Formúlan og jafnréttið

Samkvæmt nýjum samningi um starfsemi Ríkisútvarpsins ohf. ber RÚV að gæta jafnræðis kynjanna í umfjöllun um íþróttir og íþróttaviðburði. Ætli þar sé fundin skýringin á því hvers vegna RÚV verður af formúlunni?

Af hálfu fyrirtækisins hafa engar skýringar veri gefnar á því hvers vegna Sjónvarpið verður af formúlunni sem það hefur sýnt frá af myndarskap í brátt 11 keppnistíðir. Það hlýtur að hafa boðið í sýningarréttinn sem Sýn hefur hreppt næstu árin. Ef ekki hefði RÚV örugglega sagt frá því.

En bæði útvarpi, sjónvarpi og blöðum hefur verið legið á hálsi, og það með gildum rökum, að þessir fjölmiðlar hafi ekki gætt tilhlýðilegs jafnvægis milli kynja og/eða einstakra greina í umfjöllun um íþróttir.

Nú hefur kraftmikill menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem gerði garðinn frægan með ÍR snemma á níunda áratugnum, gert það sem í hennar valdi stendur til að ráða bót á þessu við kaup á þjónustu af Ríkisútvarpinu ohf.

Ef það er tilviljun að það beri upp á þessi tímamót að RÚV missir formúluna þá er það undarleg tilviljun. Þetta eru tímamót sem jafnréttissinnar munu eflaust fagna því til efs er, að nokkur önnur íþrótt sé jafnmikið karlasport. Karlar eru í öllum aðal- og aukahlutverkum. Á mótsstað rekst maður að tjaldabaki á stöku konu við bílskúra og á athafnasvæðum liðanna. Hlutverk þeirra er nær eingöngu bundið við að dreifa til blaðamanna fjölrituðum upplýsingum og kommentum frá ökuþórum og liðsstjórum um æfingar, tímatökur og keppni.

Þótt þær séu starfi sínu örugglega vel vaxnar og eldklárar þá hefur mér oftast fundið sem þessar konur væru meira upp á punt hjá liðunum. Þær falla yfirleitt að einhverri formúlu um lengd, breidd og hæð og eru helst af ljósara taginu. Þar sér maður t.a.m. aldrei feitar konur eða ljótar, enn síður svartar eða gular á hörund svo eitthvað sé nefnt.   

Þrátt fyrir að karlmennskan fái notið sín í æsar í formúlunni sýna allar rannsóknir og mælingar, að áhuginn á henni er ekki bundinn við karla. Hann er ekki síðri hjá konum, það er staðreynd. Og um margt er hún fjölskyldusport því börnin hafa ekki síður gaman af.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þór Bjarnason

Auðvitað er áhugi á Formúlu fjölskyldu- og kvenlægur, þetta sér maður víða í kringum sig. Rifja upp að þær aðalkonur á formula.is hér um árið, Inga og Freyja, voru þær sjóðheitustu formúlusportistar sem ég hef fyrirhitt. Synd að þetta sé farið frá Ruv, ég er handviss um að konum og börnum í áhorfendahópi fækkar mikið þegar F1 fer á lokaða rás.

Jón Þór Bjarnason, 25.3.2007 kl. 10:56

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Það er laukrétt hjá þér að formúlan nýtur ekki minni vinsælda meðal kvenkynsins. Jafnréttisumræðan og íþróttir snýst ekki um það, heldur um að fjallað sé um íþróttir kvenna til jafns við íþróttir karla. Ráðherrann hefur nú sett slíkar kvaðir á Ríkisútvarpið ohf. Og því ætti það að hafa meira fé til að fjalla um kvennaíþróttir fyrst þeir þurfa ekki lengur að borga óskilgreindar upphæðir fyrir formúluna. 

Þetta hefur ekkert með mína afstöðu til málanna að gera, eða umræðunnar um íþróttaumfjöllun fjölmiðla og á hvort kynið hún fjallar.

Framtíðin verður að leiða í ljós hvort áhorf aukist eða minnki en samkvæmt samningum eru útsendingar formúlunnar bundnar við það að þær séu í opinni rás, ekki lokaðri. Ætli Sýn að loka á eitthvað af henni missa þeir réttinn samdægurs! Bernie sér til þess, hann hlífir engum.

Ágúst Ásgeirsson, 25.3.2007 kl. 17:27

3 identicon

það er mjög slæmt að sýningarrétturinn sé að fara frá ruv því það sjá ekki allir sýn, ég er mjög ósáttur við þetta og mundi vilja að það yrði gert allt til að ruv fengi þetta aftur, mér fynnst þetta hneygsli fyrir ruv, það er spurning hvort ruv ætlar að missa allar íþróttir frá sér. Þá er spurningin um afnotagjöldin hvort ætti að borga fyrir það sem maður horfir á en ekki skyldur að borga ruv.

Árni Bjarkason. (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 13:14

4 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Það er ekkert í reglum Formúlunnar sem hindrar að kona keppi þar. Þetta er ekki karlkynsíþrótt, þetta er íþrótt fyrir þá sem vilja taka þátt. Og því er rétt að spyrja hvar eru konurnar? Því eru þær ekki meðal keppenda? Konur hafa keppt í karti á Íslandi með góðum árangri. Það hafa þær blandað sér af alvöru í slaginn um fyrsta sætið og því ætti það ekki að vera þannig? Það að þetta er líkamleg íþrótt, krefst líkamlegs atgerfis, hefur kannski eitthvað um það að segja en ég held þó ekki. Hvar eru konurnar? Það er og verður í þeirra verkahring að taka þátt, þess verður ekki krafist af þeim og það verða ekki settar reglur eða lög sem skyldar þær til að taka þátt. Það ríkir fullkomið jafnræði með kynjum í akstursíþróttum. Í reglunum allavega. :)

Birgir Þór Bragason, 2.4.2007 kl. 08:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband