Ferrari yfir strikið

Mér finnst Ferrariliðið fara alveg yfir strikið í viðbrögðum sínum við úrskurði íþróttaráðs Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) í njósnamálinu svonefnda í dag. Ráðið sagði það vera í trássi við íþróttareglur formúlu-1 að starfsaður McLaren skyldi vera með hugvitsgögn Ferrari undir höndum. Hins vegar hafi ekki verið hægt að gera liðinu refsingu því engin sönnun væri fyrir hendi um að það hefði notað gögnin. Punktur.

Tæknilega telst McLaren sökótt með því að einhver starfsmaður Ferrari hafði lekið leynilegum gögnum liðsins til aðalhönnuðar McLaren, Mike Coughlan. Staðhæft hefur verið að gögnin hafi aldrei í hús komið hjá McLaren og einungis verið á heimili Coughlan. Þessu heldur liðsstjórinn Ron Dennis fram og bæði vinir hans og óvinir segja heiðarlegri mann líklega ekki til í formúlu-1.

Nú hefur maður kannski ekki nógu góða mynd af því sem gerðist við vitnaleiðslurnar í dag og hvað nýtt - ef eitthvað er - í málinu kom þar fram sem rýrt hefur málstað McLaren. Er rétt að pæla í því hvort svo sé miðað við hin ofsafengnu viðbrögð Ferrari.

Það er náttúrulega skandall af hálfu Luca di Montezemolo og Jean Todt að halda því fram að með niðurstöðunni í dag hafi FIA lögleitt sviksemi í formúlu-1, svo eitthvað sé tínt upp úr yfirlýsingu Ferrari í framhaldi af vitnaleiðslunum og lyktum þeirra. Létu þeir sig dreyma um að vinna heimsmeistaratitla formúlunnar í dómsalnum? Altjent virðist Ferrari ekki hafa nógu mikla burði til að vinna þá úr þessu á kappakstursbrautinni, slíkt er forskot McLaren orðið.  

Miðað við hversu forseti FIA, Max Mosley, hefur haft frumkvæði að því að taka hart á mönnum sem ætla hefur mátt að hafi komið óorði á formúluna með hegðan sinni eða yfirlýsingum þá tel ég að ganga megi út frá því sem vísu að hann bregðist við yfirlýsingu Ferrari.

Ef ekki þá verður það aðeins til að treysta málstað þeirra sem haldið hafa því fram um árabil að hann hafi verið helst til leiðitamur Ferrari. Spenntur mun ég fylgjast með hvað Mosley gerir, lágmark er að hann veiti forsvarsmönnum Ferrari tiltal.

Það skal tekið fram að ég fordæmi aðgerðir bæði þeirra sem láku gögnum Ferrari og þess sem við þeim tók. McLaren opnaði verksmiðju sína fyrir FIA og bauð sambandinu allan þann aðgang að tölvum og mannskap við rannsókn njósnamálsins. Hlutlausir fulltrúar FIA fundu engin merki um notkun McLaren á gögnunum. Því er McLaren hreinsað af aðild að málinu.

Til vara áskildi FIA sér rétt til að taka málið upp síðar ef eitthvað nýtt kemur í ljós er rýrt getur hlut McLaren. Þetta túlka ég sem vissan - og sjálfsagt eðlilegan - öryggistappa ef eitthvað þyrfti að skoða nánar þegar málaferlum vegna njósnanna á hendur Ferrarimönnum á Ítalíu og Coughlan í Englandi er lokið.  En ég geng út frá því að málið sé þó búið fyrir McLaren eftir niðurstöðuna í dag.

Það er eins og Ferrarimenn skilji það ekki að það þurfi að sanna á menn eitthvað athæfi til að hægt sé að refsa fyrir það. Ætli þessi afstaða forsvarsmanna Ferrari endurspegli aðra réttlætisvitund en tíðkast t.d. norðan Alpanna?

Spyr sá sem ekki veit.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll herra McLaren.

Grundvallar spurningin er hvort yfirhönnuður formúluliðs megi taka á móti, varðveita og fjölfalda trúnaðarupplýsingar frá öðru liði? Við erum ekki að ræða um Jóa á smurdósinni heldur yfirhönnuð formúluliðs, hann hefur væntalega mætt á fjölda funda með hönnunardeild liðsins eftir að hann fékk þessar trúnaðarupplýsingar. Slíkar upplýsingar nýtast ekki einungis til þess að fá hugmyndir um það hvert beri að stefna í hönnun formúlubíls heldur einnig hvað beri að varast. Samanburð á loftafls prófunum o.fl. Þegar jafn háttsettur maður og yfirhönnuður formúluliðs er uppvís að jafn vafasömu athæfi og M.Coughlan þá er ekki hægt að leysa bara málið með því að reka hann úr starfi og segja svo að hann hafi aldrei mætt með gögnin í vinnuna.

Þetta er ömurlegt mál og einn mesti skandall sem upp hefur komið í heimi formúlunar um langa hríð. Það er sérstaklega leiðinlegt að nú loks þegar McLaren eru að rétta úr kútnum eftir langa fjarveru frá toppnum þá á þetta mál eftir að skyggja á þeirra árangur og ég er hræddur um að geislabaugurinn á Ron Dennis muni dofna eitthvað í framhaldinu.

Ég vona að sjálfsögðu að úrslit formúlunar ráðist ekki dómssölum en sektir og ávítur hefðu verið vel við hæfi.

Áfram Ferrari.

Haukur Eiríksson (IP-tala skráð) 27.7.2007 kl. 01:00

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Sæll Haukur

Fyrir það fyrsta held ég ekki með McLaren, ég held ekki með neinu liði og hef ekki gert í 10 ár! Ég reyni bara að njóta formúlunnar frá öllum hornum og dáist því oft að Ferrari og þeirra ökumönnum þegar þeim tekst skemmtilega upp.

Þessu trúa reyndar vart margir því það er eins og menn geti almennt ekki notið íþróttarinnar nema halda með tilteknu liði. Meira þykir mér í það spunnið að skoða og pæla í ökuþórunum og hvað og hvernig þeir gera. Ekki síst eftir að hafa farið hring á sportbíl með Mark Webber í Nürburgring sl. laugardag.

Ég svaraði fyrstu spurningu þinni í pistlinum; ég fordæmi svona gjörðir eins og Coughlans. Og með úrskurði gærdagsins má segja að sannast hafi að hann hafi einungis haft gögnin heima og verið að undirbúa sig undir að starfa á nýjum vinnustað - hann var jú búinn að fara í viðtal til Nicks Fry, liðsstjóra Honda, og falast eftir vinnu hjá honum.

Þeirri spurningu verður aldrei svarað - en ætli hann væri ekki búinn að ráða sig þangað hefði starfsmaður ljósritunarstofunnar ekki flett ofan af honum. Ekki er ástandið betra en svo í herbúðum Ferrari að þeir hefðu aldrei komist að þessum leka - viðurkenna það sjálfir ítrekað - úr smiðju sinni ef ljósritunarstofan hefði ekki komið til.

Að sama skapi er Coughlan furðulegur að kaupa sér ekki skanna sjálfur og skanna gögnin inn á tölvutækt form, eins og hann bað ljósritunarstofuna um. Skjölin voru víst kyrfilega merkt sem trúnaðarmál og það hefur því ekki verið stuðningsmaður McLaren sem vann á ljósritunarstofunni og tók við verkbeiðni konu Coughlan!

Já, ég er sammála, þetta er ömurlegt mál og skyggir alltof mikið á formúluna sem íþrótt. Ég vil fyrst og fremst njóta hennar sem íþróttar. Þetta er skandall, sammála, en það liggur við að upp komi a.m.k. einn skandall af einhverju tagi á ári hverju.

Finnst þér ekki einkennilegt hversu oft Ferrari kemur við sögu í einhvers konar sköndulum - með öðrum orðum svindlmálum?

Mér finnst njósnamálið ekki lengur skyggja á McLaren, eftir einróma úrskurð íþróttaráðs FIA í gær og gættu að því að þar á Ítalía (Ferrari) sína fulltrúa! Fram að því fannst mér þetta vont mál fyrir liðið, ekki síst þar sem spunameistara Ferrari voru búnir að lauma því að ítölskum fjölmiðlum að eiðsvarin yfirlýsing Mike Coughlan innihéldi upplýsingar um að fjöldi starfsmanna McLaren hefði vitað um gögnin og liðið verið búið að nýta sér þau. Það virðist hafa sannast að það var lýgi.

Þetta er náttúrulega ómerkilegt, og sýnir að þetta var orðið áróðursstríð fremur en að það snerist um sannleiksást.

Og ég er nú bara þannig gerður að um leið og einhver er staðinn að lýgi þá þarf hann að segja djöfulli oft satt til að ég taki hann trúverðugan á ný!

Jæja, þetta vill verða eins og stundum, helst til langt. Ég þakka þér aftur McLarenstimpillinn, það er óverðskuldaður heiður!

Með kveðju

Ágúst

p.s. Ég hélt nokkuð með breskum liðum í gamla daga. Síðast með Williams. Hætti því undir lok síðustu aldar eftir þau fáránlegu mistök Franks Williams að láta Damon Hill sigla. Hann var mikið til maðurinn á bak við sigurbíla liðsins 1991-1997, annálaður reynsluökuþór og þróunarmaður mikill.

Sir Frank tímdi ekki að borga Hill gott kaup frekar en fyrri daginn og er þeirrar fásinnu að íhlutir bílsins skipti meiru máli en ökuþórinn - það megi setja hvern sem er undir stýri hans! Það væri gaman að spyrja hann í dag hvort hann sé enn sömu skoðunar og 1996. Ef svo er þá er honum ekki við bjargandi kallinum því hvað hefur liðið getað síðan? Óskaplega lítið og t.d. sískiptandi um mótorsmiði.

Adrian Newey barðist því fyrir að Williams héldi í Hill vegna þróunarfærni hans en sagði upp sjálfur þegar ekki var á hann hlustað. Þeir sem voru í framvarðasveit Williams á tíunda áratugnum eru allir farnir og a.m.k. tveir aðalmennirnri sannað sig hjá öðrum liðum.

Ágúst Ásgeirsson, 27.7.2007 kl. 08:52

3 identicon

Sæll Ágúst.Ég er alveg hissa á því að þú skulir ekki vera McLaren maður miðað við greinar þínar og skrif í gegnum tíðina.   Eitt af því fyrsta sem ég varð var við þegar ég byrjaði að fylgjast með formúlu í kringum 1996 var að fjölmiðlar eiga mjög erfitt með að fjalla um þessa íþrótt svo vel sé.  T.d. er nánast allt sem skrifað er í bresku pressuna í sama anda og íslenskir fréttamenn skrifa um íslenska handboltalandsliðið.  Keppni í formúlu virðist því oft vera keppni milli þjóða.  Sama gildir um ítölsku pressuna og þú hefur eflaust hugmyndir um hvað fram fer í frönskum og þýskum fjölmiðlum.  (Seinni heimstyrjöldinni virðist sumstaðar vera ólokið). Jú ég er sammála þér að það vekur eftirtekt hvað Ferrari virðast oft rata í fréttirnar vegna hneykslismála af ýmsum toga.  Ég vill þó ekki taka undir með þér varðandi það að fólk sunnan Alpanna hafi eitthvað lakari réttlætiskennd en við sem búum norðar, nema síður sé.  Ég tel eina af ástæðunum fyrir þessu vera tilvistarkreppu Breta í F1 undanfarin ár.  Þeir hafa ekki átt ökuþóra í fremstu röð mörg ár og meðan M.S. og Ferrari fóru hamförum myndaðist ansi sérstök stemming í UK og fréttaflutningurinn var oft æði skrautlegur svo ekki sé meira sagt.  Þessar fréttir eru svo étnar upp af öllum helstu F1 fjölmiðlum heimsins gagnrýninslaust og m.a. á mbl.  Nú horfir til betri vegar og Bretar hafa loks eignast því líkan snilling (L.Hamilton) að annað eins hefur ekki sést frá upphafi F1, en það líka orðið ansi langt síðan D. Hill var upp á sitt besta og einnig langt síðan að breskt lið hefur hampað meistaratitli (Þó auðvitað flest lið í F1 séu meira og minna mönnuð Bretum).  Þetta er auðvitað bara mín skoðun og það er kannski rétt að taka það fram að ég hef ekkert á móti Bretum, eru m.a. skemmtilegast fólk sem ég hef kynnst. Varðandi njósnamálið þá er ég enn á þeirri skoðun að FIA hafi gert mikil mistök í meðferð málsins.  Kannski hafa þeir ekki heimild til að beyta sektum og ávítum í málum sem þessum.  En menn verða að horfa til þess að þetta er ekki bara brot gagnvart Ferrari, hvað með aðra keppinauta McLaren, Renault, Williams, BMW, Honda, Toyota o.fl. þeir hefðu kannski líka áhuga á því að líta á þessi gögn?  Ef McLaren hefði brugðist rétt við í þessu máli þá hefðu þeir strax tilkynnt FIA að trúnaðargögn annars liðs væru í umferð og þá gæti Ron Dennis haldið áfram að bóna geislabauginn.  Það er einnig mjög áhugavert að lesa yfirlýsingar Jean Todt vegna dómsins, það er m.a. annars birtur úrdráttur úr yfirlýsingunni á autosport.com. Að lokum:Ég er á því að það sé mun betra að halda með liði heldur en að hafa lið sífellt á hornum sér, eins tel ég mun betra að halda með ökuþór heldur en að hata ökuþór.Það er mun skemmtilegra að einbeita sér að því jákvæða heldur en því neikvæða. Takk fyrir góða pistla, ég mun ekki ónáða þig meira með mínum skrifum. Mbk.Haukur  

Haukur Eiríksson (IP-tala skráð) 28.7.2007 kl. 23:27

4 Smámynd: Óli Sveinbjörnss

Gaman að lesa bloggið þitt Ágúst. Þetta er leiðindamál og komnar margar skoðanir með og á móti hinum og þessum. Mér finnst alltaf gaman að lesa svona þegar menn eru óhlutdrægir en nóg með það. Mig langar að spyrja þig um hvaða álit þú hafðir á þegar Hamilton var hífður inn á brautina fyrir framan Mclaren stúkuna. Hann var sá eini sem hélt bílnum í gangi og því haldið áfram. Það sem ég er að velta fyrir mér hvort reglum hafi verið breytt frá því í fyrra þegar Schumager fékk starfsmenn brautarinnar til að íta sér inn á. Þá heyrðist að reglan væri að ef þú værir með framdekkin inn á þá mætirðu halda áfram. Ég er með því að menn fái að halda áfram og fái hjálp til þess hvort sem það er bíllinn er í gangi aða ekki fyrir skemmtanagildið. Langaði að heyra þitt álit á þessu.

Óli Sveinbjörnss, 28.7.2007 kl. 23:50

5 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Í fyrsta lagi þakka ég Hauki málefnalegt innlegg. Ég held það væri ómögulegt fréttanna vegna ef ég héldi stækt með einhverju liði eða ökuþór. Þá yrði ég að vera sífellt að passa upp á að gera ekki á hlut annarra. Engu að síður dáist ég að ökuþórum og krafti þeirra, einna helst nú þeim Massa, Hamilton og Alonso. Sérstaklega tveimur fyrstnefndu, þeir eru að gera mun betur en búast mátti við fyrirfram. Webber hefur mér þótt ofmetinn en hann sýndi skemmtilega grimmd í Nürburgring - og því ekki leiðinlegt að hafa farið með honum hring í brautinni daginn áður en það var einstök og skemmtileg upplifun!

Haukur, ég er einfaldlega ósammála þér að gera umfjöllun fjölmiðla að einhvers konar landskeppni þjóða. Bendi þér t.a.m. á breska vefsetrið autosport.com sem verður ekki sakað um að draga taum Breta eða þess sem breskt er. Þessi miðill dekkar allt sviðið mjög vel og á honum byggi ég talsvert við mín skrif.

OK, ég skaut kannski yfir markið varðandi réttlætiskennd fólks við Miðjarðarhafið. FIA gat víst beitt sektum og brottrekstri úr keppni, en sambandið komst að þeirri niðurstöðu að McLaren hafi verið tæknilega meðsekt Coughlan þar sem hann var starfsmaður liðsins.

Það eru ár hvert mörg dæmi þess í íslensku réttarfari að menn séu fundnir sekir en ekki gerð refsing. Það á einkum við þegar menn eru meðsekir vegna brota, t.d. með því að hafa veitt einhvers konar liðsinni við afbrot án þess þó að hafa lagt á ráðin eða tekið þátt í því sjálfu. T.d. með því að hjálpa manni af vettvangi brots, varsla góss úr innbroti eða þjófnaði eða hylma yfir með sökudólg. 

Þetta var niðurstaða FIA og fróðlegt verður að sjá hvort hún er endanleg. Ég tel svo vera en Ferrari boðar jafnvel áfrýjun og frekari sönnunargögn gegn McLaren.

Dennis segist ekkert hafa vitað um málið og miðað við orð hans mætti halda að hann hefði farið þá leið sem þú nefnir, Haukur. Ég er alveg sammála þér um það, þessi gagnavarsla Coughlan er viðurstyggilegt brot og hið sama er að segja um starfsmenn Ferrari sem láku þau til hans, hvort sem það er einn eða fleiri sem eiga hlut að máli eða hvort þar hafi verið um Stepney að ræða eða einhvern annan/aðra. Það má ráða af orðum Todt að þar hafi Stepney verið á ferð.

Þetta njósnamál er auðvitað neikvætt fyrir formúluna og hér á ekki við að slæm athygli sé betri en engin. En fjölmiðill getur einfaldlega ekki látið mál sem þetta eiga sig og fjallað ekki um það. 

Haukur, þú ónáðar mig alls ekki neitt með skrifum þínum. Þvert á móti, innlegg þín eru málefnaleg og ég er um margt sammála þér. Það er fengur að tilskrifum sem þínum, það skerpir á hugsuninni að lesa viðhorf annarra og velta þeim fyrir sér. Skoðanir mínar, þótt umbúðalausar séu, eru ekkert betri en annarra. Og það er ekkert keppikefli fyrir mig að eiga síðasta orðið!

Ágúst Ásgeirsson, 29.7.2007 kl. 16:32

6 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Óli, ég var í þeirri stöðu að sitja við fyrstu beygju í Nürburgring og upplifa hasarinn þar eftir ræsingu. Það hefði öllum verið hjálpað inn á brautina aftur sem haldið hefðu bílum sínum í gangi.

Reglan er einfaldlega sú - og hefur ekkert breyst um árabil - að bíll sem er fastur og ósjálfbjarga á hættulegum stað, eins og það er orðað, en í gangi fær aðstoð inn á brautina aftur. Held það hafi ekkert haft með að gera hvort framdekk væru inn á brautarbrúninni eða ekki, það skal ég þó ekki staðhæfa. 

Af þeirri ástæðu var Schumacher hjálpað inn á brautina um árið er hann missti afturendann út í mölina í u-beygjunni nyrst í hringnum. Og af þeirri ástæðu var Hamilton hjálpað inn nú. Báðir héldu bílum sínum í gangi en það gerðu aðrir ökuþórar ekki.

Svo skullu sumir utan í öryggisvegginn og ef til vill laskast þannig að ekki hafi verið áfram ekið.    

Fyrstu viðbrögð mín voru að hjálpa hefði átt öllum inn á og leyfa að halda áfram fyrst keppnin var stöðvuð. Nægur tími var líklega til þess miðað við stoppið. Það var kannski meðfædd sanngirni að álykta sem svo, en reglur leyfðu það víst ekki, og þar við situr.

Menn voru bara farþegar í bílum sínum við þær aðstæður sem mynduðust og heppni réð því jafnvel hvort menn héldust á brautinni eða ekki. Þeir hefðu kannski sloppið með því að byrja að bremsa 300-400 metra frá beygju í stað um 60 metra (fóru á þeim tíma úr 300km + niður í 70 eða svo) eins og þeir gerðu er brautin var þurr.

Ágúst Ásgeirsson, 29.7.2007 kl. 16:44

7 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Þakka þér fyrir þessa grein Ágúst. Ég er sammála þér í því að Ferrari liðið hafi gengið helst til langt í þessu máli sem og Max Mosley. Af hverju hann dregur taum Ferrari svona oft er mér hulin ráðgáta en það hafa margoft heyrst gagnrýnisraddir, bæði meðal aðdáenda íþróttarinnar sem og meðlima annarra liða, að FIA sé of hliðholt Ferrari. Það hafa komið upp tilfelli þar sem bílar Ferrari hafa verið dæmdir löglegir eftir keppni fyrir hluti sem öðrum liðum hefur verið refsað fyrir. Það hefur, að mér finnst, skyggt á þessa íþrótt. Það er eins og að vera unnandi enska boltans og þurfa að horfa á það að dómarar séu ítrekað óþarflega vilhallir einu liði. Einu sinni, það gæti verið tilviljun, en ítrekað... nah, varla tilviljun. Mér leiðist að horfa á mína eftirlætis íþrótt vera þessum annmörkum háða.

Ég vona að þetta mál verði ekki til þess að heimsmeistaratitillinn ráðist í dómssalnum, en ekki á brautinni. Keppnin er mjög jöfn núna, Raikkonen að koma til aftur og Hamilton (alger snillingur!) þarf að spíta í lófanna því Alonso er orðinn einungis tveim stigum á eftir honum.

Og takk fyrir skemmtilegt blogg :)

Sigurjón Sveinsson, 1.8.2007 kl. 21:35

8 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Ég vill einnig þakka Hauki fyrir athyglisverðar athugasemdir. Þær eru málefnalegar og þess verðar að þeim sé veitt athygli.

Sigurjón Sveinsson, 1.8.2007 kl. 21:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband