Fimmtudagur, 26. mars 2009
Súr byrjun á annars og vonandi fjörlegri formúlutíð
Eins og eflaust margir unnendur formúlunnar aðrir hef ég beðið spenntur eftir vertíðarbyrjuninni. Nú er fjörið loks að byrja, en játa verð ég þó, að það eru viss vonbrigði að ballið byrji með leiðinda pústrum.
Þar á ég auðvitað við klögumálin útaf ætluðum ólöglegum svonefndum dreifi bíla Brawn GP, Toyota og Williams. Dómarar kappakstursins í Melbourne hafa eflaust komist að vel ígrundaðri og vandaðri niðurstöðu en meðal þeirra er Ólafur Guðmundsson, akstursíþróttafrömuðurinn ágæti sem margsinnis hefur dæmt í formúlu-1, formúlu-3000 og fleiri greinum alþjóðlegra akstursíþrótta.
Málið mun þó hanga yfir formúlunni um sinn því liðin sem kærðu hafa boðað áfrýjun til æðra dómstigs sem kveður upp hinsta dóm í því. Alveg óháð því hver niðurstaðan var og verður þá er ég sannfærður um að engar illar hvatir eru í málinu. Hvorki af hálfu kæruliðanna né hinna kærðu. Öll vilja þau ná árangri með heiðarlegum hætti og vera innan laga og regla. Þær eru hins vegar, eins og svo oft áður, því miður, teygjanlegar og með glufum sem gefa kost á mismunandi túlkun og útfærslu. Ekki er önnur leið til en fá dómsúrskurð um hið rétta.
Gallinn við þetta mál er sá, að ekki er til annar farvegur til að fá niðurstöðu í þrætur sem þessar. Í margar vikur hefur verið ágreiningur um dreifi bíla Toyota og Williams og um hálfan mánuð hafa menn haldið fram ólögmæti dreifis bíls Brawn GP. Um er að ræða hálfgerðan væng neðanvert á afturenda bílanna.
Kæruliðin, BMW, Ferrari, Renault og Red Bull, gátu hins vegar ekkert annað gert en beðið fram að bílskoðun í Melbourne til að fá úr því skorið hvort bílar liðanna þriggja teldust löglegir. Stæðust þeir skoðun dómaranna færi kærumálið fyrst af stað.
Ekki kann ég á það hvort finna megi nýtt ferli til að komast hjá klögumálum sem þessum. Eflaust er þar verk að vinna fyrir Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA). Vitað er að Toyota og Williams höfðu borið hönnun sína undir tæknistjóra FIA, Charlie Whiting, og fengið samþykki hans við hugmyndinni. Fyrir liggur hins vegar ekki hvort honum voru sýndar nákvæmar teikningar eða jafnvel dreifirinn sjálfur.
Þótt hann sé eflaust betur að sér en allir aðrir um lög og tæknireglur FIA sýna dæmin að það getur verið varasamt að leita álits hjá Whiting. Eða í það minnsta ósanngjarnt að setja hann í þá stöðu að gefa álit því þegar upp er staðið er lítið gagn í því.
Það fékk McLaren alla vega að reyna í fyrra er Whiting sagði liðinu ítrekað að Lewis Hamilton hefði komið sér hjá klandri með því að hleypa Kimi Räikkönen aftur fram úr sér eftir frægan en umdeildan framúrakstur í Spa í Belgíu í fyrra. Stjórnendur McLaren voru sjálfir á báðum áttum og gerðu sig klára til að láta Hamilton víkja aftur fyrir Räikkönen. Höfðu því símsamband að nýju við Whiting og þegar honum var ekki haggað treystu þeir dómi hans.
Eftirköstin urðu önnur því keppnisdómararnir töldu Hamilton hafa tekið of fljótt aftur fram úr Räikkönen og því hagnast á upprunalega atvikinu. Dæmdu hann niður um nokkur sæti, reyndar ekki fyrr en mörgum stundum eftir að keppni var lokið og Hamilton hafði tekið við sigurlaunum á verðlaunapalli.
Hvað sem þessu öllu líður, þá er bara að horfa fram á við og bíða eftir að vélarnar verði gangsettar og bílarnir bruni af stað. Það ætla ég að gera og ég trúi því, að keppnin verði jöfn og spennandi. Þetta hef ég reyndar haldið flest undanfarin ár og ekki hefur alltaf farið þann veg.
Mér finnst þó bílprófanir undanfarinna vikna benda til meiri keppni nú og að fleiri lið komi við sögu. Ferrari og McLaren verða ekki eins drottnandi í toppslagnum, það vona ég allavega. Nærtækast er að nefna Brawn-liðið og þann eldingarhraða sem bílar þess hafa sýnt. Toyota er greinilega mun samkeppnisfærari en áður. Reikna verður einnig með BMW og síðan hef ég einhverja tröllatrú á Renault. Þá hafa Red Bull bílarnir reynst kvikir og Williams einnig á stundum.
Þar með hef ég nefnt átta lið af 10. Mér kæmi á óvart ef hin tvö tækju þátt í toppslag, Toro Rosso og Force India. En skyldi fyrrnefnda liðinu takast að skjóta toppliðunum skelk í bringu á stundum? Eins og í fyrra? Ekki hefði ég neitt á móti því!
Athugasemdir
Komdu fagnandi Ágúst og gleðilegt ár, loksins ertu kominn aftur þetta verður skemmtileg formúluvertíð því ég er alveg á sama máli það eru mun fleiri lið sem landa sér í toppslaginn. Þó að ég sé gallharður Ferrari aðdáandi held ég að Alonso verði skæðasti keppandinn og það kæmi mér ekki á óvart að hann hampaði titlinum í lokin ég er hræddur um að Brawn-liðið sé ekki orðið nógu og stöðugt en þeir eiga eftir að velgja stóru liðunum undir uggum í einu og einu móti.
Jóhann Elíasson, 26.3.2009 kl. 23:04
Þakka góðar mótttökur, Jóhann, sömuleiðis velkominn. Jæja, finnst þér ekki æfingarnar í morgun benda til að miklar breytingar hafi átt sér stað milli ára? Ég held að Ferrari standi alltaf fyrir sínu og Kimi lét að sér kveða á fyrri æfingunni. Mér finnst frammistaða Williams sérstaklega athyglisverð. Samt verður maður að bíða sunnudagsins til að fá réttustu myndina á stöðuna.
Ágúst Ásgeirsson, 27.3.2009 kl. 08:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.