McLaren afskrifar líklega vertíðina en BMW ekki

McLarenliðið íhugar um þessar mundir að afskrifa keppnistímabilið og snúa sér hins vegar af fullum krafti að hönnun og þróun nýs bíls fyrir næsta ár. BMW-liðið er ekki á sömu skoðun þrátt fyrir mikla afturför miðað við undanfarin ár og mörg misheppnuð mót.

 

„Það er einn möguleikinn, en við erum ekki komin að því að gera út um það,“ segir Martin Whitmarsh, liðsstjóri McLaren, um líkurnar á að liðið einbeiti kröftum sínum að næsta árs bíl.

 

„Við göngum áfram til leiks staðráðnir í að keppa til sigurs. Það er ekki okkar háttur að gefast upp,“ segir Whitmarsh. Hratt nálgast sú stund að Lewis Hamilton falli úr keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra. Hann er sem stendur 42 stigum á eftir Jenson Button hjá Brawnliðinu.

 

Og ekki ganga McLarenmenn til mótsins í Tyrklandi um helgina bjartsýnir á að silfurörin verði sérlega samkeppnisfær þar. Brautin gerir kröfur til skilvirkni loftafls bíla og á því svellinu er McLarenbíllinn ekki sleipur.

 

BMW er ekki á þeim buxum að hætta vinnu í 2008-bílnum, segir tæknistjórinn Willy Rampf. BMW-bíllinn er mun slakari en bíll McLaren. Undanfarin ár hefur BMW fest sig í sessi sem eitt af toppliðum formúlunnar. Það ætlaði að keppa um titla í ár, en eftir hvert hörmunarmótið af öðru er BMW í áttunda sæti í keppni bílsmiða.

 

„Það hefur ekki hvarflað að okkur að ræða stöðuna út frá því að hætta þróun núverandi bíls,“ segir Rampf. „Bíll næsta árs verður öðru vísi, vitaskuld. Bensíntankurinn verður þá mun stærri því þá má ekki tanka í keppni. En þar sem loftaflsreglurnar breytast ekki getum við nýtt þá þekkingu sem við öðlumst í ár til að búa til skilvirkari bíl fyrir næsta ár.

Það er hægara sagt en gert að hætta vinnu við núverandi bíl og setja allan kraft í næsta árs bíl. Það er engin trygging fyrir því að það gangi upp,“ segir Rampf í aðdraganda tyrkneska kappakstursins. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband