Þriðjudagur, 12. maí 2009
Massa og Hamilton afskrifa titil í ár
Lewis Hamilton hjá McLaren og Felipe Massa hjá Ferrari, mennirnir sem börðust um heimsmeistaratitil ökuþóra fram í síðustu beygju síðasta móts formúluvertíðarinnar í fyrra, hafa nú afskrifað möguleika sína í titilkeppninni í ár.
Hamilton varð heimsmeistari í fyrra og Massa í öðru sæti. Í ár stendur keppnin hins vegar milli ökumanna Brawnliðsins og Red Bull. Bílar McLaren og Ferrari hafa ekki verið nógu góðir til að Hamilton og Massa gætu blandað sér í þá keppni, alla vega ekki í mótunum fimm af 17 sem lokið er.
Hamilton hlaut engin stig í Barcelona um helgina og sagði það miður að vera ekki með bíl til að keppa um titil. Bíllinn er svo slakur, ég keyri dekkin undan honum en það er engin von um titil á honum, sagði hann eftir kappaksturinn
Massa farnaðist lengst af betur á verulega betrumbættum Ferrarifák en uppskar minna en efni stóðu til þar sem bíllinn varð bensínlaus. Vann sín fyrstu keppnisstig í ár en afskrifaði sömuleiðis titilkeppnina. Útilokað mál, svaraði hann blaðamönnum sem spurðu hvort hann myndi eiga möguleika á titli í ár. Sagði hann ökumenn Brawn myndu keppa um titilinn. Sama þótt við bætum bílinn hrikalega og þremur til fjórum tíundu úr sekúndu fljótari á hring, þá munu þeir áfram skora stig. Gleymum því titlinum, sagði hann.
Hérna tala tveir afburða ökumenn í svekkelsi strax eftir misheppnaðan kappakstur af beggja hálfu. Og vitaskuld af einhverju raunsæi líka. En sem sönnum íþróttamönnum sæmir þá er ég sannfærður um að þeir munu lifa áfram í voninni. Um að bílar þeirra batni mjög og heppni gangi að einhverju leyti í lið með þeim.
Auðvitað virðast bílar Brawn ósigrandi, slíkur hefur gangurinn verið á þeim í ár. Og Red Bull er mikið betri en um áraraðir. En ég trúi ekki öðru en Hamilton og Massa muni áfram berjast. Uppgjöf er ekki orð sem þeim er hugleikið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.