Óvænt spenna í keppni ökuþóra

Óvænt spenna er hlaupin í keppnina um heimsmeistaratitil ökumanna í formúlu-1 eftir að Lewis Hamilton hjá McLaren var færður úr fyrsta sæti niður í það þriðja sl. sunnudag eftir belgíska kappaksturinn. Felipe Massa hjá Ferrari hlaut fyrsta sætið og munar nú aðeins tveimur stigum á þeim Hamilton, 76:74, þegar ítalski kappaksturinn fer fram í um helgina í Monza og fimm mót eru eftir vertíðar. Spurningin er hvort Massa taki forystu þar í titilslagnum.

Dómarar kappakstursins í Spa-Francorchamps úrskurðuðu að Hamilton hafi gerst brotlegur er hann vann sig fram úr Kimi Räikkönen þegar þrír hringir voru eftir í Belgíu. Heimsmeistarinn var í sérflokki uns 4-5 hringir voru eftir en þá dró Hamilton hann uppi og var McLarenbíllinn stöðugri í brautinni eftir að tók að rigna undir lok kappakstursins.

Rimma þeirra verður lengi í minnum höfð og formúlufræðingum og álitsgjöfum þykir flestum dómararnir hafa farið ranglega að og svipt Hamilton fræknum sigri að ósekju. Í þeim hópi eru fyrrverandi heimsmeistarar í formúlunni. McLarenliðið kærði úrskurðinn og ráðast því úrslit kappakstursins því endanlega í dómssölum síðar í haust, líklega 23. september.

Hver sem niðurstaðan verður gæti staðan vart verið meira spennandi fyrir stuðningsmenn Ferrari sem munu fylkja sér um lið sitt í Monza um helgina. Eygja þeir möguleika á því að Massa nái forystu í keppni ökumanna. Og á heimavelli leggur Ferrari allt í sölurnar til að vinna sigur.

„Ég er virkilega spenntur fyrir því að eiga góðan kappakstur, ekki síst frammi fyrir öllum stuðningsmönnum okkar á heimavelli,“ segir Massa um komandi mót. Í fyrra féll hann snemma úr leik vegna fjöðrunarbilunar og í mótunum eftir það var hlutverk hans að styðja Räikkönen í titilslagnum.

Sigri Massa í Monza er allt eins við því að búast að Räikkönen fái sama hlutskipti það sem eftir verður keppni í ár. Sjálfur sagðist hann þó í vikunni ætla að reyna verja titilinn fram í rauðan dauðann, til vertíðarloka.

Räikkönen varð fyrir áfalli er hann missti stjórn á bílnum í bleytunni í Spa og hafnaði á öryggisvegg á næstsíðasta hring. Dvínuðu möguleikar hans í titilkeppni verulega en hann er 19 stigum á eftir Hamilton. Hann mun eflaust reyna aka til sigurs í Monza, ekkert minna dugir ætli hann sér að verja titilinn. Og ekkert minna dugir til að halda í stuðning eldheitra stuðningsmanna Ferrari, svonefndra „tifosi“.

„Ég mun aka til sigurs, það yrði frábært að vinna ítalska kappaksturinn í fyrsta sinn. Ég hef engu að tapa og mun gefa allt í aksturinn,“ sagði Räikkönen í vikunni. Hann hefur ekki unnið níu síðustu mót, eða frá í Barcelona í apríl.

Leyfi liðsstjórn Ferrari honum að keppa um sigur í stað þess að styðja Massa í titilkeppninni gæti Räikkönen í raun reynst sínu gamla liði viss blessun. Slíkt er þó örugglega ekki tekið með í reikninginn í herbúðum McLaren.

Þar á bæ hafa menn undirbúið sig sérstaklega undir keppnina í Monza og vita að enga skráveifu gætu þeir gert Ferrari meiri en leggja ítalska liðið að velli á heimavelli, eins og í fyrra, þegar Fernando Alonso var í sérflokki á silfurörinni og Hamilton annar í mark. Við æfingar í Monza fyrir hálfum mánuði óku McLarenmenn hraðast og virðast því standa vel að vígi.

Hamilton fer einnig til Monza með miklar vonir í farteskinu. „Þetta verður mjög hörð rimma. En ég mun gera allt til að verða öflugri þar en í síðasta móti. Við erum að bæta okkur ennþá og því veit ég að ég get verið öflugri,“ sagði Hamilton.

Eitt er víst, að aldrei hafa verið neinir kærleikar með tifosi og ökumönnum McLaren hverju sinni. Á það verður Hamilton minntur um helgina, ekki síst vegna rimmunnar við Räikkönen sl. sunnudag í Spa. En um leið fær hann tækifæri til að þagga svo um munar niður í hinum eldheitu stuðningsmönnum Ferrari með sigri. Vinni hann sigur verður það 200. sigur bresks ökuþórs í sögu formúlu-1.

Monza er hraðasta braut árins en þar ná bílar allt að 340 km/klst hraða og bensíngjöfin er í botni 80% hringsins. Fjórum sinnum á hringnum fara ökuþórarnir upp fyrir 320 km. Brautin reynir brauta mest á mótor bílanna. Massa verður með nýjan mótor í sínum bíl en Hamilton þann sama og í Spa, sem reynir næstmest á vélar.

Vegna eiginleika Monza munu liðin fjarlægja af bílunum vindskeiðar og vængi sem ætlað er að auka vængpressu. Þannig mun McLaren taka vænglinga af bíltrjónunni og vera með eitt barð í afturvæng sínum í stað tveggja. Vængpressa er höfð í lágmarki til að bílar nái sem mestum hraða en samt nóg til að bremsur virki þá sjaldan sem á þeim þarf að halda á hringnum.

Keppnin í Monza mun fyrst og fremst standa milli McLaren og Ferrari en fleira er í húfi. Robert Kubica hjá BMW er aftur þriðji, einu stigi ofar en Räikkönen í keppni ökumanna, og stefnir að því að halda því sæti. Sömuleiðis er það markmið BMW að teljast eitt þriggja toppliða formúlunnar, en ekki bara það þriðja besta.

Þá er keppni Toyota og Renault um fjórða sætið aftur í algleymi eftir að Fernando Alonso varð fjórði í Spa. Munar fimm stigum á liðunum, 41:36, og ætlar Alonso sér a.m.k. að minnka bilið í Monza. Miðað við árangur hans í Spa og úrslit virðist Renaultinn betri en Toyotan í háhraðabraut, en Jarno Trulli hjá Toyota er á heimavelli og ætlar sér stóran hlut þar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eru möguleikar raikkonen nokkuð svo slæmir.  Hvernig var staðan í fyrra þegar aðeins 2 mót voru eftir. Ef ég man rétt þá munaði 17 stigum á Raikkonen og Hamilton þegar 2 mót voru eftir, við vitum svo hvernig fór.  Nú eru 5 mót eftir...

FreeZe (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 09:34

2 identicon

Sæll Ágúst og þakkir fyrir góða umfjöllun um F1

Keppnin í Monza varð hin besta skemmtun þökk sé veðurguðunum, hefði þó kosið að hún hefði komið rigningin sem þeir voru að spá.

Eitt atriði sem fór þó mikið í taugarnar á mér voru afleiðingarnar af þessari eftirá breytingu á túlkun reglnanna varðandi að skera beygjur. Það voru greinilega allir ökumenn skíthræddir við að gera nokkurn skapaðan hlut sem hugsanlega gæti verið möguleiki á að væri vafamál hvort rúmaðist innan sveigjanlegrar túlkunar á reglum. Þ.e.a.s. allir ökumenn nema Hamilton, sem virtist ekki vitund smeykur við dómarana. Mesta syndin að hann skildi ekki ná framfyrir Massa, sem sýndi vel sína hæfileika í rigningunni.

Samt alltaf gaman að sjá nýja menn standa sig vel. Virkilega góð frammistaða hjá Vettel.

Kv. Eggert

Eggert (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 13:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband