Sunnudagur, 20. september 2009
Svindlmálið tekið fyrir
Á morgun, mánudag, verður tekið fyrir málið sem snýst um meint svindl Renaultliðsins í kappakstrinum í Singapúr í fyrra. Það sem fram hefur komið í málinu þykir mér benda til að aðalstjórnendur liðsins séu ekki jafn saklausir og þeir héldu í fyrstu.
Flavio Briatore hefur verið settur af sem liðsstjóri vegna málsins og einnig Pat Symonds verkfræðistjóri. Það er eðlileg ráðstöfun af hálfu Renault, sem er fyrirtæki sem tekur málin mjög alvarlega. Ekki skal ég segja um Briatore en af þvi sem lekið hefur verið út af rannsóknargögnum virðist mega ætla, að Symonds hafi brallað með Nelson Piquet um að setja á svið slys til að fá öryggisbíl út í brautina og freista þess þannig að koma Fernando Alonso sem lengst upp á við.
Svo fór, að Alonso sigraði eftir að hafa lagt af stað í 15. sæti.
Í ljós hefur komið, sem ég hef áður haldið fram, að mál þetta kemur upp núna sem bein afleiðing reiði Nelson Piquet yfir að vera settur af hjá Renault. Og mér finnst það hneyksli, að Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) skuli hafa heitið honum friðhelgi fyrir að bera vitni. Manninum sem hafði þagað í heilt ár og féllst á að taka þátt í samsærinu því með því taldi hann sig myndu áfram halda starfinu sem ökumaður Renault.
Mér er sama hvort hugmyndin um klessukeyrsluna kom frá Piquet eða Symonds, það er jafn bölvanlegt að ökuþórinn skyldi taka í mál að framkvæma hana. Skömm hans er söm í augum venjulegs fólks og hann keppir líklega aldrei framar í kappakstri þótt aflausn hafi fengið hjá Max Mosley, forseta FIA.
Sannað þykir að Alonso hafi ekki verið meðvitaður um svindlið og ekkert vitað um það fyrr en það kom upp síðsumars; eftir brottvikningu Piquet. Allt bendir til að það sé verk tveggja til þriggja manna sem allir hafa verið reknir frá Renault.Í ákæru FIA er einungis Renaultliðið sótt til saka en ekki mennirnir þrír sem málið snýst um; Piquet, Sumonds og Briatore. Séu þeir sekir verða þeir því ekki dæmdir fyrst ákæran nær ekki til þeirra. Það finnst mér ámælisverður málatilbúnaður af hálfu FIA. Og hafi verið um svindl að ræða er það af þeirri gerð og því eðli, að viðkomandi aðila á að dæma frá formúlu-1 um aldur og ævi.
Lögmenn Renault munu væntanlega freista þess að fá íþróttaráð FIA á morgun til að sýna liðinu sjálfu vægð þar sem það átti ekki aðild að málinu sem slíkt, heldur einungis sökudólgarnir tveir eða þrír.
Athugasemdir
Ég hvika ekki frá því sem ég hef áður sagt; allir sem fylgjast með formúlunni og öðrum akstursíþróttum vita hversu hættuleg íþrótt þetta er, ef menn missa einbeitinguna í augnablik getur það haft áhrif á líf og heilsu manna innan og utan kappakstursbrautarinnar. Um þessa hættu eru allir meðvitaðir en þegar kemur fram maður sem heldur því fram að hann hafi VISVÍTANDI valdið óhappi á brautinni, þá er kominn algjörlega nýr vinkill á málið, því sem betur fer veit ENGINN fyrirfram hvort óhappið er af þeim toga að öryggisbíll er kallaður út eða ekki. Þegar kemur fram maður sem segist hafa valdið óhappi af ráðnum hug, hvort sem hann gerði það að skipun annarra eða ekki, þá á maðurinn að MISSAréttindi sín til þess að keppa í formúlu1 eða hverri annarri akstursíþrótt ævilangt. Því það eitt að gangast inn á að framkvæma þennan verknað segir til um það að SIÐFERÐISKENND hans er langt frá því að vera í lagi.
Jóhann Elíasson, 20.9.2009 kl. 22:08
Í þessum efnum, eins og mörgum öðrum, erum við algjörlega sammála, Jóhann. Ökuþór af þessu sauðahúsi á sér engar málsbætur. En ég vil þó ekki undanskilja yfirmenn hans sem átt hafa aðild að málinu, ef svo reynist vera, sem margt virðist benda til. Þeir hafa þegar glatað mannorðinu.
Ágúst Ásgeirsson, 21.9.2009 kl. 06:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.