Njósnir og meint spellvirki

Hafa njósnamálin áhrif á gang Ferrari? Ekki treysti ég mér til að leggja neina dóma á njósna- og skemmdarverkamál þau sem komið hafa upp á yfirborðið síðustu daga og snúast um Nigel Stepney, einn helsta tæknimann Ferrari í rúman áratug, og Mike Coughlan aðalhönnuð McLaren.

Málin virðast annars vegar snúast um stuld á teikningum og verklagsgögnum hjá Ferrari sem komið hafi verið í hendur Coughlan. Hins vegar um meinta tilraun Stepney til skemmdarverks á keppnisbílum Ferrari nokkrum dögum fyrir Mónakókappaksturinn.

Hvort tveggja eru grafavarleg mál og mikilvægt að fá sem skjótasta niðurstöðu. Ganghraði mála af þessu tagi á Ítalíu er hins vegar nokkurn veginn í öfugu hlutfalli við hraða formúlubíla og því getur maður allt eins búist við að einhver misseri líði áður en niðurstaða fæst. Sem er líka grafalvarlegt því reynist Stepney saklaus, eins og hann heldur sjálfur fram, fær hann seint uppreisn þeirrar æru sem Ferrari hefur svipt hann með málshöfðuninni og ítrekuðum yfirlýsingum um sekt, sem þó hefur ekki verið sönnuð - enda málið á byrjunarstigi, og ekki farið frá lögreglu til dómara.

McLaren má ekki vamm sitt vita og því setti liðið Coughlan af meðan á rannsókn málanna stendur. Sömuleiðis er starfsheiður hans í veði. Liðsstjórinn Ron Dennis þykir strangheiðarlegur maður og gat hann ekki varist tárum er hann þurfti að tjá sig um málið í Silverstone í gær, svo hefur það tekið á hann. Segir hann sér afar kært um heiður sinn og ekki síður - jafnvel meira - um heiður liðsins. Því taki það sig einkar sárt að nafn þess skuli bendlað við njósnir hjá Ferrari.

Innanbúðarrannsókn hjá McLaren hefur leitt í ljós, að gögnin frá Ferrari hafi aldrei í bílsmiðju liðsins komið og ekki verið notuð við þróun keppnisbílanna. Þau mun Coughlan hafa fengið í hendur seint í apríl. Dennis hefur opnað bílsmiðjuna fyrir Alþjóða akstursíþróttasambandinu (FIA) til að sannleikurinn megi koma í ljós og hann segist ekkert óttast; býst við engu öðru en FIA staðfesti sakleysi McLaren og aðildarskort þess að málunum.

Ítalskir fjölmiðlar segja frá því í dag, að fleiri starfsmenn Ferrari en Stepney séu til rannsóknar. Og málið kann að tengjast Hondaliðinu, en óbeint þó. Stepney átti tvo fundi með forsvarsmönnum þess í apríl og bauðst til að koma til starfa hjá japanska liðinu með sveit mjög færra en ótilgreindra manna. Einn þeirra sem hann nefndi mun sagður vera Coughlan, en þeir Stepney eru gamlir samstarfsmenn, allavega hjá Ferrari.

Ef til vill er þar skýringin fengin á gögnunum í fórum Coughlan, ef til vill kunna þeir að hafa verið byrjaðir að brugga ráð um Hondaför, það er þó bara tilgáta mín út í loftið og ekkert hef ég frekar fyrir mér um það. Fundir Stepney með Hondamönnum leiddu hins vegar ekki til þeirrar niðurstöðu sem hann vænti í vor og ganga má út frá því sem gefnu að liðið hafi lítinn áhuga úr þessu á þjónustu hans vegna málaferla Ferrari á hendur honum.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu málsins og hvort eða hver áhrif og afleiðingar þess verða.

Að lokum finnst mér Ferrari hafa mátt halda betur á málum gagnvart fjölmiðlum. Liðið stendur í yfirlýsingaþrasi við Stepney í stað þess að leyfa lögreglurannsókn að hafa sinn framgang. Þá sagði það ensku lögregluna hafa framkvæmt húsleit hjá Coughlan en varð að éta það ofan í sig nokkrum dögum seinna og taka sérstaklega fram að enska lögreglan hafi ekki komið við sögu rannsóknarinnar. 

Það á annars ekki af Ferrari að ganga í svona málum því í apríl voru tveir fyrrverandi starfsmenn liðsins, Mauro Iacconi og Angelo Santini, fundnir sekir af því að hafa farið með leyndarmál Ferrari með sér er þeir réðust til starfa hjá formúluliði Toyota. Japanska liðið vék þeim úr störfum áður en málið varð opinbert. Þeir voru dæmdir af undirrétti í Modena á Ítalíu - þar sem réttarhöld bíða Stepney og Coughlan - en Iacconi og Santini hafa áfrýjað þeim dómi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

„Ef til vill er þar skýringin fengin á gögnunum í fórum Coughlan, ef til vill kunna þeir að hafa verið byrjaðir að brugga ráð um Hondaför, það er þó bara tilgáta mín út í loftið og ekkert hef ég frekar fyrir mér um það.“

Eftir á er gaman að taka þessa tilvitnun út úr textanum því frá því ég skrifaði pistilinn er í ljós komið að þetta var raunin. Tilgáta mín er sem sagt rétt eftir allt. 

Og ég er nú farinn að trúa því svona með sjálfum mér, að um þetta snúist allt þetta mál! Stepney hafi miðlað af gögnum sínum til Coughlan til að undirbúa hann fyrir nýjan starfsvettvang! Kannski eru mál þessi ekki flóknari en það?     

Ágúst Ásgeirsson, 6.7.2007 kl. 20:23

2 Smámynd: Óli Sveinbjörnss

Sæll, ég held að þú hafir hitt naglan á höfuðið samkvæmt nýjastu fréttum. Coughlan lét koma aulalega upp um sig. Sendi konuna með gögnin á ljósritunarstofu og starfsmaður stofunnar lét Ferrari vita. Hann gat nátturlega ekki ljósritað þetta í höfuðstöðvum McLaren. Það á eftir að koma meira í ljós á næstunni. Starfsmaður ljósritunarstofunnar er pottþétt harður Ferrari aðdáandi.

Spurning hvort þetta sé venjan þegar menn skipta um lið að taka með sér  upplýsingar. Þetta er nátturlega bara óheiðarlegt en svo á hinn kantinn þarf Honda liðið svona nítró tilfinnanlega.

Óli Sveinbjörnss, 10.7.2007 kl. 21:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband