Bernie boðar messufall í Mónakó

Bernie Ecclestone er sagður íhuga að hætta formúlukappakstri í Mónakó. Hann segir furstadæmið á Frakklandsströnd ekki borga nógu mikið fyrir mótið.

Keppt hefur verið í formúlu-1 í Mónakó frá árinu 1955 og þætti mörgum sjónarsviptir ef hætt yrði keppni þar. Það má vel vera rétt en mér yrði nokkuð sama. Ekki síst ef tækist að finna nýja kappakstursbraut þar sem keppni gæti verið skemmtileg og spennandi. 

Sjaldan eða aldrei hefur mér fundist keppni í Mónakó spennandi. Eftir að tímatökum er lokið hefur mátt með góðri vissu segja til um úrslitin. Spurningin hefur einungis verið hvort mönnum yrðu þar á mistök er stokka myndu upp röðina. Því myndi ég alls ekki sjá eftir mótinu þaðan - eins og ég hef reyndar nokkrum sinnum bloggað um dagana.

Ecclestone hefur verið áfram um að koma keppni til nýrra landa, svo sem í Asíu nær og fjær en þar hafa yfirvöld reynst liðugri með budduna en einkaaðilar í t.d. Evrópu og Bandaríkjunum. Þar vilja margir fá formúlukappakstur til sín.

En þar sem í mesta lagi er hægt að hafa 20 mót á ár vantar Ecclestone eiginlega að losna við nokkur evrópsk mót. Því þykir nú til greina koma að slaufa Mónakó - hvort sem mikil alvara er í þeim yfirlýsingum hans eða ekki. „Ég held það sé mögulegt að formúlan lifi án Mónakó,“ hefur vefmiðillinn  Sport1 eftir honum. „Þeir borga ekki nóg,“ bætir hann við en hingað til hefur ekki þótt skorta á ríkidæmið í Mónakó eða fréttir farið af fjárþröng.

Á næstu tveimur árum bætast við mót í Indlandi og Bandaríkjunum og Ecclestone hefur verið að þreifa fyrir sér með mótshald í Rússlandi og Suður-Afríku. Og því er Mónakó ekki eina Evrópumótið sem er í hættu. „Evrópumenn verða að borga meira fyrir mótin, annars förum við eitthvað annað með þau,“ segir Ecclestone í viðtalinu.

Í þessu sambandi skýtur sjálfsagt skökku við að hann hefur nú stofnað til tveggja móta ár hvert á Spáni og hefur verið að díla við aðila á Rómarsvæðinu um að efna til formúlukeppni í og við höfuðborgina ítölsku. Það yrði annað mótið þar í landi því ekki er útlit fyrir að mótshaldi verði hætt í Monza.

Svo hefur hann um margra ára skeið haft í hótunum við breska kappaksturinn en endaði það svo með því að gera samning til 15 ára um keppni í Silverstone.

Því er ég hræddastur við að ekki verði tekið mikið mark á yfirlýsingum hans um Mónakó. Og að sú ósk mín um að keppni verði hætt þar rætist ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það eina sem keppnin í Mónakó hefur, að mínu mati er glamúrinn í kringum hana, að öðru leyti er keppnin þar einhver sú sísta í mótaröðinni og að mínu mati er hún bara barn síns tíma en ég er þess fullviss að einhverjir eru mér ekki sammála.  Eini spenningurinn í sambandi við þessa keppni, þetta er nú ekki alveg rétt hjá mér því það er líka spennandi að sjá hvaða ökumenn halda einbeitingu út alla keppnina, er hverjir standa sig best í tímatökunni daginn fyrir keppni.  Ég myndi nú ekki leggjast í þunglyndi þótt þessi keppni færi af dagatalinu en einhverjir myndu jú sakna hennar, en fyrir hvað???

Jóhann Elíasson, 23.7.2010 kl. 14:06

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Alveg sammála - og ekki sé ég eftir glamúrnum. 

Ágúst Ásgeirsson, 23.7.2010 kl. 18:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband