Alvarlegar ásakanir og afleiðingarnar geta orðið harðar

Þangað til annað kemur í ljós ætla ég ekki að leggja hinn minnsta trúnað á ásakanir brasilískrar sjónvarpsstöðvar um að Renault hafi svindlað sér til sigurs í Singapúr í fyrra. Hræddur er ég um að þessi kenning sé ein afleiðing af þeirri hrikalegu og langvarandi fýlu sem Nelson Piquet hefur verið í eftir að hann var settur af hjá liðinu.

Samsæriskenningar í þessa veru komu upp á sínum tíma en voru fljótt afskrifaðar og engin gögn komu fram er studdu þær. Vegna nýju ásakananna er eðlilegt að lagst verði yfir málið á ný, ekki síst ef Piquet heldur þessu fram. Þ.e. að hann hafi fengið fyrirmæli um að klessukeyra bíl sinn í kappakstrinum svo keppnisáætlun Fernando Alonso gengi upp. Hann átti að stoppa snemma á bensínlitlum bíl en Piquet seint. Þær áætlanir byggðust á tilgátu um að öryggisbíll yrði kallaður út í brautina. 

Og það gerðist einmitt eftir að Piquet klessti. Alonso hafði rétt áður stoppað til að taka bensín og ný dekk. Var því fyrstur er keppnin hófst að nýju er hlutverki öryggisbílsins var lokið. Lét hann ekki happ úr hendi sleppa og ók til sigurs.

Víst er að afleiðingar þessara ásakana geta orðið alvarlegar. Reynist þær réttar verður bæði Renault og Piquet hegnt harkalega, jafnvel í keppnisbann. Komi hins vegar í ljós, að um þvætting sé að ræða eða ósannanlegar tilgátur sleppur Renault. Verði ásakanirnar raktar til Piquet fær hann líklega á baukinn fyrir að koma óorði á íþróttina, reynist þær staðlausar.

Þetta er að sönnu grafalvarlegt mál hver svo sem niðurstaðan verður. Og alls ekki sú auglýsing sem formúla-1 þarf á að halda. Ég held hins vegar þetta sé bull og velti fyrir mér siðferði brasilísku stöðvarinnar að halda þessu fram án þess að tilgreina það nánar. Til dæmist hvenær og hvernig Piquet var beðinn að klessa og hver eða hverjir báðu hann um það.

Væntanlega koma margir við sögu í samsæri af þessu tagi; stjórnendur og ökumenn í það minnsta. Einu áþreifanlegu sönnunargögnin eru talstöðvarfjarskipti milli stjórnborðs ökumannanna. FIA hefur alltaf haft aðgang að þeim og skoðaði á sínum tíma. Hver nýju gögnin sem brasilíska stöðin heldur fram að séu til verður fróðlegt að heyra um.

Sé þar einungis um að ræða fullyrðingar Piquet þá mun hann væntanlega sitja uppi með þær sjálfur. Það er ekki nóg að honum hafi verið mislagðar hendur í keppni og lítið sýnt. Heldur hefur hann sýnt einkennilegt dómgreindarleysi frá því hann var leystur undan samningi sem hann gat sjálfur ekki efnt.  

 


Ætlaði BMW að græða á sölu formúluliðsins?

Peter gamli Sauber var greinilega reiður BMW og afstöðu þýska bílafyrirtækisins gagnvart tilraunum hans til að bjarga liðinu. Ætlar BMW virkilega reyna græða á brottförinni úr formúlu-1? Á eign sem í raun og veru við núverandi efnahagsaðstæður er verðlaus? Sauber segir altjent að BMW hafi heimtað alltof mikið fyrir liðið. 

Sé þetta svo þá er lítt mark takandi á orðum yfirmanna BMW um að þeir aðhyllist lausn í anda þess sem gerðist með Hondaliðið er japanski bílaframleiðandinn dró sig út úr formúlu-1. Ross Brawn þurfti nefnilega ekki borga nema eina evru fyrir liðið. Já, jafnvirði 180 íslenskra króna.

Og það sem meira var, Honda veitti liðinu talsverða fjárhagslega meðgjöf. Lagði fram sem svaraði rekstrarkostnaði þess fyrsta árið. Enda talið betra en sitja upp með tjón af lokun liðsins og atvinnumissi mörg hundruð starfsmanna.

Öðru vísi hugsa þeir hjá BMW. Eða annað verður ekki skilið af orðum Sauber. Honum er fyrst og síðast annt um starfsmenn liðsins, að þeir haldi lífsviðurværi sínu. Hann segist hafa átt í þriggja daga áköfum samningaumleitunum við BMW.

Með því að klúðra tækifærinu til að skrifa undir Concorde-samkomulaginu í gær á BMW ekki lengur tilkall til öruggrar þátttöku í formúlu-1 næstu þrjú árin. Og undirritun samkomulagsins hefði tryggt liðinu jafnvel tugi milljóna dollara af sameiginlegum tekjum íþróttarinnar.

Alþjóða akstursíþróttasambandi hafði veitt BMW sérstakan frest til að undirrita samkomulagið en upp á það skrifuðu öll önnur lið fyrir nokkru. Sambandinu er nú í sjálfsvald sett að láta BMW lönd og leið og bjóða nýjum liðum sem knýja á dyr formúlunnar aðild.

Og FIA gæti allt eins gert arftaka BMW-liðsins skylt að skrá sig sem nýtt lið og verða þannig af tekjum sem því hefðu ella verið tryggðar. Þannig leit Bernie Ecclestone eiginlega á Brawnliðið og neitaði því um að öðlast sjálfkrafa fjárhagsleg réttindi sem Honda naut samkvæmt fyrra Concorde-samkomulagi.

Það var ekki fyrr en Brawn skrifaði í síðustu viku upp á nýja Concorde sem Ecclestone borgaði liðinu 35 milljónir evra sem Honda átti rétt til fyrir þátttöku sína árið 2008. Nú náði BMW margfalt betri árangri en Honda í fyrra og mætti ætla að greiðslur til BMW frá Ecclestone yrðu hærri. 

Samtök formúluliðanna (FOTA) hafa þó líklega komið í veg fyrir það um sinn með heitstrengingum þess efnis að BMW verði kleift að skrifa upp á Concorde-samkomulagið þótt síðar verði. Boltinn er alfarið hjá yfirmönnum BMW og þótt Sauber segðist súr lýsti hann í dag vilja til að aðstoða við tilraunir til að tryggja tilveru liðsins.

Sauber rennur blóðið til skyldunnar. Hann hélt sig nefnilega vera tryggja starfsfólki sínu starfsöryggi til fjölda ára er hann seldi BMW liðið sem eftir honum hét árið 2005. Hélt hann eftir 20% hlut og í krafti hans beitir hann sér nú.

Telja verður BMW það til tekna að frestur þess til að skrifa upp á Concorde-samkomulagið var lítill, eða um vika. Aðdragandi ákvörðunar fyrirtækisins um að draga sig út úr formúlunni er þó miklu lengri en svo.

Því má segja að BMW hafi látið hjá líða að búa liðið að einhverju leyti undir framtíðina. Og í raun klúðrað því máli frekar með því að afhenda Sauber ekki liðið til baka fyrir lítið; einhverja táknræna upphæð. Í staðinn kallaði BMW yfir sig þá einkunn Peters Sauber, að gærdagurinn hafi verið sá bitrasti á 40 ára ferli hans í akstursíþróttum.

Fréttin um brottför BMW úr formúlunni var nógu slæm. En það yrði víða túlkað sem ófyrirgefanlegt ef liðið verður látið deyja. Vegna síngirni og græðgi. Fyrir að reyna selja verðlausa eign á miklu hærra verði en nokkur er tilbúinn að borga.

Vonandi tekst þessu ágæta liði að halda velli. Það býr yfir hinni ágætustu aðstöðu í Hinwil í Sviss og tækniþekkingu. Finnist ekki kaupandi að liðinu með öllu því sem það hefur til að bera - og þar með ágætum árangri undanfarin ár - er ekki óeðlilegt að maður efist um að nýju formúluliðin þrjú, sem mæta til leiks á næsta ári, muni halda velli.

Þau þurfa nefnilega sjálf að bera allan kostnað af upphafi sínu í íþróttinni og fá engan skerf af tekjum íþróttarinnar fyrr en á öðru ári. Og þá í hlutfalli af frammistöðu sinni á fyrsta ári. Ný lið standa þannig fremur höllum fæti í upphafi gagnvart rótgrónum liðum. Þannig hefur það alltaf verið og mér skilst engin breyting hafi orðið á því.

 


Tek ofan fyrir Schumacher!

Aldrei var ég hrifinn af Michael Schumacher, það var eitthvað við persónuleikann sem olli því. Og ég hélt líka upp á suma helstu keppinauta hans. Hins vegar hefur mér aldrei dulist að hann er afburða ökumaður og keppnismaður eitilharður. Heimsmeistaratitlarnir hans sjö eru auðvitað kraftbirting þess. En nú tek ég ofan fyrir Schumacher.

Mér finnst það aðdáunarvert af honum að koma sínu gamla og góða liði til hjálpar á þessari stundu. Þegar annar ökumaður þess, Felipe Massa, liggur illa særður á sjúkrahúsi vegna slyss í tímatökunum í Búdapest sl. laugardag. Fyrirséð er að Massa snýr ekki til keppni í senn, jafnvel ekki meira í ár.

Því var Ferrari vandi á höndum. Áttu reynsluökuþórarnir að fylla skarð Massa eða skyldi liðið reyna laða Fernando Alonso til sín, eins og Bernie Ecclestone vildi? Eða leita til síns gamla meistara, eins og Niki Lauda lagði til.

Sú leið var farin og er í raun eðlilegust, því vitað er að Schumacher hefur haldið sér í góðri líkamsæfingu þótt hann hafi formlega hætt keppni í árslok 2006.

Hollustan sem hann sýnir Ferrari með því að verða við kalli liðsins er þakkarverð. Og með þessu sýnir Schumacher á sér nýjar hliðar. Hann þótti hrokafullur og samferðamenn hans hjá liðum hafa lýst honum sem síngjörnum. Sú ákvörðun hans að svara kalli Ferrari finnst mér fremur sýna örlæti og auðmýkt, og þjónustulund. Já, ef ekki stórmannleg.

Ég held hann geri formúlu-1 mikinn greiða með þessu. Einmitt þegar íþróttin hefur átt undir högg að sækja vegna pólitískra átaka sem gert hafa marga unnendur íþróttarinnar fráhverfa henni. Nú flykkjast eflaust fleiri á mótsstað. Annað hvort til að sjá meistarann sýna að hann hefur engu gleymt eða sjá hann lagðan að velli svo um munar! En það má ekki gera alltof miklar kröfur til hans, það fyndist mér ósanngjarnt. Alla vega ekki í fyrsta móti. Sjálfur ætlar sér hann örugglega reyna verða í fremstu röð, þekki ég hann rétt.

Hvað segir Kimi?

Sú spurning sem ég vildi helst heyra svarið við núna er hvað segir Kimi Räikkönen um endurkomu Schumacher? Sá þarf að hafa meiri áhyggjur af því en nokkur annar. Eða taka því sem hundsbiti og sparrka rækilega í eigin afturenda. Hysja upp um sig buxurnar og sýna gamla góða getu sem hefur lítið sem ekkert borið á í tvö ár.

Ég hef trú á að Räikkönen taki sér nú tak. Og vakni af værum blundi. Annars blasir við honum sú hætta að Schumacher flengi hann og orðspor hans bíði alvarlega hnekki. Kannski eigum við því eftir að sjá breytingar til hins betra af hálfu Räikkönen.

Önnur hejta snýr aftur

Önnur gömul hetja, hjólreiðamaðurinn Lance Armstrong, sneri í ár til keppni eftir næstum fjögurra ára hlé. Hann þótti hrokafullur og síngjarn á sínum tíma er hann reið til sjö sigra í Frakklandsreiðinni (Tour de France) sjö ár í röð. Hann stóð sig frábærlega í mótinu í ár með þriðja sæti. Og nú var allt annar og menskari maður á ferðinni. Vakti hann hvarvetna aðdáun með framkomu sinni í túrnum í ár, ákaft hvattur til dáða af milljónum Frakka sem röðuðu sér upp með hjólaleiðunum. 


Verður ekki að dæma Brawn úr leik líka?

Það hlýtur að vera hundfúlt fyrir Renaultliðið að vera dæmt úr leik fyrir að felguró hægra framhjóls á bíl Fernando Alonso festist ekki sem skyldi í þjónustustoppi í Hungaroring í gær. Ég velti því fyrir mér hvort þar gangi dómarar kappakstursins ekki full langt. Verða þeir ekki líka að dæma Brawn úr leik í mótum fyrir lausa fjöðrunargorminn sem stórskaðaði Felipe Massa? Geta þeir fyrr talist samkvæmir sjálfum sér? Er ekki um ófyrirséðar bilanir að ræða í báðum tilvikum?

Renaultliðinu var fundið það til sakar að hafa ekki fest felguróna sem skyldi. Hvað með gorminn sem hengir fjöðrunarkerfi afturhjóla Brawnbílsins saman? Gildir ekki hið sama um það tilfelli?

Auðvitað fyndist mér það út í hött ef Brawn yrði refsað vegna þessa hörmulega atviks. Hér hlýtur að ver um bilun að ræða sem á nánast að vera útilokuð og enginn getur séð fyrir.

Þá hélt ég að dekkjamenn á þjónustusviði teldu sig vita hvort felguró væri föst eða ekki. Oft höfum við séð þá þurft að glíma við þær meira en eðlilegt er og ná að festa þær á endanum. Gaf ekki felgumaðurinn í tilviki Alonso merki um að hann hefði lokið sínu hlutverki og hjólið væri fast undir? Var um bilun í rónni að ræða sem hann varð ekki var? Spyr sá sem ekki veit.

Við því fást væntanlega svör á næstunni og ekki síst þegar áfrýjunardómur Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) tekur málið fyrir. Renault hefur áfrýjað úrskurði dómara kappakstursins sem dæmdu liðið úr leik í gær.

 


Fyrsti sigur KERS-bíls

Margs konar tímamót urðu í ungverska kappakstrinum önnur en þau að þar keppti yngsti ökuþór sögunnar, Jamie Alguersuari hjá Toro Rosso. Telst þar meðal annars til tíðinda að þar vann bíll búinn KERS-búnaði sigur í fyrsta sinn; silfurör McLaren en undir stýri sat Lewis Hamilton.

Reyndar var KERS-bíll einnig í öðru sæti, eða Ferrarifákur Kimi Räikkönen og líka í því fimmta, en þar var á ferð Heikki Kovalainen hjá McLaren. Er það langbesta útkoma KERS-bíla í ár.

Þetta var tíundi mótssigur Hamiltons en nefna má, að jafn marga sigra unnu Englendingurinn  James Hunt, Svíinn Ronnie Peterson, Suður-Afríkumaðurinn Jody Scheckter og Gerhard Berger sá austurríski.

Tveir breskir ökuþórar hafa þar með unnið sigur í ár, Hamilton og Button. Það hefur ekki gerst frá 1999 er Eddie Irvine, David Coulthard og Johnny Herbert unnu allir mót.

Fernando Alonso hjá Renault hóf keppni af ráspól í fyrsta sinn frá í ítalska kappakstrinum í Monza 2007. Var þetta 18 ráspóll hans en jafnmarga unnu á sínum tíma þeir Mario Andretti frá Bandaríkjunum og Frakkinn Rene Arnoux.

Þrír ökumenn skiptust á forystu í Hungaroring í gær, Alonso, Hamilton og Kovalainen. Enginn þeirra hafði verið í þeirri stöðu fyrr á vertíðinni í ár.

Jenson Button hjá Brawn hefur verið í forystu meira en tvöfalt fleiri hringi en nokkur annar í ár. Þó hefur hann aldrei verið í forysta í síðustu þremur mótum. 

Button hefur unnið stig í öllum mótum ársins en sjöunda sætið í gær er hans versti árangur í ár.

Mark Webber hjá Red Bull átti hraðasta hringinn í Hungaroring. Er það í fyrsta sinn á ferlinum sem hann nær þeim áfanga. Skipar hann sér á bekk með 115 öðrum ökumönnum sem sett hafa hraðasta mótshring í 60 ára sögu formúlunnar.

Vegna fjarveru Felipe Massa af völdum meiðsla í tímatökunum á laugardag tóku aðeins 19 bílar þátt í kappakstrinum í gær. Færri hafa ekki verið á rásmarkinu frá í bandaríska kappakstrinum árið 2005 er þeir voru aðeins sex.

Renault hefur verið útilokað frá næsta móti, Evrópukappakstrinum í Valencia á Spáni 23. ágúst Álíka gerðist síðast 2005 er BAR-liðið var útilokað frá tveimur mótum.

 


Ökuþórar ósammála um ágæti keppni Alguersuari

Ökuþóra formúlunnar greinir á um ágæti þess að Toro Rosso teflir fram spænska nýliðanum Jamie Alguersuari um helgina í Búdapest. Fernando Alonso og Sebastian Vettel hafa komið honum til varnar en Mark Webber, Lewis Hamilton, Felipe Massa og Jenson Button eru í hópi þeirra sem finna að ráðningunni og telja meiri líkur en minni á að Alguersuari geti spillt fyrir sér með keppni í formúlu-1.

Helst er fundið að reynsluskorti Alguersuari en hann hefur lítið sem ekkert ekið formúlu-1 bíl, einungis tvisvar og þá aðeins beint áfram. Hann hefur hins vegar talsverða reynslu úr öðrum mótaröðum; varð meistari í hinni bresku formúlu-3 í fyrra og keppir nú í öflugri mótaröð, svonefndri Heimsmótaröð Renault.

Allra síst skil ég Button sem stökk beint úr bresku formúlu-3 inn í formúlu-1 aðeins tvítugur að aldri, nokkrum mánuðum eldri en Alguersuari. Hið sama gerði Kimi Räikkönen og gagnrýndi enginn reynsluleysi þeirra, svo ég muni til. Ég hef ekki séð Räikkönen gefa álit á keppni Alguersuari, enda Finninn skynsamur.

Rétt er þó að taka fram, að Button naut þess að geta sinnt bílprófunum í talsverðu mæli veturinn fyrir fyrsta kappakstur hans. Og þar stendur hnífurinn eiginlega í kúnni hvað spænska nýliðann varðar. Reglur formúlunnar eru nú með þeim hætti að engar bílprófanir mega fara fram á keppnistímabilinu og fremur takmarkaðar - miðað við sem áður var - utan þess.

Því er sama hvort nýliði heitir Alguersuari eða þess vegna Kristján Einar Kristjánsson, svo gott dæmi sé tekið. Reglur formúlu-1 beinlínis koma í veg fyrir að þeir liðsfélagarnir fyrrverandi geti keppt í formúlu-1 öðru vísi en með litla reynslu af formúlu-1 bíl.

Á þetta hefðu gagnrýnendur Alguersuari úr röðum kollega hans átt að benda. Það hefur aðeins Vettel gert, sem komið hefur nýliðanum til varnar ásamt Alonso. Athyglisvert er að þessir tveir ökuþórar, Alonso og Vettel, eru tveir yngstu sigurvegarar sögunnar í formúlu-1.

Mér þótti vitaskuld fúlt að Sebastien Bourdais skyldi settur af hjá Toro Rosso. Það er búið og gert og því mun ég fylgjast með nýjasta liðsmanni formúlunnar af áhuga um helgina.

Ekki tel ég mig í stakk búinn til að taka afstöðu með eða móti keppni Alguersuari.  Hann er væntanlega ráðinn vegna færni sinnar. Eða hvað? Sennilega hefur ekki átt minni þátt í því, að hið fjársvelta Toro Rosso lið fær milljón evrur fyrir hvert mót hans. Þá meðgjöf borga styrktarfyrirtæki Alguersuari, spænski bankinn La Caixa og olíurisinn Repsol.

Red Bull þoldi ekki velgengni Toro Rosso

Það er nefnilega athyglisvert - og efni í sérstaka umfjöllun - að velgengni Toro Rosso í fyrra með Vettel og Bourdais innanborðs varð til þess að móðurliðið Red Bull féll í skuggann! Smáliðið vann mótssigur en stórliðið kom aðeins einu sinni manni á pall, gamla refnum David Coulthard.

Og ráðið við því sem gripið var til var að svelta litla liðið bæði um fjármuni og tækniaðstoð. Í fyrra höfðu liðin úr nær eins bílum að spila en nú er öldin önnur. Af því að Davíð vann Golíat!  


Enginn þurft að bíða eins lengi og Webber

Mark Webber hjá Red Bull vann verðskuldaðan jómfrúarsigur í þýska kappakstrinum í Nürburgring sl. sunnudag. Það var hans 130. kappakstur í formúlu-1. Enginn ökuþór af þeim sem unnið hafa mót hafa þurft að þreyja þorrann jafn lengi og hann.

Með þessu hefur Webber sett met í 60 ára sögu formúlu-1 en væntanlega er hann ekkert sérlega hreykinn af því meti. Eða ætli hann kæri sig ekki bara kollóttann um það!

Aðeins tveir aðrir ástralskir ökuþórar hafa fagnað sigri í formúlu-1, Jack Brabham og Alan Jones. Þeir urðu báðir heimsmeistarar.

Svo maður bregði sér aðeins yfir á persónulegar nótur þá varð ég þess aðnjótandi að sitja í sportbíl hjá Webber í Nürburgring fyrir tveimur árum. Þar var ég ásamt hópi Íslendinga á vegum ferðaskrifstofunnar Ísafold undir frábærri forystu Jón Baldurs Þorbjörnssonar, ferðafrömuðar og bíltæknifræðings. Ökuþórar í formúlu-1 voru meðal þeirra sem óku gestum um brautina eftir tímatökurnar og hrepptu þrír aðrir úr Ísafoldarhópnum slíka ferð; einn á Ferrarisportbíl, annar á Honda, sá þriðji á Spykersportbíl og ég á Renault sportbíl.

Þarna var um að ræða svonefnda „Race-Taxi“, sérlega tjúnaða og styrktra sportbíla með atvinnuökumenn undir stýri. Fann maður vel fyrir brautinni og átökunum í beygjunum.

Um þetta bloggaði ég á sínum tíma, og sagði þá m.a.:

„Ökuþórar í formúlu-1 voru meðal þeirra sem óku gestum um brautina og sat blaðamaður bílablaðsins hjá Mark Webber, keppanda Red Bull, hringinn á Renault-sportbíl. Tekur hann undir lýsingar samferðamanna í einu og öllu um þá reynslu.

Þar sem formúlubíll nýtur mikillar þyngingar af vængjum framan og aftan og allt um kring er hægt að hægja á honum mun seinna en öðrum bílum. Þannig bremsuðu formúlubílarnir ekki fyrr en 60 metrar eða svo voru í fyrstu beygju, hægðu ferðina úr rúmlega 300 km/klst í um 70 á þeim tíma.

Webber hafði ekki slíka þyngingu á Renaultinum og þurfti því mun meiri vegalengd til að hægja ferðina úr um 180 km í um 60 fyrir fyrstu beygju. Negldi hann bílinn í malbikið og skipti niður á augabragði. Sótti svo inn í beygjurnar af eins miklu afli og aðstæður leyfðu.

Einkabíl mínum hefði ég áreiðanlega velt við slíkan akstur en fjöðrunarbúnaður bíls Webbers var búinn undir átökin og hélt honum á réttum kili alla tíð. Ískraði í dekkjunum undan álaginu og í fyrstu beygjuslaufunni hélt ég Webber ætla að ofkeyra því stundum virtist bíllinn vera á nippinu og að missa gripið og snúast.

Það var ástæðulaus ótti því Ástralinn hugrakki hafði fullkomin tök á bílnum og leiðrétti minnstu tilhneigingu bílsins til að skríða útundan sér með stýri eða lyfta bensíngjöfinni um millimetra eða svo. Nokkru áður en hverri beygju lauk var hann byrjaður að þenja fákinn sem mest hann mátti til að komast sem fyrst á ferð út úr þeim.

 

Góður árangur Webbers

Þannig leið hringurinn og var greinilegt að undir stýri sat vanur maður. Bremsaði seint og ákveðið svo öryggisbeltin tóku fast í viðbeinin. Jafnt og þétt var þungi lagður á ytra dekkið inn í beygjur svo væntanlega hefur úr því kvarnast í rimmum Webbers við beygjurnar, bæði hraðar og hægar. Rétt eins og hann hefði það í fingrunum hvernig þau gætu bitið í malbikið án þess að bíllinn leystist upp. Afbragðs aksturstækni skilaði sér og hringurinn var alltof fljótur að líða. Hið eina súra var að við urðum að gefa eftir fyrir öðrum sportbíl undir lok hringsins og hleypa fram úr. Ekki að undra því hann var af gerðinni Mercedes og það silfraður.

Fyrr um daginn varð Webber í sjötta sæti í tímatökum kappakstursins í Nürburgring og daginn eftir náði hann sínu besta í keppni í tvö ár með því að verða þriðji í keppninni sjálfri, á eftir Alonso og Massa. Mér þótti mikið til aksturs hans á Renaultinum koma og ekki síður á Red Bull-bílnum daginn eftir. Fannst mér hann kvitta fyrir aðgangshörku mína á blaðamannafundi í Hagkaupum í Smáralind í maí 2005 en þá hafði hann ekki staðið undir miklum væntingum og t.a.m. ekki komist á verðlaunapall í mótunum 55 sem hann átti þá að baki í formúlu-1.“

 


Mát

Skákinni er lokið. Ekki þó með máti annars aðilans, heldur líklega beggja. Verði hún ekki tekin upp og tefld upp á nýtt til jafnteflis er hætt við því að formúla-1 sitji eftir í sárum. Hún verður hvorki fugl né fiskur með Williams og Force India sem aðal lið við hlið mótaraðar með Ferrari og McLaren innanborðs.

Það voru sorglegar fréttir - en kannski ekki svo óvæntar eftir allt sem gengið hefur á - að formúla-1 skyldi klofna. Ég ætla rétt að vona að maður eins og Bernie Ecclestone - sem á allt sitt undir - skerist í leikinn og afstýri klofningi. Viðskiptaveldi hans stendur og fellur með því.

Sé niðurstaðan endanleg stendur formúla-1 ekki lengur undir nafni. Sumir halda því fram að hún sé eign Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA). Sem slík er hún verðlaus, alla vega í einhver ár. Reyndar er ég því algjörlega ósammála að íþrótt sé „eign“ einhvurs eða einhverra. Hún er fyrst og fremst samstarf þátttakenda og leikenda. Og þarf á góðri forystu að halda sem er þeim hæfileikum prýdd að geta leitt hana í sæmilegri sátt og sett niður deilur. Svona eins og á víðast við í íþróttunum.

Þar kemur að hlutskipti forseta FIA, Max Mosley. Eflaust maður margra kosta en mér sýnist honum hafa mistekist hrapallega að halda greininni saman. Skort hæfileika hins farsæla stjórnanda sem siglir skútu sinni út úr brotsjóum og í heila höfn. Enda stjórnað með valdboði eins og keisari.

Og liðin hafa síðustu misseri kvartað undan tillitsleysi hans gagnvart þeim og tillögum þeirra. Hann hefur í raun valtað yfir hugmyndir þeirra. Undir hans forystu hafa reglur formúlunnar tekið breytingum ár frá ári. Allt í nafni þess að auka á skemmtunina og síðar draga úr kostnaði.

Niðurstaðan er rýr - keppnin hefur lítið fjörgast og sparnaðaráform eins og t.d. KERS-búnaðurinn, sem var hugarfóstur Mosley, reynst misheppnaður og haft í för með sér fjárhagslega sóun.

Ég hef áður bloggað um Mosley. Og talið hann vera visst vandamál í tilraunum til að lægja öldur í formúlunni. Nú hefur hann beðið skipbrot og er aumkunnarverður. Margt er honum hægt að telja til tekna, til dæmis á sviði umferðaröryggismála. En tími hans sem foringja kappakstursíþróttarinnar eru taldir. Ég er sannfærður að hann sé það skynsamur að hann viðurkenni það, alla vega fyrir sjálfum sér, og dragi sig í hlé. Í síðasta lagi í haust, er kjörtímabili hans sem forseta FIA lýkur.

Það er óskemmtilegt fyrir hann að ver nú kominn upp á kannt við voldug fjölþjóðleg bílafyrirtæki á borð við Mercedes-Benz, BMW, Toyota, Ferrari og Renault. Þeim finnst hann hafa hagað sér gagnvart keppnisliðum þeirra með óviðeigandi hætti. Og hafa fengið sig fullsödd af einræðistilburðum hans. Ég er á því að keppnisliðin hafi nú undirtökin og Mosley verði að gera nokkuð sem hann hefur aldrei virst fáanlegur til - að gefa eftir.

Mosley og Ecclestone hafa sagt að formúlulið komi og fari. Hið sama má segja um keisaraveldi. Að því komust alla vega þeir Napóleon og Júlíus Sesar á sínum tíma!


Button verður betri með móti hverju

Ross Brawn, eigandi og æðsti stjórnandi liðsins sem við hann er kennt, lofaði Jenson Button eftir sigur hans í tyrkneska kappakstrinum. Var það sjötta mótið af sjö sem hann vinnur í ár. Er breski ökuþórinn því kominn með drjúgt forskot í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna. Brawn segir Button verða betri og betri með hverju móti.

Brawn segir að Button hafi aldrei ekið betur en í Istanbúl. Þar jók hann forystu sína í titilkeppninni í 26 stig. Fékk þó meiri keppni en oft áður, frá Sebastian Vettel hjá Red Bull, en keyrði bíl sinn aðfinnslulaust og sannfærði Brawn enn frekar um ágæti sitt.

„Hann ók af fullkomnun, það finnst mér. Virkilega tilkomumikil frammistaða. Hann bætti í þegar þess þurfti, leit eftir dekkjunum, passaði upp á mótorinn og gat sparað bensín þegar á þurfti að halda til að klára loturnar.

Ég held því að þetta hafi verið besta frammistaða hans í keppni - ekki endilega sú dramatískasta - en sennilega það besta sem ég hef séð til hans. Hann virðist einfaldlega verða betri og betri,“ segir Brawn, sem á sínum tíma var yfirmaður Michaels Schumacher í 13 ár.

Á bekk með stórmennum

Button siglir hraðbyri að heimsmeistaratitlinum. Titillinn verður hans von bráðar verði ekki lát á sigurgöngunni.

Með sjötta sigrinum á vertíðinni komst Buttoní hóp nokkurra frægustu ökumanna  formúlu-1 frá upphafi. Aðeins fjórir höfðu afrekað það áður, að vinna sex mót á einu og sama árinu.

Hér ræðir um Ítalann Alberto Ascari, Argentínumanninn Juan Manuel Fangio, Bretann Jim Clark og svo Schumacher. Allir urðu þeir heimsmeistarar í formúlu-1, hver á sínum tíma.

Næsta mót er Button líklega kærara en öll önnur; breski kappaksturinn í Silverstone. Hann segist stefna ótrauður að sigri þar, á heimavelli.


McLaren afskrifar líklega vertíðina en BMW ekki

McLarenliðið íhugar um þessar mundir að afskrifa keppnistímabilið og snúa sér hins vegar af fullum krafti að hönnun og þróun nýs bíls fyrir næsta ár. BMW-liðið er ekki á sömu skoðun þrátt fyrir mikla afturför miðað við undanfarin ár og mörg misheppnuð mót.

 

„Það er einn möguleikinn, en við erum ekki komin að því að gera út um það,“ segir Martin Whitmarsh, liðsstjóri McLaren, um líkurnar á að liðið einbeiti kröftum sínum að næsta árs bíl.

 

„Við göngum áfram til leiks staðráðnir í að keppa til sigurs. Það er ekki okkar háttur að gefast upp,“ segir Whitmarsh. Hratt nálgast sú stund að Lewis Hamilton falli úr keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra. Hann er sem stendur 42 stigum á eftir Jenson Button hjá Brawnliðinu.

 

Og ekki ganga McLarenmenn til mótsins í Tyrklandi um helgina bjartsýnir á að silfurörin verði sérlega samkeppnisfær þar. Brautin gerir kröfur til skilvirkni loftafls bíla og á því svellinu er McLarenbíllinn ekki sleipur.

 

BMW er ekki á þeim buxum að hætta vinnu í 2008-bílnum, segir tæknistjórinn Willy Rampf. BMW-bíllinn er mun slakari en bíll McLaren. Undanfarin ár hefur BMW fest sig í sessi sem eitt af toppliðum formúlunnar. Það ætlaði að keppa um titla í ár, en eftir hvert hörmunarmótið af öðru er BMW í áttunda sæti í keppni bílsmiða.

 

„Það hefur ekki hvarflað að okkur að ræða stöðuna út frá því að hætta þróun núverandi bíls,“ segir Rampf. „Bíll næsta árs verður öðru vísi, vitaskuld. Bensíntankurinn verður þá mun stærri því þá má ekki tanka í keppni. En þar sem loftaflsreglurnar breytast ekki getum við nýtt þá þekkingu sem við öðlumst í ár til að búa til skilvirkari bíl fyrir næsta ár.

Það er hægara sagt en gert að hætta vinnu við núverandi bíl og setja allan kraft í næsta árs bíl. Það er engin trygging fyrir því að það gangi upp,“ segir Rampf í aðdraganda tyrkneska kappakstursins. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband