Einstök braut og ófyrirsjáanleg

Mónakókappaksturinn fer fram um helgina á einstakri braut í furstadæminu á suðurströnd Frakklands. Í huga verkfræðinga liðanna snýst dæmið þar sem endranær um að fínstilla keppnisbílana svo þeir verði sem skilvirkastir á kröfuhörðu og bugðóttu gatnakerfi Mónakó.

Uppsetning bílanna er frábrugðin því sem er í öðrum brautum. Veggrip er afar lítið á fyrstu æfingum en batnar eftir því sem á helgina líður, allt fram á síðasta hring kappakstursins. Á venjulegum bílum virðast göturnar í Mónakó sléttar sem borðfjöl en á formúlubílum með ofurstífar fjaðrir skoppa þeir á aragrúa af ójöfnum hringinn út í gegn.

Vegna breytilegs yfirborðs er 5-7 millimetrum hærra undir bílana en á hefðbundnum kappakstursbrautum. Til að hámarka veggrip er fjöðrunin höfð mýkri en venjulega. Það hjálpar til í glímunni við ójöfnur og breytilegan veghalla. Í sama skyni er slakað á jafnvægisstöngum. Allt til að bíllinn verði sem hlutlausastur og svo meðfærilegur að ökumaðurinn hafi óskorað sjálfstraust á hringnum. Mæðir meira á honum í þessari braut en öðrum og ekki má einbeitingin dvína eitt sekúndubrot, þá er voðinn vís.

Krappasta beygjan

Hvergi er meiri þörf fyrir mikla vængpressu en í Mónakó, sérstaklega svo bílarnir séu stöðugir á bremsu- og hröðunarsvæðum. Hún kemur að litlu gagni í beygjunum sakir þess hversu hægar þær eru, þar ræður vélrænt grip meiru. Bremsum er harðast beitt er bílarnir koma úr undirgöngunum, þar lækkar hraðinn úr 300 km í 70 km á nokkrum sekúndum og gefst þar einna helst tækifæri til framúraksturs.

Hárnálarbeygjan undir Grand hótelinu er sú krappasta og hægasta á vertíðinni, tekin á undir 50 km. Rascasse-hornið er einnig afar krappt og ferðin þar lítil. Því þarf beygjuvinkill bílanna að vera mun meiri í Mónakó en venjulega, allt að tvöfalt meiri en í öðrum brautum, til dæmis Barcelona. Af þessum sökum er framfjöðrun bílanna sérsmíðuð fyrir Mónakóbrautina og ekki notuð annars staðar.

Þar sem bensíngjöf er í botni aðeins 45 prósent hringsins mætti halda að álag á bílana væri ekki mikið í Mónakó. Það er öðru nær því bungótt brautin skapar mikla hættu á yfirsnúningi í mótornum þegar dekkin missa festu og lyftast frá brautinni. Hlýðinn mótor og góð rásfesta á lágum snúningi er því lykilatriði í brautinni.

Tvöfaldur sigur

Mjög algengt er að öryggisbíll sé kallaður út í brautina í Mónakó. Tveggja stoppa keppnisáætlun hefur verið þar ráðandi, en litlu munaði að Felipe Massa hjá Ferrari ynni sigur í fyrra með aðeins eins stopps áætlun.

Brawnliðið baðar sig enn í frægðarljóma tvöfalds sigurs í síðasta kappakstri, í Barcelona fyrir hálfum mánuði. Og þótt liðsmenn geri sér miklar vonir í Mónakó um helgina vita þeir að hina einstöku aðstæður þar eru þess eðlis að ekki er á vísan að róa.

„Venjulega er akstursstíll minn mjög mjúkur en ég verð að breyta út af því til að ná sem bestu úr bílnum hérna,“ segir Jenson Button. „Maður verður að vera ágengur og sókndjarfur og ekki láta hræðast af grindverkinu en sýna því þó virðingu.

Maður verður alltaf að halda óskoraðri einbeitingu og nákvæmni, slík er áskorunin á hringnum,“ bætir Button við. Félagi hans Rubens Barrichello keppir í 17. sinn í Mónakó um helgina en segir aðdráttarafl hennar aldrei hafa minnkað í huga sér á þeim tíma. Hann segir brautina þá erfiðustu á árinu. Og spáir mikilli samkeppni vegna þess hversu jafnir bílar margra liða séu.

Áhætta borgar sig

Hvergi skiptir árangur í tímatökum jafnmiklu og í Mónakó. Möguleikar á sigri standa og falla oftast með góðri rásstöðu og velheppnaðri ræsingu því illkleift er að taka fram úr í brautinni, nema í þjónustustoppum.

Eitt er víst, að alltaf er erfitt að spá fyrirfram um gang mála í Mónakó og vegna aðstæðna allra er álagið því mikið á stjórnborðum og tækniherbergjum á athafnasvæðum liðanna. Smávægileg tæknileg mistök á æfingu eða tímatökum geta haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir keppnina.

Það eykur á bjartsýni liðsmanna Brawn, að keppnisbíllinn hefur reynst mjög góður í hægum beygjum. Hvorki Button né Barrichello hafa unnið sigur í Mónakó en báðir komist á verðlaunapall. Takmark beggja er að komast á efsta þrep hans á sunnudag. Sá fyrrnefndi segist standa vel að vígi eftir að hafa unnið fjögur af síðustu fimm mótum. Keppnin verði þó hörð í Mónakó, greinilega hafi sést í Barcelona að farið sé að draga saman með liðum.

Mjög algengt er að öryggisbíll sé kallaður út í brautina í Mónakó. Tveggja stoppa keppnisáætlun hefur verið þar ráðandi, en minnstu munaði að Felipe Massa hjá Ferrari ynni sigur í fyrra með aðeins eins stopps áætlun. Búast má við frumleika í herfræði liða um helgina og áhætta í því efni hefur oft borgað sig.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband