Föstudagur, 24. júlí 2009
Ökuþórar ósammála um ágæti keppni Alguersuari
Ökuþóra formúlunnar greinir á um ágæti þess að Toro Rosso teflir fram spænska nýliðanum Jamie Alguersuari um helgina í Búdapest. Fernando Alonso og Sebastian Vettel hafa komið honum til varnar en Mark Webber, Lewis Hamilton, Felipe Massa og Jenson Button eru í hópi þeirra sem finna að ráðningunni og telja meiri líkur en minni á að Alguersuari geti spillt fyrir sér með keppni í formúlu-1.
Helst er fundið að reynsluskorti Alguersuari en hann hefur lítið sem ekkert ekið formúlu-1 bíl, einungis tvisvar og þá aðeins beint áfram. Hann hefur hins vegar talsverða reynslu úr öðrum mótaröðum; varð meistari í hinni bresku formúlu-3 í fyrra og keppir nú í öflugri mótaröð, svonefndri Heimsmótaröð Renault.
Allra síst skil ég Button sem stökk beint úr bresku formúlu-3 inn í formúlu-1 aðeins tvítugur að aldri, nokkrum mánuðum eldri en Alguersuari. Hið sama gerði Kimi Räikkönen og gagnrýndi enginn reynsluleysi þeirra, svo ég muni til. Ég hef ekki séð Räikkönen gefa álit á keppni Alguersuari, enda Finninn skynsamur.
Rétt er þó að taka fram, að Button naut þess að geta sinnt bílprófunum í talsverðu mæli veturinn fyrir fyrsta kappakstur hans. Og þar stendur hnífurinn eiginlega í kúnni hvað spænska nýliðann varðar. Reglur formúlunnar eru nú með þeim hætti að engar bílprófanir mega fara fram á keppnistímabilinu og fremur takmarkaðar - miðað við sem áður var - utan þess.
Því er sama hvort nýliði heitir Alguersuari eða þess vegna Kristján Einar Kristjánsson, svo gott dæmi sé tekið. Reglur formúlu-1 beinlínis koma í veg fyrir að þeir liðsfélagarnir fyrrverandi geti keppt í formúlu-1 öðru vísi en með litla reynslu af formúlu-1 bíl.
Á þetta hefðu gagnrýnendur Alguersuari úr röðum kollega hans átt að benda. Það hefur aðeins Vettel gert, sem komið hefur nýliðanum til varnar ásamt Alonso. Athyglisvert er að þessir tveir ökuþórar, Alonso og Vettel, eru tveir yngstu sigurvegarar sögunnar í formúlu-1.
Mér þótti vitaskuld fúlt að Sebastien Bourdais skyldi settur af hjá Toro Rosso. Það er búið og gert og því mun ég fylgjast með nýjasta liðsmanni formúlunnar af áhuga um helgina.
Ekki tel ég mig í stakk búinn til að taka afstöðu með eða móti keppni Alguersuari. Hann er væntanlega ráðinn vegna færni sinnar. Eða hvað? Sennilega hefur ekki átt minni þátt í því, að hið fjársvelta Toro Rosso lið fær milljón evrur fyrir hvert mót hans. Þá meðgjöf borga styrktarfyrirtæki Alguersuari, spænski bankinn La Caixa og olíurisinn Repsol.
Red Bull þoldi ekki velgengni Toro Rosso
Það er nefnilega athyglisvert - og efni í sérstaka umfjöllun - að velgengni Toro Rosso í fyrra með Vettel og Bourdais innanborðs varð til þess að móðurliðið Red Bull féll í skuggann! Smáliðið vann mótssigur en stórliðið kom aðeins einu sinni manni á pall, gamla refnum David Coulthard.
Og ráðið við því sem gripið var til var að svelta litla liðið bæði um fjármuni og tækniaðstoð. Í fyrra höfðu liðin úr nær eins bílum að spila en nú er öldin önnur. Af því að Davíð vann Golíat!
Athugasemdir
Ég verð nú að segja eins og er, ég skil þessa gagnrýni ekki, einhversstaðar verða menn að byrja ég held að það sé enginn fæddur með þessum ósköpum. Maðurinn hefur mikla reynslu úr öðrum mótaröðum og hefur staðið sig vel þar, getur hann ekki lært að aka formúlu-1 bíl eins og öðrum? Eins og þú bentir á með Button, þá eru menn nokkuð fljótir að gleyma.
Jóhann Elíasson, 24.7.2009 kl. 10:20
Það er ekki hægt annað en taka undir með þér. Og af fyrstu æfingu helgarinnar í Búdapest virðist Alguersuari hafa staðið sig alveg skammlaust.
Ágúst Ásgeirsson, 24.7.2009 kl. 11:04
Ég man eftir gagnríni á það að Kimi kæmi inn í F1 á sínum tíma en hann stóð sig með prýði. Hins vegar man ég ekki eftir að neitt hafi verið sagt um Button.
Mér finnst hinsvegar að það sé svolítil "æskudýrkun" í gangi í formulunni. Það er eins og menn geti ekki náð árangri þar nema að vera hálfgerð börn. Í mörgum mótaröðum eru ökumenn miklu eldri en í F1. Í NASCAR í bandaríkjunum er t.d. núna í áttunda sæti Mark Martin sem varð fimmtugur í ár og ökumenn komna af unglingsaldri í toppsætum má finna í mörgum öðrum mótaröðum.
Einar Steinsson, 26.7.2009 kl. 19:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.