Tilhlökkunarefni að fá Schumacher aftur í keppnina

Tímamót verða í formúlu-1 næstkomandi sunnudag, 14. mars. Michael Schumacher snýr þá aftur til keppni, eftir þriggja ára hlé. Algeng er sú skoðun að hann hafi öllu að tapa, ekkert að vinna. Þessu er ég ósammála.

Hverju ætti Schumacher að tapa? Ekki tapar hann heimsmeistaratitlunum. Orðsporinu sem einn besti ökumaður sögunnar? Er hægt að tapa því? Það held ég ekki. Ég held hann tapi engu. Og ekkert þarf hann að sanna lengur, hann hefur gert það nógu oft.

Sjálfur segist hann ekki hafa tapað keppnisgleðinni og það sé megin ástæða þess að hann snýr aftur. Hin ástæðan er kannski sú, að hann mun ekki hafa verið alls kostar sáttur við að þurfa að rýma fyrir Kimi Räikkönen hjá Ferrari á sínum tíma og draga sig í hlé.

Það er athyglisvert, að fjórir núverandi og fyrrverandi meistarar munu keppa í formúlu-1 í ár. Og sín á milli deila þeir 11 titlum. Miðað við reynslu- og þróunarakstur liðanna undanfarið má ætla að hinir meistararnir; Fernando Alonso hjá Ferrari og Lewis Hamilton og Jenson Button hjá McLaren hafi yfir öflugri bílum að ráða en Schumacher hjá Mercedes. Hvað það dugar langt og lengi leiðir reynslan ein í ljós. En víst má telja, að Schumacher sé mættur til leiks aftur til annars og meira en dóla með. Já, og Mercedes hefur sagst ætla verja titlana sem forveri þess - Brawnliðið - hampaði í fyrra.

Það efast enginn um færni og keppnishörku Schumacher undir stýri. Allavega ekki ég. Því er það visst tilhlökkunarefni að hann skuli snúa aftur. Það mun krydda keppnina, sem hefur ekki veitt af. Ég hlakka  til að sjá gamla brýnið tukta ungu ökumennina til. Og sjá hvernig honum nýtist reynslan í keppni - sem er um svo margt ný, með nýjum liðum og banni við bensíntöku eftir að lagt er af stað.  Ætli mótherjar hans séu ekki á glóðum yfir því sem í vændum er?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég get ekki verið meira sammála og ég er þess fullviss að endurkoma hans verður formúlunni sú vítamínsprauta sem hún þarf á að halda.  Allir sem eitthvað þekkja til eru sammála um það að Schumacher þarf ekki að sanna neitt það eina sem hann þarf að gera er að hlú að orðspori sínu og gæta að því að viðhalda þeim orðstír sem er þegar til staðar.  Það má geta þess að samstarf hans og Ross Brawns var eitthvað það farsælasta sem um getur í sögu formúlunnar og ekki nema von að væntanlegum keppinautum þeirra á kappakstursbrautinni renni kalt vatn milli skinns og hörunds.

Jóhann Elíasson, 8.3.2010 kl. 23:55

2 Smámynd: Óli Sveinbjörnss

Frábært að sjá bloggið þitt aftur Ágúst. Mitt álit á að Schumager sé komin aftur að mér finnst það meiriháttar sérstaklega hvernig það mun æsa hungrið upp í yngri mönnum að fá tækifæri að keppa við goðið sem margir hafa ekki haft. Í sambandi við hvernig hann mun keppa þá held ég að það verði enginn breyting á hann mun gera allt sem þarf til að vinna. Ég held að þetta verði geggjuð vertíð.

Óli Sveinbjörnss, 11.3.2010 kl. 11:34

3 Smámynd: Hörður B Hjartarson

    Ágúst !

    Minnist þú þess ekki er sjónvarpsvélarnar voru látnar ganga á milli rasskinnanna á liðsstjóra Ferrari liðsins , Brown, en þær höfðu að geyma sitt hvora talstöðina ; merktar RB og MS (Barrichello og Skósmiðurinn) og einnig hver ástæðan var fyrir sýningu þessarra rasskinna , eða er Skósmiðurinn lagði bílnum á versta stað í brautinni í Monakó og sagðist ekki koma honum hvorki áfram né afturábak , hann fékk fyrir þetta , muni ég rétt , eingöngu niðurfærslu um tíu sæti , þarna eyðilagði hann tímatöku allra er á eftir honum komu , þar á meðal Alonso t.d. , þá , réttlætinu samkvæmt , hefði átt að reka hann alfarið úr Formúlunni . Nei frá því ég hóf að fylgjast með Formúlunni , sem var væntanlega 1999 , þá hef ég haft ímugust á þessum manni , ef ekki óbeyt , varð að vísu hissa er hann gerðist mannlegur og brotnaði saman fyrir framan myndavélarnar - bróðir hanns var , eða virtist í það minnsta , allt öðru vísi . 

Hörður B Hjartarson, 25.3.2010 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband