Tek ofan fyrir Schumacher!

Aldrei var ég hrifinn af Michael Schumacher, það var eitthvað við persónuleikann sem olli því. Og ég hélt líka upp á suma helstu keppinauta hans. Hins vegar hefur mér aldrei dulist að hann er afburða ökumaður og keppnismaður eitilharður. Heimsmeistaratitlarnir hans sjö eru auðvitað kraftbirting þess. En nú tek ég ofan fyrir Schumacher.

Mér finnst það aðdáunarvert af honum að koma sínu gamla og góða liði til hjálpar á þessari stundu. Þegar annar ökumaður þess, Felipe Massa, liggur illa særður á sjúkrahúsi vegna slyss í tímatökunum í Búdapest sl. laugardag. Fyrirséð er að Massa snýr ekki til keppni í senn, jafnvel ekki meira í ár.

Því var Ferrari vandi á höndum. Áttu reynsluökuþórarnir að fylla skarð Massa eða skyldi liðið reyna laða Fernando Alonso til sín, eins og Bernie Ecclestone vildi? Eða leita til síns gamla meistara, eins og Niki Lauda lagði til.

Sú leið var farin og er í raun eðlilegust, því vitað er að Schumacher hefur haldið sér í góðri líkamsæfingu þótt hann hafi formlega hætt keppni í árslok 2006.

Hollustan sem hann sýnir Ferrari með því að verða við kalli liðsins er þakkarverð. Og með þessu sýnir Schumacher á sér nýjar hliðar. Hann þótti hrokafullur og samferðamenn hans hjá liðum hafa lýst honum sem síngjörnum. Sú ákvörðun hans að svara kalli Ferrari finnst mér fremur sýna örlæti og auðmýkt, og þjónustulund. Já, ef ekki stórmannleg.

Ég held hann geri formúlu-1 mikinn greiða með þessu. Einmitt þegar íþróttin hefur átt undir högg að sækja vegna pólitískra átaka sem gert hafa marga unnendur íþróttarinnar fráhverfa henni. Nú flykkjast eflaust fleiri á mótsstað. Annað hvort til að sjá meistarann sýna að hann hefur engu gleymt eða sjá hann lagðan að velli svo um munar! En það má ekki gera alltof miklar kröfur til hans, það fyndist mér ósanngjarnt. Alla vega ekki í fyrsta móti. Sjálfur ætlar sér hann örugglega reyna verða í fremstu röð, þekki ég hann rétt.

Hvað segir Kimi?

Sú spurning sem ég vildi helst heyra svarið við núna er hvað segir Kimi Räikkönen um endurkomu Schumacher? Sá þarf að hafa meiri áhyggjur af því en nokkur annar. Eða taka því sem hundsbiti og sparrka rækilega í eigin afturenda. Hysja upp um sig buxurnar og sýna gamla góða getu sem hefur lítið sem ekkert borið á í tvö ár.

Ég hef trú á að Räikkönen taki sér nú tak. Og vakni af værum blundi. Annars blasir við honum sú hætta að Schumacher flengi hann og orðspor hans bíði alvarlega hnekki. Kannski eigum við því eftir að sjá breytingar til hins betra af hálfu Räikkönen.

Önnur hejta snýr aftur

Önnur gömul hetja, hjólreiðamaðurinn Lance Armstrong, sneri í ár til keppni eftir næstum fjögurra ára hlé. Hann þótti hrokafullur og síngjarn á sínum tíma er hann reið til sjö sigra í Frakklandsreiðinni (Tour de France) sjö ár í röð. Hann stóð sig frábærlega í mótinu í ár með þriðja sæti. Og nú var allt annar og menskari maður á ferðinni. Vakti hann hvarvetna aðdáun með framkomu sinni í túrnum í ár, ákaft hvattur til dáða af milljónum Frakka sem röðuðu sér upp með hjólaleiðunum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband