Fimmtudagur, 6. október 2011
Aðeins eitt stig í titil
Sebastian Vettel hjá Red Bull þarf aðeins eitt stig úr síðustu fimm mótunum sem eftir eru til að verða heimsmeistari ökumanna í ár. Erfitt er að ímynda sér að það gerist ekki í Suzuka í Japan á sunnudaginn kemur. Í pottinum eru enn samtals 175 stig fyrir sigur í mótunum fimm.
Það yrði annar titill Vettels í röð og þar með verður hann yngsti ökumaðurinn í sögu formúlu-1 til að verða tvöfaldur heimsmeistari. Hann verður og níundi ökumaðurinn til að vinna titil tvö ár í röð.
Í sögu sinni hefur Red Bull unnið 24 mót sem er lítið í samanburði við stórliðin sögufrægu. Þannig hefur Ferrari unnið sigur 216 sinnum og McLaren 173 sinnum og Williams 113 sinnum.
Enginn ökuþór í sögunni hefur unnið kappakstur í formúlu-1 jafn oft og
Michael Schumacher hjá Mercedes sem staðið hefur á efsta þrepi verðlaunapalls 91 sinni. Af núverandi keppendum hefur Fernando Alonso hjá Ferrari komist 27 sinnum upp á það þrep. Í sögu formúlunnar hefur skoski ökuþórinn Jackie Stewart staðið þar jafn oft en aðeins fimm ökumenn hafa oftar unnið kappakstur en þeir tveir.
Vettel hefur unnið 19 mót, Lewis Hamilton hjá McLaren 16 og 11 kappakstra hafa Rubens Barrichello hjá Williams, Jenson Button hjá McLaren og Felipe Massa hjá Ferrari unnið.
Vettel hefur unnið níu mót á árinu af þeim 14 sem lokið er og af síðustu 18 mótum í röð hefur hann unnið 12. Schumacher hefur unnið flest mót á einni og sömu vertíðinni eða 13 sem liðsmaður Ferrari árið 2004.
Schumacher er eini ökumaður sögunnar sem unnið hefur 10 mót eða meira á einni og sömu keppnistíðinni. Hann vann einnig 11 sinnum árið 2002.
Formúla 1 | Breytt s.d. kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 25. júlí 2010
Heldur Ferrari að fólk sé fífl?
Halda stjórnendur Ferrariliðsins, með fíflalátum sínum í dag, að fólk sé fífl? Hafa þeir engan lærdóm dregið af skandalnum í Austurríki 2002. Eru þeir svo barnalega einfaldir að halda að þeir sleppi með atvikið í Hockenheim í dag, þegar Felipe Massa var skipað að hleypa Fernando Alonso fram úr?
Að reyna að halda því fram - eins og þeir rembast þó við sem rjúpa við staur - að það hafi ekki verið liðsfyrirmæli þegar Massa var skipað, segjum beðinn, að hleypa Alonso fram úr er hrein og klár móðgun. Móðgun við íþróttina, móðgun við unnendur hennar og áhorfendur. Fíflalæti.
Ég held þeir hafi ekkert haft að óttast. Alonso hafði ekki burði til að komast fram úr Massa við eðlilega keppni og ekki virtist Sebastian Vettel hjá Red Bull það nærri að hann ógnaði sigri Ferrari. Fyrst hefði hann þurft að komast fram úr Alonso, sem hefði ekki verið neinn leikur, áður en svo reyndi við Massa.
Nei, Red Bull bílarnir höfðu einfaldlega ekkert í Ferrari að gera í dag. Ég held þegar öllu er á botninn hvolft að fyrirmælunum hafi einungis verið beitt til að styrkja stöðu Alonso í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna. Með öðrum orðum, úrslitunum var hagrætt sem er andstætt öllu íþróttasiðferði. Alonso fékk gefins 5 stig með þessu. Og Ferrari getur ekki úr þessu haldið því fram að jafnræði sé með ökuþórunum. Ætli hafi nokkurn tíma svo verið.
Svei mér þá, ég hélt Ferrari hafi lært lexíu í Austurríki 2002. Er Rubens Barrichello var á leið til öruggs sigurs en var síðan skipað að víkja svo Schumacher gæti sigrað og styrkt stöðu sína í titilkeppninni. Það dæmi þótti svo brútalt á miðri keppnistíð, ekki síst vegna yfirburðastöðu Schmacher í stigakeppninni þá, að Ferrari var hart refsað. Liðið þótti sekt af því að hafa komið óorði á formúlu-1 með framferði sínu 2002. Vegna þess voru settar reglur er banna liðsfyrirmæli.
Alonso er uppáhalds ökuþór minn og því þykir mér leitt hvaða leik hann lék í dag. Það er blettur á sigri hans, blettur á ferlinum. Hann á aðild að málinu því hermt er að mikil ltalstöðvarsamskipti hafi átt sér stað milli bílanna og stjórnborðsins í nokkra hringi áður en Massa vék. Þau verða væntanlega birt þegar málið verður frekar krufið hjá íþróttaráði FIA.
Það er líka afar leitt þegar atburðir af þessu tagi eiga sér stað. Vaskekta unnendur og áhugamenn formúlunnar eins og ég fá næstum fyrir hjartað! Það þarf að taka hart á svona fíflalátum. Fróðlegt verður að sjá hvað íþróttaráðið gerir.Formúla 1 | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 19. júlí 2010
Bernie boðar messufall í Mónakó
Bernie Ecclestone er sagður íhuga að hætta formúlukappakstri í Mónakó. Hann segir furstadæmið á Frakklandsströnd ekki borga nógu mikið fyrir mótið.
Keppt hefur verið í formúlu-1 í Mónakó frá árinu 1955 og þætti mörgum sjónarsviptir ef hætt yrði keppni þar. Það má vel vera rétt en mér yrði nokkuð sama. Ekki síst ef tækist að finna nýja kappakstursbraut þar sem keppni gæti verið skemmtileg og spennandi.
Sjaldan eða aldrei hefur mér fundist keppni í Mónakó spennandi. Eftir að tímatökum er lokið hefur mátt með góðri vissu segja til um úrslitin. Spurningin hefur einungis verið hvort mönnum yrðu þar á mistök er stokka myndu upp röðina. Því myndi ég alls ekki sjá eftir mótinu þaðan - eins og ég hef reyndar nokkrum sinnum bloggað um dagana.
Ecclestone hefur verið áfram um að koma keppni til nýrra landa, svo sem í Asíu nær og fjær en þar hafa yfirvöld reynst liðugri með budduna en einkaaðilar í t.d. Evrópu og Bandaríkjunum. Þar vilja margir fá formúlukappakstur til sín.
En þar sem í mesta lagi er hægt að hafa 20 mót á ár vantar Ecclestone eiginlega að losna við nokkur evrópsk mót. Því þykir nú til greina koma að slaufa Mónakó - hvort sem mikil alvara er í þeim yfirlýsingum hans eða ekki. Ég held það sé mögulegt að formúlan lifi án Mónakó, hefur vefmiðillinn Sport1 eftir honum. Þeir borga ekki nóg, bætir hann við en hingað til hefur ekki þótt skorta á ríkidæmið í Mónakó eða fréttir farið af fjárþröng.
Á næstu tveimur árum bætast við mót í Indlandi og Bandaríkjunum og Ecclestone hefur verið að þreifa fyrir sér með mótshald í Rússlandi og Suður-Afríku. Og því er Mónakó ekki eina Evrópumótið sem er í hættu. Evrópumenn verða að borga meira fyrir mótin, annars förum við eitthvað annað með þau, segir Ecclestone í viðtalinu.
Í þessu sambandi skýtur sjálfsagt skökku við að hann hefur nú stofnað til tveggja móta ár hvert á Spáni og hefur verið að díla við aðila á Rómarsvæðinu um að efna til formúlukeppni í og við höfuðborgina ítölsku. Það yrði annað mótið þar í landi því ekki er útlit fyrir að mótshaldi verði hætt í Monza.
Svo hefur hann um margra ára skeið haft í hótunum við breska kappaksturinn en endaði það svo með því að gera samning til 15 ára um keppni í Silverstone.
Því er ég hræddastur við að ekki verði tekið mikið mark á yfirlýsingum hans um Mónakó. Og að sú ósk mín um að keppni verði hætt þar rætist ekki.
Miðvikudagur, 12. maí 2010
Ferrari hefur farið mest fram
Það er í mannlegu eðli að reyna fegra jafnan stöðu sína. Til þess hefur Ferrariliðið gripið nú. Í stað þess að vera í öðru sæti í stigakeppni bílsmiða hefur það reiknað út að liðið væri efst, ef beitt væri sömu stigagjöf í formúlu-1 og í fyrra.
Og ekki nóg með að það væri í efsta sæti í stigakeppni liðanna, því Ferrari segist einnig myndu vera í efsta sæti í keppni ökuþóra að loknum fimm fyrstu mótum ársins ef áfram hefði verið stuðst við sama kerfi og í fyrra, en þá var átta fremstu ökumönnum gefin stig og mun færri en nú.
Stigagjöfin hefur tvisvar tekið breytingum á öldinni en árið 2003 var byrjað að veita átta fremstu stig í stað sex áður. Eftir sem áður hlaut sigurvegarinn þó aðeins 10 stig. Í ár fær hann 25 stig og fimmti maður 10. Nýjasta stigagjöfin verðlaunar þó sigur sérstaklega því talsvert stigabil er í annað sætið.
Í stað þess að vera þremur stigum á eftir McLaren nú í keppni liða, eða 119:116, væri það með 47 samkvæmt gamla kerfinu og jafnmörg og McLaren. Og Fernando Alonso væri efstur í keppni ökumanna með 28 stig og Jenson Button hjá McLaren næstur með 27.Vertíðin í fyrra fór hörmulega af stað hjá Ferrari en með því að beita stigagjöfinni frá í fyrra segir það framfarirnar augljósar. Við höfum tekið mestum framförum frá í fyrra, bætt við okkur 41 stigi. McLaren hefur bætt sig um 33 stig, Renault 11 og Red Bull um 4. Um afturför er að ræða hjá Brawnliðinu fyrrverandi, nú Mercedes, því með sömu stigaútreikningum og í fyrra hefði það 47 stigum minna eftir fimm mót en í fyrra.
Þessir útreikningar hafa náttúrulega ekkert gildi annað en að bera saman frammistöðu milli ára. Að öðru leyti eru þeir til gamans. Eftir sem áður er Button efstsur í keppni ökuþóra og McLaren í keppni liðanna.
Sunnudagur, 18. apríl 2010
Úðarakerfi á formúlubrautir
Kínakappaksturinn í dag var öldungis frábær. Maður þurfti á öllum skilningarvitum að halda til að fylgjast með öllu því sem átti sér stað á brautinni. Þökk sé skúraveðrinu. Það er eiginlega bráðnauðsynlegt að hann rigni - næstbesta mót ársins er Melbourne en þar hjálpaði rigning líka til.
Þess vegna hef ég verið að velta því fyrir mér í dag hvort ekki eigi að koma upp úðarakerfi við formúlubrautirnar svo hægt sé að framkalla rigningarástand þegar náttúran sér ekki sjálf um það. Mótin yrðu einfaldlega miklu fjörlegri - og þar með skemmtilegri.
Úðunarkerfi kostar lítið, það er góð reynsla fengin á þau í t.d. stórvirkum landbúnaði, já eða sem brunavarnarkerfi í stórum stofnana- og verksmiðjubyggingum. Snjallir forritarar gætu búið til nokkur prógröm til að tölvustýra úðuninni. Keppnisstjórinn ákvæði hverju sinni - til dæmis með útdrætti - hvaða rigningarprógramm yrði notað í það og það skiptið.
Prógrömmin þyrftu að innihalda breytileika í veðráttunni eins og í dag. Að minnsta kosti tvær skúrir, misjafnlega langar, svo að við fengjum dekkjaskipti og fleiri taktísk útspil sem oftast á þeirri rúmlega hálfri annarri klukkustund sem keppnin stendur.
Ég er á því að kappaksturinn í dag hafi verið mót aldarinnar. Gott væri að heyra ef einhver er andvígur því - og nefni þá mót sem verið hafa betri.
Föstudagur, 12. mars 2010
Tröllaukin titilkeppni framundan
Þegar ljósin fimm slokkna og kappakstursbílarnir 24 þjóta af stað í ræsingunni í Barein á sunnudag hefst keppnistímabil sem beðið hefur verið með mikilli væntingu mánuðum saman. Sjaldan hafa jafn margir öflugir ökumenn verið samtímis í keppni og því er talað um að framundan sé tröllaukin titilkeppni á kappakstursbrautinni.
Miklar væntingar eiga sér gjarnan stað við upphaf hverrar keppnistíðar en sjaldan þó meiri en nú. Ástæður eru margar. Úrslit þykja mjög svo ófyrirséð vegna einstaklega jafnrar getu bíla fjölda liða og róttækra breytinga á reglum, en þar þó helst að bensínstopp heyra nú sögunni til. Þá eru nokkur ný lið mætt til leiks, nýir ökumenn komnir til skjalanna og aðrir hafa færst milli liða. Vart getur það verið betra á 60 ára afmæli keppni í formúlu-1.
Fjórir meistarar eigast við
Af þessum sökum hefur mótsins í Barein um helgina verið beðið með óþreyju um heim allan. Þar ganga til leiks fjórir ökumenn sem hampað hafa heimsmeistaratitli ökuþóra. Fremstur meðal jafningja er Michael Schumacher sem snúinn er aftur til keppni eftir þriggja ára hlé og genginn á fimmtugsaldurinn. Ekki keppir hann þó lengur fyrir Ferrari heldur þýska bílafyrirtækið Mercedes sem keypti meistaralið síðasta árs, Brawn.
Aðrir meistarar eru Fernando Alonso hjá Ferrari, sem vann titlana 2005 og 2006, Lewis Hamilton hjá McLaren sem varð meistari 2008 og liðsfélagi hans Jenson Button sem er ríkjandi meistari. Við reynsluakstur í vetur þótti litlu muna á bílum þessara þriggja liða og bílum þess fjórða, Red Bull, en þar er fyrir Sebastian Vettel sem varð annar í titilkeppninni í fyrra eftir keppni við Button.
Spurning er hversu reynsla Schumacher vegur og keppnisgleði og kraftur gegn yngri ökumönnunum. Mun hann hafa við Alonso á Ferrari sem augljóslega er komið í toppslaginn aftur eftir slakt ár og ósamkeppnisfæran bíl í fyrra? Eða Hamilton sem fær nú tækifæri til að bera sig saman við Schumacher í fyrsta sinn? Verður silfurör McLaren öflugri þeirri þýsku frá Mercedes?
Já, þær eru margar spurningar sem spurðar hafa verið að undanförnu. Ólíkt því sem var í fyrra er greinilega var ljóst hvaða lið væri með langbesta bílinn við upphaf keppnistíðar.
Einvígi að lokum milli Alonso og Hamiltons?
Þótt alls ekki megi vanmeta Schumacher þá er freistandi að álíta sem svo að titilslagurinn muni enda í einvígi Alonso og Hamiltons. Þótt Button sé með eins bíl hjá McLaren hefur Hamilton visst forskot sem liðsmaður þar á bæ undanfarin ár. Það gæti þó óvænt komið Button til góðs að hann býr yfir mun mýkri aksturstækni en hinir meistararnir sem er mjög gagnlegt nú þegar fara verður betur með dekk en áður vegna bensínþyngsla.
Ánægjulegt er að Ferrari og McLaren skuli aftur komin í toppslaginn eftir dapurt gengi beggja í fyrra. Keppnin 2009 var áhugaverð og stóð á endanum óvænt milli Red Bull og Brawn. En hana skorti þá miklu ákefð sem jafnan hefur einkennt baráttu gömlu risanna tveggja. Útilokað þykir að yfirburðir eins og Brawn framan af í fyrra sjáist í ár. Fróðum sýnist öllu heldur, að Ferrari, McLaren, Red Bull og Mercedes muni heyja keppni sem verði jafnari og tvísýnni strax frá byrjun.
Skammt að baki þeirra eru svo a.m.k. fimm önnur lið sem einnig eru talin með tiltölulega jafna bíla. Hér ræðir um Williams, Force India, Renault, Sauber og Toro Rosso.
Þungir í ræsingunni
Þegar bílarnir leggja af stað á sunnudögum hér eftir verða þeir með tvöfalt meira bensín um borð, 160 kíló, en alla tíð frá 1993 er bensínstopp í keppni komu til sögunnar. Vegna þessa verða bílarnir erfiðari viðureignar í byrjun og líkur á bægslagangi við fyrstu beygjur. Og þyngslin reyna mun meira á bæði dekk og bremsur en fyrr og kalla á nýjar akstursaðferðir af hálfu ökumannanna.
Formúluliðunum hefur fjölgað um tvö í ár og eru 12; áttu að vera 13 en USF1 komst ekki til leiks. Horfin eru BMW og Toyota en hið fyrrnefnda er nú komið aftur í hendur fyrri eiganda, Peter Sauber, og ber sitt gamla nafn, Sauber. Sérfræðingar Bridgestone segja bíla þess fara betur með dekk en önnur og gæti átt eftir að reynast hálfgerður svarti Pétur og koma á óvart í keppni af þeim sökum; jafnvel velgja toppliðunum fjórum við og við undir uggum.
Herfræðin hugsuð upp á nýtt
Hin liðin eru Virgin, Hispania og Lotus, öll ný lið frá grunni þótt hið síðastnefnda beri nafn gamalfrægs og sigursæls liðs úr formúlu-1. Þau tvö fyrst nefndu tefla fram þremur nýliðum. Brasilíumaðurinn Lucas di Grassi keppir fyrir Virgin og landi hans Bruno Senna og Indverjinn Karun Chandhok fyrir Hispania. Senna er systursonur eins frægasta ökuþórs sögunnar, Ayrtons Senna.
Hinar breyttu reglur kalla á alveg nýja nálgun í gerð keppnisáætlana. Það eitt þykir eiga eftir að bjóða upp á mikla spennu í keppni. Hingað til hefur enginn þótt meiri herfræðingur en Ross Brawn, stjórnandi Mercedes og maðurinn á bak við árangur Schumacher hjá Ferrari. Spurningin er hvort herfræði þeirra gangi jafnvel upp sem fyrr eða hvort herfræðingar Ferrari og McLaren standi þeim snúning. Við því fást svör á sunnudag og 18 sunnudögum öðrum til nóvemberloka.
Mánudagur, 8. mars 2010
Tilhlökkunarefni að fá Schumacher aftur í keppnina
Tímamót verða í formúlu-1 næstkomandi sunnudag, 14. mars. Michael Schumacher snýr þá aftur til keppni, eftir þriggja ára hlé. Algeng er sú skoðun að hann hafi öllu að tapa, ekkert að vinna. Þessu er ég ósammála.
Hverju ætti Schumacher að tapa? Ekki tapar hann heimsmeistaratitlunum. Orðsporinu sem einn besti ökumaður sögunnar? Er hægt að tapa því? Það held ég ekki. Ég held hann tapi engu. Og ekkert þarf hann að sanna lengur, hann hefur gert það nógu oft.
Sjálfur segist hann ekki hafa tapað keppnisgleðinni og það sé megin ástæða þess að hann snýr aftur. Hin ástæðan er kannski sú, að hann mun ekki hafa verið alls kostar sáttur við að þurfa að rýma fyrir Kimi Räikkönen hjá Ferrari á sínum tíma og draga sig í hlé.
Það er athyglisvert, að fjórir núverandi og fyrrverandi meistarar munu keppa í formúlu-1 í ár. Og sín á milli deila þeir 11 titlum. Miðað við reynslu- og þróunarakstur liðanna undanfarið má ætla að hinir meistararnir; Fernando Alonso hjá Ferrari og Lewis Hamilton og Jenson Button hjá McLaren hafi yfir öflugri bílum að ráða en Schumacher hjá Mercedes. Hvað það dugar langt og lengi leiðir reynslan ein í ljós. En víst má telja, að Schumacher sé mættur til leiks aftur til annars og meira en dóla með. Já, og Mercedes hefur sagst ætla verja titlana sem forveri þess - Brawnliðið - hampaði í fyrra.
Það efast enginn um færni og keppnishörku Schumacher undir stýri. Allavega ekki ég. Því er það visst tilhlökkunarefni að hann skuli snúa aftur. Það mun krydda keppnina, sem hefur ekki veitt af. Ég hlakka til að sjá gamla brýnið tukta ungu ökumennina til. Og sjá hvernig honum nýtist reynslan í keppni - sem er um svo margt ný, með nýjum liðum og banni við bensíntöku eftir að lagt er af stað. Ætli mótherjar hans séu ekki á glóðum yfir því sem í vændum er?
Laugardagur, 3. október 2009
Button landar tæpast titlinum í Suzuka
Trauðla verður Jenson Button heimsmeistari ökuþóra að loknum japanska kappakstrinum á morgun. Fyrir tímatökurnar í dag - og reyndar enn - er það tölfræðilega mögulegt að hann landi titlinum í Suzuka en litla trú hef ég á því.
Hefði sú aðferð verið tekin upp, eins og til stóð, að titilinn skyldi sá vinna sem flest mót vinnur hefði Button orðið meistari í síðasta móti, með sjötta sætinu í Singapúr.
Þegar þrjú mót eru eftir vertíðar af 17 hefur Button unnið 15 stigum fleiri en Barrichello. Það myndi duga honum til titils að uppskera fimm stigum meira í Suzuka en Barrichello. Þá væri bilið 20 stig og myndi ekki duga Barrichello að vinna tvö síðustu mótin og verða jafn að stigum. Button fengi titilinn út á fleiri sigra, en Barrichello hefur unnið tvö mót í ár.Fyrir utan liðsfélagana tvo er Sebastian Vettel hjá Red Bull enn með í titilslagnum þótt hann standi mun verr, er 25 stigum á eftir Button og 10 á eftir Barrichello. Þessi munur gæti minnkað verulega vinni Vettel vel úr stöðu sinni á rásmarkinu. Hann hefur keppni af ráspól en keppinautarnir byrja mun aftar. Barrichello líklega í níunda sæti og Button því ellefta.
Til þess að Button hampi heimsmeistaratitli í mótslok í Suzuka á sunnudag dugar honum að vinna, gegn því að Barrichello verði í mesta lagi í fjórða sæti. Verði hann annar í mark yrði Barrichello að verða í sjötta sæti eða aftar. Það mundi duga Button að verða í þriðja sæti að því tilskildu að Barrichello yrði ekki framar en í áttunda sæti. Og til þess að vinna titilinn út á fjórða sæti í mark yrði Barrichello að vera utan stiga, þ.e. í besta falli í níunda sæti.
Möguleikar á úrslitum af þessu tagi verða teljast afar ólíklegir, nema úrkoma verði og röðin í keppninni stokkist verulega upp.
Til þess að falla ekki úr leik í titilkeppninni um helgina verður Vettel að verða í einhverju þremur efstu sætanna í Suzuka og Button fjórum til sex sætum aftar. Það held ég séu mun líklegri úrslit en að annar hvor, eða báðir, ökumanna Brawn verði í toppsætum.
Mánudagur, 21. september 2009
Makleg málagjöld
Mér finnst að makleg málagjöld hafi verið ákveðin í dag vegna svindlsins í kappakstrinum í Singapúr í fyrra. Eðlilegt er að Flavio Briatore, hinn brottrekni liðsstjóri Renault, sé útskúfaður frá akstursíþróttum alla tíð, enda brot hans og samverkamanna alvarlegra en nokkru tali tekur.
Briatore hefur enga iðrun sýnt og rembdist eins og rjúpa við staur að halda fram sakleysi sínu fram yfir það að hafa verið rekinn úr starfi er innanhússrannsókn Renault leiddi í ljós að ásakanir um svindlið áttu við rök að styðjast.
Það er eitt að hafa rangt við í keppni. Öllu verra er að stofna til samsæris um að hagræða úrslitum. Og það með því að efna til klessukeyrslu í íþrótt sem getur í raun verið hættuleg keppendum, starfsmönnum hennar og áhorfendum.Bæði innanhússrannsókn hjá Renault og sjálfstæð rannsókn á vettvangi Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) leiddi í ljós, að Briatore, Pat Symonds verkfræðistjóri og Nelson Piquet ökumaður stofnuðu til samsæris um að reyna hagræða úrslitum.
Það tókst og fór svo að Fernando Alonso, ökumaður Renault, vann fyrsta mótssigur Renault um tveggja ára skeið. Hann átti enga aðild að málinu og segir FIA hann enga vitneskju hafa haft um það fyrr en eftir að rannsókn var nýlega hrundið af stað.
Renault situr uppi með skömmina af verknaði þremenninganna, sem það hefur losað sig við, og hlaut sína refsingu. Mildilega þó í ljósi alvarleika brotsins. Ýmsar ráðstafanir undanfarna viku af hálfu Renault vegna þessa máls gerðu sitt til að koma í veg fyrir útskúfun liðsins úr formúlu-1 fyrir fullt og allt.
Piquet sleppur við refsingu þar sem FIA hafði fengið hann til frásagnar með því að bjóða honum friðhelgi. Það bætir lítt mannorðsmissinn sem hann hefur orðið fyrir með framferði sínu. Og fróðir telja að hann eigi ekki afturkvæmt í formúlu-1 sem ökumaður. Þó eflaust megi trúa því að honum myndi aldrei detta til hugar að endurtaka gjörð af þessu tagi væri fyllilega skiljanlegt ef ekkert lið fengist til að ráða hann í vinnu hjá sér.
Ég hef séð til Piquet í návígi og fannst hann nokkuð heillandi ökuþór. Það var áður en hann hóf keppni í formúlu-1. Fyrir utan þýska kappaksturinn í fyrra - þar sem hann komst á verðlaunapall - sýndi hann sjaldnast góðan árangur. Og það er athyglisvert, að á hálfri annarri keppnistíð með Renault afrekaði hann að keyra bíl sinn í klessu 17 sinnum, með því að missa vald á honum og fljúga út úr brautinni eða eiga í árekstri við aðra ökumenn.
Sunnudagur, 20. september 2009
Svindlmálið tekið fyrir
Á morgun, mánudag, verður tekið fyrir málið sem snýst um meint svindl Renaultliðsins í kappakstrinum í Singapúr í fyrra. Það sem fram hefur komið í málinu þykir mér benda til að aðalstjórnendur liðsins séu ekki jafn saklausir og þeir héldu í fyrstu.
Flavio Briatore hefur verið settur af sem liðsstjóri vegna málsins og einnig Pat Symonds verkfræðistjóri. Það er eðlileg ráðstöfun af hálfu Renault, sem er fyrirtæki sem tekur málin mjög alvarlega. Ekki skal ég segja um Briatore en af þvi sem lekið hefur verið út af rannsóknargögnum virðist mega ætla, að Symonds hafi brallað með Nelson Piquet um að setja á svið slys til að fá öryggisbíl út í brautina og freista þess þannig að koma Fernando Alonso sem lengst upp á við.
Svo fór, að Alonso sigraði eftir að hafa lagt af stað í 15. sæti.
Í ljós hefur komið, sem ég hef áður haldið fram, að mál þetta kemur upp núna sem bein afleiðing reiði Nelson Piquet yfir að vera settur af hjá Renault. Og mér finnst það hneyksli, að Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) skuli hafa heitið honum friðhelgi fyrir að bera vitni. Manninum sem hafði þagað í heilt ár og féllst á að taka þátt í samsærinu því með því taldi hann sig myndu áfram halda starfinu sem ökumaður Renault.
Mér er sama hvort hugmyndin um klessukeyrsluna kom frá Piquet eða Symonds, það er jafn bölvanlegt að ökuþórinn skyldi taka í mál að framkvæma hana. Skömm hans er söm í augum venjulegs fólks og hann keppir líklega aldrei framar í kappakstri þótt aflausn hafi fengið hjá Max Mosley, forseta FIA.
Sannað þykir að Alonso hafi ekki verið meðvitaður um svindlið og ekkert vitað um það fyrr en það kom upp síðsumars; eftir brottvikningu Piquet. Allt bendir til að það sé verk tveggja til þriggja manna sem allir hafa verið reknir frá Renault.Í ákæru FIA er einungis Renaultliðið sótt til saka en ekki mennirnir þrír sem málið snýst um; Piquet, Sumonds og Briatore. Séu þeir sekir verða þeir því ekki dæmdir fyrst ákæran nær ekki til þeirra. Það finnst mér ámælisverður málatilbúnaður af hálfu FIA. Og hafi verið um svindl að ræða er það af þeirri gerð og því eðli, að viðkomandi aðila á að dæma frá formúlu-1 um aldur og ævi.
Lögmenn Renault munu væntanlega freista þess að fá íþróttaráð FIA á morgun til að sýna liðinu sjálfu vægð þar sem það átti ekki aðild að málinu sem slíkt, heldur einungis sökudólgarnir tveir eða þrír.