Af hverju kemur enginn hlutlaus Schumacher til varnar?

Ég held ég sleppi því að fella dóma um Michael Schumacher og framferði hans í tímatökunum í Mónakó. Læt það duga að dómarar keppninnar hafa gert það. Þeir eru líklega þeir einu sem hafa öll gögn til að úrskurða í málinu. Meðal annars upplýsingar frá hátt í 200 skynjurum úr bíl Schumachers. Auk þeirra hefur og fjöldi sérfróðra manna, þar á meðal hver fyrrverandi heimsmeistarinn í formúlunni á fætur öðrum, lýst því yfir að Schumacher hafi vísvitandi klúðrað einni hægustu beygju ársins til þess að skemma tímatökuna fyrir keppinautum sínum.


Þetta eru þungar ásakanir málsmetandi manna sem vonandi eru lausir við fordóma. Ég er ekki í stakk búinn til að dæma um sekt Schumachers eða sýknu. Fylgist bara með og pæli í málinu eins og aðrir formúluunnendur. Ótal spurningar leita þó á hugann? Ef rétt er þá spyr maður sig - og það sem gamall íþróttamaður - hvernig í ósköpunum afreksmönnum á borð við Schumacher dettur í hug þvílíkt svindl? Maður sem unnið hefur allt sem hægt er að vinna og þarf ekkert að sanna. Getur sigurfíknin virkilega hlaupið jafn rækilega með menn í gönur?


Í einfeldni minni verð ég að segja að ég á erfitt með að trúa að hann sé svo illa innrættur. Og hafi verið um vísvitandi svindl að ræða þá spyr ég hverjir aðrir en Schumacher áttu hlut að máli? Var um frumkvæði upp á eigin spýtur að ræða? Er það virkilega mögulegt í svo sögufrægu og virtu liði sem Ferrari? Var ekki einhver eða einhverjir í vitorði með honum? Getur annað verið? Ef hann hefur vísvitandi ætlað að skemma tímatökurnar fengi hann þá að komast upp með það gagnvart liðinu, ef hann hefur verið algjörlega einn að verki?


Spurningar af þessu tagi leita á hugann. Svar við þeim fæst víst líklega aldrei. Nema í sjálfsævisögu Schumacher eða annarra lykilmanna hjá Ferrari þegar þær koma út eftir einhver ár. Er það kannski nauðsynleg aðferð til að ná árangri í formúlunni að beita brögðum? Er það forskriftin að því að verað bestur? Því trúi ég reyndar ekki.


Ég horfði á Jean Todt í beinu samtali í upphitun franska sjónvarpsins TF1 fyrir útsendinguna frá kappakstrinum í dag. Hann var spurður fram og aftur um málið. Virðingarvert var að hann skyldi vilja ræða það. Mér fannst hann þó ekki sannfærandi, tafsaði og virtist jafnvel pínulítið miður sín. Tilsvörin voru hikandi og látbragðið einkennilegt. Það var til dæmis fátt um svör þegar hann var spurður hvort áhorfendur ættu að trúa því að sjöfaldur heimsmeistari gæti gert akstursmistök af þessu tagi á 50 km hraða í einni hægustu beygju allrar formúluvertíðarinnar?


Todt sagði að virða yrði niðurstöður dómaranna og hann ætlaði ekki að velta sér upp úr henni þótt liðið væri henni ósammála.


Þá sýndi stöðin hvernig Schumacher ók með allt öðrum hætti inn að Rascasse-beygjunni í þetta eina skipti en öll önnur, þannig að ekki var um annað að ræða en klúðra henni. Annar lýsenda stöðvarinnar, fyrrverandi formúluþórinn Jacques Laffite, sagði augljóst mál um að viljaverk hafi verið að ræða, þetta gætu ekki hafa verið mistök.


Það vakti svo auðvitað athygli mína að í kappakstrinum ók Schumacher 78 sinnum vandræðalaust gegnum beygjuna.


Niki Lauda, fyrrverandi meistari, sagði slíkt hið sama á RTL-stöðinni og Laffite á þeirri frönsku. Og gaf lítið fyrir útskýringar Schumacher. Fleiri fyrrverandi heimsmeistarar hafa tjáð sig. Niðurstaða þeirra er á einn veg; Schumacher var brotlegur. Ekki treysti ég mér til að deila við þá. Og ég hef leitað að því í allan dag hvort einhver kæmi Schumacher ekki til varnar utan forystumanna Ferrari og umboðsmanns hans.


Enginn núverandi keppenda ber blak af Schumacher


Sú leit hefur því miður engan árangur borið. Enginn málsmetandi maður sem á ekki beinna hagsmuna að gæta hefur gengið í lið með honum. Enginn! Enginn núverandi keppnisþóra hefur heldur borið blak af honum. Margir þeirra hafa hins vegar gagnrýnt hann og segjast skammast sín vegna atviksins. Tala jafnvel um högg fyrir neðan beltisstað. Eða líkt því við það þegar Mike Tyson beit eyra af andstæðingi sínum í keppni í hnefaleik. Þar með eyðilagði þungaviktarmeistarinn feril sinn og orðstír endanlega.


Er Schumacher ef til vill í þeirri stöðu að vera einn um að segja sannleikann. Eins og Galileo Galilei forðum er hann hafði áttað sig fyrstur allra í heiminum að jörðin væri hnöttur en ekki eins og pönnukaka? „Hún snýst nú samt,“ sagði Galileo er hann var dæmdur fyrir villutrú. Nú vita allir að hann hafði rétt fyrir sér og engum dettur líklega í hug að jörðin sé flöt. Á Schumacher eftir að fá uppreisn sem hann?


Eða er Schumacher með framferði sínu að grafa undan sjálfum sér. Er hann sjálfum sér verstur? Hann segist eiga óvini út um allt, líka meðal ökuþóra, og þeir séu fordómafullir. En er einhver þeirra meiri óvinur hans en hann sjálfur? Upp virðast koma umdeild atvik aftur og aftur á ferli hans,  svona eiginlega nokkurn veginn um leið og farið er að fyrnast yfir þau fyrri. Og við það rifjast mörg hinna fyrri óhjákvæmilega upp.


Gömul atvik rifjuð upp


Upp í hugann koma mörg fyrri furðuleg atvik sem maður hefur m.a. séð í sjónvarpi. Þar sem hann á að hafa komið í veg fyrir að aðrir yrðu meistarar í hans stað (Damon Hill í Adeleide 1994) eða reynt að koma í veg fyrir að menn yrðu meistarar í hans stað (Jacques Villeneuve í Jerez 1997).


Allt þetta og meira rifjaði þýska sjónvarpsstöðin RTL upp í dag í tilefni uppákomunnar í Mónakó. Schumacher slapp með atvikið 1994 enda fékk hann að njóta vafans. Hann fékk hins vegar þunga refsingu 1997 er hann lagði inn í Villeneuve. En í ljósi þess sem síðar hefur gerst telja fáir nú að atvikið 1994 hafi verið slys.


Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála á næstunni. Ökuþórarnir koma saman til fundar í Silverstone eftir hálfan mánuð og ráða ráðum sínum. Sumir hafa sagt að Schumacher verði að hverfa þar úr leiðtogahlutverki. Eigi hann ekki frumkvæði að því sjálfur muni slíkt verða lagt til. Og gefi hann ekki eftir muni einhverjir jafnvel segja sig úr þessu hagsmunafélagi keppnisþóranna. Best er engu að spá en bíða bara og sjá.


Því er svo við þetta að bæta, að síðdegis í dag, rúmum sólarhring eftir atvikið umdeilda og allt fárið, baðst Schumacher afsökunar á því sem gerðist í tímatökunum. En sat við sinn keip og hélt fram sakleysi sínu. „Allir þeir sem halda að það hafi verið ásetningur minn að eyðileggja hring [Fernando] Alonso hafa á röngu að standa. Og við þá get ég aðeins sagt, „mér þykir leitt hvað gerðist“,“ sagði Schumacher.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í þessari upptalningu vafasamra atriða í aksturslagi Schumachers má ekki gleyma nauðhemluninni í göngunum í Monaco fyrir tveim árum, þegar hann fiskaði árekstur við Alonso. Hann var þá orðinn hring á eftir og hafði engu að tapa en allt að vinna með því að keyra Alonso út úr keppninni.

Þorsteinn Tómas Broddason (IP-tala skráð) 29.5.2006 kl. 08:29

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Það mun víst vera af nógu að taka en þetta voru kannski stærstu málin sem ég nefndi. Það er m.a. að finna yfirlit á vef BBC frá í gær undir yfirskriftinni "Blettótt saga Schumacher" á slóðinni http://news.bbc.co.uk/sport1/hi/motorsport/formula_one/5024532.stm

En til leiðréttingar þá fékk Schumacher Montoya aftan á sig í göngunum í Mónakó 2004. Hann mun víst hafa hægt á sér með þeim afleiðingum að Montoya rakst utan í hann er hann reyndi að fara innanvert fram úr. Schumachar flaug utan í vegg svo bíllinn laskaðist en gat ekið heim að bílskúr. Montoya kláraði og varð fjórði, en meira en hring á eftir Jarno Trulli sem vann, þá hjá Renault.

Vissulega klessti Alonso óþyrmilega á vegg í göngunum fyrr í kappakstrinum en það var eftir tilraun til að komast fram úr öðrum Schumacher, Ralf. Trulli var með forystu þegar það gerðist en Alonso annar.

Ágúst Ásgeirsson, 29.5.2006 kl. 09:23

3 identicon

Já þetta er rétt. Maður er að verða svo skeptískur á Michael að maður er farinn að kenna honum um syndir litla bróður líka

Þorsteinn T. Broddason (IP-tala skráð) 29.5.2006 kl. 09:50

4 identicon

Mér fróðari menn þmt fyrrv. heimsmeistarar hafa nefnt að Schumacher sé einn besti ökumaður heims, þegar pressan er engin. En sé mjög mistakagjarn ef sett er pressa á hann. Nú á hann smá séns á enn einum meistaratitlinum en ekki mjög góðan. Hann veit að bíllinn er ekki slakari en hjá Renault, samt er Alonso örlítið á undan. Það er pressa. Við eigum eftir að sjá fleiri axarsköft frá honum.

bjorn (IP-tala skráð) 29.5.2006 kl. 16:51

5 identicon

Ég á erfitt með að trúa því að hann hafi gert þetta viljandi, hinsvegar er ekki hægt annað en að vera svolítið hissa á aksturslínunni að beygjunni og sérkennilegum stýrishreyfingum sem virtust verða þess valdandi að bíllinn hætti að taka beygjuna sem dekkinn voru byrjuð að beina honum í gegnum.
Það er búið að hafa það eftir einum af dómurunum að hann hafi hemlað 50% meira á þessum stað í þessum hring heldur en öllum hinum hringunum og hafi verið á 16 km hraða þegar "mistökin" áttu sér stað?????
Ég er og verð Schumacher maður því að þó að hann verði alltaf umdeildur er ég sannfærður um að hann getur gert hluti á formúlu bíl sem fáir leika eftir og unnið sigra án þess að hafa besta bílinn á brautinni.
Alonso er mjög góður ökumaður en hann hefði samt ekki orðið meistari í fyrra nema vegna þess að hann hafði áberandi besta og áreiðanlegasta bílinn allt tímabilið og á þeim bíl hefðu nokkrir af núverandi ökumönnum getað orðið meistarar.
Undir pressu þá hefur Schumacher yfirleitt keyrt á 110% getu bílsins og skrýtnir hlutir hafa þá stundum komið fyrir.:)

Siggi (IP-tala skráð) 30.5.2006 kl. 09:44

6 identicon

Manni finnst ansi undarlegt að Schumacher segir mistökin hafa gerst vegna þess að hann hafi farið á of miklum hraða í beygjuna, eins og ég las í einhverjum fjölmiðlinum um helgina, þegar síðan kemur í ljós að hann hafi í raun verið á 16 km hraða.
Ég treysti þessum manni ekki fyrir fimm aura. Hann hefur stundað undarlegt aksturslag mörgum sinnum í gegnum tíðina til að reyna að hlekkja á sínum keppinautum og verður síðan brjálaður sjálfur ef einhver vogar sér að vera fyrir honum. Ekki mjög íþróttamannsleg hegðun.

Dísa (IP-tala skráð) 31.5.2006 kl. 11:16

7 identicon

já summi er brellóttur og oft skilur maður ekki það sem hann gerir. Enn skilur enhver afhverju senna keyrði fyrir prost og var honum refsað? Nei það er ekki allaf hægt að skilja kollinn á þessum mönnum en það sem mér þykir skrínast íþessu er að hann var í stórhættu að fá bíl á sig í þessari beygju það eru örugglega skárri og hættuminni aðferðir til.
Svo erþað alltaf þanig að summi er fremstur og mun verða umdeildur og ásakaður um ásetning og tala um að gömlu hetjurnar hefðu aldrei látið sér detta svona hegðun í hug t.d. framúrakstrarnir á barra þá var oft talað um fangio sem hinn siðprúða íþróttamann sem hann var en í eit skipti þegar hans bíll bilaði var ákveðið að einn liðsfélaginn hætti og fangio fengi bíllinn hans. gaman að sjá upplitið á mönnum þá

Tolli (IP-tala skráð) 1.6.2006 kl. 21:59

8 identicon

Merkilegur þykir mér tepruhátturinn á bæði bílstjórum formúlunnar og einnig þeim sem aðdáendum sem eru í nöp við Schumacker. Hægt er að taka hvern bílstjóra fyrir og finna einhvað að honum og hans háttarlagi á brautinni, veit ekki betur en allaveganna tveir aðrir bílstjórar hafi fengið refsingu í sumar í tímatökum fyrir það að hafa vísvitandi hindrað aðra ökumenn í tímatökuhring og ekki væla menn eins mikið yfir því, skrítið að ekki skuli jafnt yfir alla ganga.
Sem sannur Schumacker aðdáandi þá verð ég að segja að mér þótti þetta ekki fallega gert af honum, og hefði betur bara dólað sér á undan þeim hinum til að eiðileggja fyrir þeim tímatökuhringinn eins og hinir bílstjórarnir gera ;o)

(Held að þeir sem fengið hafa þessa refsingu séu Fisichella í síðasta móti og Villeneuve einhvertímann í vor).

Tittur (IP-tala skráð) 2.6.2006 kl. 18:01

9 identicon

Hér er linkur á góða grein sem menn ættu að lesa.
http://www.sportinglife.com/formula1/news/story_get.cgi?STORY_NAME=formula1/06/05/30/manual_165704.html

Schumi (IP-tala skráð) 7.6.2006 kl. 18:04

10 identicon

Alskostar furðulegt að hann sjúmmi hafi ekki farið eins í gegnum þessa hægustu beygju og bremsað eins og hann átti að gera áður, því eins og menn vita þá klikkar sjúmmi aldrei. Þetta var auðvitað allt útpælt áður. Ég er alveg viss um að þegar mistök manna eru skoðuð þá gera þeir eitthvað öðruvísi enn þeir eru vanir - nema kannski sjúmmi.
Ágúst minn, það er nokkuð átakanlegt að heyra þig segja að þú ætlir engan dóm að fella, en ekki þarf að lesa lengi til að finna fyrir miklum áróðri til að finna ákveðna niðurstöðu í málinu.

Siggi (IP-tala skráð) 21.6.2006 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband