Næstmesti meðalhraði sem náðst hefur í Mónakó

Komið er í ljós, að meðalhraði í kappakstrinum í Mónakó um nýliðna helgi, var sá næstmesti í sögu mótsins. Jenson Button hjá Brawn fór með sigur af hólmi. Er það í fyrsta sinn sem hann hrósar sigri í Mónakó en hann hefur nú unnið þrjú mót í röð og fimm af sex mótum ársins.

Button hefur alls unnið sex mót á ferlinum en hann er á tíunda ári í formúlu-1 og hafði einungis unnið eitt mót fyrir vertíðina í ár. Hefur hann unnið jafn mörg mót og Tony Brooks, John Surtees, Jochen Rindt, Gilles Villeneuve, Jacques Laffite, Riccardo Patrese og Ralf Schumacher, sem var liðsfélagi Button árið 2000.

Þá hefur Button sjö sinnum unnið ráspól á ferlinum eða jafn oft og franski ökuþórinn Jacques Laffite, sem er einn af formúluskýrendum frönsku sjónvarpsstöðvarinnar TF1.

Button er jafnframt fyrsti breski ökuþórinn til að vinna þrjú mót  í röð frá því Damon Hill afrekaði það. Hill varð heimsmeistari 1996 og vann fjögur mót í röð í lok vertíðar 1995 og upphafi 1996. Um er að ræða mótin í Ástralíu, tvö, Brasilíu og Argentínu.

Þetta er og í fyrsta sinn í þrjú ár að ökumaður vinnur þrjú mót í röð. Árið 2006 vann Michael Schumacher slíkt afrek, í Indianapolis í Bandaríkjunum, Magny-Cours í Frakklandi og í Hockenheim í Þýskalandi.

Felipe Massa átti hraðasta hring kappakstursins í Mónakó og er það í fyrsta sinn á árinu sem Ferrari nær þeim áfanga. Þetta var 12. hraðasti hringur sem Massa hreppir á ferlinum. Jafn mörgum sinnum náðu þeim áfanga ökuþórarnir Alberto Ascari, Jack Brabham, René Arnoux og Juan Pablo Montoya.

Brawnliðið hefur unnið 68 stig í mótum ársins, eða rúmlega tvöfalt fleiri en nokkurt annað. Í Mónakó hrósaði Brawn tvöföldum sigri í þriðja sinn á árinu.

Mark Webber náði sögulegum áfanga í Mónakó af áströlskum ökuþór að vera. Kappaksturinn var sá 127. á formúluferlinum. Með því komst hann upp fyrir Jack Brabham, sem fram til þessa hafði keppt oftar í formúlu-1 en nokkur landi hans.

Tímatökurnar voru þær verstu í sögu BMW-liðsins. Nick Heidfeld hreppti 16. sæti og Robert Kubica 17.  Lakasti árangur fram að því var er Heidfeld varð tíundi og Jacques Villeneuve 22. í spænska kappakstnum í Barcelona 2006.

Lewis Hamilton hefur aldrei hafið keppni jafn aftarlega og í Mónakó. Lagði hann af stað af 19. rásstað.

Mercedes náði sögulegum áfanga í Mónakó. Þriðja mótið í röð vann ökuþór með sama mótor í bílnum í þeim öllum sigur. Þá fór samanlagður stigafjöldi Mercedes í sögu formúlu-1 upp fyrir 1.500.

Flest stig mótorsmiða hefur Ford/Cosworth hlotið, eða 4336,5. Í öðru sæti er Ferrari með 4117,5 og Renault er í þriðja sæti með 2861,5. Síðan kemur Honda með 1587,5 og  Mercedes er í fimmta sæti með 1506 stig.

Aukinheldur var þetta þriðja árið í röð sem bíll knúinn Mercedesmótor verður fyrstur í Mónakó. Í fyrra og hitteðfyrra hrósaði McLaren sigri.

Þar sem aldrei þurfti að senda öryggisbíl út í brautina var þetta næst stysti  kappakstur í Mónakó þegar um er að ræða fulla keppnislengd. Og sá þriðji stysti ef öll mót eru meðtalin, líka þau sem stöðva varð keppni áður en yfir lauk.

Stysti kappaksturinn átti sér stað árið 1984 er Alain Prost hjá McLaren vann. Keppnin var stöðvuð eftir 31 hring af 77 og hafði þá staðið yfir í 1:01.07,740 klst.

Næst minnsta tímann tók kappaksturinn fyrir tveimur árum, er Fernando Alonso hjá McLaren sigraði. Ók hann fulla vegalengd og var 1:40.29,329 klst með hringa 78. Tími Buttons á sunnudag var 15 sekúndum lakari, eða 1:40.44,282 klst.

Meðalhraði Alonso var 155,551 km/klst en 155,166 hjá Button.

 


Útlit fyrir tvísýna og spennandi baráttu

Útlit er fyrir að tímatökur Mónakókappakstursins geti orðið tvísýnar og spennandi, ef marka má árangur á æfingunum í gær, föstudag. Á fyrstu æfingunni áttu fimm lið bíl meðal sex fremstu og hið sama er að segja um seinni æfinguna.

Með endurkomu sléttra dekkja hafa bílarnir betri rásfestu í og út úr beygjum og til að mynda sleikti enginn bíll hin illúðlegu vegrið sem marka brautina á báða kanta. Athyglisvert, miðað við fyrri mót, var hversu McLaren og Ferrari létu til sín taka ef skoðaðir eru tímalistar úr báðum æfingum.

Þar kemur að einhverju leyti til, að liðin tvö brúkuðu KERS-búnaðinn sem eykur hröðun út úr  beygjum.

Nico Rosberg hjá Williams setti besta tíma dagsins en hann hefur það umfram marga ökuþóra að þekkja Mónakó út og inn. Þar hefur hans heimili verið frá blautu barnsbeini. Rosberg hefur verið seigur á æfingum í ár en síðan verið langt undir væntingum í keppni. Hann var öflugur í kappakstrinum í fyrra og með mun betri bíl nú ætti hann á sunnudag að geta bætt fyrir árangursleysið í ár.

Heimsmeistarinn Lewis Hamilton hjá McLaren var meðal fremstu á báðum æfingum og naut sín miklu betur en í nokkru öðru móti ársins. Hann vann kappaksturinn í fyrra og lagnar eflaust til að endurtaka það og bæta þar með fyrir allskyns óáran framan af vertíð.

Felipe Massa hjá Ferrari sýndi og gamlan neista með sókndjörfum akstri á báðum æfingum. Hann hefur aðeins einu sinni á árinu endað í stigasæti. Og ætlar örugglega að gera bragarbót þar á um helgina.

Ekki skil ég neitt í erfiðleikum bæði BMW og Toyota á æfingunum. Spurningin er hvort þeir endurspegli raunverulega stöðu liðanna í brautinni eða séu villandi? Á því fást skýringar í tímatökunum.

ÉG hef ekki minnst á þá sem mest hafa látið á sér kveða í ár, ökumenn Brawn og Red Bull. Vart þarf að taka fram að þeir verða allir með í baráttunni. Og ég lýg því ekki, að ég hefði ekkert á móti því að Rubens Barrichello hjá Brawn færi með sigur af hólmi. Einhvern veginn finnst mér hann eiga það inni.

Og loks nefni ég Fernando Alonso hjá Renault. Nái hann góðum tímatökum gæti hann líka gert hið ómögulega.

En það er best að láta af vangaveltum og bíða tímatökunnar. Eins og venjulega ræður hún mestu um endanleg úrslit kappakstursins.

 


Einstök braut og ófyrirsjáanleg

Mónakókappaksturinn fer fram um helgina á einstakri braut í furstadæminu á suðurströnd Frakklands. Í huga verkfræðinga liðanna snýst dæmið þar sem endranær um að fínstilla keppnisbílana svo þeir verði sem skilvirkastir á kröfuhörðu og bugðóttu gatnakerfi Mónakó.

Uppsetning bílanna er frábrugðin því sem er í öðrum brautum. Veggrip er afar lítið á fyrstu æfingum en batnar eftir því sem á helgina líður, allt fram á síðasta hring kappakstursins. Á venjulegum bílum virðast göturnar í Mónakó sléttar sem borðfjöl en á formúlubílum með ofurstífar fjaðrir skoppa þeir á aragrúa af ójöfnum hringinn út í gegn.

Vegna breytilegs yfirborðs er 5-7 millimetrum hærra undir bílana en á hefðbundnum kappakstursbrautum. Til að hámarka veggrip er fjöðrunin höfð mýkri en venjulega. Það hjálpar til í glímunni við ójöfnur og breytilegan veghalla. Í sama skyni er slakað á jafnvægisstöngum. Allt til að bíllinn verði sem hlutlausastur og svo meðfærilegur að ökumaðurinn hafi óskorað sjálfstraust á hringnum. Mæðir meira á honum í þessari braut en öðrum og ekki má einbeitingin dvína eitt sekúndubrot, þá er voðinn vís.

Krappasta beygjan

Hvergi er meiri þörf fyrir mikla vængpressu en í Mónakó, sérstaklega svo bílarnir séu stöðugir á bremsu- og hröðunarsvæðum. Hún kemur að litlu gagni í beygjunum sakir þess hversu hægar þær eru, þar ræður vélrænt grip meiru. Bremsum er harðast beitt er bílarnir koma úr undirgöngunum, þar lækkar hraðinn úr 300 km í 70 km á nokkrum sekúndum og gefst þar einna helst tækifæri til framúraksturs.

Hárnálarbeygjan undir Grand hótelinu er sú krappasta og hægasta á vertíðinni, tekin á undir 50 km. Rascasse-hornið er einnig afar krappt og ferðin þar lítil. Því þarf beygjuvinkill bílanna að vera mun meiri í Mónakó en venjulega, allt að tvöfalt meiri en í öðrum brautum, til dæmis Barcelona. Af þessum sökum er framfjöðrun bílanna sérsmíðuð fyrir Mónakóbrautina og ekki notuð annars staðar.

Þar sem bensíngjöf er í botni aðeins 45 prósent hringsins mætti halda að álag á bílana væri ekki mikið í Mónakó. Það er öðru nær því bungótt brautin skapar mikla hættu á yfirsnúningi í mótornum þegar dekkin missa festu og lyftast frá brautinni. Hlýðinn mótor og góð rásfesta á lágum snúningi er því lykilatriði í brautinni.

Tvöfaldur sigur

Mjög algengt er að öryggisbíll sé kallaður út í brautina í Mónakó. Tveggja stoppa keppnisáætlun hefur verið þar ráðandi, en litlu munaði að Felipe Massa hjá Ferrari ynni sigur í fyrra með aðeins eins stopps áætlun.

Brawnliðið baðar sig enn í frægðarljóma tvöfalds sigurs í síðasta kappakstri, í Barcelona fyrir hálfum mánuði. Og þótt liðsmenn geri sér miklar vonir í Mónakó um helgina vita þeir að hina einstöku aðstæður þar eru þess eðlis að ekki er á vísan að róa.

„Venjulega er akstursstíll minn mjög mjúkur en ég verð að breyta út af því til að ná sem bestu úr bílnum hérna,“ segir Jenson Button. „Maður verður að vera ágengur og sókndjarfur og ekki láta hræðast af grindverkinu en sýna því þó virðingu.

Maður verður alltaf að halda óskoraðri einbeitingu og nákvæmni, slík er áskorunin á hringnum,“ bætir Button við. Félagi hans Rubens Barrichello keppir í 17. sinn í Mónakó um helgina en segir aðdráttarafl hennar aldrei hafa minnkað í huga sér á þeim tíma. Hann segir brautina þá erfiðustu á árinu. Og spáir mikilli samkeppni vegna þess hversu jafnir bílar margra liða séu.

Áhætta borgar sig

Hvergi skiptir árangur í tímatökum jafnmiklu og í Mónakó. Möguleikar á sigri standa og falla oftast með góðri rásstöðu og velheppnaðri ræsingu því illkleift er að taka fram úr í brautinni, nema í þjónustustoppum.

Eitt er víst, að alltaf er erfitt að spá fyrirfram um gang mála í Mónakó og vegna aðstæðna allra er álagið því mikið á stjórnborðum og tækniherbergjum á athafnasvæðum liðanna. Smávægileg tæknileg mistök á æfingu eða tímatökum geta haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir keppnina.

Það eykur á bjartsýni liðsmanna Brawn, að keppnisbíllinn hefur reynst mjög góður í hægum beygjum. Hvorki Button né Barrichello hafa unnið sigur í Mónakó en báðir komist á verðlaunapall. Takmark beggja er að komast á efsta þrep hans á sunnudag. Sá fyrrnefndi segist standa vel að vígi eftir að hafa unnið fjögur af síðustu fimm mótum. Keppnin verði þó hörð í Mónakó, greinilega hafi sést í Barcelona að farið sé að draga saman með liðum.

Mjög algengt er að öryggisbíll sé kallaður út í brautina í Mónakó. Tveggja stoppa keppnisáætlun hefur verið þar ráðandi, en minnstu munaði að Felipe Massa hjá Ferrari ynni sigur í fyrra með aðeins eins stopps áætlun. Búast má við frumleika í herfræði liða um helgina og áhætta í því efni hefur oft borgað sig.

 


Mosley helsta vandamálið?

Grein er í lögum Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) fjallar um hvað gera skuli við lið og einstaklinga sem að mati sambandsins koma óorði á formúlu-1. Henni hefur verið hiklaust beitt í seinni tíð. Spurning er hvort ekki sé tími til kominn að henni verði beitt gegn forseta sambandsins, Max Mosley.

Mér hefur kannski verið uppsigað við Mosley, ekki síst eftir að í hámæli komst um heimsókn hans til hóruhóps í London í fyrra. Það varð að stórmáli í fjölmiðlum um heim allan og beindi óæskilegu ljósi að íþróttinni. Ekki síst þegar þess var beinlínis óskað að hann léti ekki sjá sig í nokkrum ríkjum þar sem keppt var í kjölfarið.

Auðvitað einkamál Mosley en formúlan galt þessa engu að síður - og gerir enn.

Í millitíðinni er eins og hann hafi skipt um ham. Í stað þess að stjórna FIA og málefnum formúlunnar í góðu samkomulagi við keppnisliðin og aðra hagsmunaaðila hefur hann farið fram með valdboði sem minnir helst á einræðisherra. Deilt og drottnað. Ógnað og hótað hörðu fremur en að lempa andóf með lagni og málamiðlunum. Virt góða og áratugalanga stjórnunarhætti að vettugi og farið sínu fram með illu.

Nú er svo komið að flestum keppnisliðum formúlunnar blöskrar yfirgangsemin og drottnunin. Hvert af öðru hótar því að snúa baki við formúlu-1 í vertíðarlok. Tók steininn úr í gær, er Ferrari sagðist að óbreyttu myndu snúa sér að annars konar kappakstri og hætta í formúlunni. Í íþróttinni sem það hefur, eitt keppnisliða, verið með frá upphafi.

Í mínum huga er það ekkert álitamál, að með því að stofna til þessarar þrætu við liðin hefur Mosley kveikt afar neikvæða umræðu og kallað nýja erfiðleika yfir formúluna. Komið íþróttinni út í hálfgert fúafen. Svo er komið, að hann sjálfur virðist eitt helsta vandamál formúlu-1. Því segi ég að það ætti að beita reglunni á hann sjálfan. Henni var síðast  beitt fyrir hálfum mánuði, til að refsa Lewis Hamilton og McLaren með þriggja móta skilorðsbundnu keppnisbanni í eitt ár fyrir að villa um fyrir dómurum kappakstursins í Melbourne. Var sú refsing til viðbótar því að árangur Hamiltons í viðkomandi móti var strikaður út.

Allar þessar þrætur - ekki síst sú nýjasta sem Mosley á stærsta ef ekki alla sök á - er til skaða. Eflaust bitna þær á vinsældum formúlunnar og áhuga á henni. Væri ekki nær að vinna saman og þá fyrst og fremst reyna að reisa vinsældir íþróttarinnar við. Ljóst er til dæmis að aðsókn af mótunum sem lokið er hefur verið miklu minni en undanfarin ár. Þannig voru áhorfendur í Barcelona 42% færri en í fyrra.

Það er eitthvað sem Mosley ætti að hafa meiri áhyggjur af og reyna að sporna við. Hann sér eflaust andspyrnu liðanna sem ógn við embætti hans og sjálfstæði FIA. Skítt með það, segi ég. Snúi almenningur baki við formúlunni kemst FIA fyrst í djúpan skít, ef svo smekklega mætti orða það! Ég er hræddur um að það hrjái Mosley sem vill gjarnan verða um menn sem sitja of lengi á valdastóli, að þeir halda að þeir sjálfir séu mikilvægari en keppnisliðin, íþróttin og unnendur hennar. Án áhorfenda við sjónvarpstæki og í vallarstúkum deyr formúlan. 

Það gerist vonandi aldrei.

 


Massa og Hamilton afskrifa titil í ár

Lewis Hamilton hjá McLaren og Felipe Massa hjá Ferrari, mennirnir sem börðust um heimsmeistaratitil ökuþóra fram í síðustu beygju síðasta móts formúluvertíðarinnar í fyrra, hafa nú afskrifað möguleika sína í titilkeppninni í ár.

Hamilton varð heimsmeistari í fyrra og Massa í öðru sæti. Í ár stendur keppnin hins vegar milli ökumanna Brawnliðsins og Red Bull. Bílar McLaren og Ferrari hafa ekki verið nógu góðir til að Hamilton og Massa gætu blandað sér í þá keppni, alla vega ekki í mótunum fimm af 17 sem lokið er.

Hamilton hlaut engin stig í Barcelona um helgina og sagði það miður að vera ekki með bíl til að keppa um titil. „Bíllinn er svo slakur, ég keyri dekkin undan honum en það er engin von um titil á honum,“ sagði hann eftir kappaksturinn

Massa farnaðist lengst af betur á verulega betrumbættum Ferrarifák en uppskar minna en efni stóðu til þar sem bíllinn varð bensínlaus. Vann sín fyrstu keppnisstig í ár en afskrifaði sömuleiðis titilkeppnina. „Útilokað mál,“ svaraði hann blaðamönnum sem spurðu hvort hann myndi eiga möguleika á titli í ár. Sagði hann ökumenn Brawn myndu keppa um titilinn. „Sama þótt við bætum bílinn hrikalega og þremur til fjórum tíundu úr sekúndu fljótari á hring, þá munu þeir áfram skora stig. Gleymum því titlinum,“ sagði hann.

Hérna tala tveir afburða ökumenn í svekkelsi strax eftir misheppnaðan kappakstur af beggja hálfu. Og vitaskuld af einhverju raunsæi líka. En sem sönnum íþróttamönnum sæmir þá er ég sannfærður um að þeir munu lifa áfram í voninni. Um að bílar þeirra batni mjög og heppni gangi að einhverju leyti í lið með þeim. 

Auðvitað virðast bílar Brawn ósigrandi, slíkur hefur gangurinn verið á þeim í ár. Og Red Bull er mikið betri en um áraraðir. En ég trúi ekki öðru en Hamilton og Massa muni áfram berjast. Uppgjöf er ekki orð sem þeim er hugleikið.

 

 


Bíð eftir að hætt verði að keppa í Barcelona

Frekar fannst mér kappaksturinn í Barcelona bragðdaufur. Og það ekki í fyrsta sinn. Ég minnist varla skemmtilegs kappaksturs þaðan í seinni tíð. Er minnið kannski tekið að bregðast mér? Það held ég ekki. Það skal viðurkennt, að ég vona að keppni í brautinni verði sem fyrst hætt.  Held það myndi ekki skaða að prófa aðrar brautir á Spáni, þær eru nokkrar þar.

Þess verður sennilega lengi að bíða að sú ósk rætist. Og þar sem ég fæ engu um það breytt verður maður að láta það raska ró sinni sem minnst! Hið eina sem flýtt gæti fyrir væri að kappaksturinn yrði tekinn af borginni vegna kynþáttafordóma. Brautin var eiginlega sett á skilorð í fyrra vegna hatursáróðurs áhorfenda í garð Lewis Hamilton hjá McLaren við bílprófanir í fyrra. Þar var hann gerður að blóraböggli fyrir brottför Fernando Alonso frá McLaren og því að Spánverjinn varð ekki heimsmeistari.

Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) brást harkalega við og sagði endurtekningu á slíku yrði ekki þolað og um leið lyki akstri formúlubíla í brautinni. Spurning er hvort forsvarsmenn FIA hafi horft á útsendingar breska sjónvarpsins (BBC) frá Barcelona í dag. Þar birtist m.a. á skjánum maður með svartmálað andlit og ekki virtist leika vafi um hver skilaboð þess uppátækis voru.

Annars væri kannski hægt að lappa upp á keppnina í Barcelona með því að breyta brautinni, rífa hana upp á nokkrum stöðum og setja t.d. í hana eina eða tvær almennilega hægar beygjur við enda hraðakafla svo einhverjir möguleikar skapist til hressandi einvígja og framúraksturs. Fyrsta beygjan í Monza og sú síðasta í hringnum í Spa eru ágæt dæmi um slíkar beygjur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég birtist fúll á blogginu út í mótið í Barcelona. Eftir að hafa skrifað framangreint kíkti ég á gömul blogg. Svona skrifaði ég t.d. fyrir tveimur árum:

„Engin breyting varð á þessu síðastliðin sunnudag, eftir fyrstu beygju hefði alveg mátt sleppa því að fylgjast frekar með, eins og oft áður. Eina sem ruglaði röðinni voru bilanir - ekki man ég eftir neinum framúrakstri. Svona hefur þetta verið svo lengi sem ég man eftir.

Kannski er þetta vegna þess að liðin og ökuþórarnir þekkja brautina eins og handarbak sitt vegna alls þróunarakstursins sem þar fer fram og því klikka uppsetningar bílanna aldrei, þær henta alltaf aðstæðum eins og best verður á kosið. Akstursmistök eru vart til vegna kunnugleika keyrenda á Katalóníuhringnum.“

Og þessi klausa er úr bloggi um keppnina árið 2006:

„Oftast hefur mér fundist lítið varið í Spánarkappaksturinn. Nánast eins og prósessía frá upphafi til enda og lítil sem engin keppni um sæti. Það vantaði mjög á slíkar viðureignir í dag en samt var stemmningin öðru vísi og mikil spenna í loftinu í Barcelona. Þar kemur Alonso til sögunnar. Pressan á honum var mikil. Stemmningin stórjókst eftir sigur hans í keppninni um ráspólinn. Og í ljósi þess hvernig fyrri mót hafa þróast var erfitt að segja til um hvernig færi í dag fyrr en að loknum seinni þjónustustoppunum. Þá gerði Schumacher sér ljóst að hann næði ekki Alonso og sparaði mótor sinn eftir það en hann þarf hann að nota í næsta móti, í Mónakó. Þar verður Alonso hins vegar með nýjan mótor þar sem mótorinn í dag var einnig í bíl hans í Nürburgring.“

Fróðlegt væri að sjá afstöðu unnenda formúlunnar til keppninnar í Barcelona. Eflaust eru mér ekki allir sammála, ef þeir eru á annað borð fyrir hendi sem eru það!

 


Mild en makleg málagjöld

Það verð ég að viðurkenna, að mér er létt eftir að skoða niðurstöðu lygamálsins svonefnda. McLaren fær á baukinn en formúlunni er hlíft við þeim skaða sem tímabundið keppnisbann hefði verið.  Má líklega segja, að málagjöld séu makleg en mild. Niðurstaðan er húðstrýking en refsivöndur Max Mosley ekki beitt það fast að McLaren yrði blóðrisa.

Eftir að Lewis Hamilton hafði verið strikaður út úr úrslitum fyrsta mót ársins vegna málsins hélt ég í einfeldni minni að því væri lokið. Nei, FIA - sem hefur orð á sér fyrir refsigleði - ákvað að taka það upp mánuði seinna, þegar flestir væru búnir að gleyma því! Bjóst ég við hinu versta af hinum hortuga forseta sambandsins, Max Mosley.

Skömm sú sem McLaren sat uppi með eftir að lygarnar voru staðfestar voru miklar og mætti halda því fram, að þar með hafi réttlætinu verið fullnægt. Í þágu íþróttarinnar hefði líklega verið fyrir bestu að láta þar við staðar numið.   

Nei, FIA þurfti náttúrulega að sýna vald sitt. Mátt sinn og megin. Veifa refsivendinum. Vonandi var hann ekki úr hrís og fenginn að láni hjá portkonum í kjallaraíbúð nokkurri í London.  

Eflaust er það réttmætt að beita McLaren hörðu vegna málsins. Útstrikun úr úrslitunum var fyrir að villa um fyrir dómurum kappakstursins í Melbourne í þeim tilgangi að fá keppinaut dæmdan úr verðlaunasæti svo Hamilton fengi það.

Auðvitað var atvikið fallið til þess að koma óorði á formúluna. Niðurstaða íþróttaráðs FIA í dag var að svo hafi verið. Því var hirting rökrétt og ætli hún sé ekki í samræmi við glæpinn, það get ég þó ekki dæmt um. Sagt er að þar sem nýir vindar blási nú um höfuðstöðvar McLaren hafi þriggja móta brottvikning úr keppni verið skilorðsbundin.

Ætli ráðið hafi átt annarra kosta völ en beita skilorði? Refsingin - og skömmin sem henni fylgir - er eftir sem áður sú sama. En með skilorðinu fær McLaren að halda áfram og áhorfendur á mótum og við sjónvarpstækið, sem kæra sig kollótta um FIA og ákvarðanir þess, geta fylgst með keppninni eins og ekkert hafi í skorist. Og með skilorðinu forðar FIA líklega því að Mercedes Benz dragi sig út úr formúlunni. Sem væri enn verra mál fyrir formúluna en hvort menn ljúgi til eða frá í dómaraherberginu.

Í þessu sambandi er vert að rifja upp þá tillögu Ralfs Schumacher eftir að málið kom upp og Hamilton hafði verið refsað. Hann sagði að fella ætti það niður, logið væri sýknt og heilagt í formúlunni, bæði fyrr og nú og engum verið refsað fyrir það hingað til. Athyglisverð játning hjá  ökuþór sem keppti í formúlunni í rúman áratug.

 


Williams og Toyota með forskot í eyðimörkinni?

Mikið álag hefur verið í upphafi vertíðar á ökuþórum og öllu starfsliði formúluliðanna. Um helgina fer fram fjórði kappakstur ársins á aðeins fimm vikum. Útivist þessari hinum megin á hnettinum lýkur með keppni í Barein við Persaflóa um helgina. Eftir það snúa liðin til baka til bækistöðva sinna í Evrópu og gengur þá evrópski hluti vertíðarinnar í garð, en hann spannar níu mót á tæpum fimm mánuðum.

 

Eftir drottnandi tvöfaldan sigur Red Bull um síðustu helgi í Kína beinast augun einkum að því liði og Brawnliðinu. Snýst kappaksturinn í Barein um einvígi þeirra í millum? Eða blanda fleiri sér í keppnina um toppsætin? Og hvaða áhrif hefur, að í Barein verður heitt og þurrt en ekki rigning eins og í síðustu tveimur mótum, í Malasíu og Sjanghæ.

 

Útilokað er að spá um keppni Red Bull og Brawn en líklegt er þó að síðarnefnda liðinu nýtist betur umfram vængpressa af völdum loftdreifisins umdeilda. Red Bull mun ekki búa sína bíla slíkum dreifi fyrr en í Mónakó eftir mánuð.

 

Fræðilega séð ætti KERS-búnaður að koma sér vel í Barein, en beygjurnar eru þannig, að fá ef nokkrar brautir slíta bremsum jafn mikið. KERS endurnýtir hemlunarorku og skilar honum í viðbótarafli til ökumanna. Af þessum sökum hefur m.a. Ferrari ákveðið að nota búnaðinn í Barein.

 

Tvö lið hugsa sér gott til glóðarinnar í Barein, Toyota og Williams. Hið síðarnefnda hefur reynst öflugt á æfingum en fór tómhent frá kappakstrinum í Sjanghæ þar sem hvorugur bíllinn lauk keppni. Tæknistjórinn Sam Michael er einkar óhress með frammistöðu Nico Rosberg og Kazuki Nakajima í keppni, miðað við æfingum.

 

Hann ætlast til þess að breyting verði þar á í Barein og að liðið njóti þess forskots umfram önnur lið en Ferrari og Toyota , að hafa æft þar dögum saman í febrúar. Rosberg vann þar sín fyrstu formúlustig, árið 2006. „Barein er ein af uppáhaldsbrautunum mínum. Bíllinn var mjög góður þar í fyrra og það verður ekkert vandamál að hita upp dekkin. Loftafl skiptir miklu máli í beygjunum en má ekki vera of mikið til að það bitni ekki á manni á hröðu og löngu beinu köflunum. Við erum bjartsýnir á að ná loks góðum úrslitum,“ segir hann í aðdraganda mótsins.

 

Toyotaliðið er sömuleiðis mjög bjartsýnt og telur það veita sér forskot að hafa æft í Barein í febrúar ásamt Williams og Ferrari. Alls lögðu Toyoturnar þá að baki 711 hringi í brautinni, eða 3.847 kílómetra. Sem jafngildir 22 kappaksturslengdum. Toyota hefur oftast átt góðu gengi að fagna í Barein, en þar komst Jarno Trulli m.a. á pall, varð annar í mark árið 2005.

 

Hér hefur ekki verið minnst fyrrum toppliða McLaren, Renault og Ferrari. Tvö þeirra fyrstnefndu munu njóta talsverðra endurbóta á bílum sínum. Og öll búa þau yfir KERS-búnaði. Hvort tveggja gæti orðið til þess að gæfa þeirra verði meiri í Barein en fyrstu mótunum þremur.


Toppliðin í dag og hin toppliðin . . .

Spurning er hvort með sigri Red Bull í Kína og Brawnliðsins í Melbourne og Malasíu sé að eiga sér stað róttæk uppstokkun í formúlu-1? Umpólun á styrkleika liðanna? Í sjálfu sér hef ég enga trú á að svo sé.

Form er yfirleitt til bráðabirgða - menn kannast við hugtakið dagsform - en klassi er varanlegur.

Þótt árangur þeirra sé glæsilegur og sérdeilis aðdáunarverður, þá tel ég ekki að Red Bull og Brawn séu að taka við af t.d. Ferrari, McLaren og Renault sem leiðandi lið formúlunnar. Fyrrnefnd tvö lið eru þó óumdeilanlega toppliðin í dag. Toyota og Williams eru skammt undan.

En ég hef enga trú á öðru en liðin sem búa að fornri frægð eigi eftir að sýna mátt sinn og megin aftur. 

 


Red Bull 34. liðið til að vinna sigur í formúlunni

Kínverska kappaksturshelgin rennur liðsmönnum Red Bull eflaust seint úr minni. Fyrsti ráspóll liðsins vannst þar, fyrsti mótssigur þess og það tvöfaldur í kaupbæti. Kappaksturinn er sá 74. sem Red Bull tekur þátt í frá því austurrískur auðkýfingur keypti Jagúarliðið 2005 og nefndi það eftir fyrirtæki sínu.

Red Bull er 34. liðið í sögu formúlu-1 til að vinna kappakstur og hið 22. sem fagnar tvöföldum sigri í samtals 806 mótum frá upphafi vega árið 1950. Þá er það hið 38. til að vinna ráspól.

Sebastian Vettel komst í hóp ökumanna sem unnið hafa fleiri en einn kappakstur. Sigraði öðru sinni og eins og í jómfrúarsigrinum ók hann af ráspól líka nú. Með sigrinum hefur hann unnið samtals 51 stig á ferlinum.

Mark Webber vann sinn besta árangur í formúlu-1 með öðru sæti. 

Kappaksturinn markaði tímamót fyrir Heikki Kovalainen hjá McLaren. Í fyrsta sinn á árinu komst hann heilan hring í keppni. Hann varð fimmti í mark.

Jenson Button hjá Brawn stóð í þriðja sinn á palli á árinu. Jafnoft komst hann á pall á einni og sömu vertíðinni 2004, en þá ekki í röð sem nú.

Aðeins þrisvar á árinu hefur vélræn bilun valdið því að bíll hefur ekki komist alla leið í mark. Tvisvar sinnum hefur Felipe Massa hjá Ferrari verið ökumaður slíks bíls.

Þrítugasta of fyrsta mótið í röð var Nick Heidfeld hjá BMW á úrslitablaði kappaksturs. Sem þýðir að hann hefur komist a.m.k. 90% vegalengdarinnar í þessum mótum. Þá komst hann á mark í Kína 23. mótið í röð og vantar því aðeins eitt í viðbót til að jafna met Michaels Schumacher sem á sínum tíma komst í mark 24 mót í röð.

Lewis Hamilton hjá McLaren varð í sjötta sæti í fyrsta sinn á ferlinum. Eina stigasætið sem hann hefur ekki hafnað í frá því hann hóf keppni 2007 er áttunda sæti.

Nýliðinn Sebastien Buemi hjá Toro Rosso komst í fyrsta sinn á ferlinum í lokalotu tímatöku og varð tíundi. 

Nelson Piquet hjá Renault hefur enn ekki tekist að sigrast á liðsfélaga sínum, Fernando Alonso, í tímatökum. Frá því þeir hófu störf hjá liðinu eru 21 kappakstur að baki.

Adrian Sutil hjá Force India var lengi vel ein af hetjum kappakstursins í Sjanghæ í gær. Því miður missti hann stjórn á bílnum á rennblautri brautinni og féll úr leik. Hann átti þá sex hringi eftir í mark og var í sjötta sæti. Í Mónakókappakstrinum í fyrra, einum af hápunktum ferilsins, var hann fjórði er hann féll úr leik fjórum hringjum frá marki.

Kínverski kappaksturinn hefur farið fram sex sinnum og þrisvar sinnum hefur rigning leikið stóra rullu, 2006, 2007 og svo í ár. Fyrsta rigningarkappaksturinn í Sjanghæ vann Michael Schumacher og Kimi Räikkönen árið eftir. Hlutfallslega hefur ekki rignt svo oft í neinni annarri formúlubraut.

Næsti kappakstur er í Barein um næstu helgi en þar var fyrst keppt árið 2004, eins og í Kína. Þar sem brautin er í eyðimörk við Persaflóa hefur aldrei dropað úr lofti þar á kappaksturshelgi. Og litlar sem engar líkur eru á að breyting verði þar á í ár. Veðurguðirnir geta þó verið óútreiknanlegir, til dæmis er furstadæmið Qatar ekki langt frá og þar varð að fresta keppni vegna rigningar í síðustu viku.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband