Mosley helsta vandamálið?

Grein er í lögum Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) fjallar um hvað gera skuli við lið og einstaklinga sem að mati sambandsins koma óorði á formúlu-1. Henni hefur verið hiklaust beitt í seinni tíð. Spurning er hvort ekki sé tími til kominn að henni verði beitt gegn forseta sambandsins, Max Mosley.

Mér hefur kannski verið uppsigað við Mosley, ekki síst eftir að í hámæli komst um heimsókn hans til hóruhóps í London í fyrra. Það varð að stórmáli í fjölmiðlum um heim allan og beindi óæskilegu ljósi að íþróttinni. Ekki síst þegar þess var beinlínis óskað að hann léti ekki sjá sig í nokkrum ríkjum þar sem keppt var í kjölfarið.

Auðvitað einkamál Mosley en formúlan galt þessa engu að síður - og gerir enn.

Í millitíðinni er eins og hann hafi skipt um ham. Í stað þess að stjórna FIA og málefnum formúlunnar í góðu samkomulagi við keppnisliðin og aðra hagsmunaaðila hefur hann farið fram með valdboði sem minnir helst á einræðisherra. Deilt og drottnað. Ógnað og hótað hörðu fremur en að lempa andóf með lagni og málamiðlunum. Virt góða og áratugalanga stjórnunarhætti að vettugi og farið sínu fram með illu.

Nú er svo komið að flestum keppnisliðum formúlunnar blöskrar yfirgangsemin og drottnunin. Hvert af öðru hótar því að snúa baki við formúlu-1 í vertíðarlok. Tók steininn úr í gær, er Ferrari sagðist að óbreyttu myndu snúa sér að annars konar kappakstri og hætta í formúlunni. Í íþróttinni sem það hefur, eitt keppnisliða, verið með frá upphafi.

Í mínum huga er það ekkert álitamál, að með því að stofna til þessarar þrætu við liðin hefur Mosley kveikt afar neikvæða umræðu og kallað nýja erfiðleika yfir formúluna. Komið íþróttinni út í hálfgert fúafen. Svo er komið, að hann sjálfur virðist eitt helsta vandamál formúlu-1. Því segi ég að það ætti að beita reglunni á hann sjálfan. Henni var síðast  beitt fyrir hálfum mánuði, til að refsa Lewis Hamilton og McLaren með þriggja móta skilorðsbundnu keppnisbanni í eitt ár fyrir að villa um fyrir dómurum kappakstursins í Melbourne. Var sú refsing til viðbótar því að árangur Hamiltons í viðkomandi móti var strikaður út.

Allar þessar þrætur - ekki síst sú nýjasta sem Mosley á stærsta ef ekki alla sök á - er til skaða. Eflaust bitna þær á vinsældum formúlunnar og áhuga á henni. Væri ekki nær að vinna saman og þá fyrst og fremst reyna að reisa vinsældir íþróttarinnar við. Ljóst er til dæmis að aðsókn af mótunum sem lokið er hefur verið miklu minni en undanfarin ár. Þannig voru áhorfendur í Barcelona 42% færri en í fyrra.

Það er eitthvað sem Mosley ætti að hafa meiri áhyggjur af og reyna að sporna við. Hann sér eflaust andspyrnu liðanna sem ógn við embætti hans og sjálfstæði FIA. Skítt með það, segi ég. Snúi almenningur baki við formúlunni kemst FIA fyrst í djúpan skít, ef svo smekklega mætti orða það! Ég er hræddur um að það hrjái Mosley sem vill gjarnan verða um menn sem sitja of lengi á valdastóli, að þeir halda að þeir sjálfir séu mikilvægari en keppnisliðin, íþróttin og unnendur hennar. Án áhorfenda við sjónvarpstæki og í vallarstúkum deyr formúlan. 

Það gerist vonandi aldrei.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband