Næstmesti meðalhraði sem náðst hefur í Mónakó

Komið er í ljós, að meðalhraði í kappakstrinum í Mónakó um nýliðna helgi, var sá næstmesti í sögu mótsins. Jenson Button hjá Brawn fór með sigur af hólmi. Er það í fyrsta sinn sem hann hrósar sigri í Mónakó en hann hefur nú unnið þrjú mót í röð og fimm af sex mótum ársins.

Button hefur alls unnið sex mót á ferlinum en hann er á tíunda ári í formúlu-1 og hafði einungis unnið eitt mót fyrir vertíðina í ár. Hefur hann unnið jafn mörg mót og Tony Brooks, John Surtees, Jochen Rindt, Gilles Villeneuve, Jacques Laffite, Riccardo Patrese og Ralf Schumacher, sem var liðsfélagi Button árið 2000.

Þá hefur Button sjö sinnum unnið ráspól á ferlinum eða jafn oft og franski ökuþórinn Jacques Laffite, sem er einn af formúluskýrendum frönsku sjónvarpsstöðvarinnar TF1.

Button er jafnframt fyrsti breski ökuþórinn til að vinna þrjú mót  í röð frá því Damon Hill afrekaði það. Hill varð heimsmeistari 1996 og vann fjögur mót í röð í lok vertíðar 1995 og upphafi 1996. Um er að ræða mótin í Ástralíu, tvö, Brasilíu og Argentínu.

Þetta er og í fyrsta sinn í þrjú ár að ökumaður vinnur þrjú mót í röð. Árið 2006 vann Michael Schumacher slíkt afrek, í Indianapolis í Bandaríkjunum, Magny-Cours í Frakklandi og í Hockenheim í Þýskalandi.

Felipe Massa átti hraðasta hring kappakstursins í Mónakó og er það í fyrsta sinn á árinu sem Ferrari nær þeim áfanga. Þetta var 12. hraðasti hringur sem Massa hreppir á ferlinum. Jafn mörgum sinnum náðu þeim áfanga ökuþórarnir Alberto Ascari, Jack Brabham, René Arnoux og Juan Pablo Montoya.

Brawnliðið hefur unnið 68 stig í mótum ársins, eða rúmlega tvöfalt fleiri en nokkurt annað. Í Mónakó hrósaði Brawn tvöföldum sigri í þriðja sinn á árinu.

Mark Webber náði sögulegum áfanga í Mónakó af áströlskum ökuþór að vera. Kappaksturinn var sá 127. á formúluferlinum. Með því komst hann upp fyrir Jack Brabham, sem fram til þessa hafði keppt oftar í formúlu-1 en nokkur landi hans.

Tímatökurnar voru þær verstu í sögu BMW-liðsins. Nick Heidfeld hreppti 16. sæti og Robert Kubica 17.  Lakasti árangur fram að því var er Heidfeld varð tíundi og Jacques Villeneuve 22. í spænska kappakstnum í Barcelona 2006.

Lewis Hamilton hefur aldrei hafið keppni jafn aftarlega og í Mónakó. Lagði hann af stað af 19. rásstað.

Mercedes náði sögulegum áfanga í Mónakó. Þriðja mótið í röð vann ökuþór með sama mótor í bílnum í þeim öllum sigur. Þá fór samanlagður stigafjöldi Mercedes í sögu formúlu-1 upp fyrir 1.500.

Flest stig mótorsmiða hefur Ford/Cosworth hlotið, eða 4336,5. Í öðru sæti er Ferrari með 4117,5 og Renault er í þriðja sæti með 2861,5. Síðan kemur Honda með 1587,5 og  Mercedes er í fimmta sæti með 1506 stig.

Aukinheldur var þetta þriðja árið í röð sem bíll knúinn Mercedesmótor verður fyrstur í Mónakó. Í fyrra og hitteðfyrra hrósaði McLaren sigri.

Þar sem aldrei þurfti að senda öryggisbíl út í brautina var þetta næst stysti  kappakstur í Mónakó þegar um er að ræða fulla keppnislengd. Og sá þriðji stysti ef öll mót eru meðtalin, líka þau sem stöðva varð keppni áður en yfir lauk.

Stysti kappaksturinn átti sér stað árið 1984 er Alain Prost hjá McLaren vann. Keppnin var stöðvuð eftir 31 hring af 77 og hafði þá staðið yfir í 1:01.07,740 klst.

Næst minnsta tímann tók kappaksturinn fyrir tveimur árum, er Fernando Alonso hjá McLaren sigraði. Ók hann fulla vegalengd og var 1:40.29,329 klst með hringa 78. Tími Buttons á sunnudag var 15 sekúndum lakari, eða 1:40.44,282 klst.

Meðalhraði Alonso var 155,551 km/klst en 155,166 hjá Button.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þetta er alveg meiriháttar góð samantekt.  Haðu bestu þakkir fyrir.

Jóhann Elíasson, 26.5.2009 kl. 10:43

2 Smámynd: Einar Indriðason

Skemmtilegar svona tölfræðipælingar :-)

Og örugglega hægt að telja þær enn fleiri upp.

Einar Indriðason, 26.5.2009 kl. 11:39

3 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Þakka ykkur fyrir jákvæð og hvetjandi ummæli, Jóhann og Einar. Að samanburði af þessu tagi hef ég mjög gaman.

Ágúst Ásgeirsson, 26.5.2009 kl. 12:20

4 Smámynd: Einar Steinsson

Vantar ekki í fjórðu málsgrein: "Button er jafnframt fyrsti BRESKI ökuþórinn til að...."?

Það er alltaf gaman að svona tölfræði, þú mátt gjarnan koma með meira af henni.

Einar Steinsson, 27.5.2009 kl. 16:47

5 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Laukrétt hjá þér, Einar. Þarna hefur einhver lapsus átt sér stað. Þakka kærlega fyrir ábendinguna. Ég mun reyna verða við áskorun þinni um meira af svona löguðu.

Ágúst Ásgeirsson, 28.5.2009 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband