Alonso vill ná þrennunni

Óvænt hafa Fernando Alonso og Renault fagnað sigri í tveimur síðustu mótum Formúlu 1. Eftir fyrstu mót vertíðarinnar hefur líklega fæsta órað fyrir að slíkt gæti gerst í ár. Mikið vill meira og segist Alonso nokkuð viss um að hann geti unnið Kínakappaksturinn í Sjanghæ um helgina.

Alonso hefur komið sjálfum sér mjög á óvart með árangrinum en segist nú enga ástæðu sjá til annars en hann geti unnið þriðja mótið í röð.

„Miðað við Ferrari og McLaren var geta okkar býsna góð. Fæ því á tilfinninguna að allt sé mögulegt um helgina, pallsæti eða sigur. Liðið allt er þrútið af sóknarvilja eftir sigur okkar í Singapúr og Fuji. Og við munum gera allt til þess að standa okkur vel hér,“ sagði Alonso í Sjanghæ, en þar fer Kínakappaksturinn fram um helgina.

Hann varð heimsmeistari ökumanna með Renault 2005 og 2006 og segist ætíð hafa notið keppni í Sjanghæ-brautinni. „Ég get vart beðið þess að setjast aftur í bílinn því brautin er það skemmtileg. Hún felur í sér marga áhugaverða áskorunina, bæði fyrir ökumann og tæknimenn. Í henni er að finna langa beina kafla, háhraðabeygjur og einnig nokkrar hægar.

Dæmið snýst því um að finna hinn gullna milliveg í uppsetningu bílsins svo í honum verði gott jafnvægi í beygjum og nægileg vængpressa en hraði á beinum köflum samt það mikill að hann dugi til að verja stöðu eða taka fram úr keppinaut. Að því munum við einbeita okkur á föstudeginum, að finna heppilega uppsetningu,“ sagði Alonso.

Tæknistjórinn Bob Bell segir að Renaultliðið hafi í ljósi tveggja sigra í röð efni á að tefla djarft í Kína. „Við höfum hingað til staðið okkur vel í Kína og ég er viss um að við getum einnig verið öflugir um helgina.“

Renault hefur náð 16 stiga forskoti á Toyota í keppninni um fjórða sætið í stigakeppni bílsmiða, 66:50.

Kastljósið á Hamilton og Massa

Burtséð frá því hvernig Alonso og Renault vegnar mun kastljósið í Sjanghæ beinast að Lewis Hamilton hjá McLaren og Felipe Massa hjá Ferrari, sem eiga í tvísýnni rimmu um heimsmeistaratitil ökuþóra. Massa minnkaði forskot Hamiltons um tvö stig í Fuji um síðustu helgi, 84:79. Báðum gekk þar illa og Hamilton vann ekki stig. Robert Kubica hjá BMW varð annar í Japan og blandar sér á ný í titilslaginn, er 12 stigum á eftir Hamilton fyrir lokamótin tvö.

Hamilton stefndi til sigurs í titilkeppninni í fyrra og framan af keppninni í Sjanghæ, einnig næstsíðasta móti vertíðarinnar, virtist hann ætla landa titlinum þar. Liðið gerði afdrifarík taktísk mistök við dekkjanotkun svo hann féll úr leik. Hamilton segir það hafa verið martröð sem McLaren-menn ætli ekki að láta endurtaka sig nú. Massa varð þriðji í fyrra og segist ætla ofar nú, enda ekki um annað að ræða til að titilvonirnar lifi alla vega fram í heimakappakstur hans og lokamót vertíðarinnar, í Brasilíu í byrjun nóvember.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég verð að viðurkenna að ég átti nú ekki von á þessu, sérstaklega vegna þess að bíllinn hefur ekki verið samkeppnishæfur við toppbílana til þessa, en þetta undirstrikar það að Alonso er afburðaökuþór og virðist hafa góð áhrif á liðið.

Jóhann Elíasson, 17.10.2008 kl. 12:01

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Sammála því, bíllinn var ekki beysinn lengi vel og því kemur árangurinn á óvart. Það verður fróðlegt á sjá hvort hann verði í toppslagnum í Kína. Er ekki staðan í titilslagnum þannig að allavega Massa og Hamilton verða laufléttir í tímatökunum til að reyna komast á ráspól. Svo er hlaupinn einhver stríðnispúki í Alonso vegna stöðunnar og hann reynir áreiðanlega vera sem fremstur líka.


Ágúst Ásgeirsson, 17.10.2008 kl. 15:53

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þó ég kunni alls ekki við Alonso, sem persónu, þá getur enginn borið á móti því að hann er einhver besti ökumaður formúlunnar í dag og þó hann sé ekki minn maður þá vona ég innst inni að hann vinni í Kína og galopni þar með keppnina um titilinn.

Jóhann Elíasson, 17.10.2008 kl. 16:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband