Vonandi þróast keppnin og verður fljótt meira spennandi

Kimi hafði yfirburði og stakk af strax eftir ræsingu í Melbourne.Jæja, þá er ballið byrjað á ný. Auðvitað hafði maður beðið spenntur mánuðum saman og búinn að telja sér trú um, eins og venjulega, að keppnin yrði fjörleg. Ökuþórarnir myndu bjóða upp á rokk og tjútt, svo fór þó ekki og lítið fannst mér fjörið á dansgólfinu. Það sem eftir situr í huganum þremur dögum seinna eru minningar um yfirburði Kimi Räikkönen og ljómandi góð byrjun Lewis Hamilton.

Hélt satt að segja að bílarnir yrðu miklu jafnari og keppnin því tvísýnni. Niðurstaðan sú að aðeins hlutverkaskipti hafa átt sér stað frá í fyrra og bilið áfram stórt milli einstakra liða. Framfarir hjá McLaren, BMW og Super Aguri og nokkrar hjá Williams. Toyota, Spyker, Red Bull og Toro Rosso á sínum stað um og aftan við miðju, en gríðarleg afturför hjá Honda og þó nokkur hjá Renault.

Á toppnum er ljóst, að Ferrari hefur tekist að halda þræðinum áfram þar sem frá var horfið í fyrra en Renault dalað. Þessi tvö lið voru einráð í fyrra. Mesta breytingin milli þeirra er að Ferrari er áfram með tvo góða ökuþóra, toppmaður er farinn frá Renault sem í staðinn er með nýliða sem klikkaði eins mikið og hægt var. Mér hefur aldrei þótt Fisichella nema miðlungs góður en hann fær prik fyrir að halda Massa fyrir aftan sig á síðustu hringjunum. Þar sýndi hann styrkleika á lakari bíl.

Renault munar um að hafa misst Alonso en að sama skapi hefur McLaren stórgrætt. Hann er enn banhungraður og hvötin mikil að gera góða hluti með nýju liði. Räikkönen var búinn að missa áhugann eftir þrjú til fjögur mót í fyrra en nú ætti hann að verða bardagaglaður í ár á góðum bíl og sigur í fyrsta móti gefur honum mikinn byr í seglin.

Stuðningsmenn Ferrari eru ugglaust með hýrri há og unnendur McLaren bjartsýnni en í fyrra. Þar sem ég held hvorki með liði og tæpast með ökuþór þá varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum með mótið vegna þeirrar litlu keppni sem þar átti sér stað í betri helming bílahópsins. Jákvæðu hlutirnir eru framfarir McLaren og Super Aguri og frábær akstur Hamiltons.

Mér hefur fundist mikið spunnið í Kovalainen frá í GP2-mótunum og miklar vonir hafa verið bundnar við hann. Kannski óraunhæfilega miklar því honum hefur verið ætlað að veifa þeim gunnfána sem Alonso flaggaði svo glæsilega. En þessi geðugi piltur, sem ég hef hitt og kynnst lítillega, brást algjörlega að þessu sinni. Mikilvægt er fyrir hann að gera mun betur strax í næsta móti - og það vona ég - svo hann missi ekki kjarkinn sem til þarf í toppslaginn. 

Nú er bara að vona, að fyrsta mótið segi ekki alla söguna um stöðu formúlunnar; að keppnin eigi eftir að jafnast mun meira. Maður verður að hafa biðlund og gefa því þrjú til fjögur mót eða svo. Enda munu liðin breyta bílum sínum nokkuð eftir tvö til fjögur mót og búa þá nýjungum, sem orðið hafa til vegna bílprófana í aðdraganda keppnistímabilsins.

Maður vonar bara að sviptingar verði meiri og dansinn fjörlegri þegar kemur að mótunum í Evrópu. 

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband