Bíð eftir að hætt verði að keppa í Barcelona

Frekar fannst mér kappaksturinn í Barcelona bragðdaufur. Og það ekki í fyrsta sinn. Ég minnist varla skemmtilegs kappaksturs þaðan í seinni tíð. Er minnið kannski tekið að bregðast mér? Það held ég ekki. Það skal viðurkennt, að ég vona að keppni í brautinni verði sem fyrst hætt.  Held það myndi ekki skaða að prófa aðrar brautir á Spáni, þær eru nokkrar þar.

Þess verður sennilega lengi að bíða að sú ósk rætist. Og þar sem ég fæ engu um það breytt verður maður að láta það raska ró sinni sem minnst! Hið eina sem flýtt gæti fyrir væri að kappaksturinn yrði tekinn af borginni vegna kynþáttafordóma. Brautin var eiginlega sett á skilorð í fyrra vegna hatursáróðurs áhorfenda í garð Lewis Hamilton hjá McLaren við bílprófanir í fyrra. Þar var hann gerður að blóraböggli fyrir brottför Fernando Alonso frá McLaren og því að Spánverjinn varð ekki heimsmeistari.

Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) brást harkalega við og sagði endurtekningu á slíku yrði ekki þolað og um leið lyki akstri formúlubíla í brautinni. Spurning er hvort forsvarsmenn FIA hafi horft á útsendingar breska sjónvarpsins (BBC) frá Barcelona í dag. Þar birtist m.a. á skjánum maður með svartmálað andlit og ekki virtist leika vafi um hver skilaboð þess uppátækis voru.

Annars væri kannski hægt að lappa upp á keppnina í Barcelona með því að breyta brautinni, rífa hana upp á nokkrum stöðum og setja t.d. í hana eina eða tvær almennilega hægar beygjur við enda hraðakafla svo einhverjir möguleikar skapist til hressandi einvígja og framúraksturs. Fyrsta beygjan í Monza og sú síðasta í hringnum í Spa eru ágæt dæmi um slíkar beygjur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég birtist fúll á blogginu út í mótið í Barcelona. Eftir að hafa skrifað framangreint kíkti ég á gömul blogg. Svona skrifaði ég t.d. fyrir tveimur árum:

„Engin breyting varð á þessu síðastliðin sunnudag, eftir fyrstu beygju hefði alveg mátt sleppa því að fylgjast frekar með, eins og oft áður. Eina sem ruglaði röðinni voru bilanir - ekki man ég eftir neinum framúrakstri. Svona hefur þetta verið svo lengi sem ég man eftir.

Kannski er þetta vegna þess að liðin og ökuþórarnir þekkja brautina eins og handarbak sitt vegna alls þróunarakstursins sem þar fer fram og því klikka uppsetningar bílanna aldrei, þær henta alltaf aðstæðum eins og best verður á kosið. Akstursmistök eru vart til vegna kunnugleika keyrenda á Katalóníuhringnum.“

Og þessi klausa er úr bloggi um keppnina árið 2006:

„Oftast hefur mér fundist lítið varið í Spánarkappaksturinn. Nánast eins og prósessía frá upphafi til enda og lítil sem engin keppni um sæti. Það vantaði mjög á slíkar viðureignir í dag en samt var stemmningin öðru vísi og mikil spenna í loftinu í Barcelona. Þar kemur Alonso til sögunnar. Pressan á honum var mikil. Stemmningin stórjókst eftir sigur hans í keppninni um ráspólinn. Og í ljósi þess hvernig fyrri mót hafa þróast var erfitt að segja til um hvernig færi í dag fyrr en að loknum seinni þjónustustoppunum. Þá gerði Schumacher sér ljóst að hann næði ekki Alonso og sparaði mótor sinn eftir það en hann þarf hann að nota í næsta móti, í Mónakó. Þar verður Alonso hins vegar með nýjan mótor þar sem mótorinn í dag var einnig í bíl hans í Nürburgring.“

Fróðlegt væri að sjá afstöðu unnenda formúlunnar til keppninnar í Barcelona. Eflaust eru mér ekki allir sammála, ef þeir eru á annað borð fyrir hendi sem eru það!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Við erum algjörlega sammála þarna.  Ég fékk samviskubit vegna   þess tíma sem ég tók í að horfa á þessa keppni og það var afskaplega fátt sem mér þótti eftirminnilegt eftir þessa tæpu tvo tíma.  Ekki myndi ég sakna Barcelona-keppninnar, þegar ég rifja það upp, man ég ekki eftir neinu merkilegu frá þessari borg eftir að ég fór að fylgjast með formúlunni fyrir einhverjum árum.

Jóhann Elíasson, 10.5.2009 kl. 22:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband