Evrópukappakstur við hlið Grænhelju

Evrópukappaksturinn fer fram í 12. sinn í Nürburgring í Eifel-fjöllum í suðvestanverðu Þýskalandi, og alls í 17. sinn. Liggur formúlubrautin við jaðar fornfrægrar brautar með sama nafni en sem gengur manna á meðal undir uppnefninu „Græna helvítið“. Þótt nafngiftin sé neikvæð er umhverfið hér um slóðir ægifagurt.  

 

Formúlu-1 kappakstri var hætt um skeið í Nürburgring eftir slysið hrikalega árið 1976 þar sem Niki Lauda slapp naumlega en illa meiddur úr eldhafi. Brautin var upphaflega 22,5 km og byggð í atvinnubótavinnu 1925 fyrir bílprófanir þýskra bílaframleiðenda. Fyrsti kappaksturinn fór þar fram tveimur árum seinna.

 

Skotinn Jackie Stewart sagði 1976, rétt eftir Lauda-slysið, að á löngum beinum köflum í brautinni væru ökuþórarnir eins og farþegar í bílunum því þeir hefðu ekkert að gera annað en stíga bensíngjöfina í botn.

 

Brautin var endurgerð og keppni í Formúlu-1 hafin þar á ný 1984, annar Evrópukappaksturinn, sem Alain Prost vann á McLaren-bíl. Þótti hún með endemum illa hönnuð og einhæf svo að eftir keppnina 1985 leið áratugur þar til keppt var aftur í Nürburgring. Brautinni var breytt og er nú mjög frábrugðin því sem var, en þó var beina upphafs- og lokakaflanum haldið.

 

Tímarnir breytast því árið 1995 töldu keppnisliðin brautina eina þá bestu í formúlu-1. Þar eru 12 beygjur og áhorfendur njóta víðast hvar frábærs útsýnis yfir brautina. Síðast var bætt við hana 2002 nýjum hlykk með þremur beygjum strax eftir beinan upphafskaflann og er hún 5,2 km á lengd. Þessi kafli verður nefndur í ár til heiðurs Michael Schumacher, sem hættur er keppni, og nefndur „Schumacher-S-ið“. Mun hann aka hring í brautinni af því tilefni.

 

Schumacher var sigursæll í Nürburgring, vann þar 1995 á Benettonbíl, en síðan á Ferrari 2000 og 2001, 2004 og 2006,  og hefur því hrósað þar sigri fimm sinnum.

 

Evrópukappaksturinn hefur verið háður á fjórum brautum í þremur löndum frá 1984. Fyrsta mótið fór fram í Brands Hatch í Englandi 1983 og vann Nelson Piquet á Brabham-bíl. 

 

Jacques Villeneuve vann jómfrúrsigur sinn í Nürburgring árið 1996 á Williams-bíl, í aðeins sínu fjórða móti. Hann var krýndur heimsmeistari í Evrópukappakstrinum árið eftir, sem fram fór í Jerez á Spáni, eftir að hafa lifað af tilraun Michaels Schumachers sem reyndi að keyra hann út af brautinni. Mika Häkkinen vann mótið í Jerez og þar með sinn fyrsta mótssigur í Formúlu-1.

 

Englendingurinn Johnny Herbert vann sinn þriðja sigur á ferlinum og fyrsta og eina sigur Stewart-liðsins í afar tíðindasömum kappakstri í Nürburgring árið 1999. Segir Stewart það stærstu stundina í lífi sínu; stærri en að sigra sjálfur í gömlu brautinni frægu en þar keppti hann síðast 1973, rétt áður en hann hætti keppni sem ökuþór.

Árið eftir fyrsta og eina sigurinn var Stewartliðið selt Ford sem nefndi það Jagúar. Það var síðan selt Red Bull. Einungis einn annar breskur ökuþór hefur unnið Evrópukappaksturinn, Nigel Mansell á Williams-bíl á heimavelli í Brands Hatch árið 1985.

 

Um helgina má búast við risaslag milli McLaren og Ferrari en fyrrnefnda liðið telur það sinn heimavöll þar sem Mercedes á í því 40% og leggur liðinu til mótora í keppnisbílana.

Fernando Alonso hjá McLaren vann sigur í brautinni 2005, þá sem liðsmaður Renault, og mun freista þess að minnka forskot liðsfélagans Lewis Hamilton í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra.

 

Kimi Räikkönen hjá Ferrari vann tvö síðustu mót, franska kappaksturinn og þann breska og er 18 stigum á eftir Hamilton í keppni ökuþóra þegar átta mót eru eftir vertíðar. Honum hefur gengið illa í Nürburgring og hyggst breyta því nú. Árið 2003 hóf hann keppni á ráspól en féll úr leik í forystu seint í keppninni vegna vélarbilunar. Mótorbilun felldi hann einnig úr leik árið eftir en brotnaði fjöðrun í upphafi síðasta hrings 2005 og varð hann þar með af annars öruggum sigri.  Í fyrra komst hann loks á mark en varð fjórði.

 

Tvö lið hafa ekki unnið stig það sem af er ári, Spyker og Toro Rosso. Spurningin er hvort breyting verði þar á um helgina. Sömuleiðis hvort fimm ökuþórar, sem hafa heldur ekki komist á blað í ár, afli sér stiga;  Adrian Sutil, Vitantonio Liuzzi, Scott Speed, Anthony Davidson og Rubens Barrichello. Nýr ökuþór verður um borð í öðrum bíla Spyker í Nürburgring en þegar þetta var skrifað var sætinu óráðstafað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband