Makleg málagjöld

Mér finnst að makleg málagjöld hafi verið ákveðin í dag vegna svindlsins í kappakstrinum í Singapúr í fyrra. Eðlilegt er að Flavio Briatore, hinn brottrekni liðsstjóri Renault, sé útskúfaður frá akstursíþróttum alla tíð, enda brot hans og samverkamanna alvarlegra en nokkru tali tekur.

Briatore hefur enga iðrun sýnt og rembdist eins og rjúpa við staur að halda fram sakleysi sínu fram yfir það að hafa verið rekinn úr starfi er innanhússrannsókn Renault leiddi í ljós að ásakanir um svindlið áttu við rök að styðjast.

Það er eitt að hafa rangt við í keppni. Öllu verra er að stofna til samsæris um að hagræða úrslitum. Og það með því að efna til klessukeyrslu í íþrótt sem getur í raun verið hættuleg keppendum, starfsmönnum hennar og áhorfendum.

Bæði innanhússrannsókn hjá Renault og sjálfstæð rannsókn á vettvangi Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) leiddi í ljós, að Briatore, Pat Symonds verkfræðistjóri og Nelson Piquet ökumaður stofnuðu til samsæris um að reyna hagræða úrslitum.

Það tókst og fór svo að Fernando Alonso, ökumaður Renault, vann fyrsta mótssigur Renault um tveggja ára skeið. Hann átti enga aðild að málinu og segir FIA hann enga vitneskju hafa haft um það fyrr en eftir að rannsókn var nýlega hrundið af stað.

Renault situr uppi með skömmina af verknaði þremenninganna, sem það hefur losað sig við, og hlaut sína refsingu. Mildilega þó í ljósi alvarleika brotsins. Ýmsar ráðstafanir undanfarna viku af hálfu Renault vegna þessa máls gerðu sitt til að koma í veg fyrir útskúfun liðsins úr formúlu-1 fyrir fullt og allt.

Piquet sleppur við refsingu þar sem FIA hafði fengið hann til frásagnar með því að bjóða honum friðhelgi. Það bætir lítt mannorðsmissinn sem hann hefur orðið fyrir með framferði sínu. Og fróðir telja að hann eigi ekki afturkvæmt í formúlu-1 sem ökumaður. Þó eflaust megi trúa því að honum myndi aldrei detta til hugar að endurtaka gjörð af þessu tagi væri fyllilega skiljanlegt ef ekkert lið fengist til að ráða hann í vinnu hjá sér.

Ég hef séð til Piquet í návígi og fannst hann nokkuð heillandi ökuþór. Það var áður en hann hóf keppni í formúlu-1. Fyrir utan þýska kappaksturinn í fyrra - þar sem hann komst á verðlaunapall - sýndi hann sjaldnast góðan árangur. Og það er athyglisvert, að á hálfri annarri keppnistíð með Renault afrekaði hann að keyra bíl sinn í klessu 17 sinnum, með því að missa vald á honum og fljúga út úr brautinni eða eiga í árekstri við aðra ökumenn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég tek undir hvert orð í þessari grein hjá þér.  Ég get ekki séð að Piquet geti orðið ökuþór í einni einustu akstursíþrótt eftir þessa uppákomu.  En þótt Alonso hafi ekki verið í neinu uppáhaldi hjá mér, þá ber ég mikla virðingu fyrir honum sem ökumanni og hann hefur sýnt það að hann er virkilega góður, þá er ég því feginn að í ljós kom að hann átti engan þátt í þessu voðaverki.

Jóhann Elíasson, 21.9.2009 kl. 22:49

2 Smámynd: Einar Steinsson

Þetta verður væntanlega endanlega til að innsigla það að Alonso yfirgefur Renault.

Einar Steinsson, 22.9.2009 kl. 17:22

3 Smámynd: Jónas Egilsson

Er ekki komin ný skilgreining á nafni þessarar keppn? Formúla 1, er fyrst og fremst fyrirfram ákveðin formúla f. úrslitum? Sorgleg hvernig menn freistast. Það eru fleiri en bankamenn sem falla í gryfju gróðravonar!

Jónas Egilsson, 23.9.2009 kl. 22:30

4 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Engu þori ég að spá, Einar, um hvaða áhrif svindlið hefur á Alonso og framtíðaráform hans. Hann fer til Ferrari um síðir, tel ég. Spurning bara hvenær; á næsta ári eða 2011.

Ætli menn hafi ekki freistast til svindlsins vegna þess að tvö ár voru frá síðasta sigri Renault og liðinu hafði gengið fremur illa á vertíðinni. Eða þetta hefur bara verið skyndivitleysa manna sem búa í einhvers konar eggi og e.t.v. ekki beinlínis í tengslum við veruleikann. Veit það ekki, Jónas. En því miður virðist það alltof algengt - í öllum íþróttum - að menn freistast til að hafa rangt við og brúka í þeim efnum öll þau meðul sem hugsast getur.  Því miður.

Ágúst Ásgeirsson, 24.9.2009 kl. 18:44

5 Smámynd: Óli Sveinbjörnss

Sæll, Ágúst góður pistill. Alveg er þetta með ólíkindum að menn fara út í svona. Þetta er bara óheiðarlegt eðli. Ég er mjög ánægður að Briatore kemur aldrei aftur og ætti að vera aðvörun til annarra. Leitt með Pat en hann sýnir sama eðlið. Mér finnst alveg með ólíkindum að Piquet skuli sleppa svona vel. Hann á að fá sama dóm og Briatore. Ég var að lesa á öðrum bloggsíðum að þetta hefði nú verið í lagi og að hann hefði ekki farið svo hratt í beygjuna áður en hann klessti en hann var á 140km hraða. Fyrir utan draslið á brautinni sem hefði getað skaðað aðra ökumenn. Veit ekki betur en að Massa missti næstum sjónina út af gorminum og Massa var í fyrsta sæti þegar Piguet klessir. Spurning hvort Hamilton hefði náð titlinum ef þessir menn hefðu haft heiðarleika í sínum beinum. Takk fyrir góðan pistill.

Óli Sveinbjörnss, 24.9.2009 kl. 23:56

6 identicon

Það er skrítinn mismunurinn hvort menn eru Jón eða séra Jón .Aldrey hef ég heyrt það sama sagt um sjúmma sem reyndi að keyra keppinaut sinn út til að vinna titil. Einnig telst það sannað að hann reyndi vísvitandi að svindla í tímatökuni frægu í Mónakó. Ég er ekki að reyna verja Piquet í þessu máli en mér finnst að menn eigi að dæma alla menn af gjörðum sínum en ekki bara suma.

Ómar Már Þóroddsson (IP-tala skráð) 3.10.2009 kl. 22:17

7 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Þetta er rétt hjá þér, Ómar Már. Og ekki hef ég hlíft Schumacher við gagnrýni og hef hlotið um dagana þungar ákúrur unnenda hans. Þeir halda margir að hann sé hálfguð, það geri ég ekki. Hann er mannlegur en ber þunga skammarböggla með sér alla tíð.

Í fyrsta lagi fyrir að keyra með laskaðan bíl inn á brautina í Adeleide 1995 og á Damon Hill, en með því landaði Schumacher titli ökuþóra í stað Hill. Í öðru lagi fyrir tilræðið við Jacques Villeneuve í lokamótinu í Jerez 1997. Og í þriðja lagi fyrir að parkera bílnum í brautinni í Mónakó 2006 og reyna hafa áhrif á rásröðina.

Hann slapp við hirtingu í Adeleide, en óhætt er að fullyrða, að miðað við hörku dómara nú til dags og betri tækni til að fylgjast með keppninni, væri annað uppi á teningnum nú. 

Hann hlaut hins vegar þunga refsingu fyrir að renna sér inn í Villeneuve 1997. Var sviptur öllum stigum það árið og með því dæmdur úr keppninni um titilinn. Í Mónakó var hann dæmdur niður í síðasta sæti á rásmarki.


Ágúst Ásgeirsson, 4.10.2009 kl. 07:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband