Færsluflokkur: Formúla 1

Leynivopn McLaren á stýrinu

Snöggar og miklar framfarir silfurörva McLaren-liðsins hafa vakið athygli en Lewis Hamilton hefur verið í sérflokki í síðustu tveimur mótum. Í franska kappakstrinum fyrir mánuði áttu þeir Heikki Kovalainen í miklum erfiðleikum með að reyna að hanga í bílum Ferrari. Í næstu tveimur mótum, Silverstone og Hockenheim, drottnaði McLaren hins vegar og Ferrari átti engan möguleika.

Hamilton var 68 sekúndum á undan næsta manni í Silverstone og hefði sömuleiðis orðið óralangt á undan í Hockenheim hefði ekki öryggisbíll verið í brautinni í drjúgan tíma vegna óhapps. Og þar sýndi hann einstaka yfirburði með því að aka úr fimmta sæti í það fyrsta á nokkrum hringjum eftir þjónustuhlé í kappakstrinum.

Áberandi hefur þótt hversu mikilli hröðun Hamilton hefur náð án þess að spóla neitt. Og eins hefur ræsingin þótt afar skilvirk í síðustu mótum.

Margir munu hafa klórað sér í höfðinu yfir yfirburðum Hamiltons. McLaren-menn hafa varist fregna og ekki viljað ljóstra upp um bílþróun sína. Fróðir þykjast hins vegar hafa fundið skýringuna. Og segja hana fremur einfalda. Liggur hún í stýri bílsins eða raunar á því.

Stýrishjól McLaren-bílanna er frábrugðið að því leyti að þar er að finna fjórar litlar blöðkur í stað tveggja. Tvær þær efri eru til að skipta um gíra eins og hefðbundið er en aukablöðkurnar eru til að stilla vélartorkið eða tog mótorsins og laga það að notkun gíra svo það nýtist sem best til hröðunar. Tilgangurinn er að lágmarka spól í hægum beygjum og halda ferð í hraðari beygjum.

Tæknireglur kveða á um að ökumaður megi ekki stilla gír og tork í einni aðgerð. Til að komast í kringum regluna verður því að nota aukablöðkur. Ökumanni leyfist sem sagt að nota tvo putta í stað eins og fellur bíllinn eftir sem áður innan regla.

Í ljósi þessara skýringa þykir aðeins spurning hvenær önnur lið taka þessa tækni upp hjá sér. Eða hvenær Alþjóðaakstursíþróttasambandið (FIA) bannar hana. Séu stýrisblöðkurnar lykillinn að uppsveiflu McLaren þykir mega veðja á að Ferrari-fákarnir verði ekki lengi að draga silfurörvar McLaren aftur uppi.

 


Aldrei eins jöfn keppni um titil ökuþóra

Staðan í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra í formúlu 1 hefur aldrei verið eins jöfn og eftir síðasta kappakstur. Þrír ökuþórar hafa hlotið jafnmörg stig, 48 hver, og sá fjórði er aðeins tveimur stigum á eftir með 46. Því er kappakstur helgarinnar í Hockenheim þeim öllum einkar mikilvægur. Hann markar upphaf seinni helmings keppnistíðarinnar í ár.

Lewis Hamilton hjá McLaren telst efstur og til marks um jafnan leik reið þar baggamun tíunda sætið í franska kappakstrinum í Magny–Cours, eða fimmti besti mótsárangur hans í ár. Þeir Felipe Massa hjá Ferrari hafa hvor um sig unnið þrjú mót í ár, orðið einu sinni hvor í öðru sæti og einu sinni í því þriðja. Báðir hafa jafnframt einu sinni hvor lokið keppni í fimmta sæti. Því varð að kafa enn dýpra í árangur þeirra til að sjá hvor teldist framar. Hafði Hamilton þá betur því fimmti besti árangur Massa í ár var þrettánda og síðasta sætið í síðasta móti, í Silverstone.

Kimi Räikkönen hjá Ferrari telst þriðji þar sem hann hefur unnið einu móti færra en keppinautarnir, eða tvö. Hann hefur þó verið jafnoft og þeir á verðlaunapalli, tvisvar fyrir annað sætið og einu sinni fyrir það þriðja.

Robert Kubica hjá BMW er tveimur stigum á eftir þessum þremur en hann hefur setið um stund í efsta sæti stigakeppninnar á vertíðinni.

Verði sigurvegari helgarinnar úr hópi þeirra þriggja fyrst töldu nær hann ekki aðeins stigaforystu, heldur mikilvægu sálrænu taki í keppninni. Hamilton vann síðasta kappakstur með miklum glans og mætir sigurstranglegur til Hockenheim. Annar aðaleigandi McLaren-liðsins er þýski bílsmiðurinn Mercedes-Benz . Lítur liðið því á mótið sem sinn heimakappakstur. Og þann annan í röð þar sem sá breski telst það einnig vegna heimilisfestu og róta liðsins í Englandi. Gott gengi í Hockenheim er McLaren einkar mikilvægt ætli liðið ekki að missa af Ferrari og BMW í keppni bílsmiða.

Hamilton segir það markmið sitt að fara með sigur af hólmi á sunnudag og hrista þannig ökuþóra Ferrari aðeins af sér. Ítalska liðið mætir þó til leiks staðráðið í að komast út úr þeirri ólánsöldu sem elt hefur það í undanförnum mótum. Räikkönen og Massa verða Hamilton sem öðrum að öllum líkindum erfiðir viðureignar. Herðir það þá, að síðast þegar keppt var í Hockenheim, 2006, átti Ferrari tvo fyrstu bíla í mark. Var Michael Schumacher fyrstur og Massa annar.

Vinni Kubica öðru sinni á vertíðinni yrði hann jafn einhverjum hinna þriggja að stigum verði einhver þeirra í öðru sæti. Hann næði því aðeins forystu í keppninni að Räikkönen yrði annar. Með sama stigafjölda teldist Kubica ofar heimsmeistaranum út á það að hann hefur tvisvar orðið fjórði í keppni en Räikkönen einu sinni! Og eins og McLaren telur BMW mót helgarinnar sinn heimakappakstur þar sem hann fer fram í Þýskalandi. Því verða margir sem leggja allt í sölurnar um helgina. Heimamaðurinn Nick Heidfeld hjá BMW varð annar í síðasta móti. Tók þar hvað eftir annað fram úr keppinautunum, ók með öllu hnökralaust og segist ekki hafa getað fengið betri undirbúning fyrir Hockenheim.

Undanfarið hefur verið mikill skriður á Toyota, Red Bull og Renault. Aðeins eitt stig skilur þau tvö fyrstnefndu að og segja stjórar Toyota takmarkið að treysta sig í sessi í fjórða sætinu í keppni bílsmiða. Til þessa sama sætis lítur Renault, markmið liðsins er að ná því í ár. Sem stendur er franska liðið í sjöunda sæti, 10 stigum á eftir Toyota.

 

 

 

 


Fáir af sama sauðahúsi

Þá er það staðfest, Coulthard hættir í vertíðarlok. Því er þetta ekki lengur lausafregn. Það er eftirsjá að kappanum sem kom inn sem keppnismaður hjá Williams við dauða Ayrton Senna í maí 1994. Coulthard var þá reynsluökumaður liðsins.

Hann var fljótur að sanna sig og hefur alla tíð verið til fyrirmyndar, heiðarlegur fram í fingurgóma og sanngjarn. Hefur gert meiri kröfur til sjálfs sín en annarra. Viðurkennt manna fyrstur hafi honum orðið á mistök, ekki síst þegar þau hafa bitnað á keppinautunum. Fáir af því sauðahúsi í formúlunni bæði nú sem fyrr.   

 


mbl.is Coulthard á útleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biturð Montoya brýst út

Einhver biturð brýst út í þessu samtali við Montoya sem hér er vitnað til. Það geta verið  sannleikskorn í ýmsu sem hann segir. Honum fannst t.d. leiðinlegt að keppa í formúlunni og ekki verður þráttað við hann um það.

En er það nokkuð skrítið að enginn þekki Lewis Hamilton í Bandaríkjunum? Þar er jú ekki keppt í formúlu-1. Svo notuð sé sama hundalógíkk og Montoya brúkar mætti spyrja hvort einhver í Evrópu þekki Kyle Busch, einn af meiri afreksmönnum Nascar?

Svarið er hið sama: Hvaða Kyle?

Auðvitað þekkir nánast enginn í Evrópu hann og ef til vill ekkert alltof margir í Bandaríkjunum. Þar eru aðrar íþróttir miklu hærra skrifaðar en kappakstur þótt vinsæll sé. 

Ég er líklega einn þeirra sem urðu fyrir vonbrigðum með Montoya. Fylgdist með honum sem keppanda í formúlu-3000 og síðar bandarísku systurkeppni formúlu-1, ChampCar. Williams taldi sig hafa ráðið gullmola og vissulega voru tilþrifin stundum skemmtileg. Þrándur í götu hans var skortur á þolinmæði.

Hann segir erfiðara að vinna sig úr 15. sæti í það fyrsta í NASCAR en úr 5.-6. sæti í það fyrsta í formúlu-1. Önnur hundalógíkk hans því hlutfallslega, miðað við fjölda keppenda, er 15. sæti í NASCAR hið sama og fimmta í formúlunni. Og raunar finnst mér fremur fráleitt að bera jafn ólíkar íþróttir og ólíka bíla saman. 

Árin flest sem Montoya keppti í formúlunni voru lið hans tvö á toppnum, fyrst Williams og síðar McLaren. Hann kunni sig hins vegar ekki í þeim aga sem ríkir hjá flestum formúluliðanna, þar var þanþol fyrir tilfinningasemi hans takmarkað. Því var hann rekinn frá McLaren, því miður.

Nú hefur Montoya gengið afleitlega í NASCAR í ár, sumpart vegna upplausnar og tíðra mannaskipta í yfirmannastöðum hjá liðinu. Hafði hann t.d. þrjá mismunandi keppnisstjóra í maí-mánuði. Einn þeirra var honum að skapi en var rekinn. Sauð á endanum á Montoya sjálfum sem krafðist fundar með eiganda liðsins, Chip Ganassi, sem var vinnuveitandi hans einnig í ChampCar. Ganassi tókst að róa Montoya en getur verið að yfirlýsingar hans um formúlu-1 tengist uppsöfnuðu svekkelsi hans yfir slæmu gengi í ár?

Spyr sá sem ekki veit.    


mbl.is „Formúla 1 tóm leiðindi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ecclestone hefur lesið samninginn!

Bernie Ecclestone, alráður formúlu-1 eins og ég hef kosið að kalla hann, virðist hafa lesið samning sinn um franska kappaksturinn yfir síðustu daga. Hann hefur áttað sig á að keppt verður í Magny-Cours næstu árin þrátt fyrir að hann hafi hamast í vetur og vor við að segja mótið í ár hið síðasta í brautinni.

Sú spurning leitar óneitanlega á hvort karlinn sé tekinn að ærast í ellinni en hann nálgast óðfluga áttrætt. Það vona ég ekki og kýs fremur að líta fyrri yfirlýsingar hans sem tilraun til að ýta við frönskum formúlufrömuðum að bjóða upp á betri aðstöðu til keppni, annað hvort í Magny-Cours eða nær glysi og glaumi.

Bernie hefur talað fyrir mótshaldi á Parísarsvæðinu og möguleikar á því hafa verið til skoðunar. Miðað við seinvirkni kerfisins og skriffinsku hér í Frakklandi munu líða einhver ár þangað til slíkt gæti orðið að veruleika.

Og yfirvöld í Nevers, þar sem Magny-Cours er að finna, hafa róið að því hörðum árum bak við pólitísk tjöld að tryggja áframhald keppninnar í frönsku sveitinni. Í síðustu viku birtu þeir metnaðarfull áform um verulegar umbætur á aðstöðu á og við brautina og byggingu hótela í nágrenninu.

Er nú svo komið að Ecclestone sjálfur sagði eftir kappaksturinn í gær, að franski kappaksturinn verði áfram í Magny-Cours. Gengst hann við því að samningur um mótshald í brautinni gildi næstu tvö árin til viðbótar, þ.e. 2009 og 2010. 

Hann segir hins vegar áhuga sinn á keppni á Parísarsvæðinu í framtíðinni óbreyttann. Fróðlegt verður að sjá hvort sú draumsýn hins kraftmikla forsprakka rætist. Það er óskandi en sá gamli verður orðinn einhverjum árum eldri þegar það gæti fyrst átt sér stað.

 


Sælt í sveitinni

Þá er komið að franska kappakstrinum sem fram fer við aðrar aðstæður en undanfarin mót. Fjarri skarkala stórborga og glysi og glaumi fræga fólksins fer hann fram í franskri sveit. Ósköp heimilislegt umhverfi þar sem beljur eru á beit svo að segja við brautarjaðarinn.

Engan ökuþór veit ég um sem ekki hefur dásamað andrúmsloftið í Magny-Cours. Þar hafa þeir notið rólegheita og afslöppunar eftir partílífið í Mónakó og Montreal. Á fyrrnefnda staðnum snýst mótshelgin venjulega um flest annað en formúluna - aðallega um innantómt glamúr. Sem ég gef ekki fimm aura fyrir og lái mér hver sem vill.

Ég er fyrst og síðast íþróttaunnandi og kann því ekki að meta þegar kvikmyndastjörnur stela kastljósinu frá ökuþórum og kappakstursbílum á mótshelgum eins og í Mónakó. Og í aðal atriðum vildi ég að keppni væri hætt í Mónakó því úrslitin eru eiginlega ráðin með tímatökunum - nema hann hellirigni sem er sjaldan að hafa.  

Því er ekki hægt annað en taka undir með Mario Theissen liðsstjóra BMW sem fagnar því að nú sé komið að franska kappakstrinum. Hann á það sameiginlegt með mörgum liðsmanninum og ökumönnum að kunna vel við sig í Magny-Cours.

„Persónulega kann ég afskaplega vel að meta sveitasæluna í umhverfi Circuit de Nevers því þar snýst allt bara um íþróttina. Andrúmsloftið á vettvangi er sjarmerandi á sinn hátt, segir Theissen í aðdraganda mótsins.

Í svipaðan streng tekur aðalhönnuður Toyotaliðsins, Frakkinn Pasqual Vasselon. Nefna mætti fjölda forsvarsmanna liða og ökuþóra sem lýsa sig sæla í sveitinni.

Eini maðurinn sem vill ekki vera í nágrenni Nevers er Bernie Ecclestone. Í hans huga skiptir meira máli lúxus og glæsileiki hvers konar fyrir fína fólkið og fyrirmenni en góð braut og fín skemmtan fyrir áhorfendur. Hann fyrirlítur Magny-Cours og lýsir því árlega yfir að viðkomandi mót sé hið síðasta þar.

Hann vill frekar keppa í París sem er góðra gjalda vert en á þeim slóðum fékk hann fyrst jákvæðar undirtektir við hugmyndir sínar í fyrra. Og það tekur lengur að undirbúa mótshald þar en svo að hægt  verði að keppa þar á næsta ári, 2009. 

Því geri ég ráð fyrir að hann gleypi orðin sín - enda nokkuð vanur því - og að keppt verði í Magny-Cours á næsta ári. Já, ef ekki mörg þau næstu. 


Sá hlær best er síðast hlær . . .

Sá hlær best er síðast hlær, ef Anthony Hamilton, föður Lewis Hamilton, var á annað orð hlátur í huga er sonurinn gerði þau furðulegu mistök að keyra á kyrrstæðan bíl Kimi Räikkönen í bílskúrareininni í Montreal.

Lewis skellihló nefnilega á blaðamannafundi í Montreal fyrir helgi er hann var spurður út í óhapp föðurins nokkrum dögum áður. Sá missti vald á Porsche Carrera GT sportbíl er hann gaf fullmikið inn á leið frá húsi sínu í Englandi. Flaug m.a. í gegnum limgerði er hann reyndi að ná aftur stjórn á bílnum kraftmikla og staðnæmdist loks inn á barnaleikvelli sem til allrar hamingju var mannlaus.

Garðyrkjumaður varð vitni að öllu saman og kjaftaði í slúðurblað. Því gat Hamilton eldri ekki falið sært stolt sitt fyrir öðrum. Öllu fleiri urðu vitni að ótrúlegum klaufaskap Hamiltons yngri í bílskúrareininni í Montreal. Stolt hans særðist líklega enn meira en föðurins. Með það situr hann uppi að hafa ekið aftan á kyrrstæðan bíl sem beið á rauðu ljósi.

Það eru kannski pínulitlar ýkjur, Hamilton gafst ekki ráðrúm til að stöðva sinn bíl er Räikkönen bremsaði vegna ljóssins. Tók enski ökuþórinn of seint eftir ljósinu og því að Räikkönen bremsaði. Ef til vill vegna þess að bílarnir keyra sjálfir bílskúrareinina og ökuþórarnir oft að huga að ýmsum stillingum öðrum meðan þeir bíða þess að bíllinn fari yfir línu þar sem þeir geta numið hraðastillinn úr sambandi.

Þetta er ekki sagt til að afsaka Hamilton en kemur upp í kollinum þegar þessu furðulega óhappi er velt fyrir sér. Hvernig getur svona gerst, spyr maður sjálfan sig aftur og aftur? Mér kæmi ekki á óvart þótt Hamilton fái öðru hverju martröð vegna þessa því það hlýtur að naga hugann öðru hverju. Að mínu mati óneitanlega mesta klúður á ferlinum í formúlu-1. Og það akkúrat ári eftir að hann vann, í Montreal, sinn fyrsta mótssigur í formúlu-1.

Atvikið eitt og sér er algjör martröð fyrir hann. Á augabragði breyttist gæfan og í stað hetju sat hann uppi sem skúrkur. Í stað þess að auka jafnvel enn við forystu sína í keppni ökuþóra með góðum árangri í Montreal – þar sem hann virtist stefna til sigurs – hefur hann tapað frumkvæðinu.

[Miðað við að hann féll úr leik er kannski útí hött hjá mér að segja að Hamilton hafi stefnt til sigurs þótt vissulega hafi verið svo fyrir þjónustustoppið. Þar sem Kimi var kominn fram úr mætti allt eins segja að sá hafi stefnt til sigurs, enda hungraður í toppsæti eftir ófarirnar í Mónakó. En þetta segi ég til að leggja áherslu á hversu gæfan hefur snúist við Hamilton í einni svipan.]

Og til að auka á niðurlæginguna hefur Hamiltonverið gerð refsing sem hann þarf að taka út í næsta kappakstri, þeim franska í Magny-Cours. Þar verður hann færður aftur um 10 sæti á rásmarki að loknum tímatökum. Vinni hann ráspólinn þar verður hann sem sagt að byrja kappaksturinn af 11. rásstað.

Þýski ökuþórinn Nico Rosberg hjá Williams hlaut sömu refsingu, fyrir að aka aftan á McLarenbíl Hamiltons rétt eftir að framangreindan árekstur. Gerðist líka sekur um að valda afstýranlegum árekstri.

Eðlilegt er að Hamilton og Rosberg þurfi að bíta úr nál vegna árekstranna og refsing þeirra er réttlát.


Mosley er búinn að vera

Á þriðjudag, 3. júní, verða greidd um það atkvæði hvort Max Mosley heldur starfi sem forseti Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA). Verður þá gert upp hvort aðildarfélög FIA telji Mosley geta komið fram fyrir hönd samtakanna og verið áfram andlit þeirra í kjölfar umfjöllunar um kaup hans á kynlífsþjónustu hjá gleðikonum í London.

FIA eru regnhlífarsamtök landsamtaka bifreiðaeigendafélaga auk þess að vera æðsta yfirvald akstursíþrótta.  Bílaklúbbar um heim allan, sem koma fram fyrir hönd hundruð milljóna bíleigenda, hafa lagt að Mosley að draga sig í hlé vegna kynlífshneykslisins. Nokkrir helstu bílaframleiðendur heims, sem eiga aðild að formúlu-1, hafa sagt að ekki væri stætt á öðru en hann hætti sem FIA-forseti.

Allt hefur komið fyrir ekki; Mosley harðneitar og segir umfjöllun um kynsvall hans vera aðför að sér og nornaveiðar. Hann neitar ekki að svallið hafi átt sér stað en segir það einkamál sitt. Undir það síðastnefnda má taka en eftir að málið er komið í fjölmiðla er það ekki lengur einkamál hans og til þess fallið að skaða FIA meðan hann situr sem fastast.   

Síðastliðinn miðvikudag gerðu 24 bíleigendafélög í 22 löndum aðra tilraun til að telja Mosley á að biðjast lausnar þegar í stað. Þar á meðal voru landssamtök í Bandaríkjunum, Kanada, Þýskalandi, Frakkilandi, Japan, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku. Rússnesku landssamtökin lýstu stuðningi við bréfið daginn eftir.   

Í bréfi til Mosley sagði að FIA væri í viðsjárverðri stöðu og gæti beðið óbætanlegt tjón og glatað trúnaði segði Mosley ekki af sér. Með hverjum degi sem liði ykist skaðinn.  Mikil hætta hefur verið talin á að alþjóðleg stórfyrirtæki muni segja skilið við formúlu-1 streitist við og haldi velli í kosningu, sem óvíst er enn hvort verður leynileg eða framkvæmd með handauppréttingu.

Enginn hefur viljað tala við Mosley undanfarna mánuði eða veita honum áheyrn. Hvorki ríkisstjórnir né þjóðhöfðingjar.

Óskað var eftir því að stjórnvöldum í Barein að hann léti ekki sjá sig þar í landi vegna keppni í formúlu-1 í byrjun apríl.

Hið sama gerðist á formúluhelginni á Spáni, þangað var Mosley beðinn að mæta ekki.  

Formúluliðin mörg hver hafa sagt hann ófæran um að gegna starfi og hafa lagt að honum að hætta. Er hann birtist í Mónakó og vildi ræða framtíðar reglumál við fulltrúa liða báðust þau undan því að hitta hann. Mönnum virtist standa stuggur af nærveru hans því hermt er að furstafjölskyldan, yfirmenn fjölþjóðlegra fyrirtækja og önnur fyrirmenni hafi gert út fólk af örkinni til að fylgjast með ferðum hans svo komast mætti hjá því að Mosley yrði á vegi þeirra.

Uppi varð fótur og fit er út spurðist að FIA-forsetinn ætlaði að sækja hátíðarkvöldverð að keppni lokinni. Samband þykir á milli þess og þess að Albert prins, sigurvegarinn Lewis Hamilton og lið hans, McLaren, mætti ekki til veislunnar.

Einkamál Mosley varða mig ekkert um en ég botna þó ekkert í því hvers vegna hann sér engan flöt á því að umfjöllunin um þau geti gert honum erfitt fyrir eða jafnvel ófært að gegna starfi forseta FIA. Eins og fjölmörg dæmi sanna nú þegar! Ástæðan er auðvitað ekkert annað en blindni manns í fílabeinsturni. Ekkert virðist hagga honum, ekki heldur það að einkavinur hans og náinn samstarfsmaður í rúm 40 ár, Bernie Ecclestone, hefur snúist gegn honum og beðið hann lengstra orða að draga sig í hlé til að þurfa ekki að verða fyrir þeirri niðurlægingu að tapa atkvæðagreiðslunni.

„Allt frá því málið kom fram í dagsljósið hef ég legið undir ógurlegum þrýstingi frá fólki sem fjárfestir í formúlu-1, styrktarfyrirtækjum og bílaframleiðendum. Það bendir á að við sömu kringumstæður hefði [Mosley] sem æðsti yfirmaður stórfyrirtækis verið settur samdægurs frá störfum. Þeir skilja ekki hvers vegna Max brást ekki þannig við,“ sagði Ecclestone um helgina.

Að mínu mati beit Mosley eiginlega höfuðið af skömminni er hann sendi öllum aðildarfélögum FIA bréf um miðjan maí þar sem hann staðhæfði að sú hætta blasti við að FIA tapaði öllum yfirráðum yfir formúlu-1 ef hann yrði felldur í atkvæðagreiðslunni. Enginn væri fær um að taka við hlutverki hans og verja samtökin í samningum við handhafa sjónvarps- og viðskiptaréttinda formúlunnar.

Ótrúleg bífræfni í raun og veru og aldeilis talað niður til aðildarfélaganna. Ecclestone og CVC-félagið brugðust hart við, sögðu hann fara með blekkingar og kváðust engan áhuga hafa á íþróttalegum yfirráðum yfir formúlunni. 

Hvað sem þessu öllu líður er niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar á þriðjudag beðið um heim allan. Útilokað er að spá nokkru þótt flestir á vettvangi akstursíþróttanna vilji að Mosley víki.    

 


Brautin í Mónakó sérstök áskorun

Mónakóbrautin er engri annarri formúlubraut lík þegar kemur að uppsetningu keppnisbílanna. Mæðir mjög á verk- og vélfræðingum liðanna að fínstilla þá til að ná fram hámarksgetu á götum furstadæmisins. Vængpressa skiptir meiru en skilvirkt loftflæði, brautin fyrirgefur ekki mistök og uppsetningar eru með öðrum hætti en í öðrum brautum.

Vegna óslétts og ójafns yfirborðs gatna í Mónakó er haft hálfum til heilum sentímetra hærra undir botn á bílunum en á hefðbundnum keppnisbrautum.

Við fyrstu sýn mætti ætla að ekki reyndi mikið á mótor keppnisbílanna í Mónakó þar sem þeim er ekið í botni minna þar en annars staðar, eða 46,6% hringsins. Það segir ekki alla söguna þar sem mjög er hætt við yfirsnúningi þegar bílarnir lyfta dekkjum í afar ósléttri brautinni. Við því bregðast liðin með því að reyna að stilla vélbúnað þann veg að mótorsnúningur fari ekki upp fyrir hámarkið.

Til að hámarka rásfestu á annars griplítilli og ósléttri braut er fjöðrun kappakstursbílanna höfð mýkri en alla jafna, en miðað við fólksbíla er hún þrátt fyrir það mjög stíf.

Sömuleiðis er jafnvægisstöngin losuð upp svo einstök hjól geti tekið ójöfnur án þess að viðspyrna annarra hjóla fari úr skorðum.

Kælingin vandamál

Kæling mótorsins er vandasöm í Mónakó þar sem ferð bílanna er hlutfallslega lítil og loftstraumur um mótorinn því máttlítill. Það eykur á þann vanda, að styttra er í gírum en í öðrum brautum til að hröðun verði sem ákjósanlegust við þær brautaraðstæður sem eru í Mónakó. Fyrir bragðið er snúningshraði mótorsins yfirleitt mikill þótt ferðin sé hæg. Við því er m.a. brugðist með því að opna yfirbygginguna meira til að auka loftflæði í vélarhúsinu og koma í veg fyrir að mótorhiti fari upp fyrir mörk.

Viðbragðsgóður mótor með gott upptak á lágum snúningi er gulls ígildi í Mónakó. Mikið mæðir á gírkassa bílanna því skipt er um gír um 53 sinnum á hring, eða rúmlega 4.150 sinnum í kappakstrinum öllum.

Vængpressa bíla er meiri í Mónakó en nokkru öðru móti ársins. Ekki til að halda rásfestu í beygjum sem eru svo hægar, að vélrænt grip skiptir þar meiru. Heldur til að halda bílnum stöðugum á bremsusvæðum og tryggja góða spyrnu á hröðunarköflum út úr beygjum.

Hvergi eru beygjur krappari en í Mónakó, en á hringnum eru 12 vinstri beygjur og sjö hægri. Krappasta beygja ársins er hárnálarbeygjan í brekkunni undir Grand-hótelinu. Rascasse-beygjan undir lok hringsins gefur henni lítt eftir. Eru þessar beygjur allt að tvöfalt krappari en t.d. nokkur beygja í Barcelonabrautinni.

Brottnám hjálparbúnaðar mun segja til sín

Undanfarinn áratug notuðu ökuþórarnir bensíngjöfina til að auðvelda sér beygjuna. Höfðu í því efni sér til fulltingis spyrnustýringu, mismunadrif og mótorbremsu sem hægt var að stilla sérstaklega svo inngjöfin komi að tilætluðu gagni og allt gengi snurðulaust gegnum beygjur.

Nú er öldin önnur, hjálparbúnaður þessi hefur verið numinn úr bílunum og hvers kyns rafeindastýringar á spyrnu, drifi og mótor óheimilar. Ökumaður getur því ekki lengur stigið gjöfina í botn vitandi að hjálparbúnaðurinn sæi um að bíllinn skilaði sér eðlilega um aksturslínuna. Hann verður þvert á móti að fótleika bensínfetilinn fínlega sem væri hann að stíga ballett; pinnann verður að meðhöndla af mýkt og nákvæmni en nokkurri festu þó.

Sem sagt, færni ökumannsins getur notið sín í Mónakó umfram aðrar brautir og á grundvelli hennar getur skilið milli feigs og ófeigs. Verður því kappaksturinn áhugaverðari en lengi sakir þess að hjálparbúnaðurinn sem tók ómakið af ökumanninum er ekki lengur fyrir hendi.


Útlit fyrir steypiregn og sviptingar í Mónakó

Þá er komið að Mónakókappakstrinum og reynist veðurspár réttar gætu orðið miklar sviptingar í keppninni - þ.e.a.s. verði öryggisbíllinn ekki látinn aka allan tímann á undan. Það gæti gerst ef steypiregn verður þar í samræmi við veðurspár en þá gæti brautin hreinlega reynst hættuleg - ekki síst þar sem öll elektróníkin sem sá um að halda bílunum í skefjum undir flestum kringumstæðum er horfin úr bílunum.

Síðasti kappakstur var sá skemmtilegasti á árinu og nú vona ég að Mónakó slái hann út. Það eru sem sagt vonir - raunveruleikinn hefur oftast verið sá að mínu mati, að tímatökurnar hafa verið aðalatriðið í Mónakó og það sem spennan skapast um. Eftir þær hafa úrslit kappakstursins nánast verið ráðin og hann næstum því formsatriði. 

Mér hefur reyndar lengi fundist tóm  tjara að keppa í Mónakó; það stangast eiginlega á við allt og allt í formúlunni - öryggiskröfur o.þ.h. - að halda úti móti þar. Sagan og hefðin er furstadæminu hliðholl og forsprakkar formúlunnar vilja geta nuddað sér utaní hina eðalbornu þar sem víðar. Og skemmt sér og djammað um borð í snekkjum auðjöfra eða blandað geði við fræga kvikmyndafólkið sem skreppur til Mónakó frá grannbænum Cannes.  Á engum árstíma öðrum og á engum öðrum jarðarbletti er athyglissótthitinn jafn hár og í jafn mörgum og þessa helgi í Monte Carlo.

Stundum fæ ég á tilfinninguna að glys og glamúr skipti meira máli en íþróttin á formúluhelginni í Mónakó. Það finnst mér miður - en það verður bara að hafa það og vera ekkert að ergja sig frekar á því en orðið er!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband