Enginn þurft að bíða eins lengi og Webber

Mark Webber hjá Red Bull vann verðskuldaðan jómfrúarsigur í þýska kappakstrinum í Nürburgring sl. sunnudag. Það var hans 130. kappakstur í formúlu-1. Enginn ökuþór af þeim sem unnið hafa mót hafa þurft að þreyja þorrann jafn lengi og hann.

Með þessu hefur Webber sett met í 60 ára sögu formúlu-1 en væntanlega er hann ekkert sérlega hreykinn af því meti. Eða ætli hann kæri sig ekki bara kollóttann um það!

Aðeins tveir aðrir ástralskir ökuþórar hafa fagnað sigri í formúlu-1, Jack Brabham og Alan Jones. Þeir urðu báðir heimsmeistarar.

Svo maður bregði sér aðeins yfir á persónulegar nótur þá varð ég þess aðnjótandi að sitja í sportbíl hjá Webber í Nürburgring fyrir tveimur árum. Þar var ég ásamt hópi Íslendinga á vegum ferðaskrifstofunnar Ísafold undir frábærri forystu Jón Baldurs Þorbjörnssonar, ferðafrömuðar og bíltæknifræðings. Ökuþórar í formúlu-1 voru meðal þeirra sem óku gestum um brautina eftir tímatökurnar og hrepptu þrír aðrir úr Ísafoldarhópnum slíka ferð; einn á Ferrarisportbíl, annar á Honda, sá þriðji á Spykersportbíl og ég á Renault sportbíl.

Þarna var um að ræða svonefnda „Race-Taxi“, sérlega tjúnaða og styrktra sportbíla með atvinnuökumenn undir stýri. Fann maður vel fyrir brautinni og átökunum í beygjunum.

Um þetta bloggaði ég á sínum tíma, og sagði þá m.a.:

„Ökuþórar í formúlu-1 voru meðal þeirra sem óku gestum um brautina og sat blaðamaður bílablaðsins hjá Mark Webber, keppanda Red Bull, hringinn á Renault-sportbíl. Tekur hann undir lýsingar samferðamanna í einu og öllu um þá reynslu.

Þar sem formúlubíll nýtur mikillar þyngingar af vængjum framan og aftan og allt um kring er hægt að hægja á honum mun seinna en öðrum bílum. Þannig bremsuðu formúlubílarnir ekki fyrr en 60 metrar eða svo voru í fyrstu beygju, hægðu ferðina úr rúmlega 300 km/klst í um 70 á þeim tíma.

Webber hafði ekki slíka þyngingu á Renaultinum og þurfti því mun meiri vegalengd til að hægja ferðina úr um 180 km í um 60 fyrir fyrstu beygju. Negldi hann bílinn í malbikið og skipti niður á augabragði. Sótti svo inn í beygjurnar af eins miklu afli og aðstæður leyfðu.

Einkabíl mínum hefði ég áreiðanlega velt við slíkan akstur en fjöðrunarbúnaður bíls Webbers var búinn undir átökin og hélt honum á réttum kili alla tíð. Ískraði í dekkjunum undan álaginu og í fyrstu beygjuslaufunni hélt ég Webber ætla að ofkeyra því stundum virtist bíllinn vera á nippinu og að missa gripið og snúast.

Það var ástæðulaus ótti því Ástralinn hugrakki hafði fullkomin tök á bílnum og leiðrétti minnstu tilhneigingu bílsins til að skríða útundan sér með stýri eða lyfta bensíngjöfinni um millimetra eða svo. Nokkru áður en hverri beygju lauk var hann byrjaður að þenja fákinn sem mest hann mátti til að komast sem fyrst á ferð út úr þeim.

 

Góður árangur Webbers

Þannig leið hringurinn og var greinilegt að undir stýri sat vanur maður. Bremsaði seint og ákveðið svo öryggisbeltin tóku fast í viðbeinin. Jafnt og þétt var þungi lagður á ytra dekkið inn í beygjur svo væntanlega hefur úr því kvarnast í rimmum Webbers við beygjurnar, bæði hraðar og hægar. Rétt eins og hann hefði það í fingrunum hvernig þau gætu bitið í malbikið án þess að bíllinn leystist upp. Afbragðs aksturstækni skilaði sér og hringurinn var alltof fljótur að líða. Hið eina súra var að við urðum að gefa eftir fyrir öðrum sportbíl undir lok hringsins og hleypa fram úr. Ekki að undra því hann var af gerðinni Mercedes og það silfraður.

Fyrr um daginn varð Webber í sjötta sæti í tímatökum kappakstursins í Nürburgring og daginn eftir náði hann sínu besta í keppni í tvö ár með því að verða þriðji í keppninni sjálfri, á eftir Alonso og Massa. Mér þótti mikið til aksturs hans á Renaultinum koma og ekki síður á Red Bull-bílnum daginn eftir. Fannst mér hann kvitta fyrir aðgangshörku mína á blaðamannafundi í Hagkaupum í Smáralind í maí 2005 en þá hafði hann ekki staðið undir miklum væntingum og t.a.m. ekki komist á verðlaunapall í mótunum 55 sem hann átti þá að baki í formúlu-1.“

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Sigurinn hjá Webber, var sannarlega verðskuldaður, en eins og ég sagði á mínu bloggi þá hefir alltaf "EITTHVAÐ" verið að angra hann til þessa, það virðist vera erfitt hjá mörgum að komast yfir þetta "EITTHVAÐ" vonandi r Webber kominn yfir "þetta" hann á það alveg fyllilega skilið því hann hefur sýnt það og sannað að hann er góður ökumaður en ég hef ekki trú á því að hann eigi nokkurn tíma eftir að verða "meistari" en hann á að geta unnið eina og eina keppni.

Jóhann Elíasson, 15.7.2009 kl. 07:56

2 Smámynd: Einar Steinsson

Ég er nokkuð sammála Jóhanni, Mark Webber er góður ökumaður en vantar "EITTHVAÐ" til að ljúka málinu. Hann er nokkuð seigur að safna stigum, stendur sig oft vel í tímatökum og er mjög góður kostur fyrir lið sem ökumaður númer tvö. Með talsverðri heppni gæti hann jafnvel unnið heimsmeistaratitli ef þannig bæri undir en það er samt ólíklegt.

En það er félagi hans Sebastian Vettel sem er sá sem RedBull mun reiða sig á til að landa heimsmeistaratitlinum, ég hef mikla trú á að sá drengur eigi eftir að gera stóra hluti í framtíðinni.

Einar Steinsson, 15.7.2009 kl. 13:03

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Alveg eins og talað frá mínu hjarta Einar og mikið er ég sammála þér með Sebastian Vettel.

Jóhann Elíasson, 16.7.2009 kl. 11:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband