Föstudagur, 22. ágúst 2008
Ný braut býður upp á óvissu í Valencia
Formúla-1 fer inn á nýjar brautir um helgina, í orðsins fyllstu merkingu. Þá fer Evrópukappaksturinn fram og vettvangurinn er hafnarsvæðið í borginni Valencia á Spáni. Þar hefur verið lögð splunkuný 5,4 km löng kappakstursbraut með fleiri beygjum en aðrar keppnisbrautir, eða 25. Þykja þar möguleikar góðir til framúraksturs.
Vegna nýja brumsins á móti helgarinnar og ókunnugleika keppnisliða og ökuþóra þykja meiri líkur en ella á að keppnin verði ófyrirséðari en í nokkurri annarri braut í ár. Á litlu hefur verið að byggja í undirbúningi ökumanna og ekki hægt að prófa sig á henni í leikjatölvum eða bílhermum keppnisliðanna, eins og á við um aðrar brautir.
Því hafa þeir lagt mikið upp úr því að skoða brautina vel undanfarna daga með því að ganga um hana með tæknimönnum, renna sér í gegnum hana á skellinöðru eða reiðhjóli til að fá tilfinningu fyrir henni.
Með þessu móti og Singapúrkappakstrinum eftir rúman mánuð fara þrjú mót í ár fram inni í miðjum borgum en hingað til hefur Mónakó verið eina slíka brautin á mótaskránni.
Og ökumenn og liðsstjórar hafa fagnað tilkomu brautarinnar í Valencia, sem er við smábáta- og ferjuhöfn sem kennd er við Jóhann Karl konung. Lewis Hamilton hjá McLaren segir hana virðast undraverða og heimsmeistarinn Kimi Räikkönen segist ekki geta beðið eftir að keppa í Valencia.
Brautin liggur m.a. yfir vindubrú á höfninni sem opnuð er fyrir ferjur til og frá Mallorca en verður kirfilega lokuð um helgina. Þrátt fyrir að eiga það sameiginleg með Mónakó að liggja um hafnarsvæði þá er fátt sameiginlegt með þeim annað. Braut furstadæmisins er sú hægasta og framúrakstur útilokaður. Í Valencia býður brautin hins vegar bæði upp á hraða og framúrakstur.
Í henni eru 25 beygjur, eða fleiri en í öðrum brautum. Og hún er það breið að svigrúm verður til að taka fram úr á bremsusvæðum við nokkrar beygjur. Áætlað er að bílarnir nái 330 km hraða á beinum kafla um miðbik hringsins.
Þótt liðin hafi ekki getað prófað brautina á bílum hafa þau einskis látið ófreistað til að verða sér úti um upplýsingar um hana. Honda-liðið hefur t.a.m. legið yfir gögnum úr formúlu-3-bíl sem tók þátt í vígslumóti brautarinnar í júlí og bar þau saman við gögn úr bílnum í Barcelona-brautinni. Út frá því hefur liðið freistað þess að átta sig á grunnforsendum uppsetningar keppnisbíla sinna fyrir mót helgarinnar.
Sömuleiðis er reiknað út í bílhermum hvernig gírkassi skuli settur upp, hvernig gírhlutföllum skuli háttað fyrir brautina og vængpressu. Gerð líkana af þessu tagi jafnast í engu á við að aka brautina og því verða æfingarnar í dag, föstudag, og fyrramálið mikilvægari en í nokkru móti til þessa í ár.
Martin Whitmarsh, framkvæmdastjóri McLaren, segir að gagnaskortur fyrir Valencia-brautina geri hlutverk ökumanna mun mikilvægara að þessu sinni. Það flæki málin, að brautin muni breytast jafnt og þétt eftir sem á æfingarnar líði er ryk og gróður sópist úr henni við akstur. Oft sé giskað á við uppsetningar hvernig brautir breytist við akstur en þá sé um að ræða brautir sem löng reynsla sé af. Því sé ekki fyrir að fara nú og þörfin meiri fyrir að láta ekki freistast fyrirfram út í ágiskanir, heldur vinna bílinn jafnt og þétt að eiginleikum brautarinnar.
Meðal þess sem liðin reyna þó að taka með í reikninginn er keppnin fer fram, er að öryggisbíll gæti haft talsverð áhrif á framgang mótsins. Við brautarkant er ekki að finna öryggissvæði eins og í öðrum brautum, möl, sand eða malbik. Heldur umlykja hana mannhæðarháir steinsteyptir öryggisveggir. Á þeim gætu ökumenn hafnað við minnstu mistök en það hefði að líkindum í för með sér að öryggisbíll yrði kallaður út. Sem gæti breytt gangi mála mjög og boðið upp á mikil tilþrif og óvænt úrslit eins og sést hefur í mótum í ár.
Stóra spurningin fyrir helgina er hvort toppmennirnir allir nái strax góðum tökum á brautinni og geti sýnt sínar bestu hliðar í Valencia. Íþróttirnar geta verið harðneskjulegar, eins og Felipe Massa hjá Ferrari fékk að reyna í síðasta móti, þegar öruggur sigur blasti við. Aðeins þremur hringjum af 70 frá marki gaf mótorinn í bílnum sig, aflgjafinn sem fleytt hafði honum til forystu og yfirburða strax á fyrsta hring. Toppmennirnir hafa margir sætt ýmiss konar mótlæti í mótum ársins. Haldi einhverjir draugar áfram að gera ökumönnum grikk er spurningin að hverjum verður röðin komin í Valencia.
Athugasemdir
Nú er heldur betur fjör í titilbaráttunni. Kannski það verði taugarnar hjá ökumönnum og úthaldið, sem verða í aðalhlutverki þessa keppnina ef tekið er tillit til öryggisveggjanna.
Jóhann Elíasson, 23.8.2008 kl. 20:41
Skemmtileg grein hjá þér Ágúst um Valencia. Þetta er afar glæsilegt mótsvæði. Eiginlega hálfgerð nýmóðins og alvöru útgáfa af Mónacó!
Ég bíð annars nokkuð spenntur eftir því að sjá Singapúrkappaksturinn á ómóta en gjörólíku nýju keppnissvæði.
gudni.is, 25.8.2008 kl. 14:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.