Williams og Toyota með forskot í eyðimörkinni?

Mikið álag hefur verið í upphafi vertíðar á ökuþórum og öllu starfsliði formúluliðanna. Um helgina fer fram fjórði kappakstur ársins á aðeins fimm vikum. Útivist þessari hinum megin á hnettinum lýkur með keppni í Barein við Persaflóa um helgina. Eftir það snúa liðin til baka til bækistöðva sinna í Evrópu og gengur þá evrópski hluti vertíðarinnar í garð, en hann spannar níu mót á tæpum fimm mánuðum.

 

Eftir drottnandi tvöfaldan sigur Red Bull um síðustu helgi í Kína beinast augun einkum að því liði og Brawnliðinu. Snýst kappaksturinn í Barein um einvígi þeirra í millum? Eða blanda fleiri sér í keppnina um toppsætin? Og hvaða áhrif hefur, að í Barein verður heitt og þurrt en ekki rigning eins og í síðustu tveimur mótum, í Malasíu og Sjanghæ.

 

Útilokað er að spá um keppni Red Bull og Brawn en líklegt er þó að síðarnefnda liðinu nýtist betur umfram vængpressa af völdum loftdreifisins umdeilda. Red Bull mun ekki búa sína bíla slíkum dreifi fyrr en í Mónakó eftir mánuð.

 

Fræðilega séð ætti KERS-búnaður að koma sér vel í Barein, en beygjurnar eru þannig, að fá ef nokkrar brautir slíta bremsum jafn mikið. KERS endurnýtir hemlunarorku og skilar honum í viðbótarafli til ökumanna. Af þessum sökum hefur m.a. Ferrari ákveðið að nota búnaðinn í Barein.

 

Tvö lið hugsa sér gott til glóðarinnar í Barein, Toyota og Williams. Hið síðarnefnda hefur reynst öflugt á æfingum en fór tómhent frá kappakstrinum í Sjanghæ þar sem hvorugur bíllinn lauk keppni. Tæknistjórinn Sam Michael er einkar óhress með frammistöðu Nico Rosberg og Kazuki Nakajima í keppni, miðað við æfingum.

 

Hann ætlast til þess að breyting verði þar á í Barein og að liðið njóti þess forskots umfram önnur lið en Ferrari og Toyota , að hafa æft þar dögum saman í febrúar. Rosberg vann þar sín fyrstu formúlustig, árið 2006. „Barein er ein af uppáhaldsbrautunum mínum. Bíllinn var mjög góður þar í fyrra og það verður ekkert vandamál að hita upp dekkin. Loftafl skiptir miklu máli í beygjunum en má ekki vera of mikið til að það bitni ekki á manni á hröðu og löngu beinu köflunum. Við erum bjartsýnir á að ná loks góðum úrslitum,“ segir hann í aðdraganda mótsins.

 

Toyotaliðið er sömuleiðis mjög bjartsýnt og telur það veita sér forskot að hafa æft í Barein í febrúar ásamt Williams og Ferrari. Alls lögðu Toyoturnar þá að baki 711 hringi í brautinni, eða 3.847 kílómetra. Sem jafngildir 22 kappaksturslengdum. Toyota hefur oftast átt góðu gengi að fagna í Barein, en þar komst Jarno Trulli m.a. á pall, varð annar í mark árið 2005.

 

Hér hefur ekki verið minnst fyrrum toppliða McLaren, Renault og Ferrari. Tvö þeirra fyrstnefndu munu njóta talsverðra endurbóta á bílum sínum. Og öll búa þau yfir KERS-búnaði. Hvort tveggja gæti orðið til þess að gæfa þeirra verði meiri í Barein en fyrstu mótunum þremur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Best að maður gerir sjálfur athugasemd við þetta. Æfingarnar í dag benda nú ekki til þess að ökumenn Toyota hafi grætt eins mikið og þeir vildu vera láta á því að hafa æft í Barein fyrr á árinu. Annað er um Rosberg hjá Williams að segja.

En svo eru eftir æfing og tímatökur á morgun, og kappaksturinn á sunnudag, svo það er kannski of snemmt að dæma.

Ágúst Ásgeirsson, 24.4.2009 kl. 21:08

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Nú er komið alveg nýtt landslag í formúluna, þar sem Button trónir á toppnum það er flott að sjá hvað Brawn-bíllinn virkar vel og má segja að Ross Brawn hafi alveg gert kraftaverk með bílinn.  Þá er alveg sérstaklega gaman að sjá hvað Sebastian Vettel minnir hressilega á sig þar er sko MARGFALDUR framtíðar heimsmeistari á ferðinni.  Mínir menn eru aðeins að rumska af þyrnirósarsvefninum, en ég er smeykur um að þeir séu full seinir á lappir til að gera tilkall til titils þetta árið.

Jóhann Elíasson, 27.4.2009 kl. 09:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband