Mánudagur, 8. september 2008
Formúludómarar á hálum ís
Sú hugsun sækir óþyrmilega á mig að dómarar kappakstursins í Spa hafi farið út á verulega hálan ís með því að dæma sigur af Lewis Hamilton hjá McLaren og afhenda hann Felipe Massa hjá Ferrari. Alla vega finnst mér þeir hafa framið tilræði gegn formúlunni. Gegn kappakstri. Gegn því að tekist sé á í brautinni. Á keppnin bara að vera prósessía? Halarófa, eins og líkfylgd?
Bannað er að skera beygju til þess að bæta stöðu sína í keppni í formúlu-1. Ef það gerist í návígi og stöðubreyting á sér stað, þá gefa ökumenn ávinninginn jafnan strax til baka og hleypa keppinautnum fram úr aftur. Eins og í gær. Hamilton hægði ferðina og hleypti Räikkönen fram úr, enda fékk hann til öryggis skipun um það af stjórnborði McLaren.
Hamilton hóf fljótt aftur sókn og vann forystuna af Räikkönen við næstu beygju með tilþrifum eins og þau gerast best í formúlunni. Sókndirfska hans hafði verið með þeim hætti - og Ferrarinn ekki eins góður á hörðu dekkjunum og McLarenbíllinn - að mér fannst það ekki spurning hvort, heldur hvenær hann tæki fram úr Räikkönen á þeim hringjum sem eftir voru.
Hamilton notfærði sér ekki nálægðina við Räikkönen eftir þverun beygjunnar til að hagnast af kjölsogi hans. Hann var aldrei í því, svo sem sést augljóslega á sjónvarpsupptökum. Hann skellti sér eldsnöggt af vinstri hlið yfir á þá hægri er Räikkönen var kominn fram úr og bremsaði síðan seinna inn í næstu beygju og komst við það fram úr.
Þótt keppnisstjórinn Charlie Whiting lýsti þeirri skoðun sinni strax við stjórnendur McLaren að Hamilton hefði farið rétt að og bæri ekki refsing þar sem hann afsalaði sér ávinningnum voru dómararnir því ósammála.
En þeir fóru reyndar inn á alveg nýjar brautir. Ákváðu að pæla í því hvort Hamilton hafi samt ekki haft nægan ávinning af atvikinu fyrst hann komst fram úr Räikkönen aftur! Og það var niðurstaða þeirra. Enda reglurnar ekki afdráttarlausar um hvað sé ávinningur og hvað ekki. Nýttu hinir frönsku, belgísku og kenýsku dómarar sér tómarúmið í regluverkinu til að túlka regluna með sínu lagi. Og hleyptu með því öllu í bál og brand.
Hér kveður alveg við nýjan tón. Nú er allt í lagi af hafa ávinning af því að skera beygjur, bara ekki of mikinn! Það veit bara enginn hvenær ávinningurinn er of mikill. Nema þessir þrír menn, frá Frakklandi, Belgíu og Kenýa. Vonandi hafa þeir vandað sig vel og hugsað málið rækilega til enda því hugsanlega er ekki hægt að kæra niðurstöðu þeirra!
Rétt er að velta því fyrir sér hvers vegna Hamilton skar beygjuna. Sú spurning er fyllilega réttmæt. Niðurstaðan er sú að hann átti ekki annarra kosta völ. Nema láta Räikkönen keyra inn í sig. Hann var kominn rúmlega upp að hlið Ferraribílsins á leið inn í beygjuna. En Räikkönen þvingaði hann einfaldlega út úr henni. Það sést greinilega er atvikið er skoðað. Það er ég búinn að gera margsinnis frá í gær.
Ég ætla ekki að segja að Räikkönen hafi haft rangt við með því. Þetta gerist einfaldlega oft í návígi sem þeirra Hamiltons. Og oftast grípa ökumenn þá til gagnráðstafana til að afstýra árekstri. Það gerði Hamilton.
Landi Kimi, Heikki Kovalainen, var réttilega sendur aukaferð gegnum bílskúrareinina fyrir svipað framferði snemma í kappakstrinum. Nema sá rakst utan í keppinaut sinn og olli með því afstýranlegum árekstri. Hvað hefðu dómararnir gert ef Hamilton hefði ekki vikið frá er á hann var lokað og þeir Räikkönen skollið saman. Hver hefði þá talist sökudólgur? Räikkönen hugsanlega, samanber Kovaleinen-Webber atvikið. Hefði það ekki verið rökrétt?
Það versta við þessa niðurstöðu er að nú fá allar kenningar um að verið sé að hygla Ferrari byr undir vængi á ný. Það lét ekki á sér standa í Spa í gær og í fjölmiðlum um heimsbyggðina alla í morgun. Úr verður málaþras sem tekið getur margar vikur að fá botn í. Og einhver óvissa ríkir um hvort hægt sé að kæra dómaraákvörðun af því tagi sem Hamilton var veitt.
Það ágreiningsefni þarf því að leiða fyrst til lykta, áður en tekið er á sjálfri refsingunni. Fáist það samþykkt hef ég ekki mikla trú á að niðurstöðu dómaranna verði raskað. Í langflestum tilvika hefur áfrýjunarréttur Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) einungis staðfest fyrri ákvarðanir fulltrúa FIA, sem dómararnir í þessu tilviki eru.
Endirinn á þessum skemmtilegasta kappakstri ársins er leiður. Farsi í boði dómara sem hætt hafa sér út á vægast sagt afar hálan ís. Kimi Räikkönen hafði sýnt sínar bestu hliðar og ekið sem kóngur í Spa. Hefði verið afar vel að sigri kominn. Og hleypt nýju fjöri í keppnina um heimsmeistaratitilinn. Massa situr aftur á móti upp með sigur í móti þar sem hann kom aldrei við sögu keppninnar um tvö efstu sætin. Ansi innantóm verðlaun það.
Athugasemdir
Sammála þessu, þó ég kunni ekki að koma orðum að þessu á sama hátt.
Þó ég hafi ekki alveg verið sáttur þegar Raikkonen keyrði út af, (og hefði alveg verið sáttur við að sjá hann koma fyrsta yfir línuna), þá er ég enn ósáttari við svona pælingar í dómgæslunni. Jú, vissulega græddi Hamilton á því að skera beygjuna, en hann hleypti Kimi strax fram fyrir sig aftur. Og þar með upphófust læti og barátta. Þeir voru á tímabili að skiptast á um sæti hægri vinstri. En svo kemur svona dómur, og sérstaklega af því að það er Ferrari sem græðir á svona dóm. Nóg hefur manni nú fundist stundum hversu mikið Ferrari hefur verið hyglað hingað til. Hefði samskonar dómur komið ef þetta hefði t.d. verið Hamilton og Kubica?
Mig langar ekki til að sjá úrslit í Formúlunni vera ráðin í dómsölum.
En takk fyrir fína pistla.
Einar Indriðason, 8.9.2008 kl. 08:16
Einar, ég er algjörlega sammála þér um að úrslit eigi ekki að ráðast í dómssölum. Dómarar mega ekki hugsa þannig, að allt í lagi sé að taka einhverja ákvörðun, hún verði þá bara kærð og málið leiðrétt hafi þeir gert skyssu!
Þeir frömdu með þessu algjört stílbrot, létu allar venjur um svona atvik (ávinningi skilað til baka) lönd og leið.
Kimi Räikkönen hefði verið vel að sigri kominn, ég var mjög ánægður að sjá kraftinn í honum aftur efteir lægð undanfarið. Honum hefur leiðst allt umtalið að undanförnu um að hann væri búinn að missa áhuga. Fernando Alonso sagði við franska sjónvarpið TF1 fyrir keppnina, að Räikkönen yrði grimmur, aldrei meira en nú vegna alls þess sem skrifað hefði verið um svonefnt áhugaleysi hans. Alli hafði á réttu að standa.
Ágúst Ásgeirsson, 8.9.2008 kl. 09:18
Jæja.
Ég sem hef talist vera anti-Ferrari maður sá það strax að Hamilton hafði hagnað af þessari stöðu og var handviss að hann fengi refsingu ef han gæfi ekki betur eftir. Mistökin felsast í því að hann gefur ekki nóg eftir, eftir framúraksturinn. Hann hefði þurft að gefa að minnsta kosti bíllengd eftir.
Það fer ekki milli mála að Hamilton var með keppnina í hendi sér eftir að það fór að rigna og átti skilið að vinna. En hann hagnaðist á þessu broti sínu og verður að taka út refsinguna. En mesta hneysan er að Mclaren liðið hefði átt að hafa vit á þessu og skipa honum að gefa betur eftir. Hann hefði altaf náð Raikonen eftir það.
kv.
Stefán Alfreð
Stefan A. Stefansson (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 10:50
Ein spurning. Hefði Hamilton ekki mögulega getað reddað sér á annan hátt en að taka snarpa vinstri beygju inn á heppilegasta staðinn til að fara út af og í leiðinni hagnast? Hefði Hamilton ekki getað bremsað fyrr eða jafnvel harðar?
Á einhvern hátt finnst mér eins Hamilton hafi bara ætlað að prófa Kimi og sjá hvort að hann þorði að reyna að neyða sig útaf því hann vissi alltaf að hann gæti bjargað sér á þennan hátt, það er að þurfa ekki að bremsa heldur stytta sér leið.
Einar (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 11:04
Sæll Ágúst og takk fyrir góðann pistill.
Ég er þeirrar skoðunnar að Hamilton hafi gerst brotlegur og brot er alltaf brot sama hvað tautar og raular,en svo komum við að því sem mér þykir vera stærsta vandamál formúlunnar í dag og það er að refsingarnar skuli ekki alltaf vera þær sömu fyrir brotin.
Hefði verið tekið öðruvísi á þessu hefðu aðrir átt í hlut ????
Veit ekki en mér þykir þessi dómur réttur en refsingin hinsvegar finnst mér út úr kú og ekki til að auka trúverðugleika dómaranna.
Þetta segi ég sem Ferrari maður og tek undir með Enari að svona sigrar sem unnir eru í dómsölum eru alltaf leiðinlegir og ég er nokkuð viss að Massa á aldrei eftir að flagga þessum verðlaunagrip í sýnum veislum.
Hamilton fór létt fram úr Raikkonen þegar hann gerði það á löglegan hátt og að mínu mati búinn að gefa Raikkonen sénsinn aftur.
viddi (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 13:34
Mjög góð grein hjá þér Ágúst að vanda.
Ég er þér algjörlega sammála í þessu máli. Þessi dómur er leiðinlegur endir á litríkum og spennandi kappakstri. Það er mjög slæmt fyrir formúluna að mínu mati að svona dómur líti dagsins ljós. Það verður lítið gaman af F1 ef að menn þora ekki að há alvöru stöðubaráttu sem þessa af ótta við dóma! Þetta var að mínu mati bara mjög hörð og drengileg barátta tveggja mestu ökusnillinga formúlunnar í dag. Þeir háðu mjög harða rimmu, en drengilega að mínu mati. Ég hefði mikið frekar skilið dóm á þennan veg ef svo hefði farið að Hamilton hefði ekið á Kimi og sett hann úr keppni. En það var ekki það sem gerðist.
Formúlukveðja, Guðni
gudni.is, 8.9.2008 kl. 15:20
Ég er mikill ferrari fan og viðurkenni það vel og mér finnst þetta rétt ákvörðun er buin að horfa á þetta núna mjög oft og ef hamilton hefði ekki cuttað partinn af brautinni þá hefði hann tapað tíma eða keyrt útaf mér fannst þetta alveg löglegt hjá raikkönen en ekki hjá hamilton að því að raikkönen er með innri línuna og svo hægir hamilton ekki neitt á sér fer beint í gírkassan á honum þannig að mér finnst þetta rétt ákvörðun
otto ferrari (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 17:33
Því miður þá missti ég af þessari keppni, eina keppnin sem ég missi af á árinu og þá skeður allt, ég næ mér seint og ég er nokkuð klár á að ég þurfi áfallahjálp. En að aðalefninu, eins og áður sagði þá sá ég þetta ekki en eins og málið blasir við mér, þá er þessi dómur alveg út í hött og gerir ekkert annað en að stórskaða íþróttina. Nú er ég mikill Ferrarí aðdáandi og trúi ekki á að neitt samsæri sé í gangi og ég held að engum sé greiði gerður með því að fá sigurinn svona og ég held að Massa sé ekkert að rifna úr stolti þessa dagana.
Jóhann Elíasson, 8.9.2008 kl. 17:41
Sæll Ágúst alltaf gaman að lesa pistla eftir þig, það er nú ekki miklu hægt að bæta við í þessa umræðu nema að eru ekki reglurnar þannig að ef að svona kemur fyrir að menn skeri beygju og stytti sér leið þá þurfi framvængur bílsins (Hamilton) að fara alveg aftur fyrir hinn bílinn (Kimi) áður en gefið er í aftur ? sem að mér sýnist á þessum upptökum að Hamilton hafi aldrei gefið nema hálfa bíllengd eftir bara smá pæling
keppniskveðja Jón Þ. Sig
Jón Þ. Sig (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 17:48
Ég held að þú vitir lítið um kjölsog og hvernig það er notað til að taka framúr.
Ég vona að við sjáum nýja vídd í framúrakstri í framtíðinni og að það þurfi ekki að bæta við sæti fyrir logfræðing til að ráðleggja ökumönnunum hvenær þeir mega ráðast til atlögu.
Einar Steinsson, 9.9.2008 kl. 11:08
Samkvæmt þinni kenningu ættu bílar sem berjast hlið við hlið að slá af, skella sér aftur fyrir og framúr hinumegin. Þú ert búinn að finna upp nýja aðferð! Til hamingju!!
Í alvöru það að vera fyrir aftan bílinn eitt og sér er ekki nóg, það þarf að nota það til að ná upp ferð annars er aftari bíllinn á sömu ferð og sá fremri þegar hann kemur út úr kjölsoginu og ekkert er unnið.
Einar Steinsson, 9.9.2008 kl. 19:20
Gaman að Ferrari menn tali um að menn græði á atvikinu og að dómarar eigi að dæma eins og gert var. Ég ætla ekki að tala um þetta brot (ef þetta var brot), heldur þegar massa braut reglurnar um daginn á bilskúrreininni. Af hverju fékk hann að halda stigunum en var ekki víttur um 25 sek. Þetta finnst mér óþolandi að dómarar geti ákveði mismunandi refsingar fyrir brot. Það eiga allir að sitja við sama borð. Það finnst mér aðalmálið. Dómara geta ákveðið hvort brotið hafi verið af sér en ekki með misjöfnum refsingum. Því peningasekt er ekkert á við stigamissi.
Ómar Már (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 23:30
Fyndið....
Hafið þið tekið eftir því að það hefur enginn ökumaður komið Hamilton til varnar í þessu máli? Þvert á móti segja þeir að hann hafi átt skilið refsinguna en þeir vita sjálfsagt minna en þið um þessi mál. Getið lesið autosport.com
Hvernig tókst ykkur að blanda Ferrari inn í þetta?
Dóri
Dóri V (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 19:47
Ekki það að ég vilji fara út í umræður um eðlisfræði kappaksturs eða hversu lengi maður þarf að vera í kjalsoginu (sem ökumenn tala sífellt um að ekki sé hægt að nota að neinu marki með núverandi bíla), er það þó ekki frekar svo í formúlunni í dag (sem endranær) að notkun á kjölsogi og hraða til framúraksturs gerist á löngum beinum köflum, á styttri köflum og í beygjum líkt og var um að ræða þarna, snýst það um að hafa stöðugleika til að geta bremsað seinna.
Hamilton fór afturfyrir, Raikkonen gat valið hvert hann vildi fara og ákvað að fara til vinstri og gaf þarmeð Hamilton sem var mjög greinilega miklu stöðugri í þessum aðstæðum sem voru þarna, færi á að fara innfyrir og taka létt framúr.
Ég var ekki svo viss til að byrja með og jafnvel á því að það væri kannski hægt að segja að þetta væri réttlátur dómur, en því oftar sem ég sé þetta því sannfærðari verð ég í því að þetta sé mjög hæpinn dómur. Og tek heilshugar undir með Ágústi að þeir séu á hálum ís þarna.
Kv. Eggert
Eggert (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 20:09
Bless Formúla!
Formúla 1 er að verða að enn meiri farsa en áður og satt best að segja er þetta meiri lagatækni, en véltækni og íþrótt. Það fer því að vera aukaatriði hver kemur fyrstur í mark, þetta fer að vera spurning um kærur og mér liggur við að segja klíkuskap. Frítíma undirritaðs verður m.ö.o. ekki varið í framtíðinni við formúluna!
Jonas Egilsson (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 12:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.