Mánudagur, 20. apríl 2009
Red Bull 34. liðið til að vinna sigur í formúlunni
Kínverska kappaksturshelgin rennur liðsmönnum Red Bull eflaust seint úr minni. Fyrsti ráspóll liðsins vannst þar, fyrsti mótssigur þess og það tvöfaldur í kaupbæti. Kappaksturinn er sá 74. sem Red Bull tekur þátt í frá því austurrískur auðkýfingur keypti Jagúarliðið 2005 og nefndi það eftir fyrirtæki sínu.
Red Bull er 34. liðið í sögu formúlu-1 til að vinna kappakstur og hið 22. sem fagnar tvöföldum sigri í samtals 806 mótum frá upphafi vega árið 1950. Þá er það hið 38. til að vinna ráspól.
Sebastian Vettel komst í hóp ökumanna sem unnið hafa fleiri en einn kappakstur. Sigraði öðru sinni og eins og í jómfrúarsigrinum ók hann af ráspól líka nú. Með sigrinum hefur hann unnið samtals 51 stig á ferlinum.
Mark Webber vann sinn besta árangur í formúlu-1 með öðru sæti.
Kappaksturinn markaði tímamót fyrir Heikki Kovalainen hjá McLaren. Í fyrsta sinn á árinu komst hann heilan hring í keppni. Hann varð fimmti í mark.Jenson Button hjá Brawn stóð í þriðja sinn á palli á árinu. Jafnoft komst hann á pall á einni og sömu vertíðinni 2004, en þá ekki í röð sem nú.
Aðeins þrisvar á árinu hefur vélræn bilun valdið því að bíll hefur ekki komist alla leið í mark. Tvisvar sinnum hefur Felipe Massa hjá Ferrari verið ökumaður slíks bíls.
Þrítugasta of fyrsta mótið í röð var Nick Heidfeld hjá BMW á úrslitablaði kappaksturs. Sem þýðir að hann hefur komist a.m.k. 90% vegalengdarinnar í þessum mótum. Þá komst hann á mark í Kína 23. mótið í röð og vantar því aðeins eitt í viðbót til að jafna met Michaels Schumacher sem á sínum tíma komst í mark 24 mót í röð.
Lewis Hamilton hjá McLaren varð í sjötta sæti í fyrsta sinn á ferlinum. Eina stigasætið sem hann hefur ekki hafnað í frá því hann hóf keppni 2007 er áttunda sæti.
Nýliðinn Sebastien Buemi hjá Toro Rosso komst í fyrsta sinn á ferlinum í lokalotu tímatöku og varð tíundi.
Nelson Piquet hjá Renault hefur enn ekki tekist að sigrast á liðsfélaga sínum, Fernando Alonso, í tímatökum. Frá því þeir hófu störf hjá liðinu eru 21 kappakstur að baki.
Adrian Sutil hjá Force India var lengi vel ein af hetjum kappakstursins í Sjanghæ í gær. Því miður missti hann stjórn á bílnum á rennblautri brautinni og féll úr leik. Hann átti þá sex hringi eftir í mark og var í sjötta sæti. Í Mónakókappakstrinum í fyrra, einum af hápunktum ferilsins, var hann fjórði er hann féll úr leik fjórum hringjum frá marki.
Kínverski kappaksturinn hefur farið fram sex sinnum og þrisvar sinnum hefur rigning leikið stóra rullu, 2006, 2007 og svo í ár. Fyrsta rigningarkappaksturinn í Sjanghæ vann Michael Schumacher og Kimi Räikkönen árið eftir. Hlutfallslega hefur ekki rignt svo oft í neinni annarri formúlubraut.
Næsti kappakstur er í Barein um næstu helgi en þar var fyrst keppt árið 2004, eins og í Kína. Þar sem brautin er í eyðimörk við Persaflóa hefur aldrei dropað úr lofti þar á kappaksturshelgi. Og litlar sem engar líkur eru á að breyting verði þar á í ár. Veðurguðirnir geta þó verið óútreiknanlegir, til dæmis er furstadæmið Qatar ekki langt frá og þar varð að fresta keppni vegna rigningar í síðustu viku.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.