Laugardagur, 6. september 2008
Aðeins þrír af síðustu 10 ráspólshöfum hafa unnið sigur í Spa
Kimi Räikkönen hjá Ferrari segist ekki á því að sleppa voninni um sigur í belgíska kappakstrinum í Spa-Francorchamps á morgun. Það eykur á vanda hans, að hann varð í aðeins fjórða sæti í tímatökunum. En þarf það að vera svo slæmt?
Sé rýnt í sögu mótanna í Spa, kemur í ljós, að einungis þrír af síðustu 10 ráspólshöfum hafa ekið til sigurs í brautinni annáluðu í Ardennafjöllunum. Og aðeins 42% mótanna 12 sem lokið er í ár hafa ráspólshafar unnið, samanborið við 66% mótanna á sama tíma í fyrra.
Þá gildir það um tvö síðustu mót, í Búdapest og Valencia, að ökumennirnir sem á verðlaunapall náðu höfðu ekki komist í hóp fyrstu þriggja í mótinu á undan. Er það vont fyrir Felipe Massa, Lewis Hamilton og Robert Kubica, sem stóðu á pallinum fyrir hálfum mánuði?
Räikkönen dólaði nokkuð á eftir Fernando Alonso og Hamilton í keppni ökumanna í fyrra. En segja má, að hann hafi blandað sér af krafti í titilslaginn með yfirburða sigri sínum í Spa í fyrra.
Þangað kom án þess að hafa unnið fjögur mót í röð og var 18 stigum á eftir Hamilton. En eftir sigur þar og eftir sigur í tveimur mótum til viðbótar af þeim þremur sem þá voru eftir var hann krýndur heimsmeistari ökumanna.
Aðeins horfir öðru vísi við nú þar sem Kimi hefur ekki unnið átta síðustu mót. En mistakist honum mun það væntanlega koma félaga hans Massa til góða. Hann var annar í fyrra og Hamilton fjórði.
Árið 2004 náði Massa í Spa sínum besta árangri í formúlu-1 til þess tíma, varð fjórði. Það jafnaði hann árið eftir í kanadíska kappakstrinum í Montreal en ofar komst hann ekki í þau þrjú ár sem hann keppti með Sauber.
Í síðasta móti, í Valencia, náði Massa fullkominni helgi, þ.e. vann ráspólinn, kappaksturinn og setti hraðasta keppnishringinn. Það hafði einungis einum ökuþór tekist á árinu; Räikkönen í Barcelona. Næsta kappakstur vann svo Ferrari, með sigri Massa í Tyrklandi.
Ætli afrek Massa í Valencia sé fyrirboði einhvers um helgina? Sigurs Räikkönen? Menn segja gjarna, allt getur gerst í formúlu-1.
Aki Hamilton hins vegar til sigurs í Spa á morgun verður hann fyrsti breski ökuþórinn sem það afrekar á þessari öld. Síðasti Bretinn á efsta sæti verðlaunapallsins í Spa er David Coulthard árið 1999.
Enn minnisstæðari breskur sigur þar átti sér stað árið áður, er Damon Hill kom fyrstur í mark á Jordanbíl 1998 eftir brottfall helmings keppenda eða svo í hópárekstri rétt eftir ræsingu.
Vonandi gengur ræsingin snurðulaust fyrir sig á morgun!
Athugasemdir
Ég hef fulla trú á að Raikkonen "hysji" upp um sig í þessari keppni en einhverra hluta vegna hef ég nú meiri trú á Massa.
Jóhann Elíasson, 6.9.2008 kl. 18:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.