Mánudagur, 27. júlí 2009
Verður ekki að dæma Brawn úr leik líka?
Það hlýtur að vera hundfúlt fyrir Renaultliðið að vera dæmt úr leik fyrir að felguró hægra framhjóls á bíl Fernando Alonso festist ekki sem skyldi í þjónustustoppi í Hungaroring í gær. Ég velti því fyrir mér hvort þar gangi dómarar kappakstursins ekki full langt. Verða þeir ekki líka að dæma Brawn úr leik í mótum fyrir lausa fjöðrunargorminn sem stórskaðaði Felipe Massa? Geta þeir fyrr talist samkvæmir sjálfum sér? Er ekki um ófyrirséðar bilanir að ræða í báðum tilvikum?
Renaultliðinu var fundið það til sakar að hafa ekki fest felguróna sem skyldi. Hvað með gorminn sem hengir fjöðrunarkerfi afturhjóla Brawnbílsins saman? Gildir ekki hið sama um það tilfelli?
Auðvitað fyndist mér það út í hött ef Brawn yrði refsað vegna þessa hörmulega atviks. Hér hlýtur að ver um bilun að ræða sem á nánast að vera útilokuð og enginn getur séð fyrir.
Þá hélt ég að dekkjamenn á þjónustusviði teldu sig vita hvort felguró væri föst eða ekki. Oft höfum við séð þá þurft að glíma við þær meira en eðlilegt er og ná að festa þær á endanum. Gaf ekki felgumaðurinn í tilviki Alonso merki um að hann hefði lokið sínu hlutverki og hjólið væri fast undir? Var um bilun í rónni að ræða sem hann varð ekki var? Spyr sá sem ekki veit.
Við því fást væntanlega svör á næstunni og ekki síst þegar áfrýjunardómur Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) tekur málið fyrir. Renault hefur áfrýjað úrskurði dómara kappakstursins sem dæmdu liðið úr leik í gær.
Athugasemdir
Ég er algjörlega sammála þér með þetta. Þvílíkt og annað eins að dæma BÁÐA bílana úr keppni fyrir ein mistök hjá liðinu þetta er dómur sem nær ekki nokkurri átt og eins og þú segir af hverju ekki að dæma Brawn-liðið úr keppni þar urðu liðinu á mistök. Ég er löngu hættur að skilja þessa dóma í formúlunni og get bara engan vegin séð að það sé nokkurn samræmi í þeim, dómarnir virðast fara eftir veðráttu eða einhverju öðru sem mér er ekki alveg kunnugt um hvað er, var ekki óvenju hvasst á brautinni??
Jóhann Elíasson, 27.7.2009 kl. 08:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.