Föstudagur, 12. september 2008
Hvorugur ökumaður Ferrari hefur fagnað sigri í Monza
Kimi Räikkönen og Felipe Massa verða undir miklum þrýstingi frá stuðningsmönnum Ferrari um að vinna kappaksturinn í Monza um helgina. Hvorugur þeirra hefur hrósað sigri þar.
Räikkönen keppir um helgina í áttunda sinn í formúlu-1 í Monza, þar af í annað sinn sem liðsmaður Ferrari. Aldrei hefur hann staðið á efsta þrepi verðlaunapallsins í þessari sögufrægu braut.
Ferill Massa í ítalska kappakstrinum er eiginlega daprari. Hann á að baki fimm mót í Monza en hefur aldrei verið meðal átta fremstu, þ.e. aldrei unnið stig í keppni þar. Tveimur mótanna lauk hann ekki.
McLarenliðið hefur tvisvar farið með sigur af hólmi í Monza undanfarin þrjú ár. Í fyrra sigraði Fernando Alonso og Lewis Hamilton varð annar og var þá 21 sekúndu á undan Räikkönen í mark.
Hamilton hefur þegar unnið þrjú mót í ár þar sem hann varð í öðru sæti í fyrra, þ.e. Ástralíu, Mónakó og Bretlandi. Þar sem hann varð annar í Monza í fyrra er spurningin hvort hann bæti um betur þar í ár sem öðrum brautum.
Það flokkast ef til vill undir að vera fánýtur fróðleikur, en í aðeins tvö skipti á undanförnum 17 árum hefur sigurvegarinn í kappakstrinum í Monza orðið heimsmeistari ökumanna sama ár.
Þá hafa sex síðustu ráspólshafar í Monza jafnframt hrósað sigri í viðkomandi kappakstri þar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.