gefa því þrjú til fjögur mót eða svo. Enda munu liðin breyta bílum sínum nokkuð eftir tvö til fjögur mót og búa þá nýjungum, sem orðið hafa til vegna bílprófana í aðdraganda keppnistímabilsins.

Maður vonar bara að sviptingar verði meiri og dansinn fjörlegri þegar kemur að mótunum í Evrópu. 

 

  


Batnandi manni best að lifa

Það er athyglisvert að lesa um iðrun Michaels Schumacher vegna atviksins í Jerez 1997 er hann freistaði þess að verða heimsmeistari ökuþóra í formúlunni með bíræfnum bellibrögðum. Hingað til hefur hann þóst sakleysið uppmálað og sagt að um akstursóhapp hafi verið að ræða.

Batnandi mönnum er best að lifa, var það fyrsta sem mér datt í hug við lesturinn. Og bíð nú eftir að meistarinn mikli játi annað samskonar atvik fjórum árum fyrr í Adeleide í Ástralíu. Frá því slapp hann reyndar án refsingar og hampaði titlinum í það skiptið, í fyrsta sinn á ferlinum.

Fæstum þótti það gerlegt á sínum tíma að ökuþórar reyndu að keyra náungann út úr brautinni með þeim hætti sem átti sér stað í Adeleide. Meðal annars vegna þess að tveir ökuþórar höfðu látið lífið á einni mótshelgi hálfu ári áður og formúlan hálflömuð ennþá vegna þess.

Í ljósi atburða síðar meir hvarflar vart annað að málsmetandi mönnum en að atvikið í Adeleide hafi verið eitthvað annað en óviljaverk. Með sama hætti og hann hefur alltaf - þar til nú - neitað sök varðandi Jerez hefur hann aldrei ljáð máls á öðru en atvikið í lokamótinu 1994 hafi verið óviðráðandi óhapp.

Schumacher er óumdeilanlega afburða ökuþór og einstakur afreksmaður. Og það alveg burtséð frá tveimur umræddum atvikum. Og ef eitthvað er finnst mér hann maður að meiri og jafnvel aukast í áliti með játningu sinni nú. Sá sem ekki iðrast ósæmilegar gjörðir er ekki við bjargandi. Schumacher fellur ekki í þann flokk, alla vega ekki lengur, að mínu mati.

Eftir að hafa marglesið og skoðað upptökur af atvikinu í Adeleide á árum áður og líka eftir bellilbrögð hans í Mónakó síðastliðið vor fer ég ekkert ofan af þeirri skoðun að hann hafi unnið einvígið um titilinn 1994 við Damon Hill með brögðum.  Titilslagur þeirra það ár var harður og skemmtilegur, sama hvor þeir vann. Ekkert síðri rimma en keppni Alonso og Schumacher í ár - og jafnvel meira spennandi.  

Schumacher segist nú engu sjá jafn mikið eftir og er hann freistaði þess að keyra Jacques Villeneuve hjá Williams út úr brautinni í Evrópukappakstrinum 1997 í Jerez á Spáni. Atvikið átti sér stað frammi fyrir urmul sjónvarpsmyndavéla og sást greinilega frá öllum vinklum hvernig hann reif í stýri sitt og lagði inn í bíl Villeneuve rétt fyrir beygju nokkra. Freistaði hann þess að keyra báða úr leik. Við það hefði hann hlotið heimsmeistaratitilinn þriðja sinni.

Tilraunin mistókst hins vegar og ólíkt því sem var í Adeleide voru myndavélarnar of margar sem sýndu og sönnuðu illan ásetning meistarans. Framferðið þótti það bíræfin að Schumacher var sviptur öðru sætinu í keppninni um heimsmeistaratitilinn og árangur hans á árinu öllu strikaður út. Fróðlegt verður að sjá hvort frekari játningar eigi sér stað á næstunni.


Jötnar slást í Suzuka

Fyrir þá sem vilja spennu og dramatík í keppni um íþróttasigur getur staðan vart verið betri í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra í formúlu-1. Þegar aðeins tvö mót eru eftir af 18 eru Michael Schumacher hjá Ferrari og Fernando Alonso hjá Renault jafnir að stigum. Búast má við jötnaslag þeirra í millum í Suzuka um helgina.

 Schumacher gæti var látið sig dreyma um betri úrslit í Suzuka en að hið sama gerðist og í ítalska kappakstrinum í Monza fyrir mánuði. Þar fór hann með sigur af hólmi en Alonso féll úr leik vegna mótorbilunar sem var nýmæli í annars endingartraustum Renaultinum.  

Draumaúrslit Schumacher væru jafnframt martröð Alonso því slík endurtekning þýddi að Schumacher yrði í raun orðinn heimsmeistari áttunda sinni á sunnudagskvöld. Tæki aftur til sín titilinn sem Alonso vann í fyrra yngstur ökuþóra sögunnar. Með 10 stiga forystu fyrir lokamótið gæti hann sleppt að keppa þar sem hann hreppti titilinn út á einum sigrinum fleira en Alonso yrðu þeir jafnir þegar upp verður staðið í vertíðarlok. 

Titilkandídatarnir hafa hlotið 116 stig hvor en þar skilur í sundur að Schumacher hefur unnið einu móti fleira, 7 gegn 6, þegar mótin í Suzuka um helgina og Sao Paulo í Brasilíu eftir hálfan mánuð eru eftir. Keppnin á lokametrum vertíðarinnar hefur vart verið jafnari um árabil.

Sams konar staða var uppi 1998, þá voru Schumacher og Mika Häkkinen hjá McLaren jafnir að stigum er tvö mót voru eftir. Í þeim hafði Häkkinen betur og vann sinn fyrsta titil. Hann vann og aftur árið eftir og Schumacher varð að bíða til þúsaldarársins til að vinna sinn fyrsta titil sem ökuþór Ferrari. Vann hann titilinn síðan fimm sinnum í röð eða þar til Alonso ók til sigurs í fyrra.    

Báðir ökuþórarnir hafa allt að vinna í Suzuka. Og þeir vita að með einum mistökum eða lítilvægri  bilun gæti í einu vetfangi allt það sem þeir hafa á sig lagt frá vertíðarbyrjun í mars til að vinna titilinn verið unnið fyrir gíg.  

Þótt flestir telji að titilbaráttan ráðist ekki fyrr en í Sao Paulo 22. október þykir alveg ljóst að um risaslag verði að ræða í Suzuka; keppni jötna undanfarinna ára í formúlu-1. Fer vel á því að Suzuka-brautin verði kvödd með tilþrifum en frá og með næsta ári fer japanski kappaksturinn fram í Fuji-brautinni. 

"Ég held fólk hafi viljað fá spennandi keppni um titilinn í ár og það er það sem því er nú boðið upp á,” segir heimsmeistarinn Alonso í forspjalli Renaultliðsins fyrir Suzuka. “Geta bíla beggja er mjög áþekk og því munu dekkin ráða úrslitum í lokamótunum tveimur. Michelin hefur staðið sig frábærlega vel í Suzuka nokkur undanfarin ár og ég hef góða tilfinningu fyrir helgina. Við erum fullir sjálfstraust hjá Renault og hið sama á við um þá hjá Ferrari. Við skulum því bíða og sjá hvað gerist,” bætir Alonso við.  

Schumacher hefur hrósað sigri oftar en nokkur annar ökuþór í Suzuka. Fyrsta sigurinn vann hann á Renault-knúnum Benettonbíl árið 1995 og fimm sinnum hefur hann komið fyrstur á mark þar á Ferraribíl. 

Alonso hefur best náð þriðja sæti í Japan, en í því varð hann í fyrra. Hann segir afrekaskrá Schumacher í Suzuka ekki hrella sig neitt og vísar til þess að í fyrra tók hann tvisvar fram úr honum í keppninni þar sem var ein sú tilþrifamesta á vertíðinni.

 Báðir segja Suzuka-brautina með þeim skemmtilegustu. "Hún krefst mikils af ökuþórnum, líkamlega og tæknilega. Þetta er eitt af þeim mótum sem sérhver ökuþór vill vinna – það hef ég ekki enn gert, " segir Alonso. 

“Hvað aksturstækni varðar þá elska ég Suzuka. Brautin er frábær," sagði Schumacher í aðdraganda mótsins. "Bíllinn okkar hefur verið góður undanfarið og við verðum að sjá hvort okkur tekst að nýta dekkin eins vel og á öðrum brautum," bætti hann við.  

Þótt einvígi Schumacher og Alonso sé það sem allra augu beinist að fyrir mót helgarinnar er öðrum ökuþórum áfram um að komast á verðlaunapall og jafnvel ryðja þeim úr vegi. Ferrari og Renault hafa sín á milli unnið öll mót ársins nema ungverska kappaksturinn sem Jenson Button á Honda vann. Hefur Ferrari unnið sex af síðustu sjö mótum árins.  

Button og liðsfélagi hans Rubens Barrichello gætu reynst skeinuhættir í Suzuka en þar munu þeir leggja allt í sölurnar því var gætu þeir fært liði sínu betri árangur en sigur þar, í brautinni sem  Hondaverksmiðjurnar eiga. Mæta þeir til leiks með nýja og mun öflugri útgáfu af mótor í bílum sínum.

  Kimi Räikkönen hjá McLaren vann stórgóðan sigur í fyrra. Hóf keppni í 17. sæti en klifraði jafnt og þétt upp röðina uns hann komst fram úr Giancarlo Fisichella hjá Renault á síðasta hring. Fisichella má heldur ekki afskrifa um helgina eftir annað sætið í síðasta móti, í Sjanghæ fyrir viku. 

Räikkönen tekur við sæti Schumacher hjá Ferrari á næsta ári en sæti hans hjá McLaren fyllir Alonso. McLarenþórinn stendur frammi fyrir líklega sínum besta möguleika á mótssigri á árinu, en á efsta sæti verðlaunapalls hefur hann ekki staðið frá í Suzuka fyrir ári. Með sigri myndi hann og koma í veg fyrir að McLaren fari sigurlaust frá keppnistíð í formúlunni í fyrsta sinn frá árinu 1996. Mun hann njóta stuðnings McLaren sem vill bæði losna út úr sigurþurrð en jafnframt að Alonso komi sem heimsmeistari til sín á næsta ári. 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband