Föstudagur, 10. október 2008
Hamilton ekur upp á stigin
Lewis Hamilton hjá McLaren segist vera að sættast við þá hugsun, að ganga til leiks í lokamótunum þremur í formúlu-1 þann veg, að reyna hámarka möguleika sína í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra með því að halda sig frá vandræðum og aka fremur upp á örugg stig en hætta öllu með því að keppa til sigurs.
Hamilton mætir til leiks í Fuji í Japan um helgina með sjö stiga forystu á Felipe Massa hjá Ferrari í titilkeppninni. Ég hata að keppa upp á stig, en sú aðferðafræði getur skilað mestu, segir Hamilton sem varð þriðji í Singapúr fyrir hálfum mánuði, en þar fékk Massa engin stig.
Hann gerði engar tilraunir til að bæta enn frekar forskotið með því að reyna framúrakstur í Singapúr þótt á hraðskreiðari bíl væri. Tók enga áhættu í ljósi stöðu Massa og sætti sig fremur við þriðja sætið. Þáði örugg sex stig fremur en hætta öllu til þess að bæta hugsanlega tveimur við. Jók hann þar forystu sína úr einu stigi í sjö þar sem Massa hlaut ekki stig.
Ég held Singapúr hafi í raun verið góður skóli, segir Hamilton sem hélt a.m.k. tvisvar aftur af sér er hann var í færi við keppinauta. Vegna hinna óvenjulegu kringumstæðna var minni þörf á að sigra og ég fór sjálfkrafa að hugsa um titilinn, segir hann einnig.
Þessi aðferðarfræði Hamiltons og McLarenliðsins á rætur að rekja til mistaka er kostuðu liðið titilinn í fyrra. Hamilton hafði hann nánast í hendi sér en titillinn rann honum úr greipum er hann ók of djarft til sigurs og féll úr leik í næstsíðasta móti, í Kína. Einbeitti hann sér jafnframt meira að því þá að leggja liðsfélaga sinn Fernando Alonso.
Hefði hann einfaldlega látið Alonso eiga sig og einbeitt sér fremur að því að keyra af öryggi til þriðja sætis í Kína hefði Hamilton orðið heimsmeistari. Í stað mistakanna vann Kimi Räikkönen titilinn í lokamótinu, í Brazilíu, er gírkassabilun varð til þess að Hamilton varð að hefja keppni ári aftarlega.
Útlit er fyrir að þurrkur verði í Fuji um helgina og fagnar Hamilton því þótt hann hafi staðið sig einkar vel í rigningu í ár. Ég vil að áhorfendur geti átt góða og eftirminnilega helgi, segir hann.
Massa hefur hvatt Ferrariliðið til að ganga með jákveðni til móts við kappaksturinn í Fuji.
Hann virtist ætla aka til öruggs sigur í Fuji er þjónustuhlé hans klúðraðist. Var honum gefið merki um að halda af stað áður en bensínsáfyllingu var lokið. Reif hann slönguna með sér og varð að stoppa neðar í reininni svo hægt væri að taka hana af bílnum. Þar fór mikilvægur tími forgörðum. Hlaut hann svo akstursvíti í ofanálag og endaði í 13. sæti.
Mottóið það sem eftir er vertíðar er að horfa fram á veginn og gefast ekki upp. Við verðum að reyna vinna tvöfalt í mótunum sem eftir eru. Það verður erfitt en við leggjum allir allt í sölurnar, segir Massa um lokamótin.
Forseti Ferrari, Luca di Montezemolo, hefur lýst því yfir að hann ætlist til að Räikkönen hjálpi Massa í titilslagnum í lokamótunum, jafnvel þótt hann eigi sjálfur enn stærðfræðilega möguleika á titlinum.
Veður getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í Fuji, ekki síst úrkoma eins og í fyrra. Rigndi alla helgina og er ekki hægt að útiloka úrkomu í ár einhvern mótsdagana. Þá varð Heikki Kovalainen hjá Renault annar, komst í fyrsta sinn á pall á ferlinum og vann eina verðlaunasæti Renault á árinu.
Keppt var í formúlu-1 í Fuji árin 1976 og 1977 en síðan í Suzuka þar til mótið sneri aftur til Fuji í fyrra.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.