Föstudagur, 12. mars 2010
Tröllaukin titilkeppni framundan
Þegar ljósin fimm slokkna og kappakstursbílarnir 24 þjóta af stað í ræsingunni í Barein á sunnudag hefst keppnistímabil sem beðið hefur verið með mikilli væntingu mánuðum saman. Sjaldan hafa jafn margir öflugir ökumenn verið samtímis í keppni og því er talað um að framundan sé tröllaukin titilkeppni á kappakstursbrautinni.
Miklar væntingar eiga sér gjarnan stað við upphaf hverrar keppnistíðar en sjaldan þó meiri en nú. Ástæður eru margar. Úrslit þykja mjög svo ófyrirséð vegna einstaklega jafnrar getu bíla fjölda liða og róttækra breytinga á reglum, en þar þó helst að bensínstopp heyra nú sögunni til. Þá eru nokkur ný lið mætt til leiks, nýir ökumenn komnir til skjalanna og aðrir hafa færst milli liða. Vart getur það verið betra á 60 ára afmæli keppni í formúlu-1.
Fjórir meistarar eigast við
Af þessum sökum hefur mótsins í Barein um helgina verið beðið með óþreyju um heim allan. Þar ganga til leiks fjórir ökumenn sem hampað hafa heimsmeistaratitli ökuþóra. Fremstur meðal jafningja er Michael Schumacher sem snúinn er aftur til keppni eftir þriggja ára hlé og genginn á fimmtugsaldurinn. Ekki keppir hann þó lengur fyrir Ferrari heldur þýska bílafyrirtækið Mercedes sem keypti meistaralið síðasta árs, Brawn.
Aðrir meistarar eru Fernando Alonso hjá Ferrari, sem vann titlana 2005 og 2006, Lewis Hamilton hjá McLaren sem varð meistari 2008 og liðsfélagi hans Jenson Button sem er ríkjandi meistari. Við reynsluakstur í vetur þótti litlu muna á bílum þessara þriggja liða og bílum þess fjórða, Red Bull, en þar er fyrir Sebastian Vettel sem varð annar í titilkeppninni í fyrra eftir keppni við Button.
Spurning er hversu reynsla Schumacher vegur og keppnisgleði og kraftur gegn yngri ökumönnunum. Mun hann hafa við Alonso á Ferrari sem augljóslega er komið í toppslaginn aftur eftir slakt ár og ósamkeppnisfæran bíl í fyrra? Eða Hamilton sem fær nú tækifæri til að bera sig saman við Schumacher í fyrsta sinn? Verður silfurör McLaren öflugri þeirri þýsku frá Mercedes?
Já, þær eru margar spurningar sem spurðar hafa verið að undanförnu. Ólíkt því sem var í fyrra er greinilega var ljóst hvaða lið væri með langbesta bílinn við upphaf keppnistíðar.
Einvígi að lokum milli Alonso og Hamiltons?
Þótt alls ekki megi vanmeta Schumacher þá er freistandi að álíta sem svo að titilslagurinn muni enda í einvígi Alonso og Hamiltons. Þótt Button sé með eins bíl hjá McLaren hefur Hamilton visst forskot sem liðsmaður þar á bæ undanfarin ár. Það gæti þó óvænt komið Button til góðs að hann býr yfir mun mýkri aksturstækni en hinir meistararnir sem er mjög gagnlegt nú þegar fara verður betur með dekk en áður vegna bensínþyngsla.
Ánægjulegt er að Ferrari og McLaren skuli aftur komin í toppslaginn eftir dapurt gengi beggja í fyrra. Keppnin 2009 var áhugaverð og stóð á endanum óvænt milli Red Bull og Brawn. En hana skorti þá miklu ákefð sem jafnan hefur einkennt baráttu gömlu risanna tveggja. Útilokað þykir að yfirburðir eins og Brawn framan af í fyrra sjáist í ár. Fróðum sýnist öllu heldur, að Ferrari, McLaren, Red Bull og Mercedes muni heyja keppni sem verði jafnari og tvísýnni strax frá byrjun.
Skammt að baki þeirra eru svo a.m.k. fimm önnur lið sem einnig eru talin með tiltölulega jafna bíla. Hér ræðir um Williams, Force India, Renault, Sauber og Toro Rosso.
Þungir í ræsingunni
Þegar bílarnir leggja af stað á sunnudögum hér eftir verða þeir með tvöfalt meira bensín um borð, 160 kíló, en alla tíð frá 1993 er bensínstopp í keppni komu til sögunnar. Vegna þessa verða bílarnir erfiðari viðureignar í byrjun og líkur á bægslagangi við fyrstu beygjur. Og þyngslin reyna mun meira á bæði dekk og bremsur en fyrr og kalla á nýjar akstursaðferðir af hálfu ökumannanna.
Formúluliðunum hefur fjölgað um tvö í ár og eru 12; áttu að vera 13 en USF1 komst ekki til leiks. Horfin eru BMW og Toyota en hið fyrrnefnda er nú komið aftur í hendur fyrri eiganda, Peter Sauber, og ber sitt gamla nafn, Sauber. Sérfræðingar Bridgestone segja bíla þess fara betur með dekk en önnur og gæti átt eftir að reynast hálfgerður svarti Pétur og koma á óvart í keppni af þeim sökum; jafnvel velgja toppliðunum fjórum við og við undir uggum.
Herfræðin hugsuð upp á nýtt
Hin liðin eru Virgin, Hispania og Lotus, öll ný lið frá grunni þótt hið síðastnefnda beri nafn gamalfrægs og sigursæls liðs úr formúlu-1. Þau tvö fyrst nefndu tefla fram þremur nýliðum. Brasilíumaðurinn Lucas di Grassi keppir fyrir Virgin og landi hans Bruno Senna og Indverjinn Karun Chandhok fyrir Hispania. Senna er systursonur eins frægasta ökuþórs sögunnar, Ayrtons Senna.
Hinar breyttu reglur kalla á alveg nýja nálgun í gerð keppnisáætlana. Það eitt þykir eiga eftir að bjóða upp á mikla spennu í keppni. Hingað til hefur enginn þótt meiri herfræðingur en Ross Brawn, stjórnandi Mercedes og maðurinn á bak við árangur Schumacher hjá Ferrari. Spurningin er hvort herfræði þeirra gangi jafnvel upp sem fyrr eða hvort herfræðingar Ferrari og McLaren standi þeim snúning. Við því fást svör á sunnudag og 18 sunnudögum öðrum til nóvemberloka.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.