Stemmning þótt fjörið byrji ekki fyrr en á morgun

Það kom mér næstum á óvart hversu mikil stemmning var við Nürburgring brautina er ég rölti um keppnissvæpðið í dag. Fjölmenni á vettvangi þótt formúlubílarni verði ekki gangsettir fyrr en á morgun, föstudag. Þúsundum saman gengu áhorfendur um athafnasvæði keppnisliðanna og þjónustusvæðið. Margir duttu í lukkupott og unnu ferð um brautina á öflugum sportbílum. Erill var í kynningarbásum liðanna og talsverð viðskipti áttu sér stað í sölubásum þar sem seldar voru húfur, bolir og margt fleira, m.a. mesta þarfaþing formúlumóta, eyrnartappar.

 

Búast má við rimmu milli ökuþóra McLaren og Ferrari í Nürburgring um helgina. Þá hefur Nick Heidfeld hjá BMW varað stórliðin tvö við því að reikna ekki með hans liði á heimavelli. Það er brautin reyndar einnig fyrir McLaren vegna nálægðar höfuðstöðva Mercedes Benz sem eiga 40% í liðinu.

 

Sé litið á einstaka ökuþóra toppliðanna hefur Fernando Alonso hjá McLaren ekki fagnað sigri frá í Mónakó í maí. Og gengi hans hefur verið upp og ofan. Í tveimur síðustu mótum, Magny-Cours og Silverstone, lét hann þó hraustlega til sín taka. Með grimmum framúrakstri í fyrrnefndu brautinni og baráttu við Ferrari í þeirri seinni.

 

Lewis Hamilton er undramaður ársins og verið á verðlaunapalli í öllum mótunum níu sem lokið er. Vonbrigði þó hið síðasta; þriðja sæti á heimavelli í Silverstone. Hvað sem því líður er nýliðinn með 12 stiga forystu í stigakeppni ökuþóra.

 

Felipe Massa nýtur þess að Ferrari hefur náð sér á strik á ný og náð undirtökum í keppninni við McLaren. Hann á þó við þann reip að etja að Kimi Räikkönen hefur fundið rétta taktinn á ný og gerir grimmt tilkall til þess að teljast aðalökumaður Ferrari.

 

Räikkönen vann tvö síðustu mót og er upp á sitt besta. Þótt hann hafi ekki náð forystu í þeim báðum fyrr en í seinna þjónustustoppi virðist fátt ætla að stöðva hann. Í Nürburgring hefur hann þó eiginlega þann djöful að draga að hafa ekki komist á mark á  undanförnum árum þegar öruggur sigur virtist blasa við.

 

Hér eru bara nokkrir nefndir en fleiri hyggjast reyna keppa um fremstu sæti. Þar á meðal Heidfeld hinn þýski. Hann mun njóta góðs stuðnings í stúkum brautarinnar á heimavelli sínum og víst er að það léttir mönnum keppnina og hvetur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband