Mánudagur, 8. desember 2008
Sigla fleiri lið sama sjó og Honda?
FIA-forsetinn Max Mosley tók þannig til orða eftir fall Honda í síðustu viku, að hann gruni að annað lið til viðbótar sigli í strand áður en keppnishald hefst á nýju ári.
Getur verið að fleiri bílafyrirtæki séu í slíkum vanda vegna hruns í bílasölu að þau munu kippa að sér höndum og hverfa úr formúlunni? Toyota er hið eina þeirra sem sagst hefur ætla halda áfram. Og það þrátt fyrir mikinn samdrátt í bílasölu þess, ekki síst í Bandaríkjunum.
En hvað með Mercedes Benz, Renault, BMW, Fiat og Ferrari? Öll hafa þau neyðst til að draga saman framleiðslu, loka verksmiðjum tímabundið, og stokka upp starfsemi sína. Annars vegar vegna hruns í bílasölu á árinu og hins vegar vegna breytts kaupamunsturs.
Getur verið að eitthvert þessara fyrirtækja falli úr leik? Vonandi ekki.
Og hvað með sjálfstæðu liðin, þau sem ekki hafa öflug bílafyrirtæki á bak við sig? Lið eins og Red Bull (sem á líka og rekur Toro Rosso), Force India og Williams?
Hvað ætli framkvæmdastjóri Williamsliðsins, Adam Parr, eigi við þegar hann segir við breska blaðið The Times um helgina, að hann geri aðeins ráð fyrir því að átta lið verði á rásmarkinu í Melbourne í byrjun mars nk?
Bendir það til einhverra vandræða hjá Williams? Þessu gamalgróna afreksliðið sem má muna sinn fífil fegurri en á allra síðustu árum.
Fer Red Bull næst?
Eins og framan segir ætlar Toyota að troða elginn en aftur á móti gætir vissra efasemda um helgun austurríska drykkjarfyrirtækisins Red Bull. Í yfirlýsingu í framhaldi af útgöngu Honda sagði fyrirtækið ákvörðun japanska bílafyrirtækisins ekki koma á óvart.
Og það sem stingur enn frekar, er að talsmaður fyrirtækisins sagði við frönsku fréttastofuna AFP, að fjöldi annarra keppnisliða sé með svipaðar ráðstafanir í skoðun.
Aðal atriðið núna er hvort kostnaðarsamdráttur náist nógu fljótt til að tryggja tilverugrundvöll nógu margra liða, sagði fyrirtækið einnig. Með öðrum orðum, frekari þátttaka Red Bull í formúlu-1 virðist krufin til mergjar um þessar mundir.
Hondaliðið er til sölu en finnist ekki kaupandi fyrir febrúarlok leggur það upp laupana og verður ekki með á næsta ári. Talið er víst að Red Bull bjóði alla vega Toro Rosso til kaups. Hvað gerist ef kaupandi finnst ekki? Eiga Mosley og Parr við að austurríska drykkjarfyrirtækið dragi annað liða sinna úr leik?
Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu en ég tel að formúlan megi ekki við frekari áföllum.
Athugasemdir
Ég er nú eiginlega á því að gengi Honda-liðsins, undanfarin ár, hafi átt stærstan þátt í þessari ákvörðun. Honda-liðið hefur engan veginn náð að standa undir væntingum. En vissulega setur að manni ugg með framhaldið og þá sérstaklega "minni" liðin þó svo að munurinn sé ekki mikill, þá eru sum liðin aldrei virkilega að keppa nema um það að vera ekki í neðsta sæti. Ég er á því að kröfurnar um árangur muni aukast.
Jóhann Elíasson, 8.12.2008 kl. 18:03
Sæll Ágúst, ég var að rýna bloggið hjá mér og sá þá að ég hafði ekki skoðað athugasemd þína við bloggi sem ég skrifaði um frétt sem þú gerðir undir fyrirsögninni "Alonso segir „heppnissigur“ vera verðskuldaðan" og viðurkenni ég að ég lét tilfinningar ráða eftir að hafa lesið eingöngu fyrirsögninni. Þó seint komi þá vil ég biðja þig afsökunar á því hvernig ég setti fram bloggið og það sem er þar skrifað á ekkert skylt við hvernig blaðamaður þú ert gagnvart formúlunni. Ég tel þig vera einn sá besta sem við eigum til að fjalla um þessa íþrótt og alltaf haft mikla virðingu fyrir þínum skrifum.
Óli Sveinbjörnss, 30.12.2008 kl. 13:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.