Út í óvissuna í Singapúr

Formúla-1 fer inn á alveg nýjar brautir um helgina. Keppt verður í fyrsta sinn í sögunni í Singapúr. Og það sem meira er, keppnin fer fram að kvöldi til í flóðljósum. Aldrei hefur áður verið keppt eftir sólarlag. Vettvangurinn er miðborg Singapúrs og í orðsins fyllstu merkingu eru ökumenn á leið út í óvissuna en útlit er fyrir óvenjulega keppni.

Fimm kílómetra löng brautin liðast um miðborgina, framhjá mörgum helstu kennileitum hennar. Franski ökuþórinn Sebastien Bourdais hjá Toro Rosso lofar hana í hástert en hann hefur mikla reynslu af keppni á götum borga úr bandaríska ChampCar-kappakstrinum. Og hann segir ökumenn ekki þurfa að hafa áhyggjur af flóðlýsingunni.

„Hér er eins og um hábjartan dag,“ sagði Bourdais eftir að hafa hjólað um brautina. Mun ljósmagnið sem hver kastari sendir frá sér vera ferfalt meira en á knattspyrnuleik. Veitir ekki af að birtan sé sem best svo ökumenn geti áttað sig vel á umhverfinu á 300 km/klst hraða.

 

Von um tilfrif og tilbreytingu

„Spennandi helgi framundan,“ sagði Lewis Hamilton hjá McLaren sem er efstur í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra. „Ég hef aldrei keppt að kvöldi en ég held að það verði ekkert vandamál, fremur en í öðrum íþróttagreinum,“ bætti hann við. Keppnislið hans hefur undirbúið sig mjög vel í herbúðum sínum, með því að líkja sem nákvæmast eftir aðstæðum í ökuhermi.

Keppnin hefst klukkan 20 að kvöldi að staðartíma á sunnudag, klukkan 12 á hádegi að íslenskum tíma. Tímatökurnar á morgun, laugardag, hefjast hins vegar klukkan 14 að íslenskum tíma. Vegna flóðlýsingarinnar er engin þörf fyrir að bílarnir verði búnir ljóskösturum eins og í franska sólarhringskappakstrinum í Le Mans.

Öðru sinni í ár er keppt á nýrri braut, öðru sinni á venjulegum borgargötum. Fyrri kappaksturinn fór fram í Valencia á Spáni og er helst minnst fyrir bragðleysi. Þótt erfitt sé að segja til um hversu fjörlegt verður í Singapúr er þó vonast til að tilþrif og tilbreyting verði meiri þar.

Tímasetningin er ákveðin til að mótið fari fram á útsendingartíma sem hentugastur þykir í Evrópu, en þar er hryggjarstykkið í öllu áhorfi og öllu fylgi við Formúluna.

Vegna þessa hafa ökumenn og keppnisliðin þurft að tileinka sér alveg nýjar aðferðir við undirbúning keppninnar. Allt miðast við hversu seint dagsins keppnin fer fram. Hafa ökumenn farið eftir nákvæmri forskrift lækna og annarra sérfræðinga um hvernig þeir láta daginn líða.

Aðlögunin hefur ekki verið að staðartíma, heldur hafa þeir haldið sig á evrópskum tíma til að athygli og afköst verði sem mest þegar keppnin fer fram. Því hafa þeir ekki farið á fætur fyrr en nokkru eftir hádegi að staðartíma, snætt kvöldverð um og eftir miðnætti í Singapúr o.s.frv. og farið aftur í bólið löngu eftir miðnætti. Sérstök tjöld hafa verið sett í hótelherbergi til að tryggja myrkur þótt úti sé bjart og ráðstafanir gerðar til að ökumenn verði fyrir engu ónæði meðan þeir þurfa að sofa.

Breytingarnar eru mönnum misjafnlega erfiðar. Mark Webber hjá Red Bull er t.a.m. annálaður morgunhani og reynir því á að þurfa að sofa fram yfir hádegi. Kimi Räikkönen hjá Ferrari er hins vegar þekktur nátthrafn og sér ekki fram á neinn vanda. „Mér finnst gott að sofa til hádegis venjulega, svo þetta virðist fyrirtaks staður að vera á,“ sagði hann um aðlögun sína.

 

Keppni Hamiltons og Massa

Þrátt fyrir nákvæman undirbúning ofan í minnstu smáatriði leggja lið og ökumenn alveg út í óvissuna hvað varðar að keppa í flóðljósum og rigningu. Veðurspár gera ráð fyrir þrumuveðri bæði þegar tímatökur fara fram á morgun og í keppninni á sunnudag. Hafa liðin áhyggjur af hugsanlegum neikvæðum áhrifum ljósglampa frá vætublettum á brautinni á sjónsvið ökumanna. Við því hafa þau brugðist með sérstöku og sérlega lituðu háskerpugleri í hjálmum þeirra til að auka sjóndýpt ökumanna. Glerið hefur einnig verið sérlega húðað til að koma í veg fyrir dropamyndun.

Keppnin um heimsmeistaratitil ökumanna stendur nú nánast eingöngu milli Hamiltons og Felipe Massa hjá Ferrari. Á þeim munar aðeins einu stigi og ríður því mjög á fyrir báða að eiga góðan dag á sunnudag í Singapúr. Miðað við frækilega frammistöðu á síðasta móti, í Monza á Ítalíu, ætti það ekki að há Hamilton þótt vott verði. Þá kann hann hvergi betur við sig en á borgarbrautum.

Massa hefur ekki sýnt sama styrk í vætu og Ferrari-fákurinn virðist heldur ekki hentugur í rigningu, samanber tvö síðustu mót, í Belgíu og á Ítalíu. Verði hins vegar þurrkur og hiti stendur hann mun betur að vígi og gæti alveg eins hrifsað forystuna í stigakeppninni til sín. Og á hinni nýju braut ársins, Valencia, drottnaði hann frá upphafi til enda; á braut þar sem búist var fyrirfram við að Hamilton yrði sterkastur.

Má því með sanni segja að óvissa sé allsráðandi fyrir helgina, en eftirvæntingin því meiri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Helgin á eftir að verða rosalega fjörug og það sem gerir þessa keppni svona spennandi er að þarna er verið að fást við hluti sem hafa aldrei verið reyndir áður.

Jóhann Elíasson, 26.9.2008 kl. 13:56

2 Smámynd: Einar Steinsson

Nú er bara að gleyma bullinu sem er búið að vera í gangi og njóta keppninar.

Einar Steinsson, 26.9.2008 kl. 16:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband