Laugardagur, 3. október 2009
Button landar tæpast titlinum í Suzuka
Trauðla verður Jenson Button heimsmeistari ökuþóra að loknum japanska kappakstrinum á morgun. Fyrir tímatökurnar í dag - og reyndar enn - er það tölfræðilega mögulegt að hann landi titlinum í Suzuka en litla trú hef ég á því.
Hefði sú aðferð verið tekin upp, eins og til stóð, að titilinn skyldi sá vinna sem flest mót vinnur hefði Button orðið meistari í síðasta móti, með sjötta sætinu í Singapúr.
Þegar þrjú mót eru eftir vertíðar af 17 hefur Button unnið 15 stigum fleiri en Barrichello. Það myndi duga honum til titils að uppskera fimm stigum meira í Suzuka en Barrichello. Þá væri bilið 20 stig og myndi ekki duga Barrichello að vinna tvö síðustu mótin og verða jafn að stigum. Button fengi titilinn út á fleiri sigra, en Barrichello hefur unnið tvö mót í ár.Fyrir utan liðsfélagana tvo er Sebastian Vettel hjá Red Bull enn með í titilslagnum þótt hann standi mun verr, er 25 stigum á eftir Button og 10 á eftir Barrichello. Þessi munur gæti minnkað verulega vinni Vettel vel úr stöðu sinni á rásmarkinu. Hann hefur keppni af ráspól en keppinautarnir byrja mun aftar. Barrichello líklega í níunda sæti og Button því ellefta.
Til þess að Button hampi heimsmeistaratitli í mótslok í Suzuka á sunnudag dugar honum að vinna, gegn því að Barrichello verði í mesta lagi í fjórða sæti. Verði hann annar í mark yrði Barrichello að verða í sjötta sæti eða aftar. Það mundi duga Button að verða í þriðja sæti að því tilskildu að Barrichello yrði ekki framar en í áttunda sæti. Og til þess að vinna titilinn út á fjórða sæti í mark yrði Barrichello að vera utan stiga, þ.e. í besta falli í níunda sæti.
Möguleikar á úrslitum af þessu tagi verða teljast afar ólíklegir, nema úrkoma verði og röðin í keppninni stokkist verulega upp.
Til þess að falla ekki úr leik í titilkeppninni um helgina verður Vettel að verða í einhverju þremur efstu sætanna í Suzuka og Button fjórum til sex sætum aftar. Það held ég séu mun líklegri úrslit en að annar hvor, eða báðir, ökumanna Brawn verði í toppsætum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.