Miðvikudagur, 3. september 2008
Räikkönen bíður erfið raun
Kimi Räikkönen hjá Ferrari freistar þess um helgina að vinna belgíska kappaksturinn í fjórða skiptið í röð. Það er heimsmeistaranum mikil áskorun eftir slæmt gengi að undanförnu. Hann hefur ekki fagnað sigri frá í Barcelona í apríl, fyrir rúmum fjórum mánuðum. Ætli hann sér ekki að falla úr leik í titilkeppninni í ár er honum brýn nauðsyn að sigra í Spa á sunnudag.
Spa er uppáhaldsbraut margra ökuþóranna í formúlu-1, ekki síst Räikkönens, sem verið hefur í sérflokki þar undanfarin ár. Hann mun fá öfluga keppni nú, a.m.k. frá liðsfélaga sínum Felipe Massa og Lewis Hamilton hjá McLaren - og ef til vill fleirum. Räikkönens bíður því erfið raun ætli hann sér sigur.
Ég dvaldi í Spa-Francorchamps á kappaksturshelginni í fyrra og það er ógleymanleg upplifun.
Í ræsingunni stóð ég í lok fyrsta beina kaflans og sá úr nokkurra metra fjarlægð slaginn í fyrstu beygju, þar sem Alonso knúði liðsfélaga sinn Hamilton til undirgefni. Fyrir mótið bloggaði ég um aðstæður og við þau skrif er sosum ekki miklu að bæta nú. Í þágu stemmningarinnar fyrir komandi mót er best að birta þau skrif bara aftur.
Þau hljóðuðu svo:
Fróðlegt er að lesa gögn frá keppnisliðum og dekkjaframleiðandanum Bridgestone um hvað bíður liðanna um helgina hér í Spa-Francorchamps. Mikið mun mæða á gangverki bílanna, ökuþórunum og maður gæti haldið eftir lesturinn að dekkin væru mannleg!
Það er einnig sérstök upplifun að standa í dalbotni og virða fyrir sér Rauðavatnsbeygjuna (Eau Rouge). Í sjónvarpinu virkar hún tiltölulega flöt en í raunveruleikanum er eins og maður standi við hamarsvegg, slíkur er brattinn. Hann er a.m.k. jafnmikill, ef ekki meiri en í brattasta kafla Kambana. Upp þennan bratta æða bílarnir á mestu mögulegri ferð og sér ökuþórinn ekkert nema himininn framundan, fyrir utan toppa hæstu trjánna í annars ægifögru umhverfi hér.Inn í brekkuna koma bílarnir á um 300 km hraða og slíkir eru kraftarnir sem toga í ökuþórana, að þeir eru skammt frá yfirliði. Pressast niður í sætin með krafti sem jafngildir fimmfaldri þyngdaraflshröðun. Það á sér þó ekki stað nema í einhver sekúndubrot og fljótlega tekur við, einnig í sekúndubrot, neikvæður kraftur þegar bíllinn kemur yfir brekkubrúnina áum 290 km hraða, en þá er eins og ökuþórinn ætli upp úr sætinu en rammgerð belti koma vitaskuld í veg fyrir það.
Allir segjast ökuþórarnir elska þessa beygju og engum stendur ógn af henni. Segja hana kannski hrollvekjandi á fyrsta hring en eftir það sé hrollurinn úr þeim. Lewis Hamilton segist standa á bensíngjöfinni í botni er hann leggur í beygjuna og fetilnum lyfti hann ekki. Aðalatriðið sé að hreyfa stýrið sem minnst til að afturendinn hlaupi ekki útundan sér og bíllinn snarsnúist, eins og kom fyrir Jacques Villeneuve fyrir nokkrum árum.
Brautinni hefur verið lítillega verið breytt í lok hringsins og upphafi hans til að auka á möguleika til framúraksturs og auka á öryggi ökuþóra og áhorfenda. Hún er 7.003 metra löng, sú lengsta á árinu, og er meðalhraði bílanna yfir 260 km/klst, enda eru þeir ekki nema um 1:45 mínútur með hringinn.
Spa-Francorchamps brautin reynir verulega á hina nýju V8-mótora sem keppt er með í fyrsta sinn í Spa í ár, en þegar síðast fór hér fram mót, 2005, voru V10-mótorar enn í keppnisbílum formúlunnar. Fengu liðin tækifæri að meta aðstæður með tilliti til mótorsins við þriggja daga bílprófanir í júlí. Er hann undir miklu álagi, eða í botni 73% hringsins. Það hlutfall er einungis hærra í Monza, eða 77%, en þar er hringurinn 1,2 km styttri. Aukinheldur er mótorinn tvisvar í botni í yfir 20 sekúndur, þar af 23 sekúndur frá fyrstu beygju, La Source, að Les Combes-beygjunni þar sem einn minnisstæðasti framúrakstur seinni tíma átti sér stað, er Mika Häkkinen tók fram úr Michael Schumacher árið 2000.
Þarna á milli er m.a. Rauðavatnsbeygjan og sætir mótorinn og reyndar allir vélrænir hlutar bílsins - gríðarlegum togkröftum á þessum tíma, til hliðanna og upp og niður, eins og ökuþórarnir. Álagið er gríðarlegt og í Rauðavatnsbrekkunni pressast þeir niður svo að botninn er aðeins rúma tvo sentimetra frá malbikinu. Hönnun mótorsins, og bílsins alls, tekur reyndar mið af þessu álagi, þessum miklu og afar snöggu kraftbreytingum. Ekki síst þarf smurkerfi mótorsins að duga til að koma olíu á sína staði undir álaginu.
Eins og jafnan munu tímatökurnar í dag væntanlega ráða miklu um endanlega niðurstöðu, þótt það sé kannski eins afgerandi hér og í öðrum brautum vegna óvenjulegra aðstæðna. Vegna legu sinnar og eðlis dregur það úr mögulegum hraða að drattast með mikinn bensínþunga. Miðað við núverandi fyrirkomulag tímatökunnar getur komið sér vel að vera með eyðslusaaman mótor undir vélarhúddinu.
Eins og áður segir toga þyngdaraflskraftar mjög í bílinn en hann er einnig undir miklu álagi af völdum vængpressu. Vængir eru meiri en t.d. í Monza vegna nokkurra hægra beygja. Engu að síður eru 13 af 19 beygjum brautarinnar teknar á yfir 150 km/klst hraða og þá mæðir mikill álagsþungi á bílnum vegna vængja og loftafslflata sem eiga að tryggja veggrip í gegnum þær. Er vænghleðsla bílanna svipuð og í Montreal og Indianapolis og ræður skilvirkni loftafls þeirra úrslitum um gengi í keppninni.
Í lok tveggja langra beinna kafla eru möguleikar til framúraksturs fyrir hendi dugi endahraði bíls á undan ökuþórnum ekki til að verja stöðu sína. Þetta á við um Les Combes- beygjuna og lokabeygjuna, strætóstoppið svonefnda.
Fjöðrunin er höfð tiltölulega stíf er þó stíf fyrir til að stuðla að straumfræðilegri skilvirkni í hraðari beygjunum og snöggum stefnubreytingum í hröðum beygjuhlykkjum. Gott veggrip er gríðarlega mikilvægt út úr strætóstoppinu og fyrstu beygjunni, La Source hárnálarbeygjunni, eigi ökuþór ekki að standa berskjaldaður gagnvart framúrtöku mótherja á bremsusvæði í næstu beygjum á eftir.
Spa reynir meira á dekk en aðrar brautir og því býður Bridgestone upp á tvær hörðustu dekkjagerðir ársins að þessu sinni. Alls mætir fyrirtækið með 2.200 regn- og þurrdekk til Spa og hefur verið mjög annasamt á athafnasvæði Bridgestone bakvið bílskúra liðanna þar sem starfsmenn fyrirtækisins hafa umfelgað frá morgni til kvölds.
Hið eina í keppnisbílnum sem á frekar rólegan dag af kappakstri að vera er bremsukerfið. Á því mæðir hlutfallslega lítið, minna en í öðrum brautum ársins. Aðeins þarf að hemla hart inn að þremur beygjum, La Source, Les Combes og strætóstoppinu.
Athugasemdir
Alveg er það unun að lesa brautarlýsingarnar þínar, manni finnst, við lesturinn, að maður sé kominn á staðinn og upplifir brautina og oft á maður mjög auðvelt með að setja sig í spor ökumannanna. Ég á erfitt með að koma orðum að því hvað ég er þakklátur þér fyrir skrifin.
Ég er nú á því að Raikkonen þurfi að fara að spýta í lófana, ég held nú að titilvonirnar séu orðna tölfræðilega hverfandi en bara til þess að bjarga andlitinu verður hann að fara að sýna meira en hann hefur gert á undanförnum mótum.
Jóhann Elíasson, 3.9.2008 kl. 22:54
Þakka kærlega fyrir mig, Jóhann. Þó maður reyni bara að sinna þeirri skyldu að skrifa gagnlegan texta fyrir lesendur, þá væri hræsni að viðurkenna ekki, að jákvæð ummæli sem þín eru eins og stór skeið af þorskalýsi. Ég met þau mikils.
Ágúst Ásgeirsson, 4.9.2008 kl. 14:29
Ég skal alveg taka undir með Jóhanni :-) Þú ert að skrifa mjög fína pistla og fróðlega, og gefur svona auka sjónarhorn á Formúluna. (Það er kannski meira við okkur, lesendur þína, að sakast, að láta ekki meira heyrast í okkur af jákvæðum svörum, og þakka fyrir okkur.)
Einar Indriðason, 4.9.2008 kl. 20:30
Þakka þér einnig kommentið, Einar. Vildi að ég hefði tíma til að skrifa meira af pistlum - af nógu er að taka og það mörgu fróðlegu.
Það er ekki neitt við lesendur að sakast. Þeim er auðvitað velkomið að tjá sig og taka þátt í umræðum, það gerir bara gott betra. Maður fær að heyra það þegar lesendum mislíkar, og það er bara gott. Ég er ekkert yfir gagnrýni hafinn og tek henni af alvöru, hún getur bæði átt rétt á sér eða verið úr hófi, að mér finnst. En það er í fínu lagi, innst inni held ég alltaf að einungis góður hugur búi að baki en gagnrýni og aðfinnslum.
Ágúst Ásgeirsson, 5.9.2008 kl. 12:12
Já tetta er frábært há tér Ágúst. Ég var tarna 2001 í Fagnes beygjuni,góður staður tað og frábær keppni. Tarna varð meistarinn Schumacer í fyrstasæti og Villineve ( man ekki hvernig tað er skrifað) í triðja sæti enn tað var í síðasta skipti sem hann komst á pall blessaður! Rikkonen mun ekki verða tarna í fyrsta sæti tað er á tæru! Eru menn búnir að sjá snekkjuna hanns sem kostaði á annan miljarð isk? Tar er hugsanleg skýring á slæmu gengi komin! Engin tími til að hugsa um vinnuna!
óli (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 19:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.