Einni leiðindaþrætunni lokið

Þá er þessu leiðinlega en sennilega sanngjarna kærumáli um loftdreifir keppnisbíla Brawn, Toyota og Williams lokið. Bjóst sosum ekki við annarri niðurstöðu en þeirri sem varð, enda tæknideild FIA búin að leggja blessun sína yfir dreifana, einnig eftirlitsdómarar FIA á tveimur fyrstu mótum ársins.

Því var á brattann að sækja fyrir kæruliðin sem urðu að sannfæra dómara áfrýjunarréttar FIA um að bæði tæknideild FIA og eftirlitsdómararnir hefðu haft rangt fyrir sér. Og það mistókst þeim.

Eftir stendur - og það ekki í fyrsta sinn - að regluverk FIA er eins og stórfiskanet; möskvarnir ekki þéttriðnari en svo að hvar sem er má smjúga í gegn.

Enga afstöðu ætla ég að taka í þessari þrætu. Er bara feginn að þetta mál er að baki og nú geta menn einbeitt sér að því sem skemmtilegast er við formúluna, sjálfri keppninni. 

Að vísu er leiðindaþrætum ekki lokið, málum sem varpa skugga á sjálfa íþróttina. Hinir háu og refsiglöðu FIA-herrar hafa ákveðið að berja frekar á McLarenliðinu en orðið er og skoða hvort hirta beri liðið frekar fyrir klúðrið í Melbourne er íþróttastjóri liðsins og Lewis Hamilton sögðu eigi alls kostar rétt frá atviki sem varðaði framúrakstur á eftir öryggisbíl.

Í refsingarskyni var árangur Hamiltons í Melbourne strikaður út. Sem var sanngjarnt miðað við málavexti. Skömm hans og McLaren er mikil - það sitja þeir uppi með.

Vissulega var málið til þess fallið að koma óorði á formúluna. En svona mátulega þegar nær allir verða búnir að gleyma því þá ætlar íþróttaráð FIA að vekja upp drauginn með því að halda sérstakan fund um það um næstu mánaðarmót.

Svo langt gengur FIA í rannsókn sinni á málavöxtum að það hefur beðið útvarps- og sjónvarpsstöðvar, t.d. BBC, um nákvæm afrit af viðtölum við McLarenstjóra á mótsstað í Melbourne og þar á eftir. Tilgangurinn jú að kanna hvort einhverjar vísbendingar geti ekki leynst í ummælum sem bendi til að McLaren sé að reyna fría sig af málinu en láta liðsstjórann brottrekna sitja uppi með alla sökina. Fara skal yfir samtölin til að skoða hvort þar megi ekki finna vísbendingu um að t.d. liðsstjórinn Whitmarsh hafi vitað meira - og væntanlega verið með í ráðum - en hann vildi vera láta.

Þetta finnst mér orðið nokkuð sjúkt af hálfu FIA. Og mér er spurn, hefur sambandið ekkert betra að gera? T.d. í þágu íþróttarinnar? Ég hef séð ummæli Whitmarsh úr viðtali sem FIA sækist sérstaklega eftir og í sjálfu sér virðist það fljótafgreitt; get engan veginn dregið neina ályktun af ummælunum í þá veru að hann hafi vitað hvert upplegg fulltrúa liðsins hjá eftirlitsdómurunum yrði. En maður veit aldrei þegar komið er út í smásmygli sem þessa. 

 


Súr byrjun á annars og vonandi fjörlegri formúlutíð

Eins og eflaust margir unnendur formúlunnar aðrir hef ég beðið spenntur eftir vertíðarbyrjuninni. Nú er fjörið loks að byrja, en játa verð ég þó, að það eru viss vonbrigði að ballið byrji með leiðinda pústrum.

Þar á ég auðvitað við klögumálin útaf ætluðum ólöglegum svonefndum dreifi bíla Brawn GP, Toyota og  Williams. Dómarar kappakstursins í Melbourne hafa eflaust komist að vel ígrundaðri og vandaðri niðurstöðu en meðal þeirra er Ólafur Guðmundsson, akstursíþróttafrömuðurinn ágæti sem margsinnis hefur dæmt í formúlu-1, formúlu-3000 og fleiri greinum alþjóðlegra akstursíþrótta.

Málið mun þó hanga yfir formúlunni um sinn því liðin sem kærðu hafa boðað áfrýjun til æðra dómstigs sem kveður upp hinsta dóm í því. Alveg óháð því hver niðurstaðan var og verður þá er ég sannfærður um að engar illar hvatir eru í málinu. Hvorki af hálfu kæruliðanna né hinna kærðu. Öll vilja þau ná árangri með heiðarlegum hætti og vera innan laga og regla. Þær eru hins vegar, eins og svo oft áður, því miður, teygjanlegar og með glufum sem gefa kost á mismunandi túlkun og útfærslu. Ekki er önnur leið til en fá dómsúrskurð um hið rétta.   

Gallinn við þetta mál er sá, að ekki er til annar farvegur til að fá niðurstöðu í þrætur sem þessar. Í margar vikur hefur verið ágreiningur um dreifi bíla Toyota og Williams og um hálfan mánuð hafa menn haldið fram ólögmæti dreifis bíls Brawn GP. Um er að ræða hálfgerðan væng neðanvert á  afturenda bílanna.

Kæruliðin, BMW, Ferrari, Renault og Red Bull, gátu hins vegar ekkert annað gert en beðið fram að bílskoðun í Melbourne til að fá úr því skorið hvort bílar liðanna þriggja teldust löglegir. Stæðust þeir  skoðun dómaranna færi kærumálið fyrst af stað. 

Ekki kann ég á það hvort finna megi nýtt ferli til að komast hjá klögumálum sem þessum. Eflaust er þar verk að vinna fyrir Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA). Vitað er að Toyota og Williams höfðu borið hönnun sína undir tæknistjóra FIA, Charlie Whiting, og fengið samþykki hans við hugmyndinni. Fyrir liggur hins vegar ekki hvort honum voru sýndar nákvæmar teikningar eða jafnvel dreifirinn sjálfur.

Þótt hann sé eflaust betur að sér en allir aðrir um lög og tæknireglur FIA sýna dæmin að það getur verið varasamt að leita álits hjá Whiting. Eða í það minnsta ósanngjarnt að setja hann í þá stöðu að gefa álit því þegar upp er staðið er lítið gagn í því.

Það fékk McLaren alla vega að reyna í fyrra er Whiting sagði liðinu ítrekað að Lewis Hamilton hefði komið sér hjá klandri með því að hleypa Kimi Räikkönen aftur fram úr sér eftir frægan en umdeildan framúrakstur í Spa í Belgíu í fyrra. Stjórnendur McLaren voru sjálfir á báðum áttum og gerðu sig klára til að láta Hamilton víkja aftur fyrir Räikkönen. Höfðu því símsamband að nýju við Whiting og þegar honum var ekki haggað treystu þeir dómi hans.

Eftirköstin urðu önnur því keppnisdómararnir töldu Hamilton hafa tekið of fljótt aftur fram úr Räikkönen og því hagnast á upprunalega atvikinu. Dæmdu hann niður um nokkur sæti, reyndar ekki fyrr en mörgum stundum eftir að keppni var lokið og Hamilton hafði tekið við sigurlaunum á verðlaunapalli.

Hvað sem þessu öllu líður, þá er bara að horfa fram á við og bíða eftir að vélarnar verði gangsettar og bílarnir bruni af stað. Það ætla ég að gera og ég trúi því, að keppnin verði jöfn og spennandi. Þetta hef ég reyndar haldið flest undanfarin ár og ekki hefur alltaf farið þann veg.

Mér finnst þó bílprófanir undanfarinna vikna benda til meiri keppni nú og að fleiri lið komi við sögu. Ferrari og McLaren verða ekki eins drottnandi í toppslagnum, það vona ég allavega. Nærtækast er að nefna Brawn-liðið og þann eldingarhraða sem bílar þess hafa sýnt. Toyota er greinilega mun samkeppnisfærari en áður. Reikna verður einnig með BMW og síðan hef ég einhverja tröllatrú á Renault. Þá hafa Red Bull bílarnir reynst kvikir og Williams einnig á stundum.

Þar með hef ég nefnt átta lið af 10. Mér kæmi á óvart ef hin tvö tækju þátt í toppslag, Toro Rosso og Force India. En skyldi fyrrnefnda liðinu takast að skjóta toppliðunum skelk í bringu á stundum? Eins og í fyrra? Ekki hefði ég neitt á móti því!

 


Sigla fleiri lið sama sjó og Honda?

Sú ákvörðun Hondafyrirtækisins japanska að draga sig út úr formúlu-1 bar skjótt að og vekur ugg um að fleiri lið eigi eftir að verða fórnarlömb fjármálakreppunnar.

FIA-forsetinn Max Mosley tók þannig til orða eftir fall Honda í síðustu viku, að hann gruni að annað lið til viðbótar sigli í strand áður en keppnishald hefst á nýju ári.

Getur verið að fleiri bílafyrirtæki séu í slíkum vanda vegna hruns í bílasölu að þau munu kippa að sér höndum og hverfa úr formúlunni? Toyota er hið eina þeirra sem sagst hefur ætla halda áfram. Og það þrátt fyrir mikinn samdrátt í bílasölu þess, ekki síst í Bandaríkjunum. 

En hvað með Mercedes Benz, Renault, BMW, Fiat og Ferrari? Öll hafa þau neyðst til að draga saman framleiðslu, loka verksmiðjum tímabundið, og stokka upp starfsemi sína. Annars vegar vegna hruns í bílasölu á árinu og hins vegar vegna breytts kaupamunsturs.

Getur verið að eitthvert þessara fyrirtækja falli úr leik? Vonandi ekki.

Og hvað með sjálfstæðu liðin, þau sem ekki hafa öflug bílafyrirtæki á bak við sig? Lið eins og Red Bull (sem á líka og rekur Toro Rosso), Force India og Williams?

Hvað ætli framkvæmdastjóri Williamsliðsins, Adam Parr, eigi við þegar hann segir við breska blaðið The Times um helgina, að hann geri aðeins ráð fyrir því að átta lið verði á rásmarkinu í Melbourne í byrjun mars nk?

Bendir það til einhverra vandræða hjá Williams? Þessu gamalgróna afreksliðið sem má muna sinn fífil fegurri en á allra síðustu árum.

Fer Red Bull næst?

Eins og framan segir ætlar Toyota að troða elginn en aftur á móti gætir vissra efasemda um helgun austurríska drykkjarfyrirtækisins Red Bull. Í yfirlýsingu í framhaldi af útgöngu Honda sagði fyrirtækið ákvörðun japanska bílafyrirtækisins „ekki koma á óvart“.

Og það sem stingur enn frekar, er að talsmaður fyrirtækisins sagði við frönsku fréttastofuna AFP, að fjöldi annarra keppnisliða sé með svipaðar ráðstafanir í skoðun.

„Aðal atriðið núna er hvort kostnaðarsamdráttur náist nógu fljótt til að tryggja tilverugrundvöll nógu margra liða,“ sagði fyrirtækið einnig. Með öðrum orðum, frekari þátttaka Red Bull í formúlu-1 virðist krufin til mergjar um þessar mundir.

Hondaliðið er til sölu en finnist ekki kaupandi fyrir febrúarlok leggur það upp laupana og verður ekki með á næsta ári. Talið er víst að Red Bull bjóði alla vega Toro Rosso til kaups. Hvað gerist ef kaupandi finnst ekki? Eiga Mosley og Parr við að austurríska drykkjarfyrirtækið dragi annað liða sinna úr leik?

Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu en ég tel að formúlan megi ekki við frekari áföllum.


Hamilton yrði yngsti meistari sögunnar

Þriðja árið í röð ræðst keppnin um heimsmeistaratitil ökuþóra í lokamóti vertíðarinnar sem fram fer um helgina í Sao Paulo í Brasilíu. Er það í 25. sinn í 59 ára sögu formúlu-1 að úrslit ráðast í lokamóti. Lewis Hamilton hjá McLaren er með a.m.k. aðra höndina á titlinum eftir drottnun í kínverska kappakstrinum á dögunum. Er með sjö stiga forskot á Felipe Massa hjá Ferrari. Vinni Massa lokamótið, sem fram fer í heimaborg hans, dugar Hamilton fimmta sæti til að vinna titilinn.

Hamilton var með sama forskot í titilkeppninni fyrir lokamótið í fyrra en klúðraði kappakstrinum með þeim afleiðingum að Kimi Räikkönen hjá Ferrari vann bæði mótið og titilinn. Eflaust hefur Bretinn ungi lært af reynslunni og gengur með öðru hugarfari til leiks nú. Og þar við bætist að McLaren-bíllinn hefur reynst mun betri og hraðskreiðari en Ferrari-fákurinn í undanförnum mótum.

Þótt Massa muni njóta stuðnings um 100.000 áhorfenda í Sao Paulo mæðir mikið á honum. Þeir binda vonir við að hann verði fyrsti brasilíski heimsmeistarinn frá því goðsögnin Ayrton Senna var og hét fyrir 17 árum. Til að eiga möguleika á titlinum verður Massa að sigra. Í síðasta móti var liðsfélagi hans Kimi Räikkönen mun öflugri og hraðskreiðari en hægði ferðina og hleypti Massa fram úr sem varð til þess að forskot Hamiltons er sjö stig en ekki níu.

Óvæntir hlutir

Massa segist mæta fullur eldmóðs til leiks í Sao Paulo og enginn uppgjafartónn er í tali hans. „Ég er mjög bjartsýnn og það erum við öll í liðinu, þurfum að vera það. Maður gerir venjulega alltaf betur á heimavelli. Ég á góðar minningar frá mótinu síðustu tvö árin, og vonandi verður hið sama uppi á teningnum nú,“ segir hann.

Massa varð í fyrsta sæti í hittiðfyrra og öðru sæti í fyrra í Sao Paulo. Þá ók hann Sauber-bíl til fjórða sætis í tímatökunum 2004. Hann er bjartsýnn á að gæfan verði með honum á heimavelli og að óvæntir hlutir gerist.

Til að Hamilton verði af titli þarf McLaren-bíllinn að bila eða hann gera afdrifarík mistök undir pressu. Síðasti heimsmeistari Breta, Damon Hill segir Hamilton nógu agaðan til að takast á við allt álag í lokauppgjörinu í Sao Paulo.

Hill vann titilinn 1996 og býst ekki við mistökum af Hamilton, segir hann hafa þroskast það mikið frá í fyrra. „Síðasta mótið er eins og erfið fjallganga en hann skilur hvaða ögun hann þarf að beita sig til að komast í gegnum það,“ sagði Hill við breska útvarpið, BBC.

Hamilton er 23 ára og verður yngsti heimsmeistari sögunnar hampi hann titlinum eftir mótið í Sao Paulo. Yngsti meistarinn til þessa er Fernando Alonso hjá Renault sem varð meistari 2005 og 2006, en þeir voru liðsfélagar í fyrra hjá McLaren. Alonso varða meistari 24 ára, eins mánaðar og 27 daga gamall. Hamilton verður níu mánuðum og 28 dögum yngri á sunnudag, en hann er fæddur 7. janúar 1985.

Með nýjan mótor

Michael Schumacher, annar fyrrverandi meistari, telur einnig að Hamilton hafi farið mjög fram frá í fyrra. „Ég hef mikið álit á honum og það sem hann hefur afrekað á stuttum tíma er ótrúlegt. Það talar sínu máli að hann var oft hraðskreiðari en Alonso í fyrra,“ sagði Schumacher við BBC.

Hamilton og Massa ganga ekki alveg jafnir til leiks að því leyti að sami mótor verður í bíl þess fyrrnefnda og í síðasta móti, en Massa fær nýjan mótor. Vélar McLaren hafa almennt reynst traustar og engin slík bilað í bíl Hamiltons í ár. Liðsfélagi hans Heikki Kovalainen hefur aðra sögu að segja, mótor sprakk hjá honum í kappakstrinum í Japan fyrir tæpum þremur vikum og í Kína viku seinna varð hann að hætta keppni vegna drifrásarbilunar af völdum bilunar í vökvakerfi bílsins.

Spurningin er því hvort mótor Hamiltons sé óburðugri eftir álagið á keppnishelginni í Kína. Massa fær nýjan mótor sem þarf aðeins að endast eitt mót. Það gefur honum möguleika á að reyna meira á hann en ella og taka út úr honum mun meira afl. Að því leyti gæti hann reynst Hamilton öflugri í Sao Paulo. Víst er að lokauppgjörs þeirra er víða beðið með eftirvæntingu.

 


Alonso vill ná þrennunni

Óvænt hafa Fernando Alonso og Renault fagnað sigri í tveimur síðustu mótum Formúlu 1. Eftir fyrstu mót vertíðarinnar hefur líklega fæsta órað fyrir að slíkt gæti gerst í ár. Mikið vill meira og segist Alonso nokkuð viss um að hann geti unnið Kínakappaksturinn í Sjanghæ um helgina.

Alonso hefur komið sjálfum sér mjög á óvart með árangrinum en segist nú enga ástæðu sjá til annars en hann geti unnið þriðja mótið í röð.

„Miðað við Ferrari og McLaren var geta okkar býsna góð. Fæ því á tilfinninguna að allt sé mögulegt um helgina, pallsæti eða sigur. Liðið allt er þrútið af sóknarvilja eftir sigur okkar í Singapúr og Fuji. Og við munum gera allt til þess að standa okkur vel hér,“ sagði Alonso í Sjanghæ, en þar fer Kínakappaksturinn fram um helgina.

Hann varð heimsmeistari ökumanna með Renault 2005 og 2006 og segist ætíð hafa notið keppni í Sjanghæ-brautinni. „Ég get vart beðið þess að setjast aftur í bílinn því brautin er það skemmtileg. Hún felur í sér marga áhugaverða áskorunina, bæði fyrir ökumann og tæknimenn. Í henni er að finna langa beina kafla, háhraðabeygjur og einnig nokkrar hægar.

Dæmið snýst því um að finna hinn gullna milliveg í uppsetningu bílsins svo í honum verði gott jafnvægi í beygjum og nægileg vængpressa en hraði á beinum köflum samt það mikill að hann dugi til að verja stöðu eða taka fram úr keppinaut. Að því munum við einbeita okkur á föstudeginum, að finna heppilega uppsetningu,“ sagði Alonso.

Tæknistjórinn Bob Bell segir að Renaultliðið hafi í ljósi tveggja sigra í röð efni á að tefla djarft í Kína. „Við höfum hingað til staðið okkur vel í Kína og ég er viss um að við getum einnig verið öflugir um helgina.“

Renault hefur náð 16 stiga forskoti á Toyota í keppninni um fjórða sætið í stigakeppni bílsmiða, 66:50.

Kastljósið á Hamilton og Massa

Burtséð frá því hvernig Alonso og Renault vegnar mun kastljósið í Sjanghæ beinast að Lewis Hamilton hjá McLaren og Felipe Massa hjá Ferrari, sem eiga í tvísýnni rimmu um heimsmeistaratitil ökuþóra. Massa minnkaði forskot Hamiltons um tvö stig í Fuji um síðustu helgi, 84:79. Báðum gekk þar illa og Hamilton vann ekki stig. Robert Kubica hjá BMW varð annar í Japan og blandar sér á ný í titilslaginn, er 12 stigum á eftir Hamilton fyrir lokamótin tvö.

Hamilton stefndi til sigurs í titilkeppninni í fyrra og framan af keppninni í Sjanghæ, einnig næstsíðasta móti vertíðarinnar, virtist hann ætla landa titlinum þar. Liðið gerði afdrifarík taktísk mistök við dekkjanotkun svo hann féll úr leik. Hamilton segir það hafa verið martröð sem McLaren-menn ætli ekki að láta endurtaka sig nú. Massa varð þriðji í fyrra og segist ætla ofar nú, enda ekki um annað að ræða til að titilvonirnar lifi alla vega fram í heimakappakstur hans og lokamót vertíðarinnar, í Brasilíu í byrjun nóvember.


Hamilton ekur upp á stigin

Lewis Hamilton hjá McLaren segist vera að sættast við þá hugsun, að ganga til leiks í lokamótunum þremur í formúlu-1 þann veg, að reyna hámarka möguleika sína í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra með því að halda sig frá vandræðum og aka fremur upp á örugg stig en hætta öllu með því að keppa til sigurs.

Hamilton mætir til leiks í Fuji í Japan um helgina með sjö stiga forystu á Felipe Massa hjá Ferrari í titilkeppninni. „Ég hata að keppa upp á stig, en sú aðferðafræði getur skilað mestu,“ segir Hamilton sem varð þriðji í Singapúr fyrir hálfum mánuði, en þar fékk Massa engin stig.

Hann gerði engar tilraunir til að bæta enn frekar forskotið með því að reyna framúrakstur í Singapúr þótt á hraðskreiðari bíl væri. Tók enga áhættu í ljósi stöðu Massa og sætti sig fremur við þriðja sætið. Þáði örugg sex stig fremur en hætta öllu til þess að bæta hugsanlega tveimur við. Jók hann þar forystu sína úr einu stigi í sjö þar sem Massa hlaut ekki stig.

„Ég held Singapúr hafi í raun verið góður skóli,“ segir Hamilton sem hélt a.m.k. tvisvar aftur af sér er hann var í færi við keppinauta.  „Vegna hinna óvenjulegu kringumstæðna var minni þörf á að sigra og ég fór sjálfkrafa að hugsa um titilinn,“ segir hann einnig.

Þessi aðferðarfræði Hamiltons og McLarenliðsins á rætur að rekja til mistaka er kostuðu liðið titilinn í fyrra. Hamilton hafði hann nánast í hendi sér en titillinn rann honum úr greipum er hann ók of djarft til sigurs og féll úr leik í næstsíðasta móti, í Kína. Einbeitti hann sér jafnframt meira að því þá að leggja liðsfélaga sinn Fernando Alonso.

Hefði hann einfaldlega látið Alonso eiga sig og einbeitt sér fremur að því að keyra af öryggi til þriðja sætis í Kína hefði Hamilton orðið heimsmeistari. Í stað mistakanna vann Kimi Räikkönen titilinn í lokamótinu, í Brazilíu, er gírkassabilun varð til þess að Hamilton varð að hefja keppni ári aftarlega.

Útlit er fyrir að þurrkur verði í Fuji um helgina og fagnar Hamilton því þótt hann hafi staðið sig einkar vel í rigningu í ár. „Ég vil að áhorfendur geti átt góða og eftirminnilega helgi,“ segir hann.

Massa hefur hvatt Ferrariliðið til að ganga með jákveðni til móts við kappaksturinn í Fuji.

Hann virtist ætla aka til öruggs sigur í Fuji er þjónustuhlé hans klúðraðist. Var honum gefið merki um að halda af stað áður en bensínsáfyllingu var lokið. Reif hann slönguna með sér og varð að stoppa neðar í reininni svo hægt væri að taka hana af bílnum. Þar fór mikilvægur tími forgörðum. Hlaut hann svo akstursvíti í ofanálag og endaði í 13. sæti.

„Mottóið það sem eftir er vertíðar er að horfa fram á veginn og gefast ekki upp. Við verðum að reyna vinna tvöfalt í mótunum sem eftir eru. Það verður erfitt en við leggjum allir allt í sölurnar,“ segir Massa um lokamótin.

Forseti Ferrari, Luca di Montezemolo, hefur lýst því yfir að hann ætlist til að Räikkönen hjálpi Massa í titilslagnum í lokamótunum, jafnvel þótt hann eigi sjálfur enn stærðfræðilega möguleika á titlinum.

Veður getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í Fuji, ekki síst úrkoma eins og í fyrra. Rigndi alla helgina og er ekki hægt að útiloka úrkomu í ár einhvern mótsdagana. Þá varð Heikki Kovalainen hjá Renault annar, komst í fyrsta sinn á pall á ferlinum og vann eina verðlaunasæti Renault á árinu.

Keppt var í formúlu-1 í Fuji árin 1976 og 1977 en síðan í Suzuka þar til mótið sneri aftur til Fuji í fyrra.


Kappakstur sem fer í annála

Kappaksturinn í Singapúr fer í annála fyrir margra hluta sakir. Meðal annars sló Nick Heidfeld met í eigu Michaels Schumacher. Og fyrstu næturkeppninnar, 800. móts sögunnar í formúlu-1, verður líklega fyrst og fremst minnst vegna óvænts sigurs Fernando Alonso hjá Renault – mannsins sem tekist hefur að breyta hálfgerðri druslu í dágóðan bíl á vertíðinni.

Alonso var óvænt hraðskreiðastur á annarri og þriðju æfingu mótshelgarinnar og væntingar Renault voru miklar. Tímatökurnar voru liðinu hins vegar reiðarslag. Bilun í bensíndælu varð þess valdandi að í stað þess að hefja keppni af fremstu rásröð eða þar um bil hafnaði Alonso á 15. rásstað.

Viðbrögð hans í svekkelsinu voru þau að kappaksturinn væri búinn hvað möguleika á toppsæti áhrærði. En í gær kom svo í ljós, sem svo oft áður, að formúlan er óútreiknanleg. Hann valdi djarfa þriggja stoppa keppnisáætlun í þeirri von að geta klifrað upp eftir bílaröðinni. Rétt eftir fyrsta stoppið var svo öryggisbíll kallaður út í brautina sem gjörbreytti stöðu mála og skyndilega og óvænt var hann í aðstöðu til að keppa um toppsæti.

Því boði tók hann þakksamlega og ók til sigurs, eins og fyrrum heimsmeistara sæmdi. Fyrsti sigur hans í eitt ár, eða frá í Monzaí fyrra, hinn tuttugasti á ferlinum sem spannar 118 mót. Hefur Alonso nú unnið jafn mörg mót og Mika Häkkinen en þeir eru í 11.-12. sæti yfir sigursælustu ökumenn sögunnar.

Alonso stóð jafnframt í 50. skipti á verðlaunapalli í formúlu-1 en Häkkinen stóð þar einu sinni oftar.

Fyrsti kappaksturinn sem vinnst af 15. rásstað

Og þetta mun vera í fyrsta sinn í sögunni sem formúlukappakstur vinnst frá 15. rásstað. Aðeins sjö sinnum hefur mót unnist af ökuþór sem ræst hefur aftar.

Jackie Stewart hóf keppni í 16. sæti er hann ók til sigurs á Tyrrell í Suður-Afríku árið 1973. Schumacher vann sömuleiðis á Benettonbíl af sama rásstað í Spa-Francorchamps 1995.

John Watson ók til sigurs í kappakstrinum í Detroit1982 af 17. rásstað. Úr sama sæti vann Kimi Räikkönen, einnig á McLaren, í Suzuka fyrir þremur árum.

Einu sæti aftar, því átjánda á rásmarki, var Rubens Barrichello er hann ók til sigurs í Hockenheim árið 2000. Bill Vukovich hrósaði sigri í Indianapolis1954 á Kurtis Kraft-bíl eftir að hafa lagt upp af 19. rásstað.

Loks hóf fyrrnefndur John Watson keppni í 22. sæti á McLarenbíl í Long Beach árið 1983. Það aftraði Íranum ekki því hann stóð að lokum uppi sem sigurvegari.

Aftasta sæti sem kappakstur hefur ekki enn unnist úr er hið tuttugasta, en aftar en það hefur enginn bíll keppni nú til dags þar sem aðeins 10 lið taka þátt um þessar mundir.

Flaggað hjá Renault

Af augljósum ástæðum er Alonso fyrsti ökumaðurinn til að vinna formúlukappakstur í Singapúr. Hann er jafnframt sjöundi ökuþórinn til að vinna mótssigur í ár í 15 mótum.

Renault vann nú sinn fyrsta mótssigur frá í japanska kappakstrinum 2006, en þar var Alonso einnig að verki. Þrír fánar voru dregnir að húni við höfuðstöðvar liðsins í Viry-Chatillon suður af París í morgun; sá franski, spænski og gunnfáni Renault. Þar var létt yfir starfsmönnum í dag.

Nico Rosberg hjá Williams komst í annað sinn á ferlinum á verðlaunapall með öðru sæti, en hann varð þriðji í fyrsta mótinu í ár, í Melbourne. Í fyrsta sinn á ferlinum hafði hann um skeið forystu í kappakstrinum. Er 158. ökuþór sögunnar til að komast í þá aðstöðu.

Räikkönen jafnar aftur met Scuhmachers

Kimi Räikkönen bætti hraðasta mótshring í safn sitt og eru þeir orðnir 35 á ferlinum. Þar af sá tíundi í ár. Jafnaði með því met Michaels Schumacher frá 2004 fyrir mesta fjölda hröðustu hringja á einni vertíð. Það jafnaði Räikkönen einnig árið 2005 og hefur þrjú mót eftir í ár til að eignast metið alveg sjálfur.

Räikkönen vann einnig það afrek að vera utan stiga fjórða mótið í röð. Er það lengsta stigalausa mótarunan hans frá vertíðinni 2002. Það ár vann hann ekki stig sex mót í röð, eða frá Malasíu til Mónakó. Þá voru stig reyndar aðeins gefin fyrir fyrstu sex sæti, en ekki átta eins og nú.

Ég hef nefnt, að sunnudagurinn 28. september væri svartur dagur í sögu Ferrari. Fyrir utan klúður í þjónustustoppi var þetta fyrsta mót ársins sem Ferrari fer frá án þess að hafa átt bíl í stigasæti.Með stigaleysinu í Singapúr lauk 46 móta kafla þar sem Ferrari hafði ætíð aflað stiga. Frá og með kappakstrinum í San Marínó 2008 og til þess ítalska í Monza fyrir hálfum mánuði höfðu ökumenn, annar eða báðir, komið í mark í stigasæti.

Góð ending hjá BMW líka

Til marks um góða endingu Ferrari í seinni tíð vann liðið stig í 55 mótum í röð frá í Malasíu 1999 til mótsins á sama stað 2003. Og liðið vann stig í 33 mótum í röð frá í San Marínó 2003 til Malasíu 2005.

BMW-liðið vantar aðeins eitt mót á að jafna síðastnefndu striklotuna, en liðið hefur átt einn eða fleiri bíla í stigasæti frá í Melbourne í fyrra.

Meðalaldur ökumanna á verðlaunapallinum í Singapúr í gær var sá fimmti lægsti í sögunni. Meðaltalsaldur Alonso, Rosberg og Lewis Hamilton er 24 ár og 19 dagar. Þetta þýðir að fjórir af fimm „yngstu“ verðlaunapöllum sögunnar hafa orðið til í ár, í Monza, Hockenheim, Mónakó og Singapúr.

Svartnætti hjá Ferrari

Það var ekki aðeins að titilvonir Kimi Räikkönen slokknuðu endanlega í myrkrinu í Singapúr. Heldur var þetta einnig fyrsta mót ársins sem Ferrari fer frá án þess að hafa átt bíl í stigasæti. Svartur dagur fyrir Ferrari, sagði liðsstjórinn Stefano Domenicali. Ætli megi ekki ganga út frá því sem vísu,  að hann og hans menn fái það óþvegið frá ítölskum fjölmiðlum í dag.

Með stigaleysinu í Singapúr lýkur 46 móta kafla þar sem Ferrari hafði ætíð aflað stiga. Frá og með kappakstrinum í San Marínó 2008 og til þess ítalska í Monza fyrir hálfum mánuði höfðu ökumenn, annar eða báðir, komið í mark í stigasæti.

Hið sögulega mót varð að martröð fyrir Ferrari og ökumenn þess. Felipe Massa hóf keppni af ráspól og virtist eiga alla möguleika á að taka forystu í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna.

Í staðinn var hann fórnarlamb klúðurs í fyrsta þjónustustoppi sem leiddi til þess að hann er nú sjö stigum á eftir Lewis Hamilton hjá McLaren þegar þrjú mót eru eftir.

Klúðrið í þjónustustoppinu felldi Massa eiginlega úr fyrsta sæti niður í það síðasta.

Fjórða mótið í röð mistókst Räikkönen að vinna stig og vegna úrslita mótsins missti Ferrari forystuna í stigakeppni bílsmiða í hendur McLaren. Hefur hann ekki verið jafn mörg mót í röð án stiga frá árinu 2002. Þá hlaut hann ekki stig sex mót í röð, frá Malasíu til Mónakó, en á þeim tíma voru aðeins veitt stig fyrir sex fyrstu sæti, ekki átta eins og nú.

Räikkönen hafði sett hraðasta hring kappakstursins og var fimmti þegar óþolinmæðin bar hann ofurliði. Leitaði hann færis full djarflega gegn  Timo Glock  og féll vegna eigin mistaka á leið inn í beygju og skall á brautarvegg.

Vissulega má segja að útkall öryggisbíls hafi gjörbreytt kappakstrinum, hinum 800. í sögu formúlu-1. Við það getur Ferrari huggað sig. En ætli liðinu sé ekki hollt að taka upp gömlu aðferðina í þjónustustoppum og hafa mann með svonefndan „sleikipinna“ til að gefa ökumanninum merki um hvenær hann megi setja í gír og aka síðan af stað.

Þetta fyrirkomulag hefur lengstum gefist vel. Ferrari taldi sig geta gert stoppin skilvirkari með sjálfvirkum sleppibúnaði, ef svo mætti segja. Þar er um að ræða rafeindabúnað sem tengdur er bensíndælunum og kveikir grænt ljós í mælaborði ökumannsins þegar áfyllingu er lokið.

Honum var handstýrt í gær vegna bílamergðar í bílskúrareininni og sá sem um hnappinn hélt ýtti aðeins of fljótt - mannleg mistök. Fyrir vikið rauk Massa af stað áður en slangan var laus frá bílnum og reif hana með sér. 

Þá varð hin ótímabæra slepping til þess að hann skóp hættu með því að aka í veg fyrir bíl sem átti réttinn í reininni og var beittur akstursvíti af þeim sökum - aukaferð gegnum bílskúrareinina.

Sem sagt, kvöldkappaksturinn fyrsti varð að svartnætti fyrir Ferrari. Í stað ánægjulegra minninga frá mótinu sögulega fór liðið frá því með skottið milli fótanna.

Og þetta er ekki fyrsta klúður Ferrari í þjónustuhléum í ár með búnaðinum nýstárlega, heldur hið þriðja. Þjónustusveitarmaður fluttur slasaður á spítala í gær, og annar vélvirki  er enn á sjúkrahúsi vegna meiðsla sem hann hlaut í misheppnuðu stoppi fyrr á vertíðinni.


Út í óvissuna í Singapúr

Formúla-1 fer inn á alveg nýjar brautir um helgina. Keppt verður í fyrsta sinn í sögunni í Singapúr. Og það sem meira er, keppnin fer fram að kvöldi til í flóðljósum. Aldrei hefur áður verið keppt eftir sólarlag. Vettvangurinn er miðborg Singapúrs og í orðsins fyllstu merkingu eru ökumenn á leið út í óvissuna en útlit er fyrir óvenjulega keppni.

Fimm kílómetra löng brautin liðast um miðborgina, framhjá mörgum helstu kennileitum hennar. Franski ökuþórinn Sebastien Bourdais hjá Toro Rosso lofar hana í hástert en hann hefur mikla reynslu af keppni á götum borga úr bandaríska ChampCar-kappakstrinum. Og hann segir ökumenn ekki þurfa að hafa áhyggjur af flóðlýsingunni.

„Hér er eins og um hábjartan dag,“ sagði Bourdais eftir að hafa hjólað um brautina. Mun ljósmagnið sem hver kastari sendir frá sér vera ferfalt meira en á knattspyrnuleik. Veitir ekki af að birtan sé sem best svo ökumenn geti áttað sig vel á umhverfinu á 300 km/klst hraða.

 

Von um tilfrif og tilbreytingu

„Spennandi helgi framundan,“ sagði Lewis Hamilton hjá McLaren sem er efstur í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra. „Ég hef aldrei keppt að kvöldi en ég held að það verði ekkert vandamál, fremur en í öðrum íþróttagreinum,“ bætti hann við. Keppnislið hans hefur undirbúið sig mjög vel í herbúðum sínum, með því að líkja sem nákvæmast eftir aðstæðum í ökuhermi.

Keppnin hefst klukkan 20 að kvöldi að staðartíma á sunnudag, klukkan 12 á hádegi að íslenskum tíma. Tímatökurnar á morgun, laugardag, hefjast hins vegar klukkan 14 að íslenskum tíma. Vegna flóðlýsingarinnar er engin þörf fyrir að bílarnir verði búnir ljóskösturum eins og í franska sólarhringskappakstrinum í Le Mans.

Öðru sinni í ár er keppt á nýrri braut, öðru sinni á venjulegum borgargötum. Fyrri kappaksturinn fór fram í Valencia á Spáni og er helst minnst fyrir bragðleysi. Þótt erfitt sé að segja til um hversu fjörlegt verður í Singapúr er þó vonast til að tilþrif og tilbreyting verði meiri þar.

Tímasetningin er ákveðin til að mótið fari fram á útsendingartíma sem hentugastur þykir í Evrópu, en þar er hryggjarstykkið í öllu áhorfi og öllu fylgi við Formúluna.

Vegna þessa hafa ökumenn og keppnisliðin þurft að tileinka sér alveg nýjar aðferðir við undirbúning keppninnar. Allt miðast við hversu seint dagsins keppnin fer fram. Hafa ökumenn farið eftir nákvæmri forskrift lækna og annarra sérfræðinga um hvernig þeir láta daginn líða.

Aðlögunin hefur ekki verið að staðartíma, heldur hafa þeir haldið sig á evrópskum tíma til að athygli og afköst verði sem mest þegar keppnin fer fram. Því hafa þeir ekki farið á fætur fyrr en nokkru eftir hádegi að staðartíma, snætt kvöldverð um og eftir miðnætti í Singapúr o.s.frv. og farið aftur í bólið löngu eftir miðnætti. Sérstök tjöld hafa verið sett í hótelherbergi til að tryggja myrkur þótt úti sé bjart og ráðstafanir gerðar til að ökumenn verði fyrir engu ónæði meðan þeir þurfa að sofa.

Breytingarnar eru mönnum misjafnlega erfiðar. Mark Webber hjá Red Bull er t.a.m. annálaður morgunhani og reynir því á að þurfa að sofa fram yfir hádegi. Kimi Räikkönen hjá Ferrari er hins vegar þekktur nátthrafn og sér ekki fram á neinn vanda. „Mér finnst gott að sofa til hádegis venjulega, svo þetta virðist fyrirtaks staður að vera á,“ sagði hann um aðlögun sína.

 

Keppni Hamiltons og Massa

Þrátt fyrir nákvæman undirbúning ofan í minnstu smáatriði leggja lið og ökumenn alveg út í óvissuna hvað varðar að keppa í flóðljósum og rigningu. Veðurspár gera ráð fyrir þrumuveðri bæði þegar tímatökur fara fram á morgun og í keppninni á sunnudag. Hafa liðin áhyggjur af hugsanlegum neikvæðum áhrifum ljósglampa frá vætublettum á brautinni á sjónsvið ökumanna. Við því hafa þau brugðist með sérstöku og sérlega lituðu háskerpugleri í hjálmum þeirra til að auka sjóndýpt ökumanna. Glerið hefur einnig verið sérlega húðað til að koma í veg fyrir dropamyndun.

Keppnin um heimsmeistaratitil ökumanna stendur nú nánast eingöngu milli Hamiltons og Felipe Massa hjá Ferrari. Á þeim munar aðeins einu stigi og ríður því mjög á fyrir báða að eiga góðan dag á sunnudag í Singapúr. Miðað við frækilega frammistöðu á síðasta móti, í Monza á Ítalíu, ætti það ekki að há Hamilton þótt vott verði. Þá kann hann hvergi betur við sig en á borgarbrautum.

Massa hefur ekki sýnt sama styrk í vætu og Ferrari-fákurinn virðist heldur ekki hentugur í rigningu, samanber tvö síðustu mót, í Belgíu og á Ítalíu. Verði hins vegar þurrkur og hiti stendur hann mun betur að vígi og gæti alveg eins hrifsað forystuna í stigakeppninni til sín. Og á hinni nýju braut ársins, Valencia, drottnaði hann frá upphafi til enda; á braut þar sem búist var fyrirfram við að Hamilton yrði sterkastur.

Má því með sanni segja að óvissa sé allsráðandi fyrir helgina, en eftirvæntingin því meiri.


Hvorugur ökumaður Ferrari hefur fagnað sigri í Monza

Kimi Räikkönen og Felipe Massa verða undir miklum þrýstingi frá stuðningsmönnum Ferrari um að vinna kappaksturinn í Monza um helgina. Hvorugur þeirra hefur hrósað sigri þar.

Räikkönen keppir um helgina í áttunda sinn í formúlu-1 í Monza, þar af í annað sinn sem liðsmaður Ferrari. Aldrei hefur hann staðið á efsta þrepi verðlaunapallsins í þessari sögufrægu braut.

Ferill Massa í ítalska kappakstrinum er eiginlega daprari. Hann á að baki fimm mót í Monza en hefur aldrei verið meðal átta fremstu, þ.e. aldrei unnið stig í keppni þar. Tveimur mótanna lauk hann ekki.

McLarenliðið hefur tvisvar farið með sigur af hólmi í Monza undanfarin þrjú ár.  Í fyrra sigraði Fernando Alonso og Lewis Hamilton varð annar og var þá 21 sekúndu á undan Räikkönen í mark.

Hamilton hefur þegar unnið þrjú mót í ár þar sem hann varð í öðru sæti í fyrra, þ.e. Ástralíu, Mónakó og Bretlandi. Þar sem hann varð annar í Monza í fyrra er spurningin hvort hann bæti um betur þar í ár sem öðrum brautum.

Það flokkast ef til vill undir að vera fánýtur fróðleikur, en í aðeins tvö skipti á undanförnum 17 árum hefur sigurvegarinn í kappakstrinum í Monza orðið heimsmeistari ökumanna sama ár.

Þá hafa sex síðustu ráspólshafar í Monza jafnframt hrósað sigri í viðkomandi kappakstri þar.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband