Hamilton yrði yngsti meistari sögunnar

Þriðja árið í röð ræðst keppnin um heimsmeistaratitil ökuþóra í lokamóti vertíðarinnar sem fram fer um helgina í Sao Paulo í Brasilíu. Er það í 25. sinn í 59 ára sögu formúlu-1 að úrslit ráðast í lokamóti. Lewis Hamilton hjá McLaren er með a.m.k. aðra höndina á titlinum eftir drottnun í kínverska kappakstrinum á dögunum. Er með sjö stiga forskot á Felipe Massa hjá Ferrari. Vinni Massa lokamótið, sem fram fer í heimaborg hans, dugar Hamilton fimmta sæti til að vinna titilinn.

Hamilton var með sama forskot í titilkeppninni fyrir lokamótið í fyrra en klúðraði kappakstrinum með þeim afleiðingum að Kimi Räikkönen hjá Ferrari vann bæði mótið og titilinn. Eflaust hefur Bretinn ungi lært af reynslunni og gengur með öðru hugarfari til leiks nú. Og þar við bætist að McLaren-bíllinn hefur reynst mun betri og hraðskreiðari en Ferrari-fákurinn í undanförnum mótum.

Þótt Massa muni njóta stuðnings um 100.000 áhorfenda í Sao Paulo mæðir mikið á honum. Þeir binda vonir við að hann verði fyrsti brasilíski heimsmeistarinn frá því goðsögnin Ayrton Senna var og hét fyrir 17 árum. Til að eiga möguleika á titlinum verður Massa að sigra. Í síðasta móti var liðsfélagi hans Kimi Räikkönen mun öflugri og hraðskreiðari en hægði ferðina og hleypti Massa fram úr sem varð til þess að forskot Hamiltons er sjö stig en ekki níu.

Óvæntir hlutir

Massa segist mæta fullur eldmóðs til leiks í Sao Paulo og enginn uppgjafartónn er í tali hans. „Ég er mjög bjartsýnn og það erum við öll í liðinu, þurfum að vera það. Maður gerir venjulega alltaf betur á heimavelli. Ég á góðar minningar frá mótinu síðustu tvö árin, og vonandi verður hið sama uppi á teningnum nú,“ segir hann.

Massa varð í fyrsta sæti í hittiðfyrra og öðru sæti í fyrra í Sao Paulo. Þá ók hann Sauber-bíl til fjórða sætis í tímatökunum 2004. Hann er bjartsýnn á að gæfan verði með honum á heimavelli og að óvæntir hlutir gerist.

Til að Hamilton verði af titli þarf McLaren-bíllinn að bila eða hann gera afdrifarík mistök undir pressu. Síðasti heimsmeistari Breta, Damon Hill segir Hamilton nógu agaðan til að takast á við allt álag í lokauppgjörinu í Sao Paulo.

Hill vann titilinn 1996 og býst ekki við mistökum af Hamilton, segir hann hafa þroskast það mikið frá í fyrra. „Síðasta mótið er eins og erfið fjallganga en hann skilur hvaða ögun hann þarf að beita sig til að komast í gegnum það,“ sagði Hill við breska útvarpið, BBC.

Hamilton er 23 ára og verður yngsti heimsmeistari sögunnar hampi hann titlinum eftir mótið í Sao Paulo. Yngsti meistarinn til þessa er Fernando Alonso hjá Renault sem varð meistari 2005 og 2006, en þeir voru liðsfélagar í fyrra hjá McLaren. Alonso varða meistari 24 ára, eins mánaðar og 27 daga gamall. Hamilton verður níu mánuðum og 28 dögum yngri á sunnudag, en hann er fæddur 7. janúar 1985.

Með nýjan mótor

Michael Schumacher, annar fyrrverandi meistari, telur einnig að Hamilton hafi farið mjög fram frá í fyrra. „Ég hef mikið álit á honum og það sem hann hefur afrekað á stuttum tíma er ótrúlegt. Það talar sínu máli að hann var oft hraðskreiðari en Alonso í fyrra,“ sagði Schumacher við BBC.

Hamilton og Massa ganga ekki alveg jafnir til leiks að því leyti að sami mótor verður í bíl þess fyrrnefnda og í síðasta móti, en Massa fær nýjan mótor. Vélar McLaren hafa almennt reynst traustar og engin slík bilað í bíl Hamiltons í ár. Liðsfélagi hans Heikki Kovalainen hefur aðra sögu að segja, mótor sprakk hjá honum í kappakstrinum í Japan fyrir tæpum þremur vikum og í Kína viku seinna varð hann að hætta keppni vegna drifrásarbilunar af völdum bilunar í vökvakerfi bílsins.

Spurningin er því hvort mótor Hamiltons sé óburðugri eftir álagið á keppnishelginni í Kína. Massa fær nýjan mótor sem þarf aðeins að endast eitt mót. Það gefur honum möguleika á að reyna meira á hann en ella og taka út úr honum mun meira afl. Að því leyti gæti hann reynst Hamilton öflugri í Sao Paulo. Víst er að lokauppgjörs þeirra er víða beðið með eftirvæntingu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband