Mánudagur, 29. september 2008
Kappakstur sem fer í annála
Kappaksturinn í Singapúr fer í annála fyrir margra hluta sakir. Meðal annars sló Nick Heidfeld met í eigu Michaels Schumacher. Og fyrstu næturkeppninnar, 800. móts sögunnar í formúlu-1, verður líklega fyrst og fremst minnst vegna óvænts sigurs Fernando Alonso hjá Renault mannsins sem tekist hefur að breyta hálfgerðri druslu í dágóðan bíl á vertíðinni.
Alonso var óvænt hraðskreiðastur á annarri og þriðju æfingu mótshelgarinnar og væntingar Renault voru miklar. Tímatökurnar voru liðinu hins vegar reiðarslag. Bilun í bensíndælu varð þess valdandi að í stað þess að hefja keppni af fremstu rásröð eða þar um bil hafnaði Alonso á 15. rásstað.
Viðbrögð hans í svekkelsinu voru þau að kappaksturinn væri búinn hvað möguleika á toppsæti áhrærði. En í gær kom svo í ljós, sem svo oft áður, að formúlan er óútreiknanleg. Hann valdi djarfa þriggja stoppa keppnisáætlun í þeirri von að geta klifrað upp eftir bílaröðinni. Rétt eftir fyrsta stoppið var svo öryggisbíll kallaður út í brautina sem gjörbreytti stöðu mála og skyndilega og óvænt var hann í aðstöðu til að keppa um toppsæti.
Því boði tók hann þakksamlega og ók til sigurs, eins og fyrrum heimsmeistara sæmdi. Fyrsti sigur hans í eitt ár, eða frá í Monzaí fyrra, hinn tuttugasti á ferlinum sem spannar 118 mót. Hefur Alonso nú unnið jafn mörg mót og Mika Häkkinen en þeir eru í 11.-12. sæti yfir sigursælustu ökumenn sögunnar.
Alonso stóð jafnframt í 50. skipti á verðlaunapalli í formúlu-1 en Häkkinen stóð þar einu sinni oftar.
Fyrsti kappaksturinn sem vinnst af 15. rásstað
Og þetta mun vera í fyrsta sinn í sögunni sem formúlukappakstur vinnst frá 15. rásstað. Aðeins sjö sinnum hefur mót unnist af ökuþór sem ræst hefur aftar.
Jackie Stewart hóf keppni í 16. sæti er hann ók til sigurs á Tyrrell í Suður-Afríku árið 1973. Schumacher vann sömuleiðis á Benettonbíl af sama rásstað í Spa-Francorchamps 1995. John Watson ók til sigurs í kappakstrinum í Detroit1982 af 17. rásstað. Úr sama sæti vann Kimi Räikkönen, einnig á McLaren, í Suzuka fyrir þremur árum. Einu sæti aftar, því átjánda á rásmarki, var Rubens Barrichello er hann ók til sigurs í Hockenheim árið 2000. Bill Vukovich hrósaði sigri í Indianapolis1954 á Kurtis Kraft-bíl eftir að hafa lagt upp af 19. rásstað. Loks hóf fyrrnefndur John Watson keppni í 22. sæti á McLarenbíl í Long Beach árið 1983. Það aftraði Íranum ekki því hann stóð að lokum uppi sem sigurvegari. Aftasta sæti sem kappakstur hefur ekki enn unnist úr er hið tuttugasta, en aftar en það hefur enginn bíll keppni nú til dags þar sem aðeins 10 lið taka þátt um þessar mundir. Flaggað hjá Renault Af augljósum ástæðum er Alonso fyrsti ökumaðurinn til að vinna formúlukappakstur í Singapúr. Hann er jafnframt sjöundi ökuþórinn til að vinna mótssigur í ár í 15 mótum. Renault vann nú sinn fyrsta mótssigur frá í japanska kappakstrinum 2006, en þar var Alonso einnig að verki. Þrír fánar voru dregnir að húni við höfuðstöðvar liðsins í Viry-Chatillon suður af París í morgun; sá franski, spænski og gunnfáni Renault. Þar var létt yfir starfsmönnum í dag. Nico Rosberg hjá Williams komst í annað sinn á ferlinum á verðlaunapall með öðru sæti, en hann varð þriðji í fyrsta mótinu í ár, í Melbourne. Í fyrsta sinn á ferlinum hafði hann um skeið forystu í kappakstrinum. Er 158. ökuþór sögunnar til að komast í þá aðstöðu.Räikkönen jafnar aftur met Scuhmachers Kimi Räikkönen bætti hraðasta mótshring í safn sitt og eru þeir orðnir 35 á ferlinum. Þar af sá tíundi í ár. Jafnaði með því met Michaels Schumacher frá 2004 fyrir mesta fjölda hröðustu hringja á einni vertíð. Það jafnaði Räikkönen einnig árið 2005 og hefur þrjú mót eftir í ár til að eignast metið alveg sjálfur. Räikkönen vann einnig það afrek að vera utan stiga fjórða mótið í röð. Er það lengsta stigalausa mótarunan hans frá vertíðinni 2002. Það ár vann hann ekki stig sex mót í röð, eða frá Malasíu til Mónakó. Þá voru stig reyndar aðeins gefin fyrir fyrstu sex sæti, en ekki átta eins og nú. Ég hef nefnt, að sunnudagurinn 28. september væri svartur dagur í sögu Ferrari. Fyrir utan klúður í þjónustustoppi var þetta fyrsta mót ársins sem Ferrari fer frá án þess að hafa átt bíl í stigasæti.Með stigaleysinu í Singapúr lauk 46 móta kafla þar sem Ferrari hafði ætíð aflað stiga. Frá og með kappakstrinum í San Marínó 2008 og til þess ítalska í Monza fyrir hálfum mánuði höfðu ökumenn, annar eða báðir, komið í mark í stigasæti. Góð ending hjá BMW líka Til marks um góða endingu Ferrari í seinni tíð vann liðið stig í 55 mótum í röð frá í Malasíu 1999 til mótsins á sama stað 2003. Og liðið vann stig í 33 mótum í röð frá í San Marínó 2003 til Malasíu 2005. BMW-liðið vantar aðeins eitt mót á að jafna síðastnefndu striklotuna, en liðið hefur átt einn eða fleiri bíla í stigasæti frá í Melbourne í fyrra. Meðalaldur ökumanna á verðlaunapallinum í Singapúr í gær var sá fimmti lægsti í sögunni. Meðaltalsaldur Alonso, Rosberg og Lewis Hamilton er 24 ár og 19 dagar. Þetta þýðir að fjórir af fimm yngstu verðlaunapöllum sögunnar hafa orðið til í ár, í Monza, Hockenheim, Mónakó og Singapúr.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.