Mát

Skákinni er lokið. Ekki þó með máti annars aðilans, heldur líklega beggja. Verði hún ekki tekin upp og tefld upp á nýtt til jafnteflis er hætt við því að formúla-1 sitji eftir í sárum. Hún verður hvorki fugl né fiskur með Williams og Force India sem aðal lið við hlið mótaraðar með Ferrari og McLaren innanborðs.

Það voru sorglegar fréttir - en kannski ekki svo óvæntar eftir allt sem gengið hefur á - að formúla-1 skyldi klofna. Ég ætla rétt að vona að maður eins og Bernie Ecclestone - sem á allt sitt undir - skerist í leikinn og afstýri klofningi. Viðskiptaveldi hans stendur og fellur með því.

Sé niðurstaðan endanleg stendur formúla-1 ekki lengur undir nafni. Sumir halda því fram að hún sé eign Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA). Sem slík er hún verðlaus, alla vega í einhver ár. Reyndar er ég því algjörlega ósammála að íþrótt sé „eign“ einhvurs eða einhverra. Hún er fyrst og fremst samstarf þátttakenda og leikenda. Og þarf á góðri forystu að halda sem er þeim hæfileikum prýdd að geta leitt hana í sæmilegri sátt og sett niður deilur. Svona eins og á víðast við í íþróttunum.

Þar kemur að hlutskipti forseta FIA, Max Mosley. Eflaust maður margra kosta en mér sýnist honum hafa mistekist hrapallega að halda greininni saman. Skort hæfileika hins farsæla stjórnanda sem siglir skútu sinni út úr brotsjóum og í heila höfn. Enda stjórnað með valdboði eins og keisari.

Og liðin hafa síðustu misseri kvartað undan tillitsleysi hans gagnvart þeim og tillögum þeirra. Hann hefur í raun valtað yfir hugmyndir þeirra. Undir hans forystu hafa reglur formúlunnar tekið breytingum ár frá ári. Allt í nafni þess að auka á skemmtunina og síðar draga úr kostnaði.

Niðurstaðan er rýr - keppnin hefur lítið fjörgast og sparnaðaráform eins og t.d. KERS-búnaðurinn, sem var hugarfóstur Mosley, reynst misheppnaður og haft í för með sér fjárhagslega sóun.

Ég hef áður bloggað um Mosley. Og talið hann vera visst vandamál í tilraunum til að lægja öldur í formúlunni. Nú hefur hann beðið skipbrot og er aumkunnarverður. Margt er honum hægt að telja til tekna, til dæmis á sviði umferðaröryggismála. En tími hans sem foringja kappakstursíþróttarinnar eru taldir. Ég er sannfærður að hann sé það skynsamur að hann viðurkenni það, alla vega fyrir sjálfum sér, og dragi sig í hlé. Í síðasta lagi í haust, er kjörtímabili hans sem forseta FIA lýkur.

Það er óskemmtilegt fyrir hann að ver nú kominn upp á kannt við voldug fjölþjóðleg bílafyrirtæki á borð við Mercedes-Benz, BMW, Toyota, Ferrari og Renault. Þeim finnst hann hafa hagað sér gagnvart keppnisliðum þeirra með óviðeigandi hætti. Og hafa fengið sig fullsödd af einræðistilburðum hans. Ég er á því að keppnisliðin hafi nú undirtökin og Mosley verði að gera nokkuð sem hann hefur aldrei virst fáanlegur til - að gefa eftir.

Mosley og Ecclestone hafa sagt að formúlulið komi og fari. Hið sama má segja um keisaraveldi. Að því komust alla vega þeir Napóleon og Júlíus Sesar á sínum tíma!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Indriðason

"Það er enginn einn aðili ómissandi."

Í þessu dæmi, sýnist mér að Max Mosley hafi sýnt þvílíka óbilgirni, að ef á að lægja öldurnar... þá verði hann að víkja.

*Andvarp*  Sem íþrótt þá finnst mér öll þessi ... tja... rifrildi... bæði milli liða, innan liða, og nú þetta... mér finnst Formúlan því miður hafa sett svolítið niður.

Ég ætla ekki að halda niðri í mér andanum þar til lausn kemur.  Vona bara það besta.

Einar Indriðason, 19.6.2009 kl. 17:22

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Tek undir með þér, Einar, um að lausn er allir sætta sig við verði fundin á þessum deilumálum. Og trúi reyndar ekki öðru en allt verði gert til þess næstu dagana og vikurnar. Auðvitað varpar svona rifrildi skugga á íþróttina; pólitíkin er í fréttafyrirsögnum en ekki keppnin. Vona líka það besta.

Ágúst Ásgeirsson, 19.6.2009 kl. 17:52

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég held að þetta sé kallað "heimaskítsmát".  Því miður vinnur hvorugur og íþróttin TAPAR mest.

Jóhann Elíasson, 22.6.2009 kl. 07:42

4 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Ég velti því einmitt fyrir mér að nota þetta orð, Jóhann, sem þú nefnir. En lét hitt duga. Heimaskítsmát felst í því að kóngurinn hafi aldrei verið hreyfður, og ég lét það trufla mig kannski of mikið. 

Ágúst Ásgeirsson, 22.6.2009 kl. 16:37

5 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Þetta er ótrúleg lesning. Og ekki síður er blogg þitt um Mosley hreint út sagt óforskammað. Þú ættir að sjá sóma þinn í að hætta að skrifa „fréttir“ úr þessum heimi. Botninum náðir þú í Morgunblaðinu í dag. Þar er hver rangfærslan á eftir annari.

Finndu þér annað áhugamál, eitthvað sem þú ert ekki skaðvaldur í.

Birgir Þór Bragason, 26.6.2009 kl. 19:19

6 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Mér finnst þú mættir rökstyðja gífuryrði þín, Birgir, á það vantar. Ég fæ ekki betur séð að það hafi ræst sem ég velti fyrir mér í þessu bloggi um framtíð Mosley. Hann fer og það sem meira er, samið var um að hann hefði engin afskipti af formúlunni frá og með í fyrradag, heldur annar FIA-maður.

Og það sem gerst hefur er að „skákin“ hefur verið tekin upp. Endurtaflinu lauk með fullnaðarsigri FOTA, að því kemstu ef þú kynnir þér málin. Íþróttaráð FIA afturkallaði allar reglurnar sem það setti í apríl fyrir næsta ár.

Í blogginu geta birst skoðanir mínar eða í skrifum undir nafni. Þú verður að sætta þig við það. Ég hef ekkert við það að athuga að fólk sé mér ósammála. En vilji þeir sem þannig er komið fyrir eiga við mig orðastað væri gott ef þeir rökstyddu mál sitt. Ef svo er ekki, þá er engu að svara, bara að taka yfirhellingunni - eins og þinni hér - af stóískri ró.

Ágúst Ásgeirsson, 26.6.2009 kl. 20:45

7 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Þú skrifar í Morgunblaðið í dag. Þar segir þú ýmislegt og segir það standa í samningnum. Hefur þú lesið þennan samning?

Hatur þitt á þeim sem hafa verið kjörnir til starfa hjá FIA er alveg með ólíkindum. Ég þarf ekki að rökstyðja það. Það sést í skrifum þínum. FIA er samband 122 landsambanda akstursíþrótta, svona ef það hefur farið fram hjá þér. VIð sem erum í þessum samtökum kunnum rugludöllum eins og þér engar þakkir fyrir lygafréttir. Þú hefur aftur og aftur fært lesendum Morgunblaðsins þessar lygar. Nú er nóg komið.

Birgir Þór Bragason, 26.6.2009 kl. 20:58

8 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Fréttir sem ég skrifa og greinar byggjast á upplýsingum m.a. frá alþjóðlegum fréttastofum og frásögnum mannanna sjálfra sem eru miðri hringiðunni, liðsstjóranna. Af nógu er að taka af upplýsingum og gögnum. Það er bara að lesa sig til, setja sig inn í hlutina!

Ég hata engan hjá FIA, sú fullyrðing þín er út í hött, óskiljanleg og órökstudd gífuryrði sem maður ætti ekki eyða orðum að. Og dæma sig í raun sjálf. Ég hef gagnrýnt Mosley en hrósað honum líka. Ég hef líka gagnrýnt Ecclestone en hrósað honum meira.

Ágúst Ásgeirsson, 26.6.2009 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband