Mánudagur, 29. september 2008
Svartnætti hjá Ferrari
Það var ekki aðeins að titilvonir Kimi Räikkönen slokknuðu endanlega í myrkrinu í Singapúr. Heldur var þetta einnig fyrsta mót ársins sem Ferrari fer frá án þess að hafa átt bíl í stigasæti. Svartur dagur fyrir Ferrari, sagði liðsstjórinn Stefano Domenicali. Ætli megi ekki ganga út frá því sem vísu, að hann og hans menn fái það óþvegið frá ítölskum fjölmiðlum í dag.
Með stigaleysinu í Singapúr lýkur 46 móta kafla þar sem Ferrari hafði ætíð aflað stiga. Frá og með kappakstrinum í San Marínó 2008 og til þess ítalska í Monza fyrir hálfum mánuði höfðu ökumenn, annar eða báðir, komið í mark í stigasæti.
Hið sögulega mót varð að martröð fyrir Ferrari og ökumenn þess. Felipe Massa hóf keppni af ráspól og virtist eiga alla möguleika á að taka forystu í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna.
Í staðinn var hann fórnarlamb klúðurs í fyrsta þjónustustoppi sem leiddi til þess að hann er nú sjö stigum á eftir Lewis Hamilton hjá McLaren þegar þrjú mót eru eftir.
Klúðrið í þjónustustoppinu felldi Massa eiginlega úr fyrsta sæti niður í það síðasta.
Fjórða mótið í röð mistókst Räikkönen að vinna stig og vegna úrslita mótsins missti Ferrari forystuna í stigakeppni bílsmiða í hendur McLaren. Hefur hann ekki verið jafn mörg mót í röð án stiga frá árinu 2002. Þá hlaut hann ekki stig sex mót í röð, frá Malasíu til Mónakó, en á þeim tíma voru aðeins veitt stig fyrir sex fyrstu sæti, ekki átta eins og nú.
Räikkönen hafði sett hraðasta hring kappakstursins og var fimmti þegar óþolinmæðin bar hann ofurliði. Leitaði hann færis full djarflega gegn Timo Glock og féll vegna eigin mistaka á leið inn í beygju og skall á brautarvegg.
Vissulega má segja að útkall öryggisbíls hafi gjörbreytt kappakstrinum, hinum 800. í sögu formúlu-1. Við það getur Ferrari huggað sig. En ætli liðinu sé ekki hollt að taka upp gömlu aðferðina í þjónustustoppum og hafa mann með svonefndan sleikipinna til að gefa ökumanninum merki um hvenær hann megi setja í gír og aka síðan af stað.
Þetta fyrirkomulag hefur lengstum gefist vel. Ferrari taldi sig geta gert stoppin skilvirkari með sjálfvirkum sleppibúnaði, ef svo mætti segja. Þar er um að ræða rafeindabúnað sem tengdur er bensíndælunum og kveikir grænt ljós í mælaborði ökumannsins þegar áfyllingu er lokið.
Honum var handstýrt í gær vegna bílamergðar í bílskúrareininni og sá sem um hnappinn hélt ýtti aðeins of fljótt - mannleg mistök. Fyrir vikið rauk Massa af stað áður en slangan var laus frá bílnum og reif hana með sér.
Þá varð hin ótímabæra slepping til þess að hann skóp hættu með því að aka í veg fyrir bíl sem átti réttinn í reininni og var beittur akstursvíti af þeim sökum - aukaferð gegnum bílskúrareinina.
Sem sagt, kvöldkappaksturinn fyrsti varð að svartnætti fyrir Ferrari. Í stað ánægjulegra minninga frá mótinu sögulega fór liðið frá því með skottið milli fótanna.
Og þetta er ekki fyrsta klúður Ferrari í þjónustuhléum í ár með búnaðinum nýstárlega, heldur hið þriðja. Þjónustusveitarmaður fluttur slasaður á spítala í gær, og annar vélvirki er enn á sjúkrahúsi vegna meiðsla sem hann hlaut í misheppnuðu stoppi fyrr á vertíðinni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.