Schumacher bjargar keppninni!

Það verð ég eiginlega að viðurkenna, að ég hef aldrei verið Michael Schumacher jafn þakklátur og í dag. Hann geldur reyndar dýru verði ótrúleg mistök sín á æfingu í Búdapest í morgun. En fyrir  bragðið er hann líklega búinn að bjarga keppninni, ef svo mætti segja og svo undarlega sem það nú hljómar. 

Er dómarar fóru yfir upptökur við brautina og úr bílum kom í ljós að rauðu flaggi var veifað til  Schumacher þegar í þriðju beygju og þeim næstu. Tíu beygjum síðar tók hann engu að síður fram úr bæði Fernando Alonso og Robert Kubica. Virtist þó hika í fyrstu en lét þó til skarar skríða. Hann tók reyndar a.m.k. fram úr einum bíl til viðbótar en dómararnir einbeittu sér við gagnaskoðun að fyrrgreindum tveimur ökuþórum, enda þurfti ekki frekari gagna við.

Alonso mun þegar hafa látið lið sitt vita af atvikinu í talstöðina. Fjarskiptin heyrðu fulltrúar FIA sem hafa það að reglu að hlusta á talstöðvarsamband milli bíla og stjórnborða keppnisliðanna. Hófu fulltrúar FIA því þegar rannsókn, samkvæmt venju, og þurfti því ekki milligöngu Renault til.

Tímavítið sem Schumacher fékk fyrir að virða ekki alvarlegust aðvörun sem ökuþórum er gefin - rauð flögg - var eðlilegt sé mið tekið af þeirri refsingu sem Alonso fékk í gær fyrir að taka fram úr bíl meðan gulum flöggum var veifað. Fyrir það brot var bætt sekúndu við hvern hring Alonso í tímatökunum.   Tveimur sekúndum var hins vegar bætt við hvern hring Schumacher fyrir að hundsa rauða flaggið. Það er miklu alvarlegri aðvörun en gula flaggið og í raun fyrirmæli til ökuþóra að hægja strax ferðina og aka inn í bílskúr.

Hins vegar stóðu þeir jafnir þegar að tímatökunum kom þar sem annarri sekúndu var bætt við hvern hring vegna annars og óskylds brots, og það ef til vill alvarlegra. Því var bætt tveimur sekúndum við tíma beggja kappanna, Schumacher og Alonso, í tímatökunum.

Af þessum sökum varð tímatakan einkar spennandi og spurning númer eitt, tvö og þrjú hvort þeir kæmust áfram. Fyrst í gegnum fyrstu lotu, síðan gegnum aðra o.s.frv. Á endanum settu þeir tvo langbestu brautartímana - og undirstrikuðu ágæti sitt sem ökuþóra að því leyti.

Og með broti sínu jafnaði Schumacher nokkuð leikinn með tilliti til keppni þeirra Alonso um heimsmeistaratitil ökuþóra. Þeir stóðu jafnt að vígi fyrir tímatökurnar. Schumacher endaði í 12. sæti og Alonso í því 15. Hefur Schumacher þó keppni í 11. sæti vegna afturfærslu Jenson Button.

En sakir þessa ríkir mun meiri eftirvænting og spenna fyrir kappaksturinn á morgun og er það vel. Mótin í formúlunni hafa alveg efni á því að verða skemmtilegri og keppnin um sigur tvísýnni en verið hefur.  

p.s.

Nú er ég búinn að horfa á þetta atvik á myndbandi, aftur og aftur. Og eftir það finnst mér algjörlega út í hött af Ferrarimönnum að reyna að koma þessu yfir á Alonso. Schumacher tekur fyrst fram úr Kubica á bandinu og síðan fram úr Alonso. Reyndar er hann sagður hafa tekið fram úr fleiri bílum en dómararnir létu nægja að vinna úr atvikinu þar sem Alonso og Kubica koma við sögu.

Og hvort sem þetta hefur verið gildra Alonso þá eru Ferrarimenn með því að gefa það í skyn um leið að segja að Schumacher sé afar auðveiddur!!!

Málið er að hann kemur ekki upp að Alonso, heldur Kubica sem ekur í humátt á eftir Renaultinum. Svo kemur Schumacher allt í einu og tekur fram úr báðum í einu!   

Renaultinn og BMW-inn eru á hægri ferð vegna flagganna sem búið var að veifa á Schumacher í 10 beygjur áður en hann gerði þessi mistök að taka fram úr. Auðvitað var engin hætta á ferðum við framúraksturinn sjálfan sem slíkan eins og liðsmenn Ferrari eru að segja, en það skiptir bara engu máli. Og rautt flagg er margfalt alvarlegra aðvörunarstig en gult svo það er lógískt að sekúndu muni á brotum gegn þessum tveimur flöggum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ég er alveg sammála því að spennandi kappakstur er framundan eftir þessar refsingar. Sjálfur er ég Ferrari/Schumacher-maður en þegar reglur eru brotnar ber að beita refsingu sama hver á í hlut. Frá mínum bæjardyrum séð á Schummi þetta fyllilega skilið. Hins vegar læðist sú hugmynd að mér að hann hafi gert þetta viljandi. Hvers vegna veit ég ekki. Kannski til að ögra dómurum eða öðrum keppendum, kannski til að "jafna" stöðu Alonso gagnvart sér svona til að vinna hann á jafnréttisgrundvelli, kannski til að bjarga keppninni með því að auka spennuna og áhorfið, kannski til að gefa Massa aukinn möguleika á sínum fyrsta sigur. Hver veit, en eitt er víst að allt þetta gerist og vegna þess að Schumacher braut viljandi af sér, vil ég meina!

Hafsteinn Elvar Jakobsson (IP-tala skráð) 5.8.2006 kl. 23:51

2 identicon

Hvenær hafa ferrari og sjúmmi viljað vinna á jafnréttisgrundvelli???????????? sjúmmi einfaldalega gerði mistök og verður að gjalda fyrir það.

Sveinbjörn Egilson (IP-tala skráð) 6.8.2006 kl. 01:17

3 identicon

Eru menn eitthvað veruleika firttir VILJANDI!!! Schummi gert þetta VILJANDI. Þetta er einn útsmognasti og klárasti ökumaður sögunnar hann gerir ekki svona viljandi. Málið er með þennan þjóðverja að hann er mannlegur og gerir mistök. Þó að menn séu svona miklir aðdáendur Schumma þá held ég að sumir þurfi að leita sér lækninga.

Irvine (IP-tala skráð) 6.8.2006 kl. 04:14

4 Smámynd: Hafsteinn Elvar Jakobsson

Svona strákar, róið ykkur! Ef Schumacher hefði ekki brotið af sér hefði þetta sennilega orðið frekar leiðinleg keppni, ekki satt? Þess vegna er Schmacher eins og jólasveinninn, með gott í skóinn handa öllum!!!

Nú, þegar keppninni í Ungverjalandi er lokið, eyðilagði Schumacher dekkin "viljandi" til að jafna leikinn þegar Alonso datt út. Ferrari-keppnisstjórinn, sem er annars frægur fyrir herkænsku, en gerði ekkert þó eina vitið í stöðunni væri að skipta um dekk þegar Pedro fór að sækja á hann. Millidekkin voru orðin 35 hringja gömul og gaufslitin, eitt stopp til viðbótar hefði kostað 2 stig en hann kaus að aka lengur á skýjuðum dekkjum vitandi að stigin væru töpuð hvort eð er. Þess vegna segi ég að Schumacher kemur eins og engill af himnum ofan, bjargar keppninni, eykur spennuna, deilir stigum til annarra með bros á vör og lýkur keppni í 9. sæti. Svo lendir hann í því að Kubica er dæmdur úr leik fyrir lélega matarlyst og klúðrar öllum góðverkum skósmiðsins!!! Skamm Robbi!

Hafsteinn Elvar Jakobsson, 7.8.2006 kl. 18:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband