Þolir Alonso ekki mótlætið?

Ja, allt verður Michael Schumacher að vopni þessa dagana, hugsaði ég mér þegar Fernando Alonso hafði verið refsað fyrir framferði á æfingu í Búdapest í dag. Vegna þess er hann nú þegar úr leik í keppninni á sunnudag. Kemst örugglega ekki í gegnum aðra lotu tímatökunnar á morgun og þar með í hóp 10 bestu. Spurningin er hvort hann sé að kikna undan mótlætinu að undanförnu?

Alonso hefur átt erfitt uppdráttar í þremur síðustu mótum. Verið langt á eftir Schumacher sem saxað hefur jafnt og þétt á forskot hans í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökuþór. Forskot Alonso hefur minnkað úr 25 stigum í 11 í þremur síðustu mótum og óhjákvæmilegt er nú að það minnkar enn frekar á sunnudag. Nema kraftaverk komi til.

Mótbyrinn að undanförnu er sá mesti sem Alonso hefur þurft að glíma við allt frá árinu 2003. Það er eins og hann þoli ekki álagið. Honum rann í skap á æfingu í dag er Robert Doornbos tilraunaökuþór Red Bull hindraði för hans. Dómarar kappakstursins kölluðu hann tvisvar á sinn fund eftir æfinguna. Niðurstaða þeirra var að refsa honum fyrir "óþarfan, óásættanlegan og hættulegan" akstur.

Þeir ákváðu að bæta tveimur sekúndum við besta tíma hans í hverri lotu tímatökunnar á morgun. Það sér hver og einn að hann kemst aldrei í þriðju og síðustu lotu tímatökunnar með þann klafa á herðum sínum. Og nógu erfitt verður fyrir hann að komast í gegnum fyrstu lotuna er sex lökustu bílarnir falla úr leik.

Ekki dettur mér í hug að halda því fram að Alonso hafi verið hart dæmdur, er einfaldlega ekki í stakk búinn til þess. Geng bara út frá því að málagjöldin hafi verið makleg. Hins vegar er það deginum ljósara að ökuþórar veifa í reiði sinni hvorir framan í aðra líklega á hverri einustu æfingu og oft í mótum.

Þess vegna finnst mér skrítið að dæmt skuli á hann fyrir það. Hafi hann hins vegar bremsað fyrir framan keppinaut sinn eftir að fram úr var komið er sennilega rétt að dæma á slíkt. Og í hita leiksins hefur honum orðið á að taka fram úr undir gulum flöggum.

Fyrir slíkt hefur mönnum til þessa í ár - að því er ég best man í fljótheitum - verið refsað með því að færa þá í mesta lagi aftur um eitt sæti, samanber Scott Speed sem tók fram úr David Coulthard undir gulum flöggum í móti í ár. Bætt er hins vegar við tíma sem Alonso hefur enn ekki sett.

Misjafnt refsað

Athygli vekur náttúrulega hversu misjafnir dómara fyrir álíka brot eru. Undan því hafa meir að segja sumir ökuþórar kvartað árum saman. Ástæðan er sú að sjaldnast eru sömu þrír dómararnir tvö mót í röð. Heldur er um hóp manna að ræða sem dæma flestir eitt til tvö mót á ári. Þeir pæla líklega lítt í því hvað áður hefur verið dæmt og horfa misjafnlega strangt á bókstafinn. Gott dæmi um það er hinn umdeildi fjöðrunarbúnaður sem dómarar í Hockenheim dæmdu löglegan fyrir viku en stallbræður þeirra í Búdapest sögðu ólöglegan í gær!!!

Þá var ekki hróflað við Schumacher er hann svínaði fyrir Alonso í bílskúrareininni í tímatökunum í Hockenheim fyrir viku þótt strangt til tekið væri það gegn reglum. Þar eiga bílar á ferð forgang, ekki síst þegar þeir eru komnir svo nálægt sem raun bar vitni þá.

Svona er þetta bara og fæst víst ekkert við það ráðið. Ég vona bara að Renaultmönnum takist að róa kappann skapmikla svo við getum átt von á skemmtilegri keppni í mótunum framundan. Það hefur verið alltof lítil keppni um sigur í mótum ársins.

Meistarar eiga að vera þeim kostum búnir að geta hamið skap sitt í hita leiksins. Algjört grunnatriði er að þeir láti það ekki hlaupa með sig í gönur í einhverri stundarfirringu. Alonso þarf að einbeita sér að akstrinum en ekki láta mótherjana fara í taugarnar á sér.

 Fáránlegt framferði

p.s.

Er nú búinn að sjá atvikið í frönsku sjónvarpi og það er alveg ljóst að Alonso hagaði sér fáránlega. Í stað þess að láta nægja að veifa til Doornbos  sveigði hann harkalega að honum við framúraksturinn og  var síðan með alls konar stæla í næstu beygju, hægjandi ferðina og akandi óeðlilega línu. Það er líklega óhjákvæmilegt að taka á svona löguðu. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Þetta er 64 dollara spurningin! Ætli það megi ekki skýra að hluta með því að það eru aldrei sömu dómarar tvö mót í röð. Og þeir virðast geta túlkað reglurnar með sínu nefi, ætli þær teljist þá ekki óljósar. Af nógu slíku hefur verið að taka í sambandi við tæknireglurnar. Var að skoða regluna sem vísað er til vegna refsingar Alonso í dag. Þar er bara talað um fésekt sem viðurlög eða brottvísun úr keppni fyrir ítrekað gróft brot. Hvergi minnst á tímavíti!!! Svona er þetta bara, segi ég aftur. Og Alonso á enga undankomuleið. Það er ekkert hægt að áfrýja svona dómum. Það sama henti Schumacher í Mónakó er hann vr fundinn sekur um svindl. Hann gat ekkert borið hönd fyrir höfuð sér, með öðrum orðum andæft gegn því að vera sendur aftast á rásmarkið.

Ágúst Ásgeirsson, 4.8.2006 kl. 22:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband